23.10.2011 21:06

Þá er veturinn kominn



Haustfagnaður sauðfjárbænda í Dölum fór fram um helgina og að sjálfsögðu drifum við okkur þangað.
Þetta skemmtilega lopapeysumunstur varð á vegi mínum eins og svo ótal mörg önnur sem voru frumleg og falleg. Já það var nokkurskonar lopapeysumót þarna hjá dalamönnum.
Á föstudagskvöldið var 500 manna sviðaveisla haldin á Laugum í Sælingsdal, boðið var uppá ný, reykt og söltuð svið og að auki sviðalappir. Hagyrðingar fóru á kostum undir stjórn Bjarna Harðarsonar fyrrverandi framsóknarmanns. Hvort það var rokan úr framsókn eða eitthvað annað þá fannst mér hann tilþrifalítill og ekki sama fasið á honum og þegar hann var að berjast við Mórakallinn. En það var gaman að þessu og það skiptir mestu.
Það var svo Geirmundur sem að endaði kvöldið með Skagfirskrisveiflu og fjöri fram á nótt.
Ótrúlegt að sjá fólk sem að ekki borðar svið og ekki tilbiður Geirmund mæta með bros á vör til þess eins að skemmta sér með okkur hinum sem borðum og tilbiðjum.
Svona eru sauðfjárbændur skemmtilegir sérstaklega í dölum.

Á laugardaginn var það svo rúningskeppnin góða þar sem að atvinnurúningsmenn og áhugarúningsmenn etja kappi hvern við annan af miklum móð.



Áhorfendur komu víða að og hvöttu sína menn, þarna eru bændur í Bjarnarhöfn og fleiri góðir gestir.

Það var vaskur hópur sem að tók þátt í keppninni og hart barist í báðum umferðum.
En þrátt fyrir að ég væri búin að raða upp í huganum hvernig úrslitin ættu að vera með tilliti til þess að eiga son, fósturtengdason, nágranna og hreppstjóra í hópi keppenda þá bar eldfljótur austlendingur sigur úr bítum. Til hamingju með sigurinn Hafliði bóndi.
Ég held samt áfram að halda með srákunum og hreppstjóranum og efast ekki augnablik um að þeir raði sér í efstu sætin næst.



Keppnin fór fram undir styrkri stjórn Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns sem að sjálfsögðu klæddist sauðfjárhúfu í tilefni dagsins.

Á laugardagskvöldið var svo haldin fjölmenn grillveisla í Dalabúð þar sem að verðlaun fyrir bestu hrútana og ærnar voru afhent. Þar kom líka fram skemmtilegur kór, Drengjakór Hafnarfjarðar en hann er skipaður einum hafnfirðingi, einni konu og stútungsköllum vítt og breytt af landinu.
Allt endaði þetta svo með hörku balli í Dalabúð þar sem að m.a sveitungarnir fjölmenntu í rútu alveg eins og í gamla daga.
Haustfagnaðurinn þetta árið var hreint frábær, takk fyrir það sauðfjárbændur í dölum.

Fleiri myndir koma svo inná síðuna næstu daga þegar að netsambandið leyfir.

Sunnudagurinn var ekki viðburðalaus því þá var haldin folaldasýning í Grundarfirði.
Þangað var brunað en folöldin voru eftir heima, bæði var að mannskapurinn hefur stundað samkvæmislífið af miklum móð og eins stefnum við bara á að koma með þau í Söðulsholt þegar sýningin verður þar seinna í vetur.
Mörg áhugaverð folöld komu fram en myndir og hugleiðingarnar um það allt saman koma við fyrsta tækifæri.

Vel gengur hjá Mumma að bóka á námskeiðið og fer plássum fækkandi (sjá auglýsingu hér fyrir neðan). Um að gera að drífa sig gaman að hittast spá og spekulegra.