Færslur: 2009 Ágúst

03.08.2009 22:05

Það gerist margt í sveitinni...........



Rakst á Mumma og Riddara í reiðtúr og smellti af þeim mynd.

Jæja þá er þessi ferðahelgi búin og flestir þeir sem að lögðu land undir fót komnir heim eða á leiðinni heim. Afrek mín í ferðalögum og útihátíðum voru nú ekki mikil eða stór þetta árið. En helgin var samt alveg ljómandi góð. Smá bíltúr inní Stykkishólm þar sem að ferðafélagar mínir héðan úr Hlíðinni spiluðu golf með góðum vinum. Grillveisla í Hraunbrúninni og góðir gestir heima fyrir. Hestarnir voru í fríi frá föstudegi þar til í dag og voru örugglega bara sáttir með það.


Hinsvegar tóku túnrollurnar sem að eru sérstakir aðdáendur fóðurkálsins sem á að bítast í haust sér ekkert helgarfrí. Ég verð nú að játa að þær eru farnar að rífa í þolinmæði húsfreyjunnar sem jafnvel hefur hugsað þeim þegjandi þörfina og hugleitt rótækar aðgerðir til að losa sig við fénaðinn. Það versta er að upprennandi kynbótahrútur búsins Sindri nokkur er meðal þessara vandræða gripa svo að aðgerðunum verður sennilega stillt mjög í hóf.  Eins og áður hefur komið fram þá er kynbótahrúturinn Sindri Kveiksson í miklu uppáhaldi hjá mér eða var það allavega í vor. Spurning um framhaldið ef að kálið verður allt búið þegar að sláturlömbin koma úr fjallinu og eiga að fara að gæða sér á því.
Það er ekki nóg með að allt sé að skrælna heldur ofsækja forhertar túnrollur þessa vesælu uppskeru.

Sparisjóður varð fyrir nýrri lífsreynslu um helgina. Hann hefur lifað frekar áhyggjulausu lífi í girðingunni sinni í allt sumar og fyrrasumar líka. En á sunnudagsmorgun lifnaði nú heldur betur yfir hversdagsleikanum hjá honum og hans spússum sem halda honum félagsskap í girðingunni. Hún Sjaldséð mín þriggja vetra gelgja ákvað nefninlega að nú væri komin tími til að breggða sér heim í tún. Til þess að komast þangað þurfti hún að svamla langt útí Hlíðarvatn og koma sér fram fyrir girðinguna sem er girt langt út í vatn. Þegar hún var komin heim í tún lét hún ekki þar við sitja heldur ákvað að smella sér í heimsókn yfir næstu girðingu og inn til Sparisjóðs. Hann hefur verið í þessari rafmagnsgirðingu og ekki látið sér detta í hug að stökkva út þó svo að stórir hestahópar stundum 100 hross hafi farið hér hjá.
En Sjaldséð ákvað að láta vaða og stökk á girðinguna og inn komst hún. Nú eru örugglega allir sem að þetta lesa vissir um að hún hafi gert þetta til að fá þjónustu hjá höfðingjanum en svo var nú aldeilis ekki. Þegar að hann sá nýja dömu hugsaði hann sér gott til glóðarinnar og byrjaði að smala hópnum saman og var sannfærður um að sú nýja yrði yfir sig hrifin og samvinnuþýð. Það var nú öðru nær og skemmst frá því að segja að fjölmennt lið kom höfðingjanum til hjálpar og losaði hann við þetta ofbeldisfulla ,,glæpakvendi,,
Sjaldséð hefur sennilega ekki tímasett þessa heimsókn nægilega vel eða haldið að þetta innbrot tæki lengri tíma. Allavega voru ástaratlot henni afar fjarlæg ..........................
Vettvangur þessa innbrots var við hliðina á tjaldstæðunum okkar og voru því margir áhorfendur sem að fylgdust spenntir með framgangi mála.