21.02.2018 10:01

Að láta sig dreyma um betri tíð með blóm í haga.

 

Það er svo gott fyrir sálina að skoða hestamyndir sem teknar eru á góðum sumardögum.

Fysta myndin sýnir hann Dúr í djörfum dansi við hana Dyndísi frá Borgarlandi.

Vonandi kemur eitthvað fallegt og skemmtilegt út úr þessum dansi með vorinu.

Hann Dúr er stóðhestur á 3 vetur undan Snekkju frá Hallkelsstaðahlíð og Konserti frá Hofi.

 

 

Þessi mynd er tekin af Dúr þegar hann var ,,ungur,, þarna er hann á leið í ferðalag með Snekkju mömmu sinni til að hitta Skýr frá Skálakoti.

 

 

Þetta er hún Krossbrá frá Hallkelsstaðahlíð en hún er undan Karúnu og Kafteini Ölnirssyni.

Mikill karater og hefur mikið og gott sjálfsálit.

 

 

Þarna er annað Kafteinsafkvæmi en þessi er undan Korku frá Vífilsdal.

Litfallegt og spennandi með vörumerkið hans Kafteins í augunum.

Já augun hans Ölnirs koma vel í gengum hann Kaftein líka.

 

 

Og ennþá er það Kafteinsafkvæmi en þessi flotta hryssa en núna norður í Húnavatnssýslu.

 

 

Krossbrá Kafteinsdóttir að leggja sig eftir matinn.

Henni datt ekki í hug að láta trufla sig enda svefn afar mikilvægur

 

 

Vandséð litla undan Sjaldséð og Káti fór í ferðalag norður í land en þar átti mamma hennar stefnumót við Muggison frá Hæli.

Eins og þið sjáið á myndinni þá var nóg gras í girðingunni og frábært færi til að æfa fótaburðinn.

 

 

Hvar er svo þessi Muggison ???? ætli hann sem kominn á kaf í grasið ???

 

 

Já það voru vellystingar í boði hjá honum Jonna á Hæli.

 

 

Þarna hvílir Máni litli sonur Snekkju og Káts lúin bein.

 

 

Þessi litli rauði hestur hefur hlotið nafnið Sigurmon og er undan Venus frá Magnússkógum og Arion frá Eystra Fróðholti.

Hann er ennþá í góðu yfirlæti hjá mömmu sinni í dölunum.

Fallegt upplit og var bara býsna sperrtur þegar ég fór að skoða hann í sumar.

Verður spennandi að sjá kappann aftur.

 

Já það er alltaf gaman að skoða myndir og rifja upp góða dag,.

 

 
 
 
 
 
 
 

 

 

 
 
 
 
 
 

19.02.2018 22:39

Veðrið, veislur og allt hitt.

 

Já nú er það hvítt eða réttara sagt var hvítt eins og þið sjáið á þessari mynd.

Þegar þetta er hinsvegar skrifað gengur á með vestan hriðjum og tómum leiðindum.

Já veður guðinn er ekki uppáhalds kallinn þessa dagana.

En ég verð þó að játa að góðu dagarnir gera það að verkum að leiðindin gleymast.

Að ríða út í færi og veðri eins og myndin sýnir er draumur, já algjör draumur.

Þessi mynd er tekin út við Hermannsholt og í áttina heim.

 

 

Þarna er ég komin aðeins nær eða í Þrepholtið.

Geirhjúkurinn og Skálarhyrnan gnæfa yfir og eru bæði virðuleikinn einn.

 

 

En veðrið er ekki alltaf eins og maður óskar sér, ó nei.

Þetta var útsýnið sem boðið var uppá í rúman sólarhring og það meira að segja stundum minna.

Þið látið það nú ekki fara lengra en húsfreyjan festi sig tvisvar og keyrði einu sinni útaf á rétt rúmum 2 tímum.

Já og ferðin var ekki löng nei frekar stutt og kunnulegar slóðir sem farið var um.

Ferðin hófst við bílskúrsdyrnar og var heitið uppí hesthús. Sennilega eru þetta u.þ.b 250 metrar og svo kunnuglegir að holurnar og hörslið gæti haft sitt eigið nafn. Engu að síður var boðið uppá viðburði alla leiðina eins og skipulagið krefðist þess að alltaf væri eitthvað í gangi.

Það er þó skemmst frá þvi að segja að Mummi kom til hjálpar á Claasinum og dróg bílinn, húsfreyjuna og girðingun upp........................

Hæfni húsfreyjunnar til aksturs er óumdeild enda ekki á hvers manns færi að krækja bíl í rafmagnsgirðingu nánast við rúmgaflinn.

Seinómor.

 

 

Blíðan var mikið notuð enda ekki á hverjum degi.

Á þessari mynd er Skúli á Leik Spunasyni sem stillti sér upp fyrir myndatöku uppá einum snjóskaflinum.

Annars var helgin notuð til að sýna sig og sjá aðra........... 

Á föstudaginn var brunað til þeirra heiðurhjóna Benna og Siggu sem nú búa á Ferjubakka.

Þar kom saman góður hópur sem hist hefur á heima þorrablóti hjá þeim hjónum í nokkur skipti.

Frábært kvöld með góðum mat og skemmtilegu fólki.

Laugardagurinn var svo Skjónufélagsfundardagur. Það eru dásamlegir dagar.

Þá komum við saman hér í Hlíðinni og höfum gaman.

Að sjálfsögðu tók hópurinn út reiðhöllina, hrossin og sauðfjárbúskapinn.

Aðalefni fundarins gleymdist en þessi í stað fór megnið af fundartímanum í að skipuleggja menningaferð til framandi landa.

Allir meðlimir félagsins voru mættir nema Erla en hún átti ekki heimangengt.

Við árlega myndatöku lék verðlaunagripur félagsins hlutverk Erlu og því má segja að við værum þarna öll.

 

 

Það er því ljóst að við verðum að halda framhalds aðalfund og halda áfram að skipuleggja.

Við teljum okkur vera vel í stakk búinn til að ferðast hvert sem er jafnvel til tunglsins.

Viðburðastjórnandi, reiðkennarar, tamningamenn, bændur, þroskaþjálfi, fjölmiðlafræðingur, húsasmíðameistari, kokkur og Guð veit hvað.

