29.04.2010 22:33

Dagurinn í dag.



Þarna er hann Glundroði minn og eldgýgurinn Rauðakúla í baksýn.
Það er  eins gott að hún fari ekki að gjósa á næstunni nóg er nú komið af eldgosum.

Enn einn dagurinn með strekkingi hér í Hlíðinni ég fer nú alveg að fá leið á því en veðurfræðingurinn í sjónvarpinu lofaði hægviðri á morgun og ég treysti á það.
Við erum að verða frekar sandblásin og veðurbarin eftir síðustu daga en kannske fær maður bara sigg á trýnið og verður svo bara sætur og fínn eftir hálfa dós af júgusmyrsli.
Fyrirmyndarhestur dagsins var Von vinkona mín sem tekur sko á því í megruninni og nær vonandi sambærilegum árangri og ætlast er til.

Tíminn þýtur áfram og það er alltaf stutt í eitthvað, núna styttist óðfluga í sauðburðinn. Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér eins og sá síðasti hefi verið fyrir svo sem þremur mánuðum. En ekki aldeilis þá var sko þorrablót og fyrir sex mánuðum voru réttir.
Þetta er ekki eðlilegt....................en mér létti stórlega um daginn þegar ég komst að því að þetta er ekki bara svona hjá mér heldur flestum sem að ég þekki. Og ég þekki fólk á öllum aldri svo að þetta er ekki aldurinn hjá mér. Bara svona til að undirstrika það við ykkur og ekki síður kellu sjálfa.

Ég hef líka komist að því síðustu daga að það er atvinnuleysi á Íslandi. Ekki eins og það séu nýjar fréttir eða góðar nei öðru nær. Fyrir stuttu síðan var mikið basl að fá fólk til að vinna almenn landbúnaðarstörf hvað þá að koma og vinna í sauðburði. Það þótti ekki par fínt og auglýsingar báru sjaldnast árangur. Nú er öldin önnur eins og eitt sinn var sagt og örugglega hægt að manna öll fjárhús án teljandi vandræða. Vandinn er bara sá að þeir sem að helst sækjast eftir því að komast í sveit hafa litla sem enga reynslu og eru oftar en ekki full ungir að árum. Það er þó afar ánægjulegt að fólk vilji koma í sveitina og taka þátt í fjörinu með okkur.
Ég krossa bara puttana og vona að okkar góða sauðburðar og aðstoðakokkalið sjái sér fært að mæta. Kella var svo ánægð með liðsaukann í fyrra.