05.03.2009 22:41

Siglir fluttur.





Jæja þá er að upplýsa ykkur um hvað hefur verið haft fyrir stafni í Hlíðinni undanfarið.
Í gær var sannkallaður fundadagur hjá mér ég fór á fund í búfjáreftirlitsnefnd og einnig mánaðarlegan fund í umhverfis og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar. Bara fínir fundir.
Á meðan ég var á fundum gerðist heilmikið heima, drengirnir riðu út og tóku svo létta sveiflu í klippingum á eftir, snöruðu af heilum 85 kindum. Það gerðu þeir svo aftur fyrir hádegi í dag. Duglegir drengirnir
.
Í dag kvöddum við höfðingja og góðan vin hann Siglir okkar, hann brunaði suður til höfuðborgarinnar þar sem hann hefur fengið nýjan eiganda og nýtt heimili.
Til hamingju með það Siglir og nýji eigandi.
Í plássið hans Siglirs kom dama úr dölunum sem er að hefja sitt nám til reiðhests.
En fyrirmyndarhestur dagsins var að sjálfsögðu hann Siglir sem hefur veitt okkur margar ánægjustundir á undanförnum árum.

Eins og þið sjáið þá er ég farin að hugsa um hvaða stóðhesta væri skynsamlegt að nota næsta vor. Ég er nú svo sem ekki komin að neinni niðurstöðu en margt er spennandi í stöðunni.
Ég trúi nú ekki öðru en að þessir himinháu folatollar lækki nú eitthvað í sumar, eins gott að hafa aðgang að Hrossvest sem hefur á undanförnum árum boðið uppá fína hesta á góðu verði. Annars verður það alltaf svo að einstakir hestar anna ekki eftirspurn og þá má búast við háum folatollum hjá þeim. En að eigendur kjósi frekar að hafa hesta sína ónotaða ár eftir ár heldur en að lækka verðið skil ég ekki. En auðvitað langar manni að halda undir suma hesta sem eru rándýrir og með því að gera það samþykkir maður verðið.
Í vor eigum við von á folöldum m a undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu, Adam frá Ásmundarstöðum, Arði frá Brautarholti, Auði frá Lundum, Feikir frá Háholti, Gosa frá Lambastöðum og svo honum Sparisjóði mínum. Er búin að krossa putta og biðja um hryssur allavega undan sparihryssunum. Sem mynnir mig á það að ég á alltaf eftir að setja inn upplýsingar um fleiri ræktunarhryssur hjá okkur undir hnappnum ,,hrossarækt,, og ýmislegt fleira sem ég hef lengi ætlað að bæta við síðuna. Koma tímar koma ráð.

Á morgun er stefnan tekin á Hóla ef að veður leyfir. Meira um það síðar.