 

 

Þarna er t.d viðburðastjórnandinn að rita fundargerðina................ og leggja á ráðin.

 

 

Og undirtektirnar virðast frábærar..............

Það er svo Brá og Maron að þakka að liðið náðist á mynd................ ekki verra að hafa heimildir.

Skemmtilegt að koma saman og hafa gaman kæru vinir.

Takk fyrir komuna, þetta verður eitthvað.

 
 
 
 
 
 

11.02.2018 18:29

Og þá er það seinni hluti myndasyrpu frá þorrablóti 2018.

 

Þarna er undirbúningsnefndin og veislustjórinn Gísli Einarsson sem að sjálfsögðu klæddist afsakið hlé jakkanum sínum.

 

 

Það er komin hefð að útnefna Kolhrepping ársins á hverju þorrablóti.

Að þessu sinni var það yfir snapparinn okkar hún Þóra í Ystu Görðum sem hlaut þennan titil.

Eins og þið sjáið þá tók hún að sjálfsögðu snapp af viðburðinum.

 

 

 

Þarna tekur Þóra við titlinum og Karen leysir hana af við myndatökuna.

Til hamingju með titilinn Þóra.

 

 

Hraunholtabændur voru að sjálfsögðu mættir á blótið.

 

 

Brosmildar dömur prýða alla samkomur.

 

 

Albert á Heggstöðum og Jónas á Jörfa spekingslegir á svip............

 

 

Ungdómurinn í Miðgörðum.

 

 

Kaldárbakkaborðið.

 

 

Frændurnir voru bara kátir og litu frekar mikið niður á mig með myndavélina.

Hallur og Mummi í stuði.

 

 

 

Þessir strákar voru líka hressir og kátir.

Hörður Ívarsson og Lárus í Haukatungu,

 

 

Halldís og Sigurður Jónsson voru kát.

 

 

Hvað er í gangi hjá þessum ?????'

 

 

Mæðgin.

Ragnar og Magga á Jörfa.

 

 

Feðgin.

Kristján á Stóra Hrauni og Kristín Halldóra.

 

 

Arnar og Elísabet svo fín og sæt en ljósmyndarinn hefur klikkað á því að ná Guðrúnu Söru inná myndina.

Ömulegur þessi ljósmyndari.

 

 

Hofstaðabændur mættir að venju.

 

 

Ölver og Ragnhildur komu frá Ystu Görðum en  Margrét og Jóhannes komu úr Borgarnesi.,

 

 

Reynir og Lárus brosmildir.

 

 

Björgvin á sérstakt sæti á þorrablótum í Lindartungu og mætir snemma til að passa það.

Ég held að hann hafi ekki setið þarna frá síðasta blóti............

 

 

Snorrastaðatengdafeðgar................

 

 

Karen ábyrg í móttökustörfunum og Þórður Már með sterkan bakhjarl.

 

 

Þetta var Borgarborðið.

 

 

Systurnar frá Kolviðanesi mæta alltaf á þorrablót í Lindartungu, nema hvað ?

 

 

Þröngt mega sáttir o.s.f.v........

 

 

Dalsmynni og Söðulsholt áttu sína fulltrúa.

 

 

Já það var gaman á þorrablóti eins og alltaf í Lindartungu, við dömurnar alveg sáttar með blótið.

Nú bíðum við bara eftir næsta blóti árið 2019.

 
 
 

 

 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

07.02.2018 22:54

Glænýr hestaþjálfari.

 

Það þarf nú að taka hrollinn úr þessum hrossum og kenna þeim á lífið.

Ég Lubbi lubbatrúss er alveg kjörinn í það enda sérfræðingur í bak upphitun.

 

 

En viltu gjöra svo vel að standa kyrr Kafteinn Ölnirsson......................

 

 

Já einmitt svona, nú fer vel um mig sjarmatröllið sjálft.

 

 

Mummi láttu Kaftein vera ég er að hita hann upp fyrir þig.............

 

 

Æi mig syfjar svolítið.................... það er svo hlýtt og notalegt hér á baki.

 

 

Jæja ég verð samt að standa mig í vinnunni og vaka.............. þetta hitar sig ekki upp sjálft.

 

 

Mummi vertu rólegur ekki taka bólið frá mér..............

 

 
 
 
 
 
 

03.02.2018 22:38

Mannlíf á frábæru þorrablóti í Lindartungu.

 

Enn eitt snildar þorrablótið var haldið í Félagsheimilinu Lindartungu.

Að venju var húsfylli og fólk skemmti sér og öðrum af stakri snild fram á rauða nótt.

Myndirnar tala sínu máli um stemminguna sem var á blótinu.

Þessi breiddu úr sér í gamla sófanum áður en haldið var af stað niður í Lindartungu.

Skúli , Maron, Þóranna og Kolbeinn.

 

 

Þessar voru kátar og brostu sætt til mín með myndavélina.

 

 

Snorrastaðamæðgur voru að sjáfsögðu mættar á blótið.

 

 

Þessar eru voða sæta mæðgur.

 

 

Þessir vösku strákar voru alveg til í að sitja fyrir á eins og einn eða tveimur myndum.

Hörður Ívars, Lárus í Haukatungu og Andrés í Ystu Görðum.

 

 

Hrannar og Björg eru búin að koma á óteljandi þorrablót í Lindartungu.

 

 

Þetta er Miðgarðaborðið........... já og Syðstu Garða líka.

 

 

Guðdís og Brá voru hressar.

 

 

 

Maron og Þóra að bíða eftir matnum.

 

 

Það er nú einhver grallarasvipur á þessum, Árni og Gestur nutu sín vel.

 

 

Og það gerðu ekki síður þeirra betri helmingar Hulda og Friðborg.

 

 

Þóra í Ystu Görðum hafði ástæðu til að brosa breitt en hún var valin Kolhreppingur ársins af skemmtinefninni.

Snappar af miklum krafti alla daga. Jón Bjarni Bergsbóndi og Andrés í Ystu Grörðum.

 

 

Hraunholtasystur þær Ásdís og Sigga Jóna að njóta kræsinganna.

 

 

Það var mjög gaman hjá þessum köppum, sennilega hefur Jón Ben verið að segja góðan brandara.

Arnar og Ásbjörn kátir.

