22.01.2010 22:29

Bónda hvað????



Ég þurfti að skreppa aðeins af bæ í dag og á leiðinni heim var dimm snjókoma svo ég smelli bara inn góðri sumarmynd svona í tilefni dagsins.
Já það var skrítið veðrið rigning, sól, logn, vindur, snjór og meira að segja hundslappadrífa á köflum.
Myrkur og snjókoma er ekki góð blanda fyrir náttblinda svo að ég bara dólaði í rólegheitunum og rabbaði við skemmtilegan viðmælanda í leiðinni.
Össsss........... var með handfrjálsan svo ég gat alveg keyrt og fékk ekki sekt.

Það er gaman að vera bóndi á bóndadaginn............já ekki bara fyrir ykkur strákar, líka fyrir mig og hina kvennbændurna. Ég fór samt ekki berleggjuð út að hlaupa kringum húsið í annari buxnaskálminni eins og lög gera víst ráð fyrir á þessum degi.
Á meðan vangavellturnar um hvort að það væri ekki fastur liður þennan dag og sjálfsagt að allir bændur gerðu það missti ég eiginlega alveg heyrnina. Hún kom ekki aftur fyrr en ég var orðin viss um að einungis ætti eftir að ræða gæði og fríðindi þessa dags. Þá var ég orðin með á nótunum.
Mér hefur oft fundist að jafnrétti kynjanna snérist um eitthvað sem væri svo sem enginn gróði af fyrir hvorugt kynið svona í heildina. Meira eitthvað svona innan tómt fagurgal en ekki tekið á því sem máli skiptir eins og launamun og þess háttar.
Almennt er jafnrétti þannig að kallarnir eiga að gera það sem konurnar geta ekki og konurnar það sem kallarnir nenna ekki.
Já eða öfugt.............mér finnst það t.d jafnrétti að einhver skipti um dekk fyrir mig og ég bara baki köku í staðinn.
Ég er orðin það ,,þroskuð,, að ég tilheyri ekki eldhúsfælnu dömunum sem fölna og forða sér ef að eldhús ber á góma.
Er ekki mikið skynsamlegra að leggja áherslu á það sem maður er góður í ?
Er ekki öll sérhæfing inn í dag eða var það bara 2007 ?

Ég er mjög ánægð með að eiga góðan konudag og fá svo bóndadaginn í bónus, annars eru allir dagar hjá mér bændadagar.
Er það annars ekki dæmigert jafnrétti hjá mér sem konu að eigna mér báða þessa góðu daga ?