19.03.2010 23:02

Ferðasagan heldur áfram en gengur hægt.



Egilsstaðir hér komum við........sko mánudagskvöldið 15 mars..............það hefur bara ekki fundist tími til að segja ykkur fréttir. Þið megið ekki skilja það sem svo að við höfu skriðið beint á barinn þegar við komum austur nei ekki aldeilis. Mér fannst þetta borð bara alveg snild og vel til þess fallið að gegna því hlutverki að vera skilti.
Við sem sagt flugum frá Reykjavík síðdegis og smelltum okkur beint á fund þegar við komum austur. Mér hlýnaði nú bara um hjartarætur hversu vel var tekið á móti okkur fyrir austan og alltaf gaman að hitta góða kunningja. Valli og þið öll takk fyrir okkur.
Fundurinn var skemmtilegur og miklar umræður um hin ýmsustu mál.



.................og af því ég er svo hrifin af gömlu dóti þá varð ég að láta þetta fylgja með drauma plötuspilarinn.



Það var eins og ég hefði valið bílaleigubílinn alveg sjálf...............hvað annað en Patrol???
Guðlaugur þorði samt ekki annað en fara vel yfir gripinn................við voru jú að leggja í fjallaferð.



Við byrjuðum á því að líta við hjá ræktendum á Úlfsstöðum, þarna er Guðlaugur að skoða ung stóðhestsefni í blíðunni. Sá grái undan Gusti leit vel út.............já ég er Gustsaðdáandi.



Þau voru falleg folöldin á Úlfsstöðum enda sjáið þið hvað ,,bekkurinn,, var þétt setinn.
Jónas, Úlfsstaðabóndinn, Pétur, Bergur, Kristinn og Guðlaugur.

Þarna er ferðin rétt að byrja og mun ég á næstu dögum bæta við ferðasöguna, einnig er mikið um að vera hjá okkur þessa dagana.
Þannig að ég mun færa ykkur fréttir af sónarskoðun, dómstörfum, aftekningu og ýmsu fleiru.

14.03.2010 22:38

Og ferðasagan heldur áfram.

 

Usssss ...........hundlöt húsfreyja hefur ekki staðið sig vel í fréttaskrifum að undanförnu en nú skal úr því bætt. Verð samt að deila því með ykkur að síðustu sólarhringar hafa verið í styttra lagi ég held jafnvel að einhverjir tímar hafi hreinlega týnst. En nóg um það.

Við vorum komin í Húnavatnssýslurnar þegar ég bloggaði síðast........var það ekki????
Þegar við komum að Blönduósi tók Gunnar bóndi á Þingeyrum á móti okkur og fylgdi okkur um svæðið. Fyrst fórum við í hesthúsið til Tryggva Björnssonar á Blönduósi þar var greinilega nóg um að vera og fullsetið í hverju plássi. Margir kunnir gripir voru þar og einnig margir nýjir sem miklar væntingar eru bundnar við. Við komum líka við hjá þeim Ragnari og Söndru sem reka sína tamningastöð í hesthúsinu við reiðhöllina á Blönduósi.
Frá Blönduósi var svo brunað í Grafarkot til þeirra Herdísar og Indriða þar var mikið um að vera og margir spennandi gripir að sjá. Ekki má gleyma ný endurnýjuðum fjárhúsum sem við skoðuðum auðvitað líka og ekki litu þær dónalega út kindurnar á þeim bænum.
Frá Grafarkoti var farið að Þingeyrum þar var byrjað á því að skoða í hesthúsið undir góðri leiðsögn Gunnars bónda. Eins og við var að búast fengum við konunglegan kvöldverð hjá frú Helgu heimareykt sauðalæri sem að Kristinn er enn að dásama enda ekki skrítið.
Um kvöldið var svo fundur á Blönduósi sem var nokkuð vel sóttur og ljómandi góður.
Að fundi loknum var svo brunað heim eftir skemmtilegan dag.
Takk fyrir okkur Húnvetningar.

Mánudaginn 8 mars var svo haldið af stað á ný en þá var fundur í Reykjavík, ágætis fundur en eitthvað voru nú straumarnir öðruvísi en á fyrri fundunum.
Vonandi verður betra andrúmsloftið á Landsmótinu þar árið 2012.
Þriðjudagsfundurinn var svo haldinn á Hvanneyri þar var góð mæting og skemmtilegur fundur og það sama má segja um miðvikudagsfundinn sem haldinn var á Selfossi.
Nú eru bara tveir fundir eftir í þessari fundaherferð Egilsstaðir og Hornafjörður spennandi dagar fram undan. Nánar um það síðar. Verð líka að standa mig betur með myndavélina.

