16.06.2009 23:31

Sitt lítið af hverju og túnrollur með.



Á myndinni eru þeir félagarnir Mummi og Fannar sem gerðu sér lítið fyrir og sigruðu gæðingaskeiðið á íþróttamótinu á Kaldármelum um síðustu helgi. Sigurinn var sætur þar sem að þetta er í fyrsta sinn sem að þeir taka þátt í gæðingaskeiðskeppni. Þeir höfnuðu svo í 4 sæti í fimmgangi og Mummi og Dregill urðu í 5 sæti í töltúrslitunum. Sprækir strákarnir.
Þið getið séð nokkrar myndir frá mótinu hér á síðunni.

Af folaldshryssunum er það helst að frétta að Sunna eignaðist gullfallega rauða hryssu undan Feyki Andvarasyni frá Háholti. Hryssan hefur hlotið nafnið Rjóð eins og móður amma hennar. Skeifa kastaði myndar hryssu sem líka er undan Feyki. Eitthvað stendur nafngyftin í eigandanum og verð ég að bíða enn um sinn með að upplýsa það.
Ég hef nefnt hryssuna mína undan Kolskör og Adam hún hefur hlotið nafnið Gangskör.
En það skiptast á skin og skúrir í hestamennskunni eins og allir vita, heiðurshryssan hún Gletta gamla kastaði rauðstjörnóttri hryssu sem að því miður kafnaði í belgnum. Afar leiðinlegt en svona er það stundum, sumir hlutir eiga bara að gerast hvað sem tautar og raular.
Nú eru 5 hryssur ókastaðar þær Skúta, Létt, Dimma, Upplyfting og Tign.

Það eru komnar nýjar myndir af folöldunum undir ,,myndaalbúmflipanum,,

Á sunnudaginn fór hún Rák Stælsdóttir undir höfðingjann Pilt frá Sperðli, við höfum lengi átt hlut í honum og oftast notað plássið okkar og afraksturinn reynst afar vel.
Rák slasaðist í vetur og er ekki enn orðin góð svo að nú lætur hún sér batna í fæðingarorlofi.

Síðasta fimmtudag kom Rúnar dýralæknir og gelti hér 14 fola frá nokkrum eigendum. Það gekk alveg ljómandi vel og nú höfum við sleppt öllum tryppum okkar í fjallið.

Það má nú eiginlega segja að sauðburðurinn sé alveg búinn en samt eru tvær rollur eftir inni sem að eru óbornar. Ég er svo hjátrúarfull að ég vill ekki sleppa þeim óbornum út úr þessu held alla daga að þær séu nú alveg að fara að bera. Það hlýtur að fara að koma að því samt grunar mig að þær séu að plata mig eitthvað því þær rollur sem var sleppt út í vor sökum þess að það væri svo langt þar til þær bæru eru örugglega bornar.

Túnrollur já það eru skemmtilegar skeppnur eða hitt þá heldur. Við Deila höfum staðið í ströngu við smalamennskur undanfarna daga höfum reyndar svolítið gott af trimminu en erum samt að verða leiðar á þessu streði. Lalli og Astrid girða og Skúli og Mummi byggðu varnargarð við vatnið. En túnrollurnar bara skelli hlæja og líta á það sem skemmtilega ,,fittneskeppni,, að komast í túnið.
Og bræðurnir Ófeigur og Þorri láta sig dreyma vilta drauma um það hvernig þeir verji túnið í framtíðinni.
Nú er búið að bera á allt bæði tún og hestagirðingar, sá grasi í Melatúnið og bara eftir að sá fóðurkálinu á Steinholtið. Það verður að vera tilbúið á réttum tíma fyrir lömbin í haust.