21.03.2012 21:30

Mæðraskoðun



Þá er það örstutt sauðfjárblogg með ,,feitum,, fréttum frá sónarskoðun.

Númer eitt... kella er bara nokkuð kát en þó hefðu vetur gömlu kindurnar mátt standa sig betur.  Gemlingarnir stóðu sig afar vel og verða í spes dekri fram á vor svo og allar þrílemburnar. Mun færri voru geldar en í fyrra og munar þar mest um gemlingana.
Þennan morguninn fóru tuttugu og tveir hausar í hinstu ferð með honum Óla á Völlum norður í land. Geldar kindur, sauðir og lömb sem hafa komið eftir venjulegan förgunartíma.
Já vel á minnst sauðir....aðalforustusauður búsins til margra ár hann Páll postuli mun nú stjórna fjárrekstrum í grænu högunum hinu meginn.
Við ,,starfi,, hans er tekinn móflekkóttur eðal forustusauður sem hlotið hefur nafnið Jóhann.
Honum til aðstoðar er Litla-Pálína sem er aðal forustukindin enda stórættuð og getur rakið sínar ættir lengst norður í land.
Ég hef ekki haft tíma til að fara endanlega í vísindarannsóknir varðandi tölulega frjósemi eða einstaka hrúta. En læt hér fylgja með fréttir af þeim gripum sem eiga flesta ,,kunningja,, eftir samvinnu í réttum eða sauðburði.

Garðabæjar Golsa ber væntanlega tveimur eðalgripum í vor, það gerir líka Ofur Golsa frá Bíldhóli. Fjárhúsdrottningin Svört (Sindramamma) er að sjálfsögðu með þrjú lömb eins og venjulega. Ása Aronsvinkona er með tveimur og nýkomna Lambabamba er með einu lambi.
Málglaða Grána er með tveimur og gamla Pálína líka en henni hefði nú verið fyrirgefið þó svo hún hefði bara komið með eitt.

Ef að eitthvað gáfulegt kemur út úr rannsóknarvinnu minni mun ég láta ykkur frétta af því.
En sem sagt það munu að líkindum fæðast á annað þúsund lömb ef að Guð og lukkan leyfa þetta vorið.

Nýjar hestamyndir eru svo væntanlega mjög fljóttlega.