Annars er það helst í fréttum að við fórum á töltmót í Borgarnesi um helgina. Feðgarnir tóku þátt í mótinu Mummi á Fannari og Skúli á Gosa. Þeir voru bara nokkuð ánægðir með árangurinn og komust þeir félagar Skúli og Gosi í úrslit. Gosi er allur að ná sér af meiðslum sem hann hlaut í fyrravor og er útlitið bara nokkuð gott.

Mummi kom heim í smá helgarfrí og hefur nýtt tímann hér heima vel við að prófa hross og ríða út af kappi. Hann er svo ánægður með dvölina í Steinsholti að hann hefur lítið verið á ferðinni enda um að gera að læra sem mest og nota tímann vel.
Svo er náttúrulega tekur hann foreldrana í gegn og reynir af fremsta megni að herða upp á þeim í reiðmennskunni. Vá hvað er spennandi að vera Hólanemi.
Vorveðrið síðustu daga gerir það að verkum að hér hefur verið riðið út langt fram á kvöld og ekki var nú slæmt að ríða út í þoku og súld framm í myrkur þetta kvöldið.
Hann Lalli okkar kom líka um helgina og var tekin smá sveifla í aftekningum, bara svona til að rifja upp fyrir honum hvernig á að leggja kindur.

 

06.03.2010 22:06

Eyjafjörður............ferðasaga.



Þetta fína skilti sá ég í Skagafirði svo skrítið sem það nú er en ég gat ekki annað en myndað það svona til að eiga hugmyndina ef á þyrfti að halda. Gauka kannske hugmyndinni að mínum æviráðna hreppsstjóra........ æi nei þetta er fínnt hjá okkur hér í sveit eins og það er.
Ég hef vellt því fyrir mér hvort þetta skilti hafi eitthvað með val á landsmótsstað að gera........aldrei að vita hvað þar réði för en hver veit ?
 
En nú ætla ég að halda áfram með ferðasöguna af ferðalaginu góða norðan heiða.

Þegar við höfðum snætt ljómandi morgunverð að hætti Akureyringa brunuðum við í hesthúsahverfi þeirra Léttirsmanna á Akureyri.
Þar hittum við fyrir hressa hestamenn sem voru reyndar að leggja af stað í vikulegan rekstur.
Resktrinum var hinsvegar slegið á frest og í staðinn hellt á könnuna og okkur boðið uppá dýrindis kaffi. Skemmtilegt spjall og sögur úr ,,mislitum,, heimi hestamennskunnar.
Takk fyrir okkur Baldvin Ari og félagar.
Frá Akureyri var svo ferðinni heitið að Skriðu til þeirra Þórs og Sigríðar, þar beið okkar kaffi og skemmtilegt spjall.



Og við sluppum í fjárhúsin líka........... skemmtilegt að skoða gullfallegt fé og ekki síður nýtt hús sem hýsir bæði sauðfé og hross.



Þór sýndi okkur kind sem var sérstaklega lágfætt og lærin eins og alla kokka dreymir um.



Málin rædd Guðlaugur, Kristinn, Sigríður og Þór.




Auðvitað var þessi gullfallega Moladóttir skoðuð vel og vandlega, Guðlaugur ekki daglegur gestur í Skriðu svo það var rétt að nota kappann.



Skriðuhúsfreyjan og Kristinn fylgjast vel með, já það var mjög gaman að koma í Skriðu og ræða við ábúendur þar og ekki síður skoða nýbyggt og skemmtilegt hús.

Þá var ferðinni heitið í Húnavatnssýsluna, meira um það síðar.

06.03.2010 00:02

Skemmtileg kvöldstund með Rúnu Einars.



Hann var brosmildur formaður Skugga í kvöld enda ekki skrítið í svona góðum félagskap.

Félag tamningamanna í samstarfi við Félag hrossabænda stóð fyrir viðburði með  Rúnu Einars sem haldinn var í félagsheimili Skugga í Borgarnesi.

Rúna flutti fróðlegan og afar skemmtilegan fyrirlestur og hreyf svo sannarlega gesti með sér sem kunnu vel að meta það sem hún hafði fram að færa. Sagði hún meðal annars frá sambandi sínu og gæðingsins Freys sem hefur verið hennar aðal keppnishestur síðustu ár.  Kom fram að sambandið hafi ekki alltaf verið báðum þóknanlegt og jafnvel stirt á köflum en engu að síður skilað góðum árangri. Sagði Rúna frá hvernig hún þjálfaði og fóðraði  Frey og byggði hann upp fyrir keppni. Margt annað kom fram m.a ræddi hún tæpitungulaust um dómstörf og keppni einnig  rifjaði hún upp kynni sín af Orra frá Þúfu og Dimmu frá Gunnarsholti.



Þessir herrar vöskuðu upp með bros á vör.................og ekki af ástæðulausu.



Spekingar spjalla......................Finnur og Marteinn ræða heimsmálin og vonandi bjarga þeim líka. Spurning að setja þá í Icesavesamningana..................????



