Færslur: 2012 Apríl

29.04.2012 22:32

Lóan er komin að kveða.......



Nú er tíminn sem ég fer að hugsa um folöld og velta fyrir mér hvað hver hryssa komi með í vor. Stundum rætast óskirnar og stundum ekki en allt er þetta spennandi og góð afþreying fyrir hestadellufólk.
Myndin hér fyrir ofan er af henni Rák frá Hallkelsstaðahlíð sem er undan Trillu og Stæl frá Miðkoti. Hún á dekkra folaldið sem er Brák Piltsdóttir hitt folaldið er Andri sonur Hlyns frá Lambastöðum og Tryggðar frá Hallkelssstaðahlíð.

Dagurinn var góður, frábært vorveður og eftir rigningu gærdagsins er allt að verða grænt.
Já allt er vænt sem vel er grænt...........nema........nei nei ekki vera leiðinleg.
Góðir gestir komu við í hesthúsinu og heilsuðu uppá okkur, bara gaman.

Útigöngukindin góða Lambabamba bara stærðarinnar gimur í gærmorgun. Þrátt fyrir hvað hún leit vel út þegar hún kom af fjalli fyrir stuttu síðan er ljóst að eitthvað hefur klikkað í fengitímafóðrinu því að hún var einlemd.

Fuglakórinn verður betur skipaður með hverjum deginum og sífellt bætast nýjar raddir við.
Lóan, hrossagaukurinn, stelkurinn, tjaldurinn og fleiri og fleiri komnir í Hlíðina.
Er ekki bara komið sumar???

27.04.2012 14:37

Gamalt og gott



Að fara í gegnum gamlar myndir er ódýr og góð skemmtun en það hef ég einmitt verið að gera að undanförnu. Smelli hér inn nokkrum sýnishornum sem ég rakst á við þá yfirferð.

Myndin hér að ofan er af Sveinbirni nokkrum Hallssyni og Jóel bónda á Bíldhóli, þarna eru þeir í brekkunni á Nesoddamóti. Það er að sjá þeir hafi skemmt sér afar vel.


Þessi er aftur á móti tekin á árshátíð Hestamannafélagsins Glaðs í Búðardal. Þarna eru þeir Jón Gíslason frá Mýrdal (Jón Mýri) og Kjartan bóndi á Dunki. Reffilegir að vanda og ekki voru þessar árshátíðir þeirra dalamanna neitt slor enda er þeirra sárt saknað.



Þá er það þorrablót í Lindartungu þau heppnast yfirleitt með glæsibrag og eru afar eftirsótt.
Á þessari mynd má sjá Sigurð bónda í Hraunholtum taka snarpan vinstri snúning, Ásberg í Hraunholtum, Gísli hreppsstjóri og ýmsir fleiri tjútta svo af miklum móði.



Þarna er svo ein af ,,hljómsveitum húsins,, sem spilaði annað hvort á boðsballi eða þorrablóti í Lindartungu.
Sigvaldi Fjeldsted í Ásbrún, Steinunn Pálsdóttir frá Álftártungu, Skúli bóndi og Sigurður Axel sem þá bjó á Hvanneyri.



Göngudagur fjölksyldunnar var árviss viðburður sennilega er þessi mynd tekin á einum slíkum. F.v Sigurbergur Pálsson frá Haukatungu, Guðmundur Halldórsson, Syðri-Rauðamel og Steinar Guðbrandsson frá Tröð. Eins og þið sjáið var það Guðmundur sem sá um leiðsögnina og að allt færi vel fram enda var þarna verið að ganga uppá Rauðukúluna.


Þá eru það myndir úr Kaldárbakkarétt, hér eru þau Sesselja í Hraunholtum og Guðmundur á Rauðamel að spjalla í blíðunni.


Það gerðu líka nágrannarnir Páll Júlíusson í Hítarnesi og Jónas Jóhannesson á Jörfa.



Á þessari mynd eru f.v Páll í Hítarnesi,  Júlíus Jónsson, Jón Júlíusson, Áslaug Sveinsdóttir og Sævar Úlfarsson.

Já það er gaman að skoða í gamla myndakassa.

26.04.2012 21:40

Aprílat



Þessi flotta frænka mín kom í afmæliskaffi til mín um daginn, þarna er hún hugfangin að hlusta á húsbóndann spila á gítar.



Og svo var komið að gríninu og þá var hlegið svo að skein í flottu nýju ,,vinnukonurnar,,
Já Fríða María var hress og kát þegar hún kom í sína fyrstu heimsókn í sveitina, verst að hafa ekki myndað Svandísi Sif þegar hún var á ferðinni fyrir stuttu síðan.
Gaman að nýju hlutverkunum mínum ,,móðursystir,, og ,,föðursystir,,

Nú er blíða hér í Hlíðinni alvöru vorveður, allavega þessa stundina hlýtt, súld og sæla.
Galvaskar sauðburðarkonur mættar á svæðið og allir farnir að telja niður í átt að sauðburði.
Annars fer sauðburðurinn ekki vel af stað fjögur lömb fædd og tvö af þeim dauð.
En er ekki fall fararheill ???