 

 

Syðstu Garðahjón og einnig má sjá glitta í Miðgarða hjónin.

 

 

Þessi hafa nú komið á mörg þorrablót í Lindartungu.

 

 

Kolbeinn og Þóranna voru á sínu fyrsta blóti.

 

 

Hrannar að reyna slétta úr hrukkunum Magnús og Hrefna fylgjast með.

 

 

Reffilegir Jónas á Jörfa og Þórir á Brúarfossi.

 

 

Brosmildar þessar dömur, Margrét á Jörfa, Kristín Halldóra frá Stóra Hrauni og Þóra í Ystu Görðum.

 

 

Voða sætar saman þessar.

 

 

Gísli Einars fór mikinn sem veislustjóri og kunnu menn mjög vel að meta það.

 

 

Haukatunguborðið.....................

 

 

 

Hallur frændi minn lagði af stað á blótið með frosið Brennivín í flösku.

Á myndinni er hann með flöskuna í hendinni en sennilega er Brennsinn hættur að vera frosinn.

Gunnlaugur sveitastjórinn okkar mætti að sjálfsögðu á blótið og sagði okkur góðan brandara.

 

 

Það er allt plássið í Lindartungu nýtt á þorrablóti.

 

 

Þetta borð tilheyrir Ystu Görðum, Grund, Brúarhrauni og Borgarnesi.

 

Já þetta er fyrsti hluti myndasyrpunnar mannlíf á þorrablóti 2018.

Frábært þorrablót með góðum mat, fínum skemmtiatriðum, snildar hljómsveit og hreint frábæru fólki.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

30.01.2018 21:54

Janúar var fljótur..............

Það er gaman að segja ykkur frá því að nú er búið að loka reiðhöllinni, einangrunin að mestu komin í og ansi margt klárt.

Já og við farin að þjálfa á fullu í reiðhöllinni og Mummi að kenna. En það er ekki þar með sagt að hún sé tilbúin.

Við eigum eftir að bæta við efnið í gólfinu, fá meiri lýsingu, klæða járnið innan á veggina og ganga frá ýmsu en það kemur.

Þetta er nú meiri snildin. Það var skafrenningur og ónotalegt í dag en þá var bara hægt að smella sér í skjól og njóta.

Ég er sannfærð um að það væru töluvert færri hrukkur framan í okkur ef að höllin hefði verið komin fyrr.

Engir kuldablettir og eldrauðir veðurbarningsblettir.

Við værum jafnvel falleg sko ef að höllinn hefði komið einhvern tímann snemma á síðustu öld.

 

 

Við fengum snildar gengi um tvær síðustu helgar, þarna má sjá hluta en þessir harðduglegu dalamenn voru með okkur.

Auk þeirra voru snillingar úr fjölskyldunni sem komu eins og oft áður og hjálpuðu okkur ómetanlega.

Fyrri helgina var klárað að setja járnið á norðurgaflinn en þá var þónokkuð frost og kuldi. Aðstoðafólikð fór heim til sín eftir það fjör með líkamshita langt undir hættumörkum en kvartaði sko ekki.

Um síðast liðna helgi var svo klárað að klæða suðurgaflinn og síðan vaðið í að einangra uppí loft og síðan vegggina.

Einnig var klárað að setja upp hurðirnar.

Næst á dagskrá sko þegar við tímum að hætta að ríða út þá er að klæða járnið innan á veggina og loftið.

 

 

Andrés hefur verið heldur betur hjálplegur við að setja hurðirnar í og stilla þær.

Þarna er hann í áhættu atriði við síðustu hurðina.

Þóra hans má alls ekki sjá þetta hún er svo lofthrædd........... að hans sögn.

 

 

Hrannar að kanna gluggabúnkan................

Og það var fleira gert.

 

 

Um miðjan janúar smelltum við Skúli okkur til Glasgow í 4 daga.

Snildar ferð í alla staði enda Skotarnir skemmtilegir og viskýið gott.

Eins og þið sjáið þá fann Skúli sér þessi fínu þorrablótsklæði, takið sérstaklega eftir brosinu á kallinum.

Það segir meira en þúsund orð. Það er augljóst að þessu mun hann klæðast á þorrablótinu.

 

 

Í ferðinni rakst ég á þetta eðal ákavíti, ég hrökk nú svolítið við og hugsaði minn gang hvort að ég hefði ekki hagað mér vel í Skotlandinu.

Þessi merking er svo áberandi og minnti mig svo á yfirvalið í hreppnum mínum......................

 

 

 

Eins og gjarnan er gert þegar fólk lyftir sér upp fórum við á þennan fína veitingastað.

Þegar þjóninn kvaddi okkur kom hann stoltur með þennan miða og taldi sig nokkuð góðan í íslenskunni.

Gaman að þessu.

 
 
 
 
 

 

 

02.01.2018 21:26

Gleðilegt ár 2018.

 

Um áramót er góður tími til að líta um öxl og skoða hvað liðið ár hafði uppá að bjóða.

Hér hjá okkur í Hlíðinni er óhætt að segja að árið 2017 hafi verið ár framkvæmda.

Við höfðum um nokkurt skeið verið að hugleiða breytingar og aukin umsvif sem svo urðu að veruleika á árinu.

Á ísköldum föstudegi þeim 12 af maí tókum við fyrstu skóflustunguna fyrir nýrri reiðhöll af stærðinni 20x45 m2

Húsið er stálgrindarhús frá H.Haukssyni einangrað og klætt að innan.

Vonandi náum við að byggja tengibyggingu á milli hesthúss og reiðhallar þegar vorar.

 

Ég hef haldið dagbækur frá því árið 1992 og hafa þær gjarnan boðið uppá málshátt fyrir hvern dag.

Þann 12 maí var hann svona ,, Betra er að slitna af brúkun en að eyðast af ryði,,

Það var því sjálfgefið að hefjast handa og vaða í verkið og nú rúmlega 7 mánuðum seinna er reiðhöllin komin.

Þess ber sérstaklega að geta að það voru ekki verktakar eða vinnuflokkar að vinna verkið.

Ónei það höfum við hér í Hlíðinni gert með dyggri og ómetnalegri aðstoð fjölskyldu, sveitunga og annara vina.