Bændur á Oddsstöðum létu sig ekki vanta Sigurður Oddur og Guðbjörg.

05.03.2010 12:25

Ferðasaga fyrsti hluti



Þarna er formaður Félags hrossabænda Kristinn Guðnason að taka út gæðingshryssu hjá henni Heklu dóttur sinni. En þær tóku sýningu fyrir okkur þegar við komum að Hólum, sýningin heppnaðist með miklum glæsibrag og alveg ljóst að þær eru bráðefnilegar báðar tvær.

Eins og þið hafið kannske tekið eftir þá hefur húsfreyjan verið að heiman og því ekki skrifað neinar fréttir um nokkurt skeið. En nú er ætlunin að bæta þar úr.

Nú stendur yfir mikil fundaherferð sem ég hef tekið þátt í fyrir hönd Félags tamningamanna.
Við lögðum uppí ferð síðasta þriðjudag. Ég frá FT, Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur Bændasamtakanna og Kristinn Guðnason formaður Félags hrossabænda. Ferðinni var heitið norður í land til að vera frummælendur á þremur fundum sem haldnir voru á Sauðárkróki, Akureyri og  Blönduósi.
Í næstu viku heldur svo ferðin áfram og þá verða fundir í Reykjavík, Hvanneyri og Selfossi.

Fyrsti fundurinn var haldinn á Sauðárkróki og var nokkuð fjölmennur. Þar sem að þetta var fyrsti fundur var mannskapurinn aðeins að slípa til lengd og efni á framsögunum.
Góðar umræður urðu og almennt gott hljóð í hestamönnum í Skagafirði.
Að fundi loknum var brunað í Miðsitju þar sem við gistum fyrstu nóttina, húsráðendur þar eru Eyþór Einarsson og Þórdís Sigurðardóttir. Við fengum höfðinglegar móttökur og ekki skemmdi fyrir að húsfreyjan á gullfalega og skemmtilega læðu sem ekki væri slæmt að eignast ,,kattakynbótagrip,, undan við tækifæri.



Þarna sjáið þið glæsigripinn sem mér leist svo vel á og ekki skemmdi fyrir að hugsanlega er hún frænka Salómons svarta.

Á miðvikudagsmorgun hófst svo mikil yfirreið um Skagafjörðinn þar sem við komum við á nokkrum stöðum.
Frá Miðsitju fórum við að Flugumýri til þeirra Páls Bjarka og Önnu, Páll sýndi okkur bráð efnilegan fola undan heimsmeistaranum Krafti frá Bringu. Það er ljóst að mikill hugur er í þeim hjónum hvort sem er varðandi ferðaþjónustuna eða landsmót á komandi sumri.
Frá Flugumýri fórum við að Hólum, þar byrjuðum við á að fylgjast með samverustund reiðkennaranna sem fer oftast fram á miðvikudagsmorgnum. Þá hittast þeir allir með hesta og bera saman bækur sínar. Að því loknu fórum við í hesthúsið og skoðuðum gripi og hittum nemendur. Kristinn notaði tækifærið og skoðaði hrossin sem að dóttirin er með í þjálfun og mutum við hin góðs af því.



Sum hrossin voru dæmd meira en önnur......Guðlaugur, Hekla, Sveinn Ragnarsson og Kristinn.
Mér finnst alltaf jafn gaman að koma að Hólum en reyndar vantaði Mumma, svona miðað við undan farnar heimsóknir.

Frá Hólum var ferðinni heitið að Sleitustöðum þar beið okkar dekkað borð með frábærum veitingum. Þar áttum við skemmtilegt spjall við húsráðendur og þar öðlaðist ég fullkominn skilning á því afhverju þetta er staður sem skapast hefur hefð að heimsækja í þessum árlegu fundarferðum.
Næst var brunað að Þúfum þar sem að Gísli bóndi sýndi okkur margan glæsigripinn og mikið var spjallað og spáð í hrossarækt.Alltaf gaman að koma þangað.



Rikka , Bjarni og Kristinn ræða málin.

Þarna erum við komin að Narfastöðum, þar ræður ríkjum Bjarni Jónasson sem tók vel á móti okkur og sýndi okkur marga álitlega gripi meðal annars gæðinginn Kommu frá Garði.
Komma og Bjarni voru að undirbúa sig fyrir keppni í KS mótaröðinni um kvöldið.
Frá Narfastöðum fórum við í Skörðugil til þeirra Elvars og Fjólu þau voru að sjálfsögðu í hesthúsinu og sýndu okkur tvo efnilega fola.
Við Kristinn eru forfallnir sauðfjáráhugamenn og fengum við að sjá gullfallegt fé hjá þeim Skörðugilsbændum. Í þessari ferð hefur það sannast að flestir hrossaræktendur og tamningamenn hafa líka brennandi áhuga á sauðfé.
Nánar um það síðar.

