Færslur: 2013 Janúar

31.01.2013 23:09

Þetta er nú bara án tiltils
Góður dagur með skemmtilegum hestum og ágætis veðri, yfir hverju getur maður þá kvartað?

Það er ýmislegt framundan sem vert er að huga að svo sem hundahittingur, þorrablót og folaldasýning. Að ógleymdum öllum mótunum sem vonandi svala keppnisþrá hestamanna eftir bestu getu. Það hefði svo sem verið gaman að smella sér í Ölfushöllina og sjá fyrsta mót vetrarins sem haldið var þar í kvöld. En við sem eigum svona langt að fara bíðum bara spennt eftir því að Samúel Örn komi með sýnishorn á RUV.

En við þyrftum nú líka að bruna í Skagafjörðinn við tækifæri og líta á Astrid og hestana sem hún fór með norður eftir áramótin. Gaman að sjá hvernig gengur hjá dömunni.
Astrid fór með Fáséð mína Baugs og Óðinn Sólons sem er í eigu þeirra Lambastaðabænda.

Enn finn ég skondnar myndir í gömlum kössum........................................svona vorum við nágrannakellurnar ,,virðulegar,, þegar við hittum bekkjarfélaga okkar fyrir nokkrum árum. Bannað að hlæja :)
Ég á samt ennþá nokkrar gamlar myndir sem ég veit að þið munið hlæja að ef að ég hef einhverntíman kjark til að setja þær hér inn:) Já hárgreiðslurnar eldast misvel og spurning hvenær tímabært er að dusta rykið af permómyndunum:)27.01.2013 22:20

Það blæsVindurinn hvín svo á glugganum núna að ekki veitir af sumarlegri folaldamynd til að hressa sig við.

Annars hefur veðrið verði svo gott að undanförnu að maður hefur á köflum haldið að frekar væri apríl en janúar. Nema auðvita birtan hún segir okkur alveg satt um árstímann.
Skemmtilegir reiðtúrar með inni tamningum í bland hefur verði koktellinn að undanförnu.
Meðalaldurinn í hesthúsinu hefur örlítið hækkað og hafa nokkrar breytingar farið fram.

Folöldin hafa öll verið tekin undan og bíða þess nú að fá klippingu og aðra lágmarks þjónustu.
Það er ekki bara ég sem þarf að snyrta mig fyrir þarnæstu helgi, ó nei folöldin líka.
Já það er sem sagt komið að folaldasýningu og þorrablóti sem bæði fara fram aðra helgi.

Mummi var með reiðnámskeið í Söðulsholti um helgina, skemmtilegur hópur og góðir nemendur. Allavega var það lúinn hópur sem kom hér heim á kvöldin en að sama skapi mjög morgunhress þegar brunað var á námskeiðið að morgni.Þessi hjú voru meðal nemenda og voru bara nokkuð kát hvort með annað eins og alltaf.
Verða orðin ,,keppnis,, saman í næstu ferð á Löngufjörur.

Það er fjör á öllum vígstöðum og í kvöld þegar húsfreyjan var að elda sunnudagslærið (með tilþrifum) mætti hreppstjórinn okkar með ,,fundiðfé,, sem hafið komið sem  ,,lausafé,, í fjallið  fyrir ofan hann. 
Núna er Slæða gamla og tvílembingarnir hennar orðið ,,sparifé,, og verður dekrað fram á vor.
Verður vonandi ekki ,,tapaðfé,, næsta haust...........
 Hreint ekki amaleg þjónusta að fá heimsendingu á fénu rétt eins og þéttbýlisbúarnir fá á pizzunum sínum. Gott að hafa góðan hreppstjóra, takk fyrir Gísli og smalafélagar.

P.s lærið brann ekki þrátt fyrir allt..............

