01.01.2023 17:47

Komdu fagnandi 2023.

 

 

 

Kæru vinir.

Við óskum ykkur gleði, friðar og farsældar á nýju ári. Megi gæfa og góð heilsa fylgja ykkur öllum.

Árið var viðburðaríkt, lífið tók stundum ófyrirséðar stefnur en það er nú einmitt það sem gefur því lit.

Uppúr stendur fjölgun í fjölskyldunni þegar lítil dama fæddist rétt fyrir jólin. Stóri bróðir stendur sig vel og er orðinn aðstoðarmaður númer 1 við bústörfin.

Við erum svo þakklát fyrir allt okkar góða fólk.

Ættingjar, gamlir vinir, nýjir vinir þið eruð æði.

Njótum lífsins, gerum eitthvað skemmtilegt og verum góð hvert við annað.

Þar sem að lítill tími hefur gefist til að skrifa pistla og fréttir hér inná síðuna að undaförnu ætla ég að láta fylgja með nokkara mola í máli og myndum á næstunni.

Tímaröðin verður ekki rétt þar sem ég ætla bara að velja af handa hófi það efni sem hér birtist.

 

 

Við fórum ekki til Tene en nutum samt lífsins af lífi og sál þá sérstaklega hér heima í Hlíðinni.

Ég hef kosið að muna mest eftir því hvað blíðviðrisdagarnir voru góðir og fallegir.

Við fengum t.d dásamlegt veður í hestaferð, leitir og réttir svo að eitthvað sé nefnt.

Heyskaparveður var hinsvegar nokkuð blóðþrístingstengt þ.e.a.s óvissustigið var alls ráðandi.

Já og ég lærði allan textann við lagið ,,Veðurfræðingar ljúga,, í sumar. Skrítin tilviljun.

 

 

Á meðan maður bíður eftir því að mega keyra traktor verður bara að merkja rúllur.

Það er þetta með að bíða eftir því að verða nógu gamall.

 

 

Fallegu dagarnir þeir voru alveg í boði svona inná milli.

 

 

Þeir voru jafnvel til sem töldu hitan í sumar vera full mikinn.

 

 

En eitt er víst góð stígvél voru þarfa þing síðast liðið sumar.

 

Þangað til næst góðar stundir.

 

 

 

 

 

24.12.2022 15:29

Gleðilega hátíð.

 

 

13.11.2022 21:17

Helgarnámskeið.

 

24.10.2022 12:53

Haustið 2022.

 

Fallegt haustveður í Hlíðinni og kindurnar í góðum málum í blíðunni.

 

 

Sólsetur yfir Oddastaðavatninu.

 

 

Gestahúsin njóta kvöldsólarinnar.

 

 

Víkin og dýrðin.

 

 

Já svona dagar eru dásamlegir.

23.10.2022 20:03

Lóa okkar.

 

Anna Júlía Hallsdóttir var fædd í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal 3 febrúar 1930. Hún lést þann 5 október á Dvalar og hjúrkunarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi.

Foreldrar hennar voru hjónin Hallur

Magnússon og Hrafnhildur Einarsdóttir í Hallkelsstaðahlíð.

Anna Júlía var eitt tólf barna þeirra hjóna. Þau eru Einar, f.1927,

Sigríður Herdís,f.1928, Sigfríður Erna,f.1931,

Ragnar, f.1933, Margrét Erla, f.1935, Guðrún, f.1936,

Magnús,f.1938, Sveinbjörn,f.1940, Elísabet Hildur,f.1941,

Svandís, f.1943, og Halldís, f.1945. Látin eru Magnús, Einar,

Guðrún, Svandís, Ragnar, Sigríður Herdís og Sigfríður Erna.

Anna Júlía eða Lóa eins og hún var ævinlega kölluð byrjaði ung að vinna við bú og heimilishald foreldra sinna í Hallkelsstaðahlíð.

Anna Júlía fór til náms á Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Hún flutti síðan til Reykjavíkur