11.04.2021 21:01

Þessi fallegi dagur og sauðburður hafinn.

 

 

Þeir hafa verið margir dýrðardagarnir hér í Hlíðinni síðustu vikurnar.

Boðið hefur verið uppá blíðu, fegurð og frið sem endurnærir sál og líkama.

Það er erfitt að vera geðvondur og pirraður í svona veðri og á svona stað.

Enda ekki ástæða til því að við höfum það bara fínt og erum því hress og kát í sveitinni eins og ævinlega.

Allt gegnur sinn vana gang sem er kostur en gestir og ferðamenn eru færri en oftast áður.

 

 

Það hefur ekki oft gerst að vatnið hafi verið orðið autt en lagt aftur í apríl.

Það gerðist nú í vikunni enda kom nokkuð snarpur hvellur með snjó og síðan roki.

Síðustu dagar hafa samt verið eins og alvöru vor væri komið og boðið uppá blíðu af bestu gerð.

 

 

Þverfellið skartaði sínu fegursta og speglaði sig í vatninu rétt eins og það væri að punta sig.

 

 

Hún Káta litla naut blíðunnar þegar ég skoðaði útiganginn og sannfærði mig um að þau fengju nóg að éta.

Eins go glöggt má sjá þá átti hún desertinn eftir og geymdi hann á bakinu á Pramma vini sínum.

Nánari hrossafréttir í næsta bloggi.

 

 

Sauðburður hófst formlega þann 9 apríl þegar hún Glaðasvört bar fallegri grárri gimbur.

Það verður þó að segjast að sauðburðurinn byrjaði með basli sem endaði þó vel.

Lambið sen nú hefur fengið nafnið Hnáta var mjög stórt og kom ekki alveg rétt að þannig að aðstoðar var þörf.

Enginn af okkur var komin í neina þjálfun fyrir burðarhjálp og ekki einu sinni farin að undirbúa sig andlega fyrir burð.

Það var því ekki um annað að ræða en ,,fjölmenna,,  og setja sig í gírinn fyrir komandi átök.

Gættum þó að því að virða fjöldatakmörk enda ábúendur innan þeirra marka.

Hjúkrunarfræðingurinn á bænum sló okkur öllum við og bjargaði lambinu með glæsibrag.

Já svona byrjar sauðburðurinn þetta árið. 

Einlemba sem þarf aðstoð en í fyrra var það fjórlemba sem skuttlaði þeim öllum í heiminn með miklum hvelli.

Hlé verður nú á fjörinu fram í maí svo að við höfum tíma til að hugsa okkar ráð.

Annars er það að frétta af frjósemi að hún er alveg fullkomlega næg þetta árið. 

Spennandi sauðburður framundan og alveg ljóst nóg verður að gera þegar líður á maí.

 

 

 

 

 

 

 

23.01.2021 00:08

Sveitalífið......................

 

Það var kuldalegt í Hlíðinni þennan daginn og veturinn sannarlega við völd.

Sólin reyndi að gera gott úr þessu öllu saman og yljaði í stuttan tíma.

Ef að þið skoðið myndin vel sjáið þið að frúin var að reka hross en stalst til að taka mynd í leiðinni.

Hrossin voru kát með að fá föstudagsfjörið sitt og tóku vel á því á leiðinni út eftir og undan vindi.

En róðurinn var aðeins þyngri á leiðinni heim með vindinn í fangið og nokkra kílómetra að baki.

Já á fullri ferð því þau voru nú ekkert að spara sig þegar frelsið var framundan.

Við rekum alltaf hrossin í tvennu lagi þ.e.a.s geldinga sér og hryssur sér.

Stóðhestarnir eru síðan teymdir nú eða stundum reknir. 

Allir eiga það sameiginlegt að njóta þess að spretta úr spori og viðra sig.

 

 

Þó svo að það sé gott að geta rekið á svona vetrardögum þá er líka dásamlegt að hafa góða inniaðstöðu.

Þar inni er logn, blíða og sumar þó svo að vindurinn hamist fyrir utan.

Þessi mynd er tekin þegar að Kolrassa mín var að taka fyrstu sporin undir manni.

Mig grunar að þau séu bara asskoti ánægð hvort með annað Mummi og hún.

Kolrassa er undan Spuna frá Vestukoti og Kolskör minni, hún er afrakstur frábærrar afmælisgjafar.

Ljónheppin að hafa átt stórafmæli þarna um árið frúin og eiga svona frændfólk og vini.