Í gær var brunað í Dalina Lambastaðastóð skoðað, ormahreinsað og fótsnyrt. Síðan fórum við að Kringlu en þar áttum við vonandi gæðingsefni undan Baldursdótturinni Dimmu frá Kringlu og Sporði frá Bergi. Það er bleikálóttur hestur sem enn hefur ekki hlotið nafn en málið er í vinnslu. Já það er alltaf gaman að koma í dalina en kvöldið dugði okkur ekki til að koma við á öllum þeim stöðum sem við ætluðum. Verðum að gera aðra tilraun fljóttlega.



20.04.2012 20:17

Skeifukeppnin 2012



Árleg skeifukeppni fór fram á Miðfossum í gær og lauk með miklu kaffisamsæti á Hvanneyri.
Þessi mynd er tekin við það tækifæri en þarna eru reiðkennarar Landbúnaðarháskólans þau Randi Holaker og Haukur Bjarnason á Skáney að taka við þakklætisvotti frá nemendum skólans. Það var hann Einar fulltrúi nemenda sem að afhennti þeim blóminn.
Það var ekki létt verk fyrir þau að taka við kennslunni af meistaranum Reyni Aðalsteinssyni sem lést fyrr á þessu ári. Ég hef tekið þátt í dómstörfum á skeifukeppni um árabil og saknaði þess samstarfs sem ég hef átt við Reynir á þeim vettvangi svo og samstarfi við hann varðandi Félag tamningamanna. Eflaust hefur Reynir fylgst með öllu sem fram fór á Miðfossum þennan dag og mikið má hann vera ánægðum með sitt fólk sem kom að því að gera þennan dag svona ánægjulegan. Gunnar sonur hans stjórnaði dagskránni, Jónína eiginkona hans sá um að kaffisamsætið var glæsilegt og aðrir fjölskyldumeðlimir hjálpuðu til við að gera daginn eftirmynnilegan og í anda Reynis.
Minning Reynis lifir og er okkur öllum kvattning í hestamennskunni.
Nemendurnir báru þeim Hauki og Randi góðan vitnisburð og var gaman að sjá hversu mikill metnaður var lagður í þau atriði sem fram komu.
Góðir reiðkennarar sem leggja alúð og mettnað í að leiðbeina nemendum sínum.



Þessar dömur áttu góðan dag og hirtu verðlaunin góðu.



Svala Guðmundsdóttir (Guðmundar Sveinssonar Guðmundssonar) frá Sauðárkróki sópaði til sín verðlaunum. Góður reiðmaður sem á framtíðina fyrir sér og mikið hlýtur nú afi að vera stoltur af stelpunni.
Á þessari mynd er hún með kærastanum Guðmundi Ólafssyni. Guðmundur átti skemmtilega sýningu í keppninni um Reynisbikarinn en þar keppni hann á gæðingsefninu Gusti frá Lundum. Gustur er undan gæðingnum Auði frá Lundum og Lipurtá frá Lundum.



Félag tamningamanna veitir verðlaun þeim sem þykir skara fram úr fyrir ásetu og reiðmennsku í skeifukeppninni. Hart var barist þetta árið og voru einungis brot sem að skildu að þau tvö sem efst stóðu en Svala sigraði og var sannarlega vel að því komin.



Þeir fjölmörgu sem stundað hafa nám í reiðmanninum voru verðlaunaðir við sama tækifæri.
Þarna eru þrír Borgfirðingar að taka á móti sínum verðlaunum, Guðmundur á Sámstöðum, Sigurður Oddur á Oddsstöðum og Bergur í Eskiholti.
Það var kennarinn Heimir Gunnarsson sem veitti þeim viðurkenningarnar.

Skemmtilegur dagur, góðir hestar og flottir knapar, svona eiga dagar að vera.

15.04.2012 22:05

Smá sýnishorn



Það var sumar í Hlíðinni þennan daginn sem að bæði mönnum og skepnum líkaði vel.
Stóðið flatmagaði en varði þó drjúgum tíma í að kanna hvort grænu stráunum færi ekki ört fjölgandi.
Rúllurnar verða óspennandi í þeirra huga um leið og grænar nálar fara að gæjast upp úr jörðinni.

Eins og vera ber á þessum tíma er líflegt í hesthúsinu og vinnudagarnir langir í þeim geira.
Erfitt er að gera uppá milli og velja fyrirmyndarhesta þessa dagana en í dag var það örugglega hann Krapi sem hafið vinninginn.