Feðgarnir hafa fegnið heldur betur útrás fyrir smiðinn í sér síðustu mánuðina og verða örugglega með frákvörf þegar þessu er lokið.

Já það hef ég marg oft sagt að við eigum dásamlega fjölskyldur og vini, svo búum við í frábæru samfélagi hér í sveitinni. 

Takk fyrir hjálpina kæru vinir þið vitið hver þið eruð.

 

Allt þetta byggingastúss hefur tekið mikinn tíma sérstaklega þegar við höfum verið að temja, heyja, smala og sitthvað fleira sem gera þarf.

Það eru mörg handtökin þegar svona framkvæmdir standa yfir hvort sem það er í byggingunni, pappírsvinnunni nú eða bara í eldhúsinu.

Stóru pottarnir hafa alveg fengið að njóta sín og húsfreyjan á köflum ekki verið viss hvort hún var Strúna Sætran eða Rúnsa Fel.

Ja eða bara kerlingin í fjöllunum.

 

Við erum einnig að leggja loka hönd á tvö sumarhús sem staðsett verða á Steinholtinu hjá okkur. Með tilkomu þeirra getum við boðið uppá gistingu fyrir fólk sem kemur í reiðkennslu, hestaferðir, veiði eða bara til að njóta með okkur hér í Hlíðinni.

Frostið er aðeins að stríða okkur þannig að við þurfum að bíða með að taka þau í notkun þar sem jaðvinna er erfið um þessar mundir.

Þið fáið örugglega að frétta af því hér á síðunni þegar húsin verða komin í gangið.

Já það er bara hugur í okkur og vonandi verður þetta skref okkar til góðs fyrir okkur og samfélagið hér í sveitinni.

 

Við erum alltaf að auka við okkur í ferðþjónustunni og í sumar tókum við á móti nokkrum hestahópum og að auki all nokkrum gestum tengdum hestamennsku.

Veiðin í Hlíðarvatni var líka góð og oft margt um manninn bæði við veiðar og eins á tjaldstæðunum hjá okkur.

 

Annars gekk búskapurinn sá hefðbundni bara nokkuð vel ef frá er talið dapurt afurðaverð sauðfjárafurða sem auðvita hefur heilmikil áhrif.

Við höfum samt valið að hampa bjartsýninni og trúa því að þetta sé bara ein helv... brekkan sem að bændur þurfi að puða upp.

Það kemur að því að við sem stundum sauðfjárbúskap verðum metin af verðleikum, sannið þið til.

Ég gæti fjölyrt lengi um einstakar uppáhalds ær og gersemis gemlinga en hlífi ykkur við þvi.

Get þó sagt að það er oftast gaman að vera sauðfjárbóndi og sumar stundir í þeim geira eru óviðjafnanlegar.

Sauðburður, fjallaferðir og réttir.............. að ógleymdu réttarpartýinu já og fólkinu, maður fólkið það er dásamlegt.

Eitt er samt áhyggjuefnið umfram annað í sauðfjárbúskapnum en það er ósamstaða bændanna sjálfra á landsvísu þegar kemur að félagsmálunum.

Ég hef ekki nokkra trú á því að betur fari fyrir þeim sem í greininni starfa ef að þeir slíta æruna af hvor öðrum sér til dægrastyttingar.

Málefnalega skoðannaskipti eru af hinu góða og farsælast að brúka þau til framtíðar en sleppa hinu.

 

Árið 2016 urðum við fyrir því að missa báðar smalatíkurnar okkar þær Freyju og Möru frá Eysteinseyri eins og fram kom í síðasta áramóta pistli. Það var því heldur lágt risið á smölunum hvað hundaeign varðaði framan af árinu. Snotra mín íslendingur stendur svo sem alltaf fyrir sínu sem eðal heimilishundur og Ófeigur ofurhundur líka en það vantaði alvöru smalahund. Sko með fullri virðingu fyrir þeim.

Það var því heldur betur kátt í kotinu þegar hundabóndinn á Eysteinseyri kom færandi hendi með tík úr sama goti og Mara mín. Þar var komin hún Ponsa frá Eysteinseyri sem reynst hefur okkur afar vel.

Við sendum okkar bestu strauma vestur þegar Ponsa léttir okkur sporin við smalamennskurnar.

 

Það verður að játast að byggingastússið tók nú svolítinn tíma frá okkar eigin hrossum á þessu ári. Það gerði það að verkum að lítið var um þátttöku í mótum og sýningum. En það stendur vonandi til bóta og nú er bara að girða sig í brók allir sem einn.

Við fengum nokkur spennandi folöld í vor sem eru lýsandi vonarstjörnu þangað til annað kemur í ljós.

Ég fékk eitt folald eftir að hafa nýtt gjafbréfið frá því að ég varð 25 plús þarna um árið.

Undan Spuna frá Vestukoti og Kolskör minni fékk ég jarpa hryssum sem hlotið hefur nafnið Kolrassa frá Hallkelsstaðahlíð.

Aldeilis spennandi gjöf það.

Síðan fæddist brún hryssa undan Brag frá Ytra Hóli og Rák hún hefur hlotið nafnið Staka. Karún mín gamla átti jarpa hryssu unda Kafteini Ölnirssyni sem hlotið hefur nafnið Krossbrá. Tvö afkvæmi fæddust svo undan honum Káti Auðssyni en það voru Vandséð sem er undan Sjaldséð og Máni sem er undan Snekkju.

Síðast en ekki síst fengum við að halda henni Venus frá Magnússkógum undir hann Arion frá Eystra Fróðholti þar kom rauður hestur sem nefndur hefur verið Sigurmon.

Nokkur hross skiptu um eigendur sum fóru úr landi en önnur fluttu sig um set hér innan lands.

Það er gaman að vita til þess að vel gengur hjá nýjum eigendum með hrossin.

Það vita allir sem í hestastússi standa að það er erfitt að kveðja aldna höfðingja sem lengi hafa þjónað. Við kvöddum tvo snillinga á árinu þá Rík minn frá Reykjarhóli í Fljótum og Örlát Þorrason. Báðir höfðu þeir verið okkur samferða í áratugi og skilja bara eftir sig góða minningar.

Nú kroppa þeir grænt í grænu högunum hinumegin.