Já það er líf og fjör í hesthúsinu og nóg af spennandi verkefnum þar.

 

 

Smalahundakvöldin halda áfram og þarna má sjá þá sem að mættu á kvöld númer tvö.

Næsta smalahundakvöld verður svo n.k þriðjudagskvöld.

Ef að þið viljið einhverjar frekari upplýsingar um þennan viðburð þá hikið ekki við að hafa samband.

 

 

Af sauðfjárbúskapnum er það að frétta að nú er allt með kyrrum kjörum, frið og spekt.

Við erum búin að taka hrútana frá kindunum og setja þá í frí fram að næsta fengitíma.

Þeir eru í þeim hópi sem eru hreint ekki sáttir við styttingu ,,vinnuvikunnar,, og mótmæltu harðlega þegar þeir voru skikkaði í frí.

Á meðfylgjandi mynd er hrúturinn Valberg frá Stóra Vatnshorni og ærnar að njóta síðust samverustundanna þennan veturinn.

Næsti stórviðburður í sauðfjárstússinu er rúningur á snoði og síðan sónarskoðun vegna fóstutalningar.

Ærnar hafa ekki oft verið orðnar svona loðnar á þessum tíma.

Þær minna óneitanlega á okkur hin þegar ekki mátti hafa hárgreiðslustofur opnar fyrr í vetur.

Nema þeim er slétt sama og velta sér ekkert uppúr því þó eitt og eitt grátt hár stingi upp kollinum.

Spá meira í það hvort ekki sé kominn gjafatími.

 

 

Hrútnum Móstjarna voru skaffaðar 40 eðalkollur sem sérvaldar voru fyrir hann.

Það fannst honum ekki nóg og ákvað að líta aðeins á þær hyrndu hinumegin við milligjöriðna.

Hann eins og Valberg vinur hans urðu samt þann 21 janúar að sætta sig við styttingu á vinnuskyldu.

Já það er ekkert grín að vera hrútur.

 

 

Talandi um vinnuskyldu..........................

Þessi harðduglegi hefðarköttur er kominn á samning og tekur það mjög alvarlega.

Hann er sem sagt orðinn áhrifavaldur og á barmi heimsfrægðar.

Á milli þess sem hann sefur fast og laust auglýsir hann Furuflís af miklu kappi.

Já það er ekki um að ræða styttingu vinnuviku í hans fjöruga lífi.

 

 

 

 

 

12.01.2021 10:10

Smalahundakvöld í Hallkelsstaðahlíð með Gísla og Svani.

 

 

Það var létt yfir mannskapnum þegar fyrsta ,,Smalahundakvöldið með Svani og Gísla"  var haldið í kvöld.

Fullbókað var á þetta fyrsta námskeið  og mikill áhugi í gangi. Þið skulið samt ekki örvænta það kemur annar þriðjudagur.

Gísli sá um kennsluna í kvöld og fórst það vel úr hendi eins og við var að búast. Hann mun annast kennsluna fyrst um sinn.

Hundar jafnt sem menn sýndu góð tilþrif og greinilegt að fólk leggur mikið á sig til að eignast góðan fjárhund.

Það er gaman að sjá hversu miklar breytingar til batnaðar verð á hundunum á þessum námskeiðum og auðvita fólkinu líka.

Kindurnar stóðu sig líka með mikilli prýði en á þessu fyrsta kvöldi var notast við tamdar kindur með þó nokkra reynslu.

Fremstar meðal jafningja voru að sjálfsögðu Vaka og Gjalfmild en þær systur stóðu vaktina í allan fyrra vetur.

Nemendurnir komu víða að þar á meðal Borgfirðingar, Mýramenn, Dalamenn og Snæfellingar.

Fyrir ykkur sem hafið áhuga á að fylgjast með og eruð á fésbókinni þá er hópur þar sem heitir Smalahundakvöld í Hallkelsstaðahlíð með Svani og Gísla.

Þeim sem að ekki eru á fésbókinni en hafa áhuga er bent á að hafa samband við okkur í síma 7702025 eða á netfangið mummi@hallkelsstadahlid.is

 

Hlökkum til að sjá ykkur.

 

 

04.01.2021 21:13

Og jólin breytast.

 

Við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegs árs með kæru þakklæti fyrir það liðna.

Jólahátíðin fór vel með okkur og var einkar ljúf en öðruvísi en venjulega. Það vantaði fleira fólk.