Það styttist ,,óhugnarlega,, í sauðburð og listinn sem heldur utan um verkefnin sem eiga að vera búin fyrir hann er eins og ofvaxinn bandormur. En þar sem ég bæði vona og trúi að vorið verði frábært þá er þetta allt í fínu lagi.

03.04.2012 21:31

Stórfréttir eða þannig......



Þessi mynd er tekin á aðalfundi Hestamannafélagsins Snæfellings sem haldinn var fyrir stuttu.
Á fundinum voru heiðraðir nokkrir félagsmenn fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
F.v Gunnar Sturluson formaður Snæfellings, sem veitti viðurkenningarnar, Leifur Kr Jóhannesson, Tryggvi Gunnarsson, Högni Bæringsson, Hildibrandur Bjarnason, Sesselja Þorsteinsdóttir, Ragnar Hallsson, Gunnar Kristjánsson, á myndina vantar Bjarna Alexandersson.
Innilega til hamingju heiðursfólk.



Þessir kappar voru ánægðir með kvöldið og hafa vafalaust getað rifjað upp eitthvað skemmtilegt frá gömlum Kaldármelaárum.

Eins og þið hafið tekið eftir þá hef ég verið löt við skriftir síðustu vikurnar og kemur þar margt til en aðallega leti. Nú er að taka sig á og segja ykkur margar nýjar fréttir því ekki hefur verið tíðindalaust hér í Hlíðinni.
Letin gekk svo langt að ég meira að segja laug engu hér á síðunni þann 1 apríl. Ég hefði samt getað sett inn frétt þann daginn sem að fáir hefðu trúað. Það var nefninlega þann daginn sem að ég fékk það staðfest að ég væri búin að vera ,,fótbrotin,, í eitt og hálft ár. En eins og læknirinn sagði mér þá get ég ekkert gert ekki einu sinni búist við vorkun því þetta gerðist fyrir svo löngu síðan.  Og þar sem ég er nú enginn léttavarningur þá hefur þetta verið ágætis prófraun á styrkinn í leggnum og sársaukamörkin.
Ekkert væl og  nú er bara að smella sér í gifsi ef að minnsti vafi leikur á heilbrigði.

Sauðburður hófst hér þann 31 mars en þá bara tvílemba og tveimur dögum seinna einlemba.
Alltaf gaman að fá páskalömb og vorboða í fjárhúsin.



Síðustu daga hef ég heyrt svona með öðru eyranu auglýsingu í útvarpinu sem segir ,,Taktu þátt í páskaævintýri Freyju,, og sú varð raunin eitt kvöldið. En það ævintýri var ekki í boði sælgætisgerðarinnar Freyju, ónei heldur var það í boði okkar einu sönnu smala Freyju.
Ég sat fyrir framan tölvuna og las stóðhestaauglýsingar af miklum móð þegar friðurinn var skyndilega rofinn með gellti í hundunum og háværum öskrum í húsbóndanum.
Ég leit upp og hugsaði hver ands....  gengur á ??? Ætlaði svo að halda skoðunarferðinni í Stóðhestalandi áfram en þá byrja lætin fyrir alvöru. Ég heyri fjórhjólið fara í gang og tætast af stað með meiri látum en nokkur sinni fyrr. Það kvein í hjólinu, kallinn öskraði og hundarnir gjörsamlega brjáluðust.
Á næsta augnabliki............HVAR ER SAL'OMON????????
Ég rauk út og var í huganum búin að útrýma a.m.k hundastofninum áður en ég komst fyrir húshornið til að kanna hvað gengi á.
Það næsta sem ég sá var að Freyja og Skúli stigu villtan stríðsdans upp með læk og voru greinilega búin að stilla saman strengi og spiluðu kappleik í sama liði.
Mér létti heilmikið því ég var sannfærð um að ef kappleikurinn væri um Salómon þá væru þau ekki samherjar. Eftir stutta stund komu þau til baka og mátti ekki á milli sjá hvort þeirra var stoltara Freyja eða Skúli.....................Freyja reyndar með tannaför á nefinu en ekki Skúli.
Ófeigur og Þorri höfðu reyndar barist við óvininn alveg þangað til Skúli og fjórhjólið komu á vettvang. (Þá hættu þeir þar sem hávaðinn var kominn yfir hættumörk). En þegar þau komu heim fögnuðu þeir ákaft og voru sannfærðir um að þeirra þáttur hefði að minnsta kosti gert það að verkum að minkurinn varð ekki eldri.
Freyja hefur aftur á móti lengt vinnuheitið sitt sem núna er smalafjárminnkaveiðihundur.



Þann 4 apríl verður svo þessi höfðingi 13 ára sem sagt 13x7=91 árs geri aðrir betur.
Svo ungur og sætur ennþá þessi elska og svaf vært í sófanum þegar bardaginn mikli fór fram.
Enda eins gott.

  • 1