 

Mummi fór í sínar reglubundnu kennsluferðir erlendis á árinu þó svo að ferðirnar væru aðeins færri en árið 2016.

Mig minnir að hann hafi farið 10 -15 sinnum út árið 2016.

Samt ansi drjúgar vikur þegar saman er talið. Einnig var hann með nokkur námskeið hér heima á Íslandi.

Já það er ekki bæði hægt að byggja og vera í útlandinu.

Ég var nokkuð iðin við að dæma á hestamótum á árinu og einnig var ég þulur á nokkuð mörgum mótum.

Skemmtileg vinna og gaman að fylgjast með hvað er að gerast í hestamennskunni vitt og breitt um landið.

Við smelltum okkur líka á Heimsmeistarmótið í hestaíþróttum sem haldið var í Hollandi. Það var aldeilis frábær ferð með skemmtilegum ferðafélögum. Ekki skemmdi fyrir hvað vestlendingar stóðu sig vel á keppnisbrautinni og jaðraði það við þjóðernishyggju að tíunda það.

Við erum jú vestlendingar og bara nokkuð ánægð með það.

 

Eins og undanfarin ár höfum við tekið á móti verknemum víða að og einnig verið með ungt fólk okkur til aðstoðar.

Það er hreint ótrúlegt hvað við erum alltaf heppin með þetta fólk, dásamlegir krakkar sem gera lífið hér í Hlíðinni bara betra.

Þetta sumarið vorum við t.d með fjóra aðila sem allir höfðu verið hjá okkur áður, því líkur munaður.

Já sum happadrætti eru hvorki Háskólans né Das.................

 

Áramótin eru alltaf merkileg upphaf og endir.

Við áttum góð jól og áramót þar sem fólk í því efra og hér í því neðra áttum góðar stundir með frændfólki úr bænum.

Gamlar hefðir í heiðri hafðar í bland við nýjungar sem verða kannski hefðir eftir stuttan tíma.

Ungir og gamlir safna saman dýrmætum minningum sem batna bara þegar fram líða stundir.

Það að standast tímans tönn er verðugt verkefni og ekki sjálgefið að það takist.

En það er sjálfsagt að reyna.

 

Um síðustu áramót skrifaði ég  ,,Það er því með tilhlökkun, framsýni og gleði sem við tökum á móti nýju ári,,

Það var einmitt það sem við gerðum og ég trúi því að það hafi gert okkur gott.

 

Jákvæð hugsun, virðing, auðmýkt og gleði er fínasti koktell fyrir komandi ár.

Svo má krydda með aga, dugnaði og húmor.

 

 

Kæru vinir !

Við óskum ykkur farsældar, friðs og góðrar heilsu á nýju ári með kæru þakklæti fyrir það liðna.

Það verður gaman að eiga samleið með ykkur inní nýtt ár.

Með bros á vör og gleði í hjarta sendum við ykkur góða strauma.

Bestu kveðjur frá okkur öllum í Hlíðinni.

 

 

 

 

 

 

29.12.2017 22:48

Þykkur kafli úr dagbók húsfreyju...............

Það voru unnin afrek hér í Hlíðinni þennan daginn þegar klárað var að klæða járn á vestuhliðina á reiðhöllinni.

Já afrek, allavega ættu þeir sem efast um það að hafa verið með þessu vaska liði sem dúðaði sig og hló að kuldanum.

Þegar frostið er 8 stig og norðaustan blástur með er ekkert sérstaklega hlýtt en það fékk þessi duglegi hópur að reyna í dag.

Það var sem sagt ,,herdeildin,, úr Ólafsvík sem mætti á staðinn og gerði heldur betur vel.

Takk fyrir hjálpina þið eruð snillingar.

 

 

Hún Gudda lyfta er líka snillingur og hefur alveg bjargað okkur þegar að menn þurfa að vera hátt uppi.

Við hreinlega elskum Guddu gömlu.

 

 

Breki var mættur og fékk alveg að reyna kuldann í Hlíðinni.

 

 

En þessi er orðinn býsna vanur enda búinn að koma oft í haust og hjálpa okkur ómetanlega.

 

 

Já þetta er bara nokkuð algeng sjón Atli og Mummi hátt uppi á Guddu.

 

 

Margar hendur vinna létt verk.......... en kalt.

Mummi, Atli, Breki og Maron.

 

 

Brá og Elfa í léttri sveiflu, vippuðu einangruninni um eins og ekkert væri.

 

 

Og voru bara hressar.

 

 

Samvinnan maður samvinnan............... og Ófeigur veitir andlegan stuðning.

 

 

Það var gott að eiga eitthvað eftir af jólabakkelsinu enda mikið skemmtilegra að borða það núna en þegar allir eru saddir af jólasteikinni.

Já það er frábært hvað er að hafast af í reiðhallarbyggingunni.

 

 

En við litum upp frá amstrinu eina kvöldstund í desember og smelltum okkur á tónleika með Baggalúti

Hreint frábær skemmtun og dásamleg kvöldstund.

 

 

Við gerðum alvöru menningarferð úr þessu og fórum saman út að borða.

Þarna eru þessi voða fín og sæt Mummi, Brá og Maron.

Hinir ferðafélagarnir festust ekki á mynd.................

 

 

Á Þorláksmessu er skötuveisla hjá okkur en við eigum dásamlega vini á vestfjörðum sem senda okkur skötu.

Algjörlega ómissandi og skatan þetta árið var alveg frábær vel kæst og smá hósti eftir fyrsta bitann.

Við sendum kveðjur vestur með kæru þakklæti fyrir okkur.

 

 

Síðan að Ragnar frændi minn flutti á Brákarhlíð og hætti að komast heim um jólin er það árvisst að koma þangað á Þorláksmessu.

Mummi fór með tölvuna og sýndi honum nýjustu myndir og videó af reiðhallarframkvæmdum.

Ragnar líst mjög vel á þessar framkvæmdir og var spenntur að skoða og sjá hvað þetta væri komið langt.

Svo voru auðvitað nokkrar rollumyndir með í tölvunni sem hressa, bæta og kæta.

 

 

Mjög spennandi og gaman að geta sýnt honum frá gangi mála.

 

 

Við stálumst til að skoða jólakortin og þau voru sum skemmtileg.