Fyrst skal nú nefna að hér í Hlíðinni hafa móðursystkini mín haldið jólin hátíðleg frá því 1927.

Nú var sem sagt breyting þar á og sú kynslóð fjærri góðu gamni og hélt jólin annars staðar.

Covid gerði það að verkum að bæði Sveinbjörn og Lóa héldu sín jól á Brákarhlíð í Borgarnesi.

Einar móðurbróðir minn sem var elstur 12 systkina og fæddur árið 1927 hélt alltaf sín jól hér.

Það gerðu líka þau systkini sem hér bjuggu um lengri eða skemmri tíma en þau voru fædd frá árinu 1927 til 1945.

Þannig að þessi jól voru öðruvísi og heldur færri sem settust við matarborðið að þessu sinni.

Já tímarnir breytast og mennirnir víst líka með.

Á myndinni hér fyrir ofan eru þau systkinin Lóa og Sveinbjörn saman á Brákarhlíð.

Þau voru hress og bara kát þó svo að þau hefðu viljað komast heim í gamla húsið.

Hún á að baki 90 jól og nærri öll haldin í Hlíðinni og Sveinbjörn 80 sem öll hafa verið haldin þar.

 

 

Okkar lukka var hinsvegar að fá að hafa þessi hér með okkur um jólin.

Litli grallarinn var hress og kátur enda kom mikið af bílum og traktorum úr pökkunum.

 

 

Á jólunum er tíminn til að slaka á og hafa það gott í sófanum, þessi þarna voru bara slök.

Ég er ánægð með að myndin af Snotru minni laumaði sér í sófann líka.

Listakonan Sigríður Ævarsdóttir málaði myndina af Snotru og gerði það líka svona lista vel.

Ef að ykkur vantar málverk þá er hún Sigga klárlega að gera góða hluti.

 

 

Þessi fékk að opna einn pakka svona í ,,forrétt" og viti menn það var þessi fíni Claas.

 

 

Sjónvarpsdagskráin var held ég bara fín um jólin...................

Veit ekki hvort að þessir tveir voru að horfa á barnatímann eða veðurfréttirnar.

Eitthvað var það allavega spennandi sem að þeir sáu.

 

 

Þessi vörpulegi jólasveinn er handverk Mumma þegar að hann var á sama aldri og Atli Lárus.

Hann var unninn við eldhúsborðið hjá henni Ingu sem var dagmamma Mumma í æsku.

Síðan var hann jólagjöf til okkar foreldranna árið 1987, hefur verið vel geymdur en mætir þó í vinnuna á hverju ári.

Klárlega dýrsta jólaskrautið á bænum. Unnin af alúð og mettnaði.

Jólatréð er hinsvegar jólagjöfin hans Atla Lárusar til foreldranna og unnið af nákvæmlega sömu alúðinni.

Nú er bara að vita hvort það stendur af sér 33 jólahátíðir í fullri vinnu.

 

Já, jólin eru okkar það er alveg klárt.

 

 

24.12.2020 14:57

 

 

 

02.12.2020 21:43

Kári er kominn í aðventugírinn.

 

Þegar þetta er skrifað hvín og syngur hér í öllu með tilheyrandi hamagangi.

Já, Kári kallinn er greinilega kominn í aðventugírinn en vonandi verður hann ekki jafn djarfur eins og í fyrra.

Þó svo að haustið hafi verið að mörgu leiti gott þá höfum við alveg fengið að finna fyrir því öðru hvoru.

ÞAð er dásamlegt í svona tíðafari að geta unnið í blíðu inní reiðhöll.

Á fyrstu myndinni eru feðgarnir einmitt að leika sér í vinnunni.

Við erum komin vel af stað og ört hefur fjölgað í hesthúsinu síðustu vikurnar.

Annars hafa nokkur hross flogið á vit nýrra ævintýra og flutt til nýrra eigenda.

En plássin hafa fyllst og ný hross fyllt í þeirra skarð.

Ef að allt fer á besta veg og veiran verður til friðs höfum við skipulagt nokkra viðburði í vetur.

Námskeið, mót og ýmislegt annað skemmtilegt og spennandi.

En númer eitt er að fara öllu með gát og taka stöðuna þegar nær dregur.

 

 

Talandi um góða haustdaga.

Þessi mynd er næstum því eins og hún væri tekin á tunglinu en svo er nú reyndar ekki.

Myndin er tekin með dróna yfir hrossarekstri fyrir sunnan Sandfell einn fagran haustdag.