Frá Skörðugili var brunað norður til Akureyrar þar sem fundur var haldinn í Hlíðrbæ.

Framhald af ferðasögu birtist við fyrsta tækifæri.

Munið svo fyrirlestur Rúnu Einars í Félagsheimili Skugga í kvöld kl. 19.00

27.02.2010 23:14

Ja hérna.



Þessi dama fór í smá veikindafrí og notar það vel er fylfull við Aldri frá Brautarholti.

Annars er allt gott að frétta úr hesthúsinu verð meira að segja að vera þakklát fyrir risjótt veður nokkra dag því þá komst skikk á járningamálin.
Svo eru bara nokkuð mörg skemmtileg verkefni sem liggja fyrir í hesthúsinu.


Mér finnst íslendingar skemmtilegir...........................
Einu sinni voru allri bara venjulegir stunduðu vinnu, fóru í frí, áttu áhugamál, voru stundum blankir og stundum ríkir. Sem sagt uppfylltu öll skilyrðin sem var svo vel komið fyrir í einni setningu. Vinna, sofa og éta.......stundu var svo einhverju fleira smellt með í setninguna á tillidögum.
Svo kom tímabilið sem aldrei ,,gat,, breyst og átti að vara til eilífðar...............allir ríkir og allir höfðu vit á öllu og ef ekki þeir þá vissi ,,besti,, vinurinn það. Ef að maður leyfði sér að efast um eitthvað þá var það bara vanþekking af því að búa í fjöllunum.

Allir áttu að kaupa hlutabréf í banka það gat ekki klikkað................en það klikkaði.
Allir áttu að keyra á heilsársdekkjum annað var rugl..............jafnvel þó þau væru ekki að gera sig og virkuðu ekki í hálku.
Allir áttu að vernda náttúruna................en trilltu á trukkum alla daga, sóuðu og  flugu svo heimshornana á milli en friðuðu  samviskuna með moltutunnu í garðinum.
Allir áttu að borða hollt og það var að sjálfsögðu best ef að það var langt að komið og allir áttu að fara í megrun jafnt vænir sem rírir.
En hvar stöndum við í dag ????
Okkur langar ekki að eiga banka.
Við erum skítblönk.
Við verðum að keyra á nöglum því við höfum ekki efni á tjóni.
Við svínum á náttúrunni...............og þó ?
Trukkurinn minnkar og breytist í Yaris, við fljúgum í huganum og seljum helv.... moltutunnuna.
Við etum það sem að kj.... kemur, látum bara engan sjá þegar við borðum óhollt og segjum ekki frá því.
Þorum ekki í megrun og friðum samviskuna með því að segja ,,lífið er yndislegt,,

Eigið góðar stundir elskurnar.

24.02.2010 22:33

Í þá gömlu góðu daga.



Rollukellingin Sigrún að gefa Golsu sinni að drekka, takið eftir fína stígvélinu sem var ,,krummafótur,, af stæðstu gerð svona fimm númerum of stórt.
Myndin er tekin fyrir örfáum árum.......... en þó á seinni hluta síðustu aldar.

Þrátt fyrir þó nokkur afrek í hesthúsinu í dag var ég rollubóndi í huganum stóran hluta dagsins. Það kom fyrst og fremst til af því að ég fékk lambanúmerin í pósti frá henni Ástu í dag og er þar með létt af mér eins og einu stresskasti fyrir sauðburðinn. Alltaf gott að hafa hlutina klára svona fyrir alvöru stríð. Eins hef ég verið að fara yfir niðurstöður úr sauðfjárbókum og eins og í öðru ræktunarstarfi verður að huga að grisjun. Helst er ég að horfa í hrútahópinn með stóru gleraugunum en hef ekki komist að ásættanlegri niðurstöðu ennþá.



Já rollubækurnar voru snemma spennandi fræði ekki síður en hrossafræðin. Ég er samt ekki viss um að hafa verið til mikils gagns við rollufræðin á þessum árum.
Ragnar frændi minn sýndi samt ótrúlega þolinmæði eins og honum einum er lagið.



Kattatamningar...... já þær eru sko ekkert grín hvort heldur maður er fimm ára eða eitthvað svolítið meira. Mímí nokkuð sátt þó svo að temjarinn hafi fengi sér blund.

Alltaf svo gaman að rifja upp gamla og góða daga þegar ekkert óyfirstíganlegt angraði mann.


23.02.2010 21:05

Kuldaboli bítur mig.



Þarna eru þeir félagar Mummi og Dregill frá Magnússkógum á góðum degi en Dregill er nú kominn á járn. Hann hefur verið í góðu fríi og nú hefjast bara megrunnar og mýkingaæfingar.
Hann er einn af þessum skemmtilegu Gustsbörnum sem ég var að tala um í gær.



