Færslur: 2017 Nóvember

24.11.2017 23:12

Svarthvítur raunveruleikinn.....

Folaldasýningunni sem vera átti í Söðulsholti á morgun hefur verið frestað.

Um leið og fréttir bárust af því var ástandið í folaldahópnum svona...........allir lágu flatir í rúllunni. 

Ég er ekki vissu hvort þungu fargi var af þeim létt við þessar fréttir nú eða hvort svekkelsið var óbærilegt.

Við mætum allavega galvösk þegar sýningin verður og sjáum til hvort gripirnir verða í kvíðakasti nú eða fullir eftirvæntingar.

 

 

Rúningi þetta árið er lokið en vaksir drengir hafa að stórum hluta séð um það þetta haustið enda feðgarnir uppteknir við smíðar.

Þarna má sjá þá Maron leggjara og Baldur rúningsmann sem reyndar náðist ekki í fókus.

 

 

Arnar Kringlubóndi mætti líka og lét verulega til sín taka enda nýkrýndur Íslandsmeistari í rúningi.

Það var svo mikið kapp í strákunum að ég varð að mæta með kaffið og bakkelsið á jötubandið.

Jóhannes á Jörfa var búinn að klippa drjúgan hluta hjá okkur áður og einnig Þórir á Brúarfossi.

Þeir náðust ekki á myndi í þetta skiptið en vonandi síðar.

 

 

Hann Hjalti dýralæknir er líka búinn að koma til okkar í sín haustverk en hann garnaveikibólusetur.

Þarna er hann að störfum með Maroni og Skúla en við setjum alltaf ormalyfið í um leið.

 

Sumum var farið að leiðast biðin eftir rúningsmönnunum en við reyndum að hafa fé úti sem lengst til að fara vel með ullina.

Hún Tálkna gamla lét nú ekkert svína á sér og laumaði sé inn og var komin undir afrúllara að gæða sér á ilmandi heyi.

Já gömlum hefðarkindum leyfist nú margt.....................

 

 

Næsta kindastúss er að koma vítamínstautunum í hópinn en það teljum við alveg ómissandi.

Nú erum við komin með þó nokkra reynslu af þeim og líkar vel.

Hrútaskráin er enn ekki komin en senn líður að þeim tíma.

Það er orðið tímabært að færa Guðrúnu frá Lundi aðeins til á náttborðinu og strjúka rykið svo að hrútaskráin fái viðeigandi móttökur.

 

 
 
 
 
 

 

 

Á þessari mynd er forustuhrútur undan Pálinu og honum Bauta.

Þessi gripur varð til eftir ferðalag Pálinu niður í Mýrdal þar sem að Bauti tók á móti selskapsdömum.

Mér finnst vel við hæfi að kalla hann Gísla nú eða bara Hreppstjórann.

 

 

Gimbrin á móti honum er svolítið til baka og myndaðist því ekki eins vel.

 

 

Spennustigið í fjárhúsunum fer stig vaxandi með hverjum deginum.

Hér er hann Salómon sparihrútur sem er í miklu uppáhaldi hjá húsfreyjunni en á það til að vera forhertur við aðra.

Honum hlakkar svo til ,,jólanna,, að hann bara varð að berjast til blóðs við vini sína og félaga hina hrútana.

 

Ég hef ekki farið varhluta af æðinu sem gengur nú um netheima þar sem fólk á að birta svarthvítar myndir eins og enginn sé morgundagurinn.

Þar sem að ég er ekki meiri tækni manneskja en ég þarf hef ég bara birt eina verulega svarthvíta mynd.

Myndina birti ég á fésbókarsíðunni minni en í framhaldi af því birti Skessuhorn myndina til gamans.

Hér fyrir neðan er tengill á síðu Skessuhorns ef að þið viljið sjá myndina.

Svarthvít er hún í það minnsta................

https://skessuhorn.is/2017/11/23/besta-svarthvita-myndin/

 

 

 

 
 
 

22.11.2017 22:02

Hitt og líka þetta.

 

Þegar veturinn er mættur og vindurinn hvín þá er gott að skoða hestamyndir og láta sig dreyma.

Þessi mynd er tekin á fallegum sumardegi þegar stóðið varð á vegi okkar suður á Hafurstöðum.

Eins og þið sjáið þá er þetta efri og neðrið deild (hesta) þingsins og glöggir sjá væntanlega þingforsetann hér til hægri á myndinni.

Málin sem til afgreiðslu eru fjalla flest um grænt gras og engar girðingar en þó er fækkun vinnustunda líka til umræðu.

Á þessu þingi eru flestir sammála og það er sjaldan kosið.

Nú er spenningurinn fyrir því að taka inn og byrja að ríða út farinn að magnast töluvert en við ætlum að ná að loka reiðhöllinni áður en við tökum fleiri hross inn.

Já vel á minnst ég ætlaði að vera mikið duglegri við að setja inn fréttir en einhvern veginn er tíminn eitthvað af skornum skammti þetta haustið. Skrítið eða ekki.

