09.01.2013 23:10

Fréttaskot

Síðustu dagar hafa hreinlega verið of stuttir til að hafa allt það af sem ég helst vildi m.a að segja ykkur smá fréttir héðan úr Hlíðinni.

Skúta er ennþá í stríði og ekki útséð með hvernig fer en eftir síðustu heimsókn Hjalta dýralæknis erum við svolítið vonbetri. Allt í jafnvægi en þó afar litlar framfarir svo öruggt sé, verst að geta ekki smellt myndavél inní mallann og skoðað hvernig staðan er.
 Þessi elska lifir að mestu á AB mjólk, olíu og örfáum stráum af há. Svo er lyfjakoktellinn í ábót.
Vaktir ganga hér enn dag og nótt svo að hún er aldrei lengi eftirlitslaus.
Við trúum því að góðir hlutir gerist hægt og því muni Skúta ná heilsu.

Vorveður hefur verið síðustu daga, tamningar og þjálfun í fullum gangi í blíðunni.
Sem sagt gott veður til að gera næstum allt, já vel á minnst........meira að segja heimmta kindur.
Ég ætla samt ekki að nefna það meira tek ekki ábyrgð á að valda mönnum óþægindum. Það er nefninlega þannig að árangur nú eða árangursleysi í smalamennskum getur haft skaðleg áhrif á heilsu manna. Nei ekki orð um kindur og allra síst flökkukindur.

En að mikilvægari málum.
Stórkostlegar lýðræðisumbætur voru gerðar á þorrablótsnefninni þegar síðasti fundur var haldinn. Sögur höfðu farið af því að gamla nefndin ætlaði að segja af sér og tilnefnt yrði í nýja nefnd. Ljóst er að þetta hafa verið Gróusögur því samkvæmt (ó)áræðanlegum heimildum voru einungis samþykktar viðbætur við nefndina. Tvennt gerði það aðallega að verkum að ráðist var í þessar breytingar. Annarsvegar var það til að lækka meðalaldurinn og hinsvegar að breggðast við auknum þrýstingi um jafnan hlut kynjanna.
Aðgerðirnar heppnuðust fullkomlega enda löngu ljóst að í gamala góða Kolbeinsstaðahreppnum gilda ekki endilega sömu lögmál og í hinum ,,Evruríkjunum"
Sjö kallar og ein kona í alvörunefnd endurspeglar svo sannarlega fullkomið jafnrétti, konur eru nefninlega líka menn.
Það er eins gott að nefndin frétti ekki hversu miklar væntingar eru gerðar til hennar.
Það verður örugglega rosalega gaman þann 8 febrúar eða þá er stefnt að blótinu góða.