30.12.2011 22:15

Árið 2011



Þessi er tekin heima á hlaði áður en alvöru snjórinn kom.

Núna þegar áramótin eru skammt undan er rétt að rifja smávegis upp frá því herrans ári 2011.
Árið hefur verið bæði gott og slæmt en engin ástæða er til að rifja upp það sem slæmt var.
Heldur blása í lúðra fagna og hlakka til af öllum lífs og sálar kröftum, þannig erum við bændur og verðum jafnvel þó á móti blási og það af krafti.

Janúar var mánuður nýrra hesta og skemmtilegra folaldasýninga en veðrið var samt svo slæmt hér í Hlíðinni þegar okkar sýning var haldin að folöldin ,,sátu,, heima þetta árið.
Þennan mánuðinn þakkaði maður fyrir inniaðstöðuna.

Ferbrúar var mánuðurinn sem að allur aflögu tími hjá húsfreyjunni fór í að undirbúa afmælissýningu Félags tamningamanna sem haldin var í Reykjavík þann 19 febrúar.
Þorrablótið var haldið að venju í Lindartungu og var alveg eins skemmtilegt og venjulega, þið skulið bara skoða myndirnar í albúminu hér á síðunni ef að þið trúið mér ekki.
Og vitið þið munuð sannfærast.
Mikið var að gera í tamningum og við fegnum nýjan flottan fjárhúskött sem átti að verða eilífur hér eins og þær skeppnur sem að mér huggnast vel. En svo varð ekki og höfðinginn Keli veiktist og dó daginn eftir kvennareiðina góðu í ágúst. Andlát Kela tengdist samt á engan hátt þessari frækilegu kvennareið, bara svo enginn vafi leiki á því síðar meir.

Mars var bara þessi venjulegi mars með góðu og vondu veðri, tamningum og dómstörfum.
Mars er þessi mánuður sem að er stórlega vanmetinn og flestum finnst að ekkert gerist í en það er nú öðru nær þegar vel er að gáð.

Apríl er mánuðurinn minn þá nýtur maður blíðunnar sem að oftast er, ríður út, dæmir hross og fylgjist með Skeifukeppni á Hvanneyri. Já svona er maður vanafastur. Í apríl er líka tíminn til að hugsa um hvernig folöldin og lömbin sem að fæðast í maí verða.
Svo skellti kerla sér líka til Noregs í apríl og kom heim í maí........náttúrulega að dæma hesta, hvað annað kemur kellunni út fyrir landsteinana en hross???

Maí er mánuður hrossaræktandans og sauðfjárbóndans........maí er líka mánuðurinn minn því þá er svo margt að gerast. Lömbin, folöldin, fulgarnir og allt.......já vorið er tíminn.
Í maí kom líka innslag í Landanum á Ruv um Hótel Víking sem að sigldi hér á vatninu fyrir nokkrum áratugum..........já það rifjast margt upp þegar ég fer yfir bloggið mitt um áramót.

Júní var mánuðurinn sem landsmótsúrtökurnar og íþróttamótin voru því var mikið að gera í dómstörfum. Það er alltaf jafn gaman að dæma góða gæðinga og flotta knapa ég fæ bara aldrei leið á því.
Ferðahópar bæði ríðandi og gangandi að ógleymdum veiðimönnunum okkar fóru hér um.
En júní var líka svolítið leiðinlegur eða öllu heldur veðurfarið en ég lofaði að nefna bara jákvætt svo að þetta er nóg um það. Kannske segir það allt að síðustu kindurnar fóru út daginn sem að við fórum á landsmótið á Vindheimamelum.
Landsmótið var skemmtilegt og hestakosturinn hreint og beint ævintýri.
Júní er mánuðurinn sem að ákveðið er endanlega undir hvaða stóðhesta hryssurnar fara.

Júlí var ferðamanna og heyannamánuðurinn með fjörureiðum og skemmtilegheitum. Þá var líka stofnfundur Skjónufélagsins svo að eitthvað verulega skemmtilegt sé nefnt.
Hópur af hestum hafið eigandaskipti sumir fóru til annara landa aðrir fóru styttra.

Ágúst jáhá þarna kemur einn enn uppáhaldsmánuðurinn frábær hestaferð sem að seint verður hægt að toppa, kvennareið og ýmislegt fleira.
Hestaferðin er í máli og myndum hér á blogginu ég lifi mig alveg inní ferðina við að skoða og er strax farin að skipuleggja næstu ferð.

September er réttarmánuðurinn mikli með öllum sínum venjum og hefðum. Smala, raga í fé, vigta lömb já og svo fengum við líka heimsókn og aðstoð alla leiðin frá Danmörku.
 Svo fengum við líka svo skemmtilega heimsókn frá Hvanneyri í september.
Í september fór ég líka í afar snögga en skemmtilega hringferð með nefndarmönnum sem að sátu með mér í nefnd um landsmót hestamanna. Frábær ferð og tekin alveg á mettíma.

Október er smala, smala, smala, smala hey............með tilheyrandi fjöri, sviðamessum og hrútasýningum. Reyndar bættist við að Mummi var með frumtamninganámskeið í lok október svo að hross komu líka við sögu þennan mánuðinn í fleiri hlutverkum en smalahross.

Nóvember er mánuðurinn sem að allir halda fundi og þá sérstaklega hestamenn sem að tryllast í fundahöldum í nóvember. Ráðstefnur, aðalfundir og verðlaunauppskeruhátíðir.
Sauðfjárbændur klippa kindur og lesa hrútadóma af miklum móð enda kemur hrútaskráin út í nóvember.

Desember er ekki minn mánuður og þó jú jú hann er líka fínn en ég vil helst geta eytt löngum tíma í vísindarannsóknir í fjárhúsunum. Það er nefninlega þannig að ég er svo sérvitur og smámunasöm í kindastússinu að það er merkilegt að nokkur nenni að vera með mér í því.
En allt hafðist þetta og þann 15 des var allt klárt fyrir sæðingar og þann 18 var öllum hrútum sleppt í óheft svall.
Þegar þetta allt var frá var næsta mál að huga að jólahaldi eins og venjulegt fólk. Baka, þrífa, versla og rugglast eins og allir hinir. Njóta þess svo að borða skötu og hafa gaman á jólunum.

Já það hefur svo sem ekkert sértstakt gerst á þessu ári og þó ????
Það er ótrúlega gaman að renna yfir gamla bloggið og myndirnar í albúminu til að rifja upp.
Margt kemur í ljós og ég held meira að segja að það sé stundum líf og fjör hér í Hlíðinni góðu.

Ég renndi yfir bloggið og myndirnar til að rifja upp og vitið þið hvað það var bara gaman.