Þarna eru svo Mummi og Dregill, Skúli og Freyja frá Lambastöðum að ríða út í blíðunni.

Þetta var heldur kaldur dagur svo það var bara tekið á því í járningunum ekki veitir víst af.
Það er eins með járningarnar og vikudagana mér finnst alltaf vera mánudagur og mörg hross komin að járningu. En þó nokkur afrek voru unnin í þeim málum í dag.
Mér hefur verið talin trú um að einungis sér og hámenntaðir snillingar geti járnað einkaleikfang húsfreyjunnar Sparibleik svo vel sé. Er reyndar farin að efast um þetta held að þetta komi frekar til af því að þeir sem séu samtíða okkur Sparibleik dags daglega telji það mun friðvænlegar að bera ekki persónulega ábyrgð á verkefninu ef að illa fer.
Játa fúslega að andrúmsloftið var frekar spennuþrungið síðasta sumar þegar skeifur, botnar og hálfir hófar fuku út um víðan völl og húsfreyjan ekki búin að nota gripinn eins og hún ætlaði sér. Nú er bara að bíða og sjá hvort að einhver birtist og bíður fram þjónustu sína til að bjarga hófum og heimilisfriði.

Nú er bara að vona að það verði gott veður á næstunni nóg er að gera í hesthúsinu svo líður tíminn svo hratt að innan tíðar brestur á með rúningi, páskum og Guð veit hvað.

Bara svona í lokin...............það væri nú gaman ef að þið smelltuð inn línu í gestabókina hjá okkur.

23.02.2010 00:26

Hann Colgatekallinn.



Þið haldi vafalaust að þetta sé auglýsing frá Colgate en svo er nú ekki, þetta segir bara til um ástand húsfreyjunnar þegar hún er að skrifa þessar línur........frekar sibbin.

Ljómandi góður dagur að baki gott veður og mörg hross hreyfð svo bættist líka við í ,,Gustssafnið,, hjá okkur svo að dagurinn var ánægjulegur. Þó svo að ég dragi ekki hross í dilka eftir ætterni verð ég samt að játa fyrir ykkur einlæga aðdáun mína á afkvæmum Gusts frá Hóli. Það er sannarlega ekki ytri fegurð sem ræður þar mestu heldur þetta skemmtilega samvinnufúsa geðslag og góða ganglag. Hér voru eitt sinn 9 Gustsafkvæmi á sama tíma í heshúsinu þá var gaman. Gustsafkvæmi eru ekki gallalaus frekar en við hin en hreinlega mín uppáhalds.

Ég brunaði í gær norður á Blönduós með tveimur skemmtilegum fylgdarsveinum, erindið var að sækja endurmenntun íþróttadómara. Það var gaman að fara norður í svona björtu og fallegu vetrarveðri. Námskeiðið var ljómandi gott og farið yfir þau mál sem oft hafa orðið út undan við samhæfingu dómara. Mesta áherslan var löggð á gæðingaskeið og slaktaumatölt.
Svo er alltaf gaman að hitta aðra dómara, spjalla og bera saman bækur sínar.

20.02.2010 21:26

Frjálsar ástir í Kolbeinsstaðahreppi og sitthvað fleira.



Þeir væru sennilega nokkrir herrarnir sem vildu hafa svona prúðan hnakka á efri árum eins og hann Ríkur minn, ekkert tungl þar.

Já það er margt sem er fréttnæmt þessa dagana en eitt er það sem núna ber hæðst hér á bæ.
Ég var svo sem ekkert sérlega hrifin en hef ákveðið að taka þessu með bros á vör eins og sannri konu sæmir. Svo er auðvitað gott að fá stundum aðra vexti en dráttarvexti og þetta eru sannarlega innlánsvextir af einstakri gerð.
Þannig er að eftir að hún Viðja kom í leitirnar hefur nú ýmislegt á daga hennar drifið meðal annars hefur hún leikið í heimildarmynd þar sem enginn annar en Gísli Einarsson leikstýrði og verið tamin í rúman mánuð með góðum árangri. Jafnvel svo góðum að ég sá ástæðu til að bjóða Mumma á bak um daginn til deila ánægju minni með árangurinn.
Hann tók þennan fína prufutúr og var eins og ég nokkuð viss um skemmtilegt og árangursríkt framhald. Góðar hreyfingar, vilji, þjálni.............og mikill kraftur.
En að undanförnu hefur samræmiseinkunin sem komið hefur uppí hugann alltaf verið að lækka og lækka og lækka. Varða að lokum svo lág að ég hringdi í Rúnar dýralæknir og óskaði liðsinnis. Þið haldið vafalaust að ég eigi við lýtaaðgerð eins og voru svo sjálfsagðar í góðærinu að nær sjálfsagt var að fara freka í tvær en eina jafnvel þó engin væri þörfin.
Nei þetta var meira svona mæðraskoðun.............og er skemmst frá því að segja að Rúnar prísaði sig sælan að ekki væri sparkað í hann við rannsóknina.
Það hefur því komið í ljós að Viðja var ekki í tilgangslausu ferðalagi þegar hún týndist heldur í hinni eilífu leit að draumaprinsinum sanna. Hvort að hann hefur fundist skal ósagt látið en allavega hefur hún séð ástæðu til að kanna hæfni einhvers folans og úr því hefur allavega eitthvað orðið. Hver hann er kemur sennilega seinnt í ljós en til að hafa allt sem ábyggilegast verður væntanlegur gripur skráður eitthvað á þessa leið í Worldfeng: Halldór Gestur frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Bestur frá Kolbeinsstaðhreppi móðir Viðja víðförla frá Hallkelsstaðahlíð. Gripurinn verður allavega mánaðartaminn þegar hann kemur í heiminn.
Það verður svo einhverntímann undir vor sem dregur til tíðinda og verða þeim þá gerð skil hér á síðunni.