 

 

Hesthúsið fékk smá upplyftingu eða svona létt ,,makeup,, 

Okkur sem munum tímana tvenna veitir ekkert af því svona öðru hvoru.

Sko, húsfreyjunni og hesthúsinu.

 

 

 

Úr sauðfjárdeildinni er það helst að frétta að heimtur fara að verða þokkalegar.

Þó værum við mjög hamingjusöm með að fá nokkra hausa í viðbót.

Fjárfjöldinn er á sama róli og í fyrra, við ákváðum að halda í horfinu og fækka ekki.

Eins og síðast liðna áratugi höldum við sauðfjárbændur að afkoman geti ekki versnað.

Það er því sjálfgefið að halda áfram og telja sér trú um að allt sé á uppleið og botninum náð.

Hvað gerir maður ekki fyrir gleðina ?

Þríeykið hefur marg oft sagt að við verðum að halda í gleðina þrátt fyrir allt.

 

Myndin hér að ofan er tekin í einni af eftirleitum vetrarins.

 

 

Þetta er hún Krummasvört sem mætti hér heim að pípuhliði einn daginn.

Hún var búin að fá nóg af útiverunni og baðst gistingar með lambið sitt og eina vinkonu sína frá Hraunholtum.

Henni var slétt sama um það þó að hún fengi seint í kladdann.

 

 

Þetta er Rönd hún fær líka seint í kladdann og það er engin afsökun að hafa verið að heimsækja hreppstjórann.

Öðru nær hreppstjórinn var í fullum rétti við handtökuna á henni og dótturinni.

Nú er hrútaskráin aðal lesefnið og fengitíminn handan við hornið.

Búið að gefa öllu fénu ormalyf, setja fullorðinsmerkin í gemlingana og forðastauta í allan flotann.

 

 

 

 
Svona var útsýnið stórbrotið einn morguninn.

.

 

Og ekki síðra þegar leið á og birti.

 

 

Nú er sólin hætt að sjást hjá okkur og byrjar ekki að sjást fyrr en 14 janúar 2021.

Þessa mynd tók ég þegar hún var að kveðja áður en hún skrapp í jólafríið.

Já það verða sko bakaðar pönnukökur þann 14 janúar.

01.11.2020 12:02

Drífum það í gang...............

 

Hér í Hlíðinni erum við að sjá fyrir endann á öllu fjárstússi og því sem fylgir því að vera lífstílsbóndi.

Nú er komið að því að pakka því dressi niður (skjótast reynar í það öðru hverju)  og vippa sér í hestagallann.

Okkur er ekki til setunnar boðið nú skal tamið og þjálfað af kappi.

Framundan er góður tími með skemmtilegum verkefnum í hesthúsinu.

Á meðfylgjandi mynd má sjá nýjasta hestamanninn þungan á brún. 

Sennilega hafa foreldrarnir eitthvað verið að skipta sér af þjálfunaráætlun hans og Fannars.

Allur útbúnaður kappans er sérvalinn til þjálfunar á snillingnum Fannari.

Peysan prjónuð af Stellu langömmusystur, sokkarnir frá Lóu langömmusystur, reiðbuxurnar frá ömmu og afa.

Og ekki má gleyma hjálminum sem að hún Sara vinkona hans færði honum.

Já það er eins gott að hafa stílinn á hreinu.

 

Það verður gaman þegar allt kemst á fullt í hesthúsinu eftir haustverkin.

Hesthúsið nýmálað, yfirfarið og dekrað gólf í reiðhöllinni með fullt af spennandi hestum.

Já þetta verður bara góður vetur.

 

 

 

18.10.2020 22:16

Svona dagar...............

 

Það tilheyrir haustinu að fara í eftirleitir aftur og aftur, jafnvel ennþá aftur og aftur.

Þá er gott að hafa góðan sérfræðing með í för sem hefur gott ,,nef,, fyrir kindum og smalamennsku.

Hún Julla Spaðadóttir lítur þarna yfir svæðið, slakar á með eigandanum og tekur stöðuna.

Þær smalasystur þrjár frá Eysteinseyri hafa staðið sig nokkuð vel í haust og sparað sporin.

Mig grunar að hugur þeirra og eigandanna standi til að endurtaka velheppnuð hundakvöld í vetur.

 

 

Fjórhjól má einnig nota sem ,,lasyboystól,, þegar útsýnið er skoðað í nokkur hundruð metra hæð.

 

 

Alvöru hundar komast í Paradís þegar þeir mæta í smalamennskur...............