 

 

Þarna er síðasta þakplatan að fara á en það gerðist þann 12 nóvember s.l

Síðan hefur verið gengið frá þakinu og aðeins byrjað að setja krossiðinn á hliðarnar en veðrið hefur aðeins hamlað.

Vonandi verður veðrið gott um helgina svo að við getur drifið hliðarnar á.

Eins og þið sjáið þá voru við svo ljónheppin að fá allt þetta dásamlega fólk til að hjálpa okkur.

 

 

Við fengum meira að segja gesti frá Danmörku líka, reiðhöllin verður tilbúin þegar þau koma næst.

Og þá er ekkert annað en taka reiðtúr og prófa mannvirkið.

 

 

Stund milli stríða í þaksmíðinni, Gísli, Albert og Hrannar.

 

 

Það hefur oft verið þétt setið hjá okkur í haust og mikið erum við þakklát fyrir það.

 

 

 

Gestur á Kaldárbakka og Dóri í Söðulsholti aðeins að slaka á eftir fjörið.

 

 

Einar á Lambastöðum er heldur bestur búinn að hjálpa okkur í jarðvinnslunni.

Þarna eru hann og SKúli í seinna kaffinu.

 

 

Þóranna kom og tók heldur betur til hendinni, frábært að fá eina svona í eldhúsið.

Já og svo fór hún líka í girðingavinnu.

 

 

En það þarf að gera fleira en að byggja já það er eins gott að eiga eitthvað staðgott í frystikistunni.

Þessi vaska sveit kom og við gerðum slátur eina helgina.

Heil 20 slátur og allir hressir og kátir bæði á meðan aðal atið fór fram og ekki síður þegar það var búið.

Það var meira að segja ein daman sem saumaði vambir af miklum móð með þessar líka fínu gervinegglur.

Nei, nei það var ekki ég ..................

 

 

Það getur tekið á að stússa í slátri og þá er bara gott að kúra hjá mömmunni.

 

 

Þessi var annars hress og kát og hafði það kósý með Lóu frænku sinni.

 

 

Það er heldur betur gott að eiga hana Stellu að en hún kemur alltaf og hjálpar til þegar mikið liggur við.

Þarna er hún með litlu ömmuskottunni sinni.

 

 

Um kvöldið var svo tékkað á slátrinu og hátt í 20 manns tóku út verkið.

Eins og þessi mynd sýnir þá heppnaðist það bara vel og allir kátir.

Sveinbjörn og Einar spjalla eftir slátur smökkunina.

 

 

Já það var fjör í sláturpartýinu þarna eru tveir dalamenn á tali............... Einar og Hjörtur.

 

 

Þegar kemur að úrbeiningu eru þessar algjörlega ómissandi og hafa verið lengi.

Já þær eru æviráðnar og bara búnar að koma í vel á annan tug skipta.

Ég mundi halda að þær ættu a.m.k 50 skipti eftir.

Það er mikið búið þegar slátur og kjötvesen er frá í sveitinni.

Hvenær haldið þið að jólin komi nú ????

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

07.11.2017 23:16

Og það kom logn..............

 

Þriðjudagurinn 7 nóvember heilsaði kaldur en fagur, þetta var einmitt dagurinn til að byrja að setja járnið á þakið.

Það var að vísu dálítið hált á þakinu en mannskapurinn fór varlega og allt gekk vel.

Eins og svo oft áður fengum við frábæra aðstoðarmenn með okkur í atið.

Verkinu miðaði nokkuð vel m.v aðstæður í dag en ljóst er að þetta tekur tíma og því gott að eiga ólofthrædda vini sem leggja okkur lið.

Veðurspáin framundan er þokkaleg en ljóst er að ekki má miklu muna.

 

 

Mummi, Skúli og Hrannar að leggja fyrstu plöturnar á þakið.

 

 

Það er ekki amalegt að hafa ,,hreppstjórann,, okkar með en hann mætti galvaskur í morgun.

 

 

 

Og Gestur á Kaldárbakka kom með liðléttinginn sinn og það skal ég segja ykkur að það munar um þá rétt eins og hreppsstjórann.

 

 

Rafvirkinn mættur og  þá er bara að taka gæða stund eftir kvöldmatinn.

 

 

Þessi mynd hér að ofan er tekinn þann 28 október s.l en þá var tekið á því og þakið þétt klætt.

Atli og Elva mættu úr Ólafsvíkinni og Brá var í helgarfríi.

 

 

Þarna eru þeir feðgar Skúli og Mummi og einnig Atli að ferja timbrið upp á þak.

 

 

Staðan tekin.............

 

 

Brá og Elva tóku á því og umstöfluðu mörgum tímburbúntum og gerðu klár fyrir þakið.

 

Já alltaf líf og fjör í Hlíðinni læt að gamni fylgja með tengilinn á Skessuhorn en blaðamaður frá Skessuhorni kom í heimsókn til okkar og tók við okkur viðtal.

http://skessuhorn.is/2017/11/01/mikil-uppbygging-gangi-hallkelsstadahlid/

 

 
 
 
 
 
 
 

 

 

 
  • 1