Ég bætti við tveimur skemmtilegum síðum í tenglasafnið á síðunni, þetta eru síðurnar hjá  Isibless og Hrossvest. Isibless lifandi og fróðleg síða, Hrossvest nauðsynleg til að fylgjast með stóðhestaúrvalinu hjá okkur vestlendinum næsta sumar.24.01.2013 19:25

Námskeið á námskeið ofanEyjólfur Ísólfsson tamningameistari var með reiðnámskeið í Króki um síðustu helgi.
Nokkuð er orðið síðan meistarinn hefur boðið uppá námskeið hér heima fyrir utan kennsluna á Hólum. Hópurinn sem var á námskeiðinum var hæstánægður með fræðin og skemmti sér ljómandi vel enda var óspart slegið á létta strengi.
Mummi skellti sér á námskeiðið og var heldur betur ánægður enda er Eyjólfur frábær kennari.Mummi fór með Vörð son Arðs frá Brautarholti og Tignar minnar, þarna eru þeir í mikilli einbeytingur.   Fram og niður gæti myndin heitið.Bóndinn í Króki Reynir Örn Pálmason var einbeyttur við verkefnin sem Eyjólfur fól honum.Þarna er Þórarinn bústjóri í Vesturkoti með sinn gæðing.Karen mætti með stórmyndarlegan grip sem er náskyldur gæðingnum Rás frá Ragnheiðarstöðum. En Eyjólfur og Rás gerðu garðinn frægan þegar þau sigruðu töltkeppnina á landsmóti og heilluðu viðstadda.Sigurður í Þjóðólfshaga mætti með Gulltopp sinn á námskeiðið.Myndirnar hér eru teknar á sýnikennslunni sem haldin var á laugardeginu en þá var opið fyrir áhugasama að koma og fylgjast með kennslunni.
Þarna er brugðið á leik eftir að Eyjólfur tók beislið út úr Gulltoppi og Siggi reið um höllina með öðrum ,,stjórntækjum,, en beisli. Gaman að sjá þá félaga leika sér og skemmta okkur.Elísabet Jansen kennari á Hólum kom með skemmtilegan fola sem gaman var að sjá.
Þriggja tíma sýnikennsla þar sem tíminn flaug áfram og engum leiddist er tær snild.
Já þetta var skemmtileg ferð sem ég og Skáneyjarhjú fórum í þennan góða laugardag.


13.01.2013 23:35

Með húmorinn í góðum gír.Eftir hádegið í dag renndi yngra settið á Skáney þau Haukur og Randi í hlaðið.  Þau voru  brosmild og búralega á svipinn hjúin þegar þau kölluðu Mumma að hestakerrunni til að færa honum útskriftargjöf. Gjöfina færðu þau Mumma í tilefni af útskrift hans s.l vor þegar hann útskrifaðist sem reiðkennari FT frá Háskólanum á Hólum.Af kerrunni var teymd úrvalsgimbur af afurðakyni sem í tilefni dagsins var ,,uppáklædd,, í sérhönnuðu dressi. Hönnun og saumaskapur var í höndum Randiar og hennar aðstoðarfólks.
Takið sérstaklega eftir rauða kraganum. Til samanburðar ættuð þið að skoða myndina af Mumma sem tekin var í vor við útskriftina. Spurning við hvaða tækifæri gibba muni skarta þessum fína búningi í framtíðinni ?Þarna eru þau hjúin Mummi og Flekka sem bíður þess nú að fá nafn við hæfi. Mummi er lagstur undir feld til að finna eitthvað gott nafn en góðar hungmyndir eru vel þegnar.
Tamningaflekka, Hólaflekka, Haukdís Holaker.........??????  Eða eitthvað miklu betra.......
Þessi gjöf vakti mikla kátínu og verður lengi í mynnum höfð enda er hér um að ræða framtíðar kynbótagrip búsins.Þegar atið í fjárhúsunum var frá smelltum við okkur inn í kaffi, hér er Kristín Eir að sýna mér flottu Helló kitty tölvuna sína.Hér eru flottu mæðgurnar að skoða og spá í spilin, uppáhaldsmúsin fékk að sjálfsögðu að koma með í heimsókn. Eins gott að litla vinkona mín viti ekki hvað kella er skíthrædd við alvöru mýs.