 

 

Auðvita litum við líka við hjá honum Valda en hann flutti á Brákarhlíð í haust.

Við tókum líka bíósýningu hjá honum og hann var ekki síður áhugasamur um framkvæmdirnar.

 

 

Við í Hlíðinni erum ljónheppin og fengum skemmtilegar jólaskvísur í gamla bæinn.

Þarna eru þær að engjast um af forvitni, það er alltaf verið jafn lengi að vaksa upp á aðfangadag.

 

 

Foreldrarnir og amman komu líka og þarna eru þau að skanna gjafirnar.

Ég verð að játa leti við myndatökur þessi jól en um þau síðustu var ég bara nokkuð dugleg.

Þar sem að við höfum ekkert fríkkað frá síðustu jólum smellti ég bara inn nokkrum myndum frá því í fyrra.

Ég er svo bara að spá í að nota þær næstu 50 árin eða svo..............

 

 

Virðuleg................eða ekki.

 

 

Þessi eru nú bara flott og þyrftu nú ekki að nota gamla mynd en hún flýtur samt með frá jólum 2016.

 

 

Þanra eru þau að bíða eftir nýju ári held að það hafi ekki verið komið miðnætti eða 2017.

 

 

Sveinbjörn tekur stöðuna með ,,bakland,, eins og frambjóðandi.

 

 

Já það er betra seint en aldrei og það á líka við um jólamyndirnar árið 2016.

 

Nú er það bara áramótahugleiðing sem kemur þegar hennar tími er kominn.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

 

 

 

 

25.12.2017 16:08

Jólakveðja 2017.

 

22.12.2017 23:57

Og það tókst.............

 

Það hefur verið lítið um tíma fyrir bloggskrif síðustu vikurnar enda hefur hér staðið yfir kapphlaup af bestu gerð.

Kapphlaup já............ svo sannarlega verið kapp í mannskapnum hér í Hlíðinni síðustu vikurnar já og svo sem allt herrans árið 2017.

En í stuttu máli er staðan á reiðhallarbygginu þannig að þegar þetta er skrifað er búið að loka höllinni. 

Loka já ..........þ.e.a.s krossviður utan á allt, þakjárn og báruplast komið á sinn stað, allt járn á austur hliðina og hurðirnar á sinn stað.

Sem sagt markmiðið tókst en það var að klára að loka fyrir jól. Nú er liðið komið á fullt í jólaundirbúining sem er góð tilbreyting frá smíðunum.

Húsfreyjan ofreynir hrærivélina, gengur nærri þvottavélinni og lætur eins og allt sé undir control. Aðrir heimilismeðlimir dusta rykið af hreingerningagræjunum og slást við jólaseríur á milli þess sem þeir fóðra rollur og hross.

Já jólin maður jólin þau eru að koma.

Næsta markmið er að njóta lífsins og fara að máta hross í reiðhöllinni.

Það var eins í þessari síðustu lotu eins og hinum að við nutum aðstoðar dásamlegs fólks sem mætti hingað í Hlíðina og hjálpaði okkur.

Takk fyrir hjálpina þið eruð frábær og ómetanlega fyrir okkur.

 

En það hefur ýmislegt annað en byggingaverkefni rekið á fjörurnar hjá okkur frá því síðast ég skrifaði.

Við náðum að sæða heilan helling af kindum og notuðum marga spennandi hrúta, nánar um það síðar.

Það tekur alltaf drjúgan tíma að númeralesa kindurnar og flokka undir hrútana en við vorum búin að sleppa hrútum í allar kindurnar þann 18 desember. Gemlingar og sæðingsrollur verða ,,samferða,, inní sauðburðinn og koma til með að eiga tal allt að fimm dögum fyrr en aðal hópurinn. Um síðustu mánaðamót gáfum við allri hjörðinni ormalyf og vítamínstauta en það tekur mikinn tíma með þennan fjölda.

Hér á eftir koma nokkrar myndir sem teknar hafa verið nú í desember.

 

Andrés í Ystu Görðum kom og hjálpaði okkur að setja hurðirnar í.

Þarna er hann með feðgunum að smella stóru hurðinni á sinn stað.

 

 

Hún Gudda lyftari er nú meira þarfa þingið en þarna er hún í notkun hjá Mumma og Steinari Hauki.

 

 

Það er nú alveg dásamleg tilfinning að sjá þetta ............ járnið komið á austu hliðina.

 

 

Himnastiginn húkir hálf einmanna og verkefnalaus eftir að Gudda kom á svæðið.

 

 

Þegar verið er að byggja er gott veður gull, þennan daginn var gull.

 

 

Já og þennan dag líka.............. við höfum verið afar heppin með tíðarfarið í sumar og haust.

 

 

Og í lokin ein af háttvirtum músamálaráðherra búsins Lubba lubbatrúss.

Hann situr hér í heyvagninum og passar að allt fari vel fram.

 
 
 
 
 
 
 

04.12.2017 22:26

Reiðhöll og sauðfjárviðskipti.

 

Það þarf að gera fleira en að byggja og því fannst okkur stelpunum upplagt að opna smá viðskiptahorn í fjárhúsunum.

Þessi mynd er tekin eftir að fram hafa farið hrútakaup, gimbrarverslun og hrútaleigusamningar.

Allar bara nokkuð kátar en svolítið missyfjaðar enda klukkan orðin ansi margt þegar öllu var lokið.

 

 

Hér er Kristín Eir með forustuhrútinn Gísla hreppstjóra sem nú er kominn í Reykholtsdalinn.

Þar mun gripurinn vonandi kynbæta forustufjárstofninn áður en að hann kemur heim í jólafrí.

Ekkert frí er þó hjá kappanum því hann þarf að sinna eins og 2 ám áður en hann fer í herraklippinu hjá Hjalta dýralækni.

Haukur og Mummi fengu að fylgjast með en reyndar á Mummi Gísla hreppstjóra svo að hann var sem sagt leigusalinn.

 

 

 

Sauðfjárbóndinn Kristín Eir fékk að velja sér gimbur úr hópnum og vandaði sig vel við verkið.

Þrátt fyrir ,,pólustískar,, ábendingar foreldranna um að velja móbotnótta gimbur var dömunni ekki haggað.

