23.03.2010 08:17

Og meira um ferðina



Þarna erum við ferðafélagarnir í ævintýralandi.......... en nánar um það síðar í máli og myndum.



Frá Úlfsstöðum var ferðinni heitið til Stefáns bónda á Útnyrðingsstöðum, þangað höfðu safnast nokkrir hestamenn úr nágreninu sem nýttu sér tækifærið og sýndu Gulla nokkra gripi sem væntanlega mæta til dóms í vor.
Gustsaðdáandi eins ég var ánægð að sjá alla þessa Gustara sem leiddir voru fram á þessum bæ. Góð heimsókn og greinilega mikill hugur í mannskapnum á þessum slóðum.

Næsti viðkomustaður var Hryggstekkur þar ræður ríkjum Guðröður Ágústsson. Það var gaman og einstaklega líflegt að koma í hesthúsið, þar í einu horninu var galandi hani sem reyndi að heilla púddurnar sínar og smalahundarnir voru allt um kring tilbúnir í vinnu hvenær sem færi gafst. Kötturinn röllti svo um til að passa að allt færi vel fram.
Hljómar kannske tvírætt að tala um hesthús með ,,púttnahúsi,, en svona er það nú samt.
Guðröður sýndi okkur nokkur bráðefnileg hross í reið m.a gráa hryssu sem ég hefði gjarnan viljað taka með mér heim. Eins gott að fara vel með svona flottan grip svo að tölurnar í vor verði jafn ánægjulegar og hún lofaði núna.



Næsti viðkomustaður var Höskuldsstaðir í Breiðdal þar tóku á móti okkur heiðurshjónin Pétur og Marietta. Þar áttum við skemmtilegt spjall og þáðum góðar veitingar, húsfreyjan brá sér svo á bak bráðefnilegum syni Hróðurs frá Refsstöðum. Takk fyrir okkur.



Frá Höskuldsstöðum var svo ferðinni heitið áleiðis í Hornafjörð, skyggnið var ekki nógu gott en samt sáum við nokkra hópa af hreindýrum.
Það var gaman fyrir svona heimaling eins og mig að koma á þessar slóðir enda aldrei farið þessa leið. Ég segi stundum í gamni en þó alvöru að ég hafi ekki skoðað Ísland nema þar sem haldin hafi verið hestamannamót.

Næst komum við í Dynjanda til þeirra  Hanniar og Tobba þar var allt fullt af hrossum og margt spennandi að sjá. Það verður spennandi að sjá útkomuna hjá þeim í framtíðinni, hún gallharður aðdáandi Hornafjarðarhrossa en hann skyldleikaræktar Hindisvíkurhross.

Svo var það ævintýraland........................sem ég skrifa um í næsta bloggi.