Það var ánægjuleg ferðin sem farin var uppí Logaland í gær en þar voru félagar í karlakórnum Söngbræðrum með sviða og hrossakjötsveislu. Gestir þeirra voru Karlakór Kjalnesinga sem sungu með þeim og einir sér við góðar undirtektir viðstaddra. Flottir kórar með skemmtilegum stjórnendum sem fóru aldeilis á kostum við lagakynningarnar.
Gaman að koma í Logaland og hitta fullt af fólki sem langt er síðan ég hef séð eða hitt.
Takk kærlega fyrir Ásberg Söngbróðir og Sigga Jóna, þetta var frábær skemmtun.


09.01.2013 23:10

Fréttaskot

Síðustu dagar hafa hreinlega verið of stuttir til að hafa allt það af sem ég helst vildi m.a að segja ykkur smá fréttir héðan úr Hlíðinni.

Skúta er ennþá í stríði og ekki útséð með hvernig fer en eftir síðustu heimsókn Hjalta dýralæknis erum við svolítið vonbetri. Allt í jafnvægi en þó afar litlar framfarir svo öruggt sé, verst að geta ekki smellt myndavél inní mallann og skoðað hvernig staðan er.
 Þessi elska lifir að mestu á AB mjólk, olíu og örfáum stráum af há. Svo er lyfjakoktellinn í ábót.
Vaktir ganga hér enn dag og nótt svo að hún er aldrei lengi eftirlitslaus.
Við trúum því að góðir hlutir gerist hægt og því muni Skúta ná heilsu.

Vorveður hefur verið síðustu daga, tamningar og þjálfun í fullum gangi í blíðunni.
Sem sagt gott veður til að gera næstum allt, já vel á minnst........meira að segja heimmta kindur.
Ég ætla samt ekki að nefna það meira tek ekki ábyrgð á að valda mönnum óþægindum. Það er nefninlega þannig að árangur nú eða árangursleysi í smalamennskum getur haft skaðleg áhrif á heilsu manna. Nei ekki orð um kindur og allra síst flökkukindur.

En að mikilvægari málum.
Stórkostlegar lýðræðisumbætur voru gerðar á þorrablótsnefninni þegar síðasti fundur var haldinn. Sögur höfðu farið af því að gamla nefndin ætlaði að segja af sér og tilnefnt yrði í nýja nefnd. Ljóst er að þetta hafa verið Gróusögur því samkvæmt (ó)áræðanlegum heimildum voru einungis samþykktar viðbætur við nefndina. Tvennt gerði það aðallega að verkum að ráðist var í þessar breytingar. Annarsvegar var það til að lækka meðalaldurinn og hinsvegar að breggðast við auknum þrýstingi um jafnan hlut kynjanna.
Aðgerðirnar heppnuðust fullkomlega enda löngu ljóst að í gamala góða Kolbeinsstaðahreppnum gilda ekki endilega sömu lögmál og í hinum ,,Evruríkjunum"
Sjö kallar og ein kona í alvörunefnd endurspeglar svo sannarlega fullkomið jafnrétti, konur eru nefninlega líka menn.
Það er eins gott að nefndin frétti ekki hversu miklar væntingar eru gerðar til hennar.
Það verður örugglega rosalega gaman þann 8 febrúar eða þá er stefnt að blótinu góða.04.01.2013 23:03

Áramóta.......??Þó svo að þessi mynd sé ekki í miklum gæðum þá er hún tekin frá svo skemmtilegu sjónarhorni að ég varð að láta hana fljóta hér með.
Myndin er tekin af Múlanum á brúninni fyrir ofan Þrepaganginn.

Það var vorveður í Hlíðnni í dag og ótrúlegt hvað stutt er síðan það var hálfgerður bylur og bölvuð leiðindi. Tamningahrossin kunnu bara vel að meta veðrið og voru spræk. Það er erfitt að gera okkur til hæfis.  Um daginn var vegurinn glerharður og leiðinlegur undir fæti en núna er hann svo mjúkur og blautur að það er til vandræða.

Ég áttaði mig á því í dag að kella telst nú varla viðræðuhæf svona á nýju ári þar sem ég strengdi ekkert áramótaheiti. Já og það sem meira er hef ekki lesið Völvuspánna eða nokkuð annað sem segir mér hvering árið 2013 verður. Er ekki komin í aðhald, hef ekki farið út að hlaupa og skammast mín ekki mikið fyrir lifnaðarháttinn um jól og áramót.
Er reyndar svolítið hugsi yfir því hvernig fólk lætur eða lifir......svona af umræðunni að dæma. Hlusta þónokkuð á útvarp og les blöðin svona þegar færi gefst.
Það er eins og fólk borði aldrei mat nema á jólunum og þá er sektin svo mikil yfir því að það þarf ekki desert. Skömmin er nægileg til að vera bæði ábót og desert.
Vonandi er þetta bara í orði og þetta hræðilega samviskubit bara hugarfluga sem er ,,inn,, að hafa núna. Kannske eitthvað svona ,,hippókúl,, eins og stundum er sagt og ég skil ekki. Þið megið engum segja, það er víst ekki flott að skilja ekki það sem er svoleiðis.
 Ég hugsa til þess með hryllingi ef að fólk maular bara eitthvað óspennandi 360 daga á ári og bíður þess svo ekki bætur að smakka væna flís af feitum sauð um jólin.
Þetta er sama umræðan eins og sprettur alltaf upp í kringum sprengidaginn en þá er eins og landinn sé á barmi glötunnar að borða saltkjöt í eitt skipti. Fjölmiðlarnir hamra endalaust á því hversu hræðilega óhollt sé að smakka saltkjöt og taka viðtöl við fólk sem þorir varla að viðurkenna að það hafi framið glæpinn. Sko borðað saltkjöt.
Athygglivert að hugsa til þess að fyrir nokkrum áratugum þegar landinn borðaði meira af kjöti og fiski var hann grennri. Nú ertu ekki maður með mönnum nema sneiða hjá þessum fæðutegundum en samt verðum við feitari og feitari............af hollustunni.
Já það er ótrúlegt að íslendingar séu ekki löngu útdauðir.

Það skal tekið fram að höfundur borðar ekki eingöngu kjöt og mætti alveg sjá af nokkrum kílóum. Bara svo ykkur líði nú betur kæru lesendur.

Ég er enn að hugleiða hvort áramótaheiti sé eitthvað fyrir mig ?

En að alvarlegri málum, Skúta er ennþá alvarlega veik og ekki ljóst hvernig fer. Hjalti dýralæknir hefur komið reglulega og meðhöndlað hana en við vaktað hana þess á milli.
Vonandi fer þetta vel en erfitt ætlar það að vera.
02.01.2013 21:46

Árið 2012Við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegs árs með óskum um farsæld, gleði og frið á nýju ári.
Kærar þakkir fyrir það liðna sjáumst vonandi hress og kát á árinu 2013.

Um áramót er við hæfi að líta um öxl og fara yfir það hvernig árið var í raun fyrir bændur og búalið hér í Hlíðinni.

Síðustu klukkustundir ársins og það sem af er þessu nýja ári hafa verið erfiðar fyrir eina af uppáhaldshryssunum okkar. En á gamlársdag veiktist hún Skúta hans Mumma heiftarlega sennilega af hrossasótt. Skúta var ansi langt leidd og mikil heppni að fljótt náðist í dýralæknirinn okkar hann Hjalta sem staddur var í næstu sveit og brást skjótt við og kom.
Hjalti hefur komið þrisvar síðan og gert allt sem í hans valdi er til að bjarga hryssunni, auk þess hefur verið vakað yfir henni allan sólarhringinn. Ekki er enn útséð með það hvernig fer en vonandi hefur Skútan þetta af enda með eindæmum sterk og hraust fyrir.
Á fésbókarsíðunni minni hafa margir sent góðar kveðjur með von um bata sem ég veit að gerir bara gott.
Það er nefninlega þannig að jákvæðini er ótrúlega gott meðal við ýmsum kvillum, jafnt hjá skepnum og mönnum. Ætti að vera miklu meira notað í mannlegum samskiptum.

Ég renndi bæði yfir dagbók og blogg til að rifja upp hvað hefði verið um að vera á árinu 2012.
Margt hefur á dagana drifið og flest af því skemmtilegt og þroskandi.
Mikið hefur verið að gera í tamningum og þjálfun bæði fyrir okkur og ekki síður aðra. Við lauslega yfirferð sýnist mér að hér hafi farið í gegn ca 70 hross auk heimahrossana á árinu 2012.
Margir hestahópar komu við hjá okkur í sumar, nokkrir stoppuðu yfir nótt og aðrir komu bara við. Alltaf gaman að taka á móti hestafólki í hestaferðum.
Mummi útskrifaðist sem reiðkennari frá  Háskólanum á Hólum síðast liðið vor.
Hann dreif sig strax af stað í kennslu og hefur bæði haldið námskeið hér heima og einnig hefur hann farið til Svíþjóðar í nokkur skipti til að halda námskeið. 
Astrid stundar nám á Hólum og er nú á öðru ári, námið hefur gengið vel og nú er hún á lokasprettinum áður en hún fer í verknám.

Ein hryssa í okkar eigu var sýnd á árinu en það var hún Sjaldséð. Hún stóð sig með prýði m.v aldur, menntun og fyrri störf eins og sagt er og er komin í 1 verðlaun.
Mummi var duglegastur af okkur að taka þátt í keppni og sýningum á árinu, keppti m.a.  á Gosa frá Lambastöðum á LM í Reykjavík. Við hin kepptum öll en þó í mun minna mæli.
Sjö folöld fæddust hér á árinu fjórir hestar og þrjár hryssur.
Nokkrir gamlir höfðingjar úr stóðinu voru felldir á árinu og nokkur hross skiptu um eigendur og fluttu í nýja heimahaga.

Sauðfjárbúskapurinn gekk sinn vanagang á árinu, við fengum góða aðstoð við sauðburðinn og ekki var hópurinn sem aðstoðaði okkur við leitir og réttir síðri.
Þó svo að ,,hvítflibbatvöþúsundogsjöliðið,, telji sauðfjárbúskap ónauðsynlegan, hallærislegan og gamaldags þá verð ég alltaf sannfærðari og sannfærðari um nauðsyn hans fyrir land og þjóð. Hans tími mun koma......og ekki skemmir fyrir hvað hann er mannbætandi.

Þrátt fyrir allt gekk heyskapurinn hér nokkuð vel og var byrjað í seinna lagi að gefa útigangi. En mikið fann maður til með bændunum fyrir norðan sem fengu harðindi alltof snemma í haust. Það er ekkert grín að vera heytæpur og þurfa að byrja gjafir mikið fyrr en venjulega.

Hlíðarættin átti góða daga saman í lok júní þegar haldið var ættarmót í Laugargerði. Mætingin var þokkaleg og mikið var gaman að hitta mannskapinn spjalla og hafa gaman.

Algjört met var slegið í fjölda gönguhópa sem fóru hér um í sumar enda er þriggja vatnaleiðin svokallaða ein vinsælasta gönguleið landsins. Spurning um að fara pússa gönguskónna og finna sér skemmtilega göngufélaga ? Eða ætti ég kannske bara að leggja á og fara frekar ríðandi?

Árið 2012 var nokkuð gott ár og ekki annað sanngjarnt en að þakka fyrir það á meðan maður og manns nánustu eru við þokkalega heilsu. Það er þó einhvernveginn þannig að það verður ekki árið sem ég tárast af sökknuði við að rifja upp.  Var einmitt að hugsa um hvað mér fannst það alltaf sorglegt þegar sungið var ,, Nú árið er líðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka,,  en 2012 var bara orðið gott.

Árið 2013 verður gott ár og ég trúi því staðfastlega að 13 sé happatala, reyndar efast ég ekki um það eitt augnablik.

Hér hef ég aðeins stikklað á stóru hvað viðburði varðar frá síðasta ári, örugglega gleymt mörgu mjög mikilvægu. En síðustu dagar hafa verið svolítið strembnir og því ekki við öðru að búast en eitthvað skolist til.

Uppúr stendur þó hvað við höfum átt góð og ánægjuleg samskipti við fjöldan allan af góðu fólki á árinu. Það er ekki sjálfgefið að njóta þess að hafa fjöldan allan af góðu fólki allt um kring hvort sem það er í leik eða starfi.
Kærar þakkir fyrir samskiptin og ekki síst innlitin hér á síðuna árið 2012.
Góðar stundir.  • 1