Hópurinn góði sem fór saman í hestaferð og Laufskálarétt  átti góða kvöldstund saman í Borgarnesi í gær. Alltaf svo gaman að hittast og rifja upp góðar minningar hvort sem þær eru úr ferðunum eða bara frá gömlu góðu árunum í Sparisjóði Mýrasýslu. Takk fyrir frábæran hitting ættum nú að gera þetta miklu oftar.

Í dag var svo riðið út í kuldanum, vorum svo heppin að vera boðin í kaffi í því efra þar sem á borðum var Guðdómlegt Stellubakkelsi. En þær mæðgur Stella, Hildur og Daniella komu í gær að skila Lóu úr afmælisleiðangrinum.

19.02.2010 13:00

Menn já bæði þing og hesta.

Vetur konungur hefur aðeins rifjað upp með okkur undanfarna daga að enn er bara febrúar og ekki tímabært að reikna með því að ríða út á peysunni alla daga.
Verð þó að segja að áminningin er mjög pen bara lítið frost, smá föl og gjóla.

Í fyrra kvöld brá ég mér á fund í Borgarnesi aðalerindið var að hlusta á nokkra þingmenn deila sínum hugleiðingum. Maður getur svo sem ekki búist við neinum skemmtierindum þessa dagana en alltaf gott að fylgjast með og kanna hvort að mannskapurinn sé enn með hugann við efnið. Og síðast en ekki síst að menn hafi rokið af stað til að  finna draumahlutverkið í eigin leikriti og í framhaldi af því á hröðu flugi frá ,,sínu,, fólki.
En það var í góður lagi með þessa þingmenn hvort sem þeir komu úr suðurkjördæmi eða norðvestrinu okkar. Sérstaklega var ég ánægð með Gunnar Braga sem var greinilega alveg jarðfastur og ekki í neinum ábyrgðarleik heldur í góðu sambandi við mannskapinn.

Það voru svo tamningamenn sem ég fór til fundar við í gærkvöldi þegar við í stjórn Félags tamningamanna hittumst og funduðum. Við erum reyndar orðin mjög tæknivædd allavega svona á hestamannamælikvarða. Herdís okkar Reynisdóttir býr erlendis en var svo sannarlega með okkur á þessu fundi því við voru í sambandi við hana í gegnum skype.
Þórarinn Eymundsson var svo í símanum þar sem að þau heiðurshjón áttu von á barni og því ekki óhætt að fara langt frá Sauðárkróki. Enda kom á daginn að það hefði alls ekki verið óhætt því þeim fæddist dóttir í nótt. Innilega til hamingju með barnið Tóti og Sigga.
Af fundinum er það m a að frétta að afmælishátíð Félags tamningamanna verður hadin í haust, ákvörðun var tekin um það í síðustu viku. Var fólk sammála um að hátíð eins og við höfðum hugsað okkur ætti ekki heima á þeim tíma sem hvað mest er að gera hjá tamningamönnum. Verður því blásið til veglegrar afmælishátíðar í haust og nefnd komin á stað með undirbúninginn. Nokkrir viðburðir eru fram undan hjá félaginu og má þar nefna fyrirlestur Rúnu Einarsd Zingsheim og námkeið og fyrirlestur Guðmundar Einarssonar.
Svo eru mörg fleiri má sem er verið að vinna í og verða vonandi sýnileg innan tíðar.
Það er ánægjulegt hvað atvinnuástandið í hestamennsku virðist vera stöðugt og vonandi að svo haldi áfram. Ekki veitir af að eitthvað haldist á réttu róli í þjóðfélaginu og hvað er betra til bjargar en íslenski hesturinn?

