27.01.2013 22:20

Það blæs



Vindurinn hvín svo á glugganum núna að ekki veitir af sumarlegri folaldamynd til að hressa sig við.

Annars hefur veðrið verði svo gott að undanförnu að maður hefur á köflum haldið að frekar væri apríl en janúar. Nema auðvita birtan hún segir okkur alveg satt um árstímann.
Skemmtilegir reiðtúrar með inni tamningum í bland hefur verði koktellinn að undanförnu.
Meðalaldurinn í hesthúsinu hefur örlítið hækkað og hafa nokkrar breytingar farið fram.

Folöldin hafa öll verið tekin undan og bíða þess nú að fá klippingu og aðra lágmarks þjónustu.
Það er ekki bara ég sem þarf að snyrta mig fyrir þarnæstu helgi, ó nei folöldin líka.
Já það er sem sagt komið að folaldasýningu og þorrablóti sem bæði fara fram aðra helgi.

Mummi var með reiðnámskeið í Söðulsholti um helgina, skemmtilegur hópur og góðir nemendur. Allavega var það lúinn hópur sem kom hér heim á kvöldin en að sama skapi mjög morgunhress þegar brunað var á námskeiðið að morgni.



Þessi hjú voru meðal nemenda og voru bara nokkuð kát hvort með annað eins og alltaf.
Verða orðin ,,keppnis,, saman í næstu ferð á Löngufjörur.

Það er fjör á öllum vígstöðum og í kvöld þegar húsfreyjan var að elda sunnudagslærið (með tilþrifum) mætti hreppstjórinn okkar með ,,fundiðfé,, sem hafið komið sem  ,,lausafé,, í fjallið  fyrir ofan hann. 
Núna er Slæða gamla og tvílembingarnir hennar orðið ,,sparifé,, og verður dekrað fram á vor.
Verður vonandi ekki ,,tapaðfé,, næsta haust...........
 Hreint ekki amaleg þjónusta að fá heimsendingu á fénu rétt eins og þéttbýlisbúarnir fá á pizzunum sínum. Gott að hafa góðan hreppstjóra, takk fyrir Gísli og smalafélagar.

P.s lærið brann ekki þrátt fyrir allt..............

Ég bætti við tveimur skemmtilegum síðum í tenglasafnið á síðunni, þetta eru síðurnar hjá  Isibless og Hrossvest. Isibless lifandi og fróðleg síða, Hrossvest nauðsynleg til að fylgjast með stóðhestaúrvalinu hjá okkur vestlendinum næsta sumar.