01.09.2012 22:32

September er það nú ekki full snemmt?



,,Upp, upp, mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með,,

Þessar línur Hallgríms Péturssonar komu uppí hugann þegar ferðahópurinn fetaði sig upp Sneiðina einn blíðviðrisdaginn í sumar. Það er alltaf svo gott að hugsa málið á hestbaki og reyna að láta sér detta eitthvað skynsamlegt í hug. Mér hefur t.d oft dottið i hug að bjóða ríkisstjórninni á bak til að kanna hvort þetta eigi við rök að styðjast.
En þar sem ég bara trúi ekki á kraftaverk þá hef ég alltaf hætt við þau áform.



Nú styttist í smalamennskur og réttir þó svo að mér finnist örstutt síðan við slepptum fénu út. Já það er þorrablótið, sauðburðurinn, landsmót, heyskapur, réttir, fengitíminn og jólin........... meira hvað þessi tími líður.
Þessar kindur sem hvíldu sig á steininum Snorra í blíðunni höfðu engar áhyggjur af því hvað tímanum líður. Enda vita þær ekkert um fjárvís, fjallskil og fjörið sem réttunum fylgir.
Nú er bara að bíða eftir fjárbókinni góðu svo ég geti farið að leika sauðfjárbónda. Það var nú alltaf venjan að forvelja ásetningslömbin eftir bókinni og þeim siði hef ég haldið.
Á næstunni smelli ég inn dagsetningum með skipulagi á fjárragi okkar hér í Hlíðinni.
Get þó allavega sagt að líflegt verður 19-25 sept..............



Við erum afar ánægð með hvað vel tókst til með hestaferðina okkar um daginn og erum sífellt að rifja upp eitthvað skemmtilegt úr ferðinni. Á myndinni hér fyrir ofan er Björg að spjalla við Klamma litla son Hærings frá Kambi og Tignar frá Meðalfelli.
Freyja tamningatryppi fylgjist með og vildi endilega vera með á myndinni líka.
Hrossin fengu þriggja daga frí eftir ferðina en svo var haldið áfram við að temja og þjálfa.

Í gær kom Karún mín heim fylfull eftir Arion frá Eystra-Fróðholti og í síðustu viku sótti ég Snör sem var hjá Leikni frá Vakurstöðum og hana Gefn sem var hjá Frey frá Hvoli.
Gosi vinur minn frá Lambastöðum lauk skyldustörfum í stóðhestagirðingunni hjá okkur í vikunni og er nú farinn í hausthólfið sitt. Gosi er þar í góðum félagsskap þ.a.m er Blika okkar sem fékk að fljóta með þar sem hún var bara búin að vera í stuttan tíma hjá honum.

Heyskapurinn er enn í gangi en við eigum eftir að slá svolítið af há, þokkalega lítur orðið út með heyfeng en almennilegir bændur eru samt aldrei öruggir með að eiga nóg hey.

Og svo er það ,,like,, takkinn kæru fésbókarvinir.