En þarna er Julla í Paradís sko þessari sem heitir það samkvæmt örnefnaskrá.

 

 

Séð yfir Hlíðarvatn ofan úr Hafurstaðafjalli.

 

 

Við höfum verið í eftirleitum síðustu tvo laugardaga og fengið hreint dásamlegat veður.

 

 

Séð niður að Hafurstöðum og lognið á vatninu algjört.

 

 

Sandfellið og við njótum veðurblíðunnar.

 

Eins og náttúran öll.

 

 

Til að gera langa sögu stutta þá hefur okkur gengið nokkuð vel og náð heim öllu því sem við höfum séð.

En trúlega verða ferðirnar inní fjall þetta haustið nokkrar í viðbót.

 

30.09.2020 21:12

Réttarfjör fjórði hluti. Mýrdalsrétt.

 

Eins og svo oft áður var dásamleg blíða þegar Mýrdalsrétt í Hnappadal fór fram.

Frekar margt fé var í réttinni og mannlífið gott að vanda þrátt fyrir að Covid draugurinn sé á sveimi.

Þessi strákar voru í það minnsta hressir og kátir, Lárus í Haukatungu og Jóel á Bíldhóli.

 

 

Traðarbræður voru að sjálfsögðu mættir þeir Guðbrandur á Staðarhrauni og Steinar frá Tröð.

 

 

Þessir voru búralegir á réttarveggnum þegar að allt fé hafði verið dregið.

Hlíðarfeðgar og Þorkell fyrrverandi bóndi í Miðgörðum.

 

 

Málin rædd...........

 

 

Í þungum þönkum.................

 

 

Hraunhreppingar voru að sjálfsögðu mættir til að sækja sitt fé.

 

 

Dalamenn mættir til að gera sín skil.

 

 

Feðgarnir á Staðarhrauni og Brynjúlfur á Brúarlandi spá í spilin.

 

 

Hraunholtahjón og Halldís á Bíldhóli alveg klár í myndatöku.

 

 

Ég er ekki viss hvað þessir voru að bralla ........................

 

 

.................en það var frekar fyndið.

 

 

 

Skipulagt og spjallað.

 

 

Ystu Garðabóndinn sennilega að hringja í vin..........................

 

 

Arnþór í Haukatungu hefur farið á kostum þegar hann hefur leikið Mumma í þorrablótsmyndböndum síðustu ár.

Sýnist hann vera að máta karaterinn...............svona úr hæfilegri fjarlægð.

 

 

Hjónin í Lækjarbug láta sig ekki vanta í réttirnar enda Guðjón á heimavelli.

Gísli á Helgastöðum gerir það ekki heldur og mætir að vanda.

 

 

 

 

Þessir tveir ræða heimsmálin.

 Jónas á Jörfa og Guðbrandur á Staðarhrauni.

 

 

Þá er þetta að klárst, rekið á milli dilka og síðan á faratækin.

 

 

Þungt hugsi fjárbóndi.

Arnar að telja það sem komið er af fjalli....................

 

 

Sesselja í Haukatungu og mæðgurnar í Krossholti.

 

 

Ásbjörn Haukatungubóndi og Halldís á Bíldhóli ræða málin.

 

 

Gönguæfingar................einn tveir ..............einn tveir.

 

 

Reffileg á réttarveggnum, Guðbrandur, Lárus og Halldís.

 

 

Já, Mýrdalsréttin stendur fyrir sínu og er fínasti samkomustaður.

 

29.09.2020 20:36

Réttir rokka ...........þriðji hluti.

 

Við vorum heppin þegar við smöluðum fegnum reyndar smá dembur en þó alveg innan marka.

Fossarnir voru rólegir og hófsamir í vatnavöxtum og vel gekk að reka yfir árnar.

Fossakrókurinn þarna fyrir miðju einn af mínum uppáhaldsstöðum.

Þarna upp með fossunum liggur svo kölluð Fossaleið á milli Hnappadals og Hörðudals.

 

 

Féð rennur niður Háholtin í átt að Hafurstöðum.

 

 

Horft yfir í Skálina, Nautaskörðin og Urðirnar.

 

 

Horft inn Brekkurnar, Höggið, Selbrekkan og Ferðamannaborgin  á sínum stað.

 

 

 

Þessar dömur stóðu sig vel í fyrirstöðunni á Selkastinu og töpuðu engri kind.

Daníella og Emilía taka stefnuna.