Þessi var auðþekkjanleg og að mati dömunnar sú allra eigulegasta enda ættuð úr Borgarfirðinum.

Gimbrin er sæðingur undan Jónasi frá Miðgarði.

 
 
 

 

Enda var nú eins gott að velja vel þegar gripurinn átti að ganga uppí spari gripinn Grána.

Gráni er uppruninn í Kolbeinsstaðahreppnum meira að segja af Haukatungu kyni rétt eins og ég.

Hann hefur reynsta afar vel í Skáney og hafa þau fengið marga flotta gripi undan honum.

Snildar eintak sem vonandi á eftir að reynast vel eins og gimbrin hennar Kristínar.

Já rollukaup eru hreint ekki síðri en hestakaup.............

 
 

 

Af reiðhöllinni er það að frétta að síðasta krossviðsplatan fór á  þann 3 desember.

Þá er eftir að setja járnið á hliðarnar, plastið á þakið og hurðirnar í.

Þetta er sem sagt að verða hús.

Á þessari mynd eru Mummi og Atli að klára gaflinn og vippa upp síðustu stóru plötunum.

 

 

Sjáið þið............... dásamlegt allt að lokast.

 
 

 

Þessi vaski hópur tók á því um helgina, takið sérstaklega eftir því hvað Snotra er ánægð með verkið.

Skúli, Hrannar, Björg, Mummi, Atli, Elva , Maron og Snotra.

Takk fyrir alla hjálpina, þið eruð dásemdin ein.

 
 

24.11.2017 23:12

Svarthvítur raunveruleikinn.....

Folaldasýningunni sem vera átti í Söðulsholti á morgun hefur verið frestað.

Um leið og fréttir bárust af því var ástandið í folaldahópnum svona...........allir lágu flatir í rúllunni. 

Ég er ekki vissu hvort þungu fargi var af þeim létt við þessar fréttir nú eða hvort svekkelsið var óbærilegt.

Við mætum allavega galvösk þegar sýningin verður og sjáum til hvort gripirnir verða í kvíðakasti nú eða fullir eftirvæntingar.

 

 

Rúningi þetta árið er lokið en vaksir drengir hafa að stórum hluta séð um það þetta haustið enda feðgarnir uppteknir við smíðar.

Þarna má sjá þá Maron leggjara og Baldur rúningsmann sem reyndar náðist ekki í fókus.

 

 

Arnar Kringlubóndi mætti líka og lét verulega til sín taka enda nýkrýndur Íslandsmeistari í rúningi.

Það var svo mikið kapp í strákunum að ég varð að mæta með kaffið og bakkelsið á jötubandið.

Jóhannes á Jörfa var búinn að klippa drjúgan hluta hjá okkur áður og einnig Þórir á Brúarfossi.

Þeir náðust ekki á myndi í þetta skiptið en vonandi síðar.

 

 

Hann Hjalti dýralæknir er líka búinn að koma til okkar í sín haustverk en hann garnaveikibólusetur.

Þarna er hann að störfum með Maroni og Skúla en við setjum alltaf ormalyfið í um leið.

 

Sumum var farið að leiðast biðin eftir rúningsmönnunum en við reyndum að hafa fé úti sem lengst til að fara vel með ullina.

Hún Tálkna gamla lét nú ekkert svína á sér og laumaði sé inn og var komin undir afrúllara að gæða sér á ilmandi heyi.

Já gömlum hefðarkindum leyfist nú margt.....................

 

 

Næsta kindastúss er að koma vítamínstautunum í hópinn en það teljum við alveg ómissandi.

Nú erum við komin með þó nokkra reynslu af þeim og líkar vel.

Hrútaskráin er enn ekki komin en senn líður að þeim tíma.

Það er orðið tímabært að færa Guðrúnu frá Lundi aðeins til á náttborðinu og strjúka rykið svo að hrútaskráin fái viðeigandi móttökur.

 

 
 
 
 
 

 

 

Á þessari mynd er forustuhrútur undan Pálinu og honum Bauta.

Þessi gripur varð til eftir ferðalag Pálinu niður í Mýrdal þar sem að Bauti tók á móti selskapsdömum.

Mér finnst vel við hæfi að kalla hann Gísla nú eða bara Hreppstjórann.

 

 

Gimbrin á móti honum er svolítið til baka og myndaðist því ekki eins vel.

 

 

Spennustigið í fjárhúsunum fer stig vaxandi með hverjum deginum.

Hér er hann Salómon sparihrútur sem er í miklu uppáhaldi hjá húsfreyjunni en á það til að vera forhertur við aðra.

Honum hlakkar svo til ,,jólanna,, að hann bara varð að berjast til blóðs við vini sína og félaga hina hrútana.

 

Ég hef ekki farið varhluta af æðinu sem gengur nú um netheima þar sem fólk á að birta svarthvítar myndir eins og enginn sé morgundagurinn.

Þar sem að ég er ekki meiri tækni manneskja en ég þarf hef ég bara birt eina verulega svarthvíta mynd.

Myndina birti ég á fésbókarsíðunni minni en í framhaldi af því birti Skessuhorn myndina til gamans.

Hér fyrir neðan er tengill á síðu Skessuhorns ef að þið viljið sjá myndina.

Svarthvít er hún í það minnsta................

https://skessuhorn.is/2017/11/23/besta-svarthvita-myndin/

 

 

 

 
 
 

22.11.2017 22:02

Hitt og líka þetta.

 

Þegar veturinn er mættur og vindurinn hvín þá er gott að skoða hestamyndir og láta sig dreyma.

Þessi mynd er tekin á fallegum sumardegi þegar stóðið varð á vegi okkar suður á Hafurstöðum.

Eins og þið sjáið þá er þetta efri og neðrið deild (hesta) þingsins og glöggir sjá væntanlega þingforsetann hér til hægri á myndinni.

Málin sem til afgreiðslu eru fjalla flest um grænt gras og engar girðingar en þó er fækkun vinnustunda líka til umræðu.

Á þessu þingi eru flestir sammála og það er sjaldan kosið.

Nú er spenningurinn fyrir því að taka inn og byrja að ríða út farinn að magnast töluvert en við ætlum að ná að loka reiðhöllinni áður en við tökum fleiri hross inn.