16.02.2010 22:25

Bolla.....búmmmm.......sprakk

Rok og fjúk.............birrrr.... kalt er þetta ekki típíst byrjuð að kvarta strax kellan um leið og sólin og lognið fara í smá frí. Nei ekkert kvart þetta er fínnt og það sem ekki drepur það herðir. En samt............ég verð að tuða smá vildi ég nú hafa blíðuna sem var í síðustu viku.

Á sunnudaginn fóru tvær skemmtilegar dömur úr hesthúsinu heim til sín sem er svo sem ekki í frásögu færandi. En það verður að viðurkennast að sumra er meira saknað en annara.
Það er tilhlökkunnar efni að eiga von á þeim aftur undir vorið.
Stían þeirra var fljót að fyllast og bara spennandi gripir sem komu í staðinn.

Síðustu dagar hafa verið sannkallaðir ofátsdagar í gær var slegið í bollur og það var sannarlega rokinu að kenna nú eða þakka að tegundirnar urðu þrjár. Gömlu góðu vatnsdeigs sem eru alveg nauðsynlegar, gerbollurnar hefðbundnu og síðan var það frumraun mín í Holakerbollunum góðu. Til nánari útskýringa þá eru það bollur sem ein góð vinnkona mín bakar við afar góðan orðstír, slógu t.d alveg í gegn á Hólum. Gömul uppskrift frá Noregi sem krefst bæði þolinmæði og biðlundar............svona, svona ekki hlæja ég gat bakað þær. Þær urðu samt svolítið vel við vöxt og mannskapurinn sem að mætti í kaffi gerði grín að þeim og haft var á orði að ég hefði rugglast á brauði. En þegar að fyrsti bitinn hafði verið tekinn var ég vinsamlegast beðin að hafa þær svona stórar framvegis það veitti sko ekki af. Þær eru sem sagt Guðdómlegar með jarðaberjum, súkkulaði og rjóma.
Já það hefur margt gott komið hingað með góðu vinnufólki.

Í dag var það svo saltkjötið og baunirnar sem heppnuðust með ágætum og verða enn betri upphitaðar á morgun.
Ég sem sagt borðaði bollur í gær, saltkjöt og baunir í dag og vitið þið hvað ????
Er ekki með snefil af samviksubiti enda væru ekki til nema örfáir íslendingar ef að þetta væri svona skelfilega óhollt eins og mjóa fallega fólkið segir.

13.02.2010 22:23

KB liðakeppnin er hafin.


Hvernig er það á ekkert að færa okkur rúllur í dag????

Í dag var brunað í Borgarnes og setið frá 12-18 og horft á hross, eins og það hafi nú ekki skeð áður. Ó jú oft og mörgum sinnum en alltaf jafn gaman, ætli sé hægt að fá eitthvað við þessu?
Þetta fyrsta mót í KB mótaröðinni var afar vel heppnað mikil þátttaka, feiknasterkir hestar og margir áhorfendur mættir til að fylgjast með og hvetja sín lið.
Úrslitin voru vafalaust góð en ég var nú svo sem ekki mikið að spá í þau heldur að skoða góð hross og fallega reiðmennsku. Það er gaman að sitja í stúkunni og hugsa og skoða ábyrgðarlaust þ e a s vera ekki að dæma. Þá getur maður leyft sér að eiga uppáhaldshross og knapa. Verð þó að nefna úrslit sem ég var afar ánægð með en það var sigur þeirra Sólons frá Skáney og Hauks Bjarnasonar. Flottir saman að vanda til hamingju Skáneyjarfólk.
Mig langar líka að deila með ykkur nöfnum á nokkrum hestum sem að mér fannst gaman að sjá í dag þó svo ég hafi marg oft séð þau..............en takið eftir bara nokkrum það voru miklu fleiri flottir. Og svo öll þau hross sem ég hafði ekki áður séð.
Sunna frá Grundarfirði vekur alltaf athygli mína svona rúm og hreyfingafalleg, kannske ekki í sínu besta formi en alltaf gaman að sjá hana. Snild frá Hellnafelli sjarmatröll og skiljanlega eitt af uppáhaldaleikföngunum hennar Kollu, skil vel að folaldseignum hafi verið frestað. Elva frá Miklagarði ganglag hreinlega eins og öllum vantar þarf ekki að segja meira um það.
Biskup frá Sigmundarstöðum ganglag, mýkt og þjálni alltaf eftirtektarvert, þau eru svo flott saman hann og Sigrún Rós. Gæðingurinn Mósart frá Leysingjastöðum hvað er hann eiginlega búinn að vera góður í mörg ár ? Alveg rosalega mörg fyrst hjá Hrafnhildi og síðan hjá syninum. Sólon frá Skáney fjórgangari í dag fimmgangari á morgun viljum við það ekki öll?
Smá hugleiðingar og upprifjun á því sem að ég sá í dag.

Á morgun eru að fara hestar og koma hestar, alltaf eitthvað að gerast í Hlíðinni.