 

 

Atli í klettaklifri á leið fyrir kindur og Björg í Brekkunum í fyrirstöðunni.

 

 

Kolbeinn og Rúnar voru öflugir landgönguliðar að sunnan verðu.

 

 

Þessar dömur stóðu í ströngu í Giljatungunum, Öxlunum já og á Skálarhyrnunni.

 

 

Þessi klikkar ekki á sínum stað í Dyjadölunum var með fulla stjórn á aðstæðum ásamt Halli frænda sínum.

Er æviráðinn á þennan stað í fyrstu leit.

 

 

Kolbeinn tekur stöðuna á veðrinu í símanum.......................frúin fylgjist með.

 

 

En Atli tekur veðrið út um gluggann............og Hrannar etur skyr.

 

 

Þessir snillingar dauðslakir.

 

 

Þetta var grallaradeildin..........................eins og sjá má.

 

 

Dásamlegar dömur sem öllu redda, hvar værum við án þeirra??

 

 

Mættar í reiðhallarsalinn til að skammta okkur smalagenginu.

Ómissandi elskur.

 

 

Þetta er ekki Eva Joly mætt með tertu í réttirnar ............ ó nei gleraugun blekkja.

Þetta er orginal Þóranna með árlega dásemdar köku.

 

 

Smá sýnishorn af kaffiborðinu sko öðrum endanum takið eftir.

Það er ríkidæmi að eiga eitt stykki Stellu móðursystur á kanntinum.

 

 

Það var nauðsynlegt að hafa rúmt á mannskapnum þetta árið og því borðuðum við í salnum í reiðhöllinni.

 

 

Dalamenn taka stöðuna og spá í spilin.

 

 

Það gerðu líka þessi.

 

 

Eðalsmalar spjalla saman eftir matinn.

 

 

29.09.2020 17:31

Réttir rokka ............ annar hluti.

 

 

Þessar reffilegu gimbrar eru ofurgreindar og hlýða Víði eins og lög gera ráð fyrir.

Ein kind kæmist auðveldlega á milli þeirra ........... svona langsum allavega.

Hér hefur verði dansað rollurokk alla daga í hálfan mánuð og hvergi gefið eftir.

Leitir, réttir, förgun og hvað eina sem sauðfjárbúskap við kemur en allt þó aðeins öðruvísi en áður.

Já þetta leiðinda covid truflar margt en þó ekki allt. Það var í það minnsta gaman alla þessa daga.

Þetta árið verða myndirnar að tala sínu máli en þó komu dagar þar sem að veðrið leyfið ekki myndatökur.

Okkar góða aðstoðarfólk mætti en þó urðu nokkrir uppáhalds að bíða betri tíma.

Takk fyrir alla hjálpina hún var dásamleg og þið hin sem komust ekki við hlökkum til að fá ykkur síðar.

 

 

Þarna er verið að legga af stað í smalamennskuna sem er alltaf mannfrekust og lengst.

Þá smölum við Hafustaða og Hlíðarland en að auki var Bakkamúlinn smalaður til okkar.

Á myndinni eru Ísólfur, Brá, Maron, Skúli og Hrannar.

 

 

 

Þarna eru hinsvegar hluti af landgönguliðinu sem lagði fyrst af stað og fór í lengstu göngurnar.

Þá er gott að vera léttir í spori, þarna má m.a sjá maraþonhlaupara og flugmann.

Hallur, Hilmar, Kolbeinn og Darri klári í slaginn.

 

 

Og ekki standa þessar dömur sig síður eldfljótar og úrvals smalar.

 

 

Það er ekki alltaf slétt............... þarna er Ísólfur í smá klöngri.

 

 

 

Komnar niður á veg og leiðin styttist.

 

 

Ef að grannt er skoðað má sjá tvo smala á myndinni þá Kolbein og Hall.

 

 

En hérna bara einn........................

 

 

.........................eins og hér.

 

 

Hér eru hinsvegar nokkrir smalar saman komnir a.m.k þrír fjórfættir og áhugasamir.

 

 

Og áfram skal haldið.

 

 

Sumar kindur velja ekkert endilega bestu leiðina.................

 

 

Vegaveitingar voru hér mættar á svæðið og hresstu aðeins uppá mannskapinn.

 

 

Held bara það hafi verið gleði í dósinni góðu.

 

 

Búralegir þessir kappar og kátir með veitingarnar og lífið.

 

 

Það var bara einn Hallur sem mætti í réttirnar núna, hann var tvíefldur að þessu sinni.