Já vel á minnst ég ætlaði að vera mikið duglegri við að setja inn fréttir en einhvern veginn er tíminn eitthvað af skornum skammti þetta haustið. Skrítið eða ekki.

 

 

Þarna er síðasta þakplatan að fara á en það gerðist þann 12 nóvember s.l

Síðan hefur verið gengið frá þakinu og aðeins byrjað að setja krossiðinn á hliðarnar en veðrið hefur aðeins hamlað.

Vonandi verður veðrið gott um helgina svo að við getur drifið hliðarnar á.

Eins og þið sjáið þá voru við svo ljónheppin að fá allt þetta dásamlega fólk til að hjálpa okkur.

 

 

Við fengum meira að segja gesti frá Danmörku líka, reiðhöllin verður tilbúin þegar þau koma næst.

Og þá er ekkert annað en taka reiðtúr og prófa mannvirkið.

 

 

Stund milli stríða í þaksmíðinni, Gísli, Albert og Hrannar.

 

 

Það hefur oft verið þétt setið hjá okkur í haust og mikið erum við þakklát fyrir það.

 

 

 

Gestur á Kaldárbakka og Dóri í Söðulsholti aðeins að slaka á eftir fjörið.

 

 

Einar á Lambastöðum er heldur bestur búinn að hjálpa okkur í jarðvinnslunni.

Þarna eru hann og SKúli í seinna kaffinu.

 

 

Þóranna kom og tók heldur betur til hendinni, frábært að fá eina svona í eldhúsið.

Já og svo fór hún líka í girðingavinnu.

 

 

En það þarf að gera fleira en að byggja já það er eins gott að eiga eitthvað staðgott í frystikistunni.

Þessi vaska sveit kom og við gerðum slátur eina helgina.

Heil 20 slátur og allir hressir og kátir bæði á meðan aðal atið fór fram og ekki síður þegar það var búið.

Það var meira að segja ein daman sem saumaði vambir af miklum móð með þessar líka fínu gervinegglur.

Nei, nei það var ekki ég ..................

 

 

Það getur tekið á að stússa í slátri og þá er bara gott að kúra hjá mömmunni.

 

 

Þessi var annars hress og kát og hafði það kósý með Lóu frænku sinni.

 

 

Það er heldur betur gott að eiga hana Stellu að en hún kemur alltaf og hjálpar til þegar mikið liggur við.

Þarna er hún með litlu ömmuskottunni sinni.

 

 

Um kvöldið var svo tékkað á slátrinu og hátt í 20 manns tóku út verkið.

Eins og þessi mynd sýnir þá heppnaðist það bara vel og allir kátir.

Sveinbjörn og Einar spjalla eftir slátur smökkunina.

 

 

Já það var fjör í sláturpartýinu þarna eru tveir dalamenn á tali............... Einar og Hjörtur.

 

 

Þegar kemur að úrbeiningu eru þessar algjörlega ómissandi og hafa verið lengi.

Já þær eru æviráðnar og bara búnar að koma í vel á annan tug skipta.

Ég mundi halda að þær ættu a.m.k 50 skipti eftir.

Það er mikið búið þegar slátur og kjötvesen er frá í sveitinni.

Hvenær haldið þið að jólin komi nú ????

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

07.11.2017 23:16

Og það kom logn..............

 

Þriðjudagurinn 7 nóvember heilsaði kaldur en fagur, þetta var einmitt dagurinn til að byrja að setja járnið á þakið.

Það var að vísu dálítið hált á þakinu en mannskapurinn fór varlega og allt gekk vel.

Eins og svo oft áður fengum við frábæra aðstoðarmenn með okkur í atið.

Verkinu miðaði nokkuð vel m.v aðstæður í dag en ljóst er að þetta tekur tíma og því gott að eiga ólofthrædda vini sem leggja okkur lið.

Veðurspáin framundan er þokkaleg en ljóst er að ekki má miklu muna.

 

 

Mummi, Skúli og Hrannar að leggja fyrstu plöturnar á þakið.

 

 

Það er ekki amalegt að hafa ,,hreppstjórann,, okkar með en hann mætti galvaskur í morgun.

 

 

 

Og Gestur á Kaldárbakka kom með liðléttinginn sinn og það skal ég segja ykkur að það munar um þá rétt eins og hreppsstjórann.

 

 

Rafvirkinn mættur og  þá er bara að taka gæða stund eftir kvöldmatinn.

 

 

Þessi mynd hér að ofan er tekinn þann 28 október s.l en þá var tekið á því og þakið þétt klætt.

Atli og Elva mættu úr Ólafsvíkinni og Brá var í helgarfríi.

 

 

Þarna eru þeir feðgar Skúli og Mummi og einnig Atli að ferja timbrið upp á þak.

 

 

Staðan tekin.............

 

 

Brá og Elva tóku á því og umstöfluðu mörgum tímburbúntum og gerðu klár fyrir þakið.

 

Já alltaf líf og fjör í Hlíðinni læt að gamni fylgja með tengilinn á Skessuhorn en blaðamaður frá Skessuhorni kom í heimsókn til okkar og tók við okkur viðtal.

http://skessuhorn.is/2017/11/01/mikil-uppbygging-gangi-hallkelsstadahlid/

 

 
 
 
 
 
 
 

 

 

 

24.10.2017 22:12

Og áfram skal haldið..................

Nú er að koma mynd á reiðhöllina og á hverjum degi færumst við nær takmarkinu.

Strákarnir hafa verið að smella upp sperrum og langböndum af miklum krafti.

Veðrið hefur verið hreint ótrúlegt m.v árstíma og verið okkur afar hliðhollt.

Það er ekki sjálfgefið að vinna úti í hlýjindum og blíðu dag eftir dag og komið fram í lok október.

 

 

Mummi, Skúli og Maron hafa verið iðnir við á milli þess sem rokið hefur verið í smalamennskur og fjárrag.

Hrannar bættist svo í hópinn í gær, svo nú eru þeir kappar í miklum byggingaham.

 

 

Stund milli stríða feðgarnir brosleitir en Hrannar horfir bara til himins.

 

 

Allt að koma..............

 

 

Þeir eru svolítið hátt uppi þessir.

 

 

Ég verð nú að setja inn fréttir af sauðfé og hrossum fljóttlega en það hefur verið alveg út undan að undanförnu.