12.02.2010 21:38

Kennslusýning og latur bloggari



Þriðjudaginn 9 febrúar hélt Félag tamningamanna í samvinnu við þrjá unga reiðkennara kennslusýningu í reiðhöllinni Borgarnesi. Þetta vor þau Haukur Bjarnason, Randi Holaker og Heiða Dís Fjeldsted. Eins og við var að búast stóðu krakkarnir sig með mikilli prýði og gerðu þessa kvöldstund bæði fróðlega og ánægjulega.
Reiðkennararnir komu greinilega vel undirbúnir fyrir sýninguna og tóku fyrir mismunandi atriði með góða og vel tamda hesta. Það var gaman að fylgjast með þeim og sjá þau fara vítt og breitt allt frá upphafi tamningar til skeiðþjálfunnar og notkunar á íslenskum stöngum.
Á annað hundrað manns mættu til að fylgjast með og sumir langt að komnir.
Takk fyrir skemmtilegt kvöld flottu reiðkennarar það er spennandi að mæta á námskeið til ykkar.



Það var þétt setinn bekkurinn í þessari frábæru reiðhöll og áhorfendur spenntir að fylgjast með.



,,Hallarforsetinn,, og vinnufólkið í Steinsholti skemmtu sér vel.



Hressar hestakonur úr Borgarfirði og af Skaganum.



.........og enn fleiri hestamenn voru mættir.



Þau náðu sko alveg athyggli krakkarnir....................



Svo var spjallað á milli atriða.......örugglega um spennandi stóðhesta.



Lárus ætlar ekki að tapa af neinu og er frekar þungbúinn...........ætli það sé skeiðið???
Það er heldur léttara yfir Jóni............það gera stangirnar.



Sveinbjörn .....maður hugsar ekki um bæjarmálin allan sólarhringinn.....jú jú ætli það veiti af.



Og þarna eru stelpurnar á fremsta bekk að spjalla saman.

Eins og þið hafið séð hef ég verið löt að skrifa fréttir í vikunni en það hefur samt ýmislegt verið framkvæmt fyrir utan það að fara á þessa fínu sýningu.
Síðasta sunnudag var allt stóðið rekið inn og gefið ormalyf, mikið var tekið af myndum við það tækifæri sem að ég mun setja hér inn við fyrsta tækifæri.
Eins stendur til að mynda folöldin en ég lofa samt ekki að það verði alveg á næstunni.
Í gær brunaði ég upp að Miðfossum þar sem fyrsta vetrarmót Grana var haldið. Það var skemmtilegt mót með þó nokkrum skráningum og bara gaman að þula og skoða nýja hesta.
Vorveður hefur verið alla vikuna sem hefur verið kærkomið til útreiða, ég veit ekki hvað yrði úr manni ef að það kæmi allt í einu vetur.




08.02.2010 21:49

Meira af þorrablóti og munið kennslusýninguna.



Jæja þá er það smá viðbót af þorrablótsmyndum, þessi mynd heitir.....stungið saman nefjum. Hjónakornin Hrannar og Björg.



Þarna er beðið eftir matnum og að sjálfsögðu var reynt að múta einum úr nefndinni.



Þarna er ráðherra ekillinn Magnús Magnússon sem að kom sterkur inn með snildar kveðskap úr eigin fórum.



Svo eru þarna fastagestir á þorrablóti Sesselja í Haukatungu og Herdís og Reynir úr Borgarnesi.



Hljómsveitinni bættist óvæntur liðsstyrkur............já þær eru efnilegar þessar flottu Hólameyjar.



Ég veit ekki eftir hverju þessar voru að bíða................en allavega átti það að koma af himnum ofan.



Og hér að lokum getið þið séð hvað fólk leggur mikið á sig til að mæta á þorrablót.........labbar sveitina á enda til að geta blótað þorra með okkur:)

Það er búið að vera líflegt í hesthúsinu og mikið riðið út, einnig eru myndir af nýjum söluhrossum í vinnslu. Margt nýtt að koma á skrá ....................þegar húsfreyjan kemur því í verk að setja inn myndir og upplýsingar. Ef að ykkur leiðist að bíða þá er bara að mæta í hesthúsið og skoða verið hjartanlega velkomin.

Að lokum vil ég benda ykkur á stórskemmtilega kennslusýningu sem haldin verður í reiðhöllinni Borgarnesi á morgun kl 20.00
Þar koma fram í samvinnu við Félag tamningamanna ungir og efnilegir reiðkennarar þau Haukur Bjarnason, Heiða Dís Fjeldsted og Randi Holaker.

Aðgangi verður stillt í hóf og er kr 1.000.- frítt fyrir 12 ára og yngri.
Skuldlausir FT félagar fá frían aðgang.
Sjáumst vonandi sem flest.