Hinn mætir næst hress að vanda.

 

 

Það þarf að fara víða jafnvel innan túngirðingar.

 

Gott þegar vatnsstaðan er svona há þegar smalamennskur standa yfir.

Færri flóttaleiðir.

Framhald verður tilbúið til birtingar innan skamms.

14.09.2020 23:02

Fjöllin krakkar............fjöllin.

 

 

Að búa í fjöllunum getur verið töff..................

Það á bæði við þegar veðrið er dásamlega gott og einnig þegar veðrið er dásamlega ekki gott.

Í gær var það gott og því var um að gera rjúka til fjalla og taka svona æfningasmalamennsku.

Fossáin var saklaus og falleg en það hefur hún ekki alltaf verið í kringum leitirnar.

Við náðum heim þó nokkrum fjölda fjár sem komið var niður af fjalli.

Með hjálp góðra manna og kvenna hafðist þetta og við vorum mjög sátt með árangurinn.

Smalamennskur og fjárrag hafa tekið yfir og nú er bara að njóta og þjóta.

En hrjóta síðar.

 

 

Einn af mínum uppáhaldsstöðum er þegar staðið er uppá Kastalanum við Hafurstaði.

Þá er fallegt útsýni yfir Hlíðarvatn og niður dalinn.

 

 

Boðið var uppá listasýningu af bestu gerð þegar að skýin skörtuðu sínu fegursta.

Blátt listaverk yfir Hlíðarmúlanum.

 

 

Þessi mynd er tekin af Kastalnum yfir bæjarstæðið á Hafurstöðum í átt að Sandfellinu.

 

 

Já Sandfellið var dökkt í gær og skar sig vel úr í landslaginu.

 

 

Við lögðum af stað í blíðu og smá golu en það átti eftir að breytast og það mjög snögglega.

Sjáið þið bakkann sem er að læðast þarna yfir ?

 

 

En það var ekki mikið úr þessu sem betur fer.

 

 

Blés reyndar kröftuglega þegar ég stóð uppá toppi Stekkjaborgar en það var bara hressandi.

 

 

Af Stekkjaborg en línana beint í toppinn á Geirhnjúknum........hann verður smalaður síðar.

 

 

Stóðið fylgdist með og lét sér fátt um finnast , kannski dreymir þau um að gera ursla í safninu sem kemur síðar af fjalli ?

 

 

 

10.09.2020 21:36

Skipulagt kaos.

 

Já svona getur sveitalífið verði gott.................... stund milli stríða í dásamlegu veðri.

Það var svona vinnufundur og þá er nú gott að taka smá stund í andlega íhugun.

Annars fer nú að verða hæpið að taka lífinu með ró það styttist nefninlega í réttir.

Og eins og stundum áður er nú ýmislegt eftir að gera áður en hátíðin gengur í garð.

 

 

Dagurinn fór að mestu leiti í að gera við réttina við fjárhúsin nú eða næstu því endurbyggja hana.

Skipta um staura og timbur síðan verður að leggja rauða dregilinn með góðum skammti af rauðamöl.

Þá verður réttin loksins orðin ásættanlegur samkomustaður fyrir sauðfé og smala.

 

Næstu dagar eru vel ásettnir og skipulag næstu viku orðið að mestu klárt.

Um helgina byrjum við kindastússið þetta haustið á að sækja fé inná Skógarströnd.

Á mánudaginn þann 14 förum við svo og gerum skil í Skarðsrétt.

Þriðjudagurinn er dagurinn sem að allt sem er eftir verður gert..............

Miðvikudagur er smaladagur inní Hlíð og útá Hlíð.

Fimmtudagur er smalað á Oddastöðum og Hliðarmúlinn.

Föstudagur þá er stæðsta smalamennskan okkar þ.e.a.s Hlíðar og Hafurstaðaland smalað með nokkrum auka ,,slaufum,,

Laugardagurinn er Vörðufellsréttardagurinn og auk þess þarf að sækja fé á aðra bæi.

Á sunnudaginn rekum við svo inn drögum í sundur, veljum og vigtum sláturlömb.

Mánudagur þá rekum við inn sláturlömb og undirbúum fyrir fluttning á þriðjudegi.

Þriðjudagurinn er svo Mýrdalsréttardagurinn og að auki verða sótt til okkar sláturlömb.

Miðvikudagurinn................tja okkur leggst eitthvað til, nú eða tökum það bara rólega eftir törnina.

Nú er bara að hugsa hlýlega til allra smalanna okkar og vona að veðrið verði dásamlegt.

Hlakka til að sjá ykkur við erum langt undir 200 ennþá.

 

 

Bara svona í lokin..................

Þarna sjáið þið Grýluhellir hann er hérna í Hlíðarmúlanum nánar tiltekið í Bæjarkastinu. Grýla býr í hellinum á því er enginn vafi.

Bæjarkastið var gjarnan æfinga smalastaður upprennanndi smala svona á meðan þeir voru að ávinna sér traust til að fara uppá Múla.

Á mínum yngri árum beið ég eftir að fá að sjá kellu en hún vildi aldrei sýna sig þegar ég fór þarna um.

Verð samt að játa að ég var svolítið hrædd þegar ég snéri baki í hellirinn og fór heim aftur.

Var ekki alveg með hreina samvisku og hugsaði mikið um hvað maður mætti vera óþekkur til að sleppa.

Kannski hitti ég Grýlu í næstu smalamennsku.

31.08.2020 21:20

Smá fréttaskot úr Hlíðinni.

 

Það er ennþá sumar hér í Hlíðinni hægur vindur, hiti og bara eitthvað svo notalegt.

Þegar þessi tími er kominn er það nú ekki sjálfgefið. Svo fyrir það ber að þakka.

Næturfrost og næðingur eru kannski í kortunum en við erum ekkert að velta okkur uppúr því.

Sumarið hefur á margan hátt verið gott svona frá náttúrunnar hendi.

Gott tíðarfar, góður heyfengur og svo maður tali nú ekki um silungsveiðina sem hefur verið með miklum ágætum.

En það er ýmislegt sem ekki hefur verið eins og best verður á kosið.

Covid kvikindið hefur gert það að verkum að fáir hestahópar voru á ferðinni hjá okkur þetta sumarið.

Eins fórum við ekki í okkar árlegu stóru og skemmtilegu hestaferð  en það bíður bara betri tíma.

Það verður nú eitthvað þegar við förum af stað eftir að hafa verið háfl ,,fjörusvellt,, heilt sumar.

Eins hafa margir af okkar góðu gestum sem hugðust koma og dvelja í gestahúsunum ekki haft tök á að koma.

En við erum bjartsýn og hlökkum til að taka á móti þeim þegar allt er um garð gengið.

 

Tamningar og þjálfun eru í fullum gangi þar sem bæði er verið að vinna við frumtamningar og einnig þjálfun nýrra söluhrossa.

Það hafa komið mörg spennandi tryppi til okkar í tamningu og einnig höfum við kynnst nýjum og spennandi gripum úr okkar ræktun .

Boðið var uppá frumtamninganámskeið hér og mættu nemendur með sín eigin tryppi til að vinna með.

Alltaf jafn gaman að fylgjast með og sjá efnileg trippi og tamningamenn. Til stendur að bjóða uppá fleiri námskeið og fleira skemmtilegt.

 

Þrjár hryssur eru komanar heim eftir stefnumót sumarsins með vottorð uppá vasann um að gæðingsefni sé væntanlegt næsta sumar.

Snekkja Glotta og Skútudóttir fór undir Álfaklett frá Syðri Gegnishólum.

Sjaldséð Baugs og Venusardóttir fór undir Svartálf frá Syðri Gegnsihólum.

Gangskör Adams og Kolskarardóttir fór undir Ljósvaka frá Valstrýtu.

 

Kolskör er svo rétt ókomin heim eftir stefnumót við Veigar frá Skipaskaga.

 

Þetta verður bara spennandi sko.

 

23.08.2020 10:02

Það er sumar.

 

Verðurblíðan undanfarið hefur verið dásamleg hér í Hlíðinni.

Orð eru óþörf þegar myndirnar tala sínu máli.

Þarna sést heim í Hlíðina á fallegum degi.

 

 

Steinholtið, Hlíðarvatn og fjöllin öll á sínum stað.

 

 

Litadýrð.

 

 

Spegill dagsins.

 

 

Veiðistaðurinn góði.

 

 

Kvöldkyrrðin er dásamleg.

 

 

Kvöldgöngutúrarnir í svona aðstæðum eru frábærir og engin afsökun til að sleppa þeim.

Veiðimenn og tjaldgestir hafa notið einnar bestu veðurblíðu sumarsins hér um helgina.

Vonandi verða næstu vikur eitthvað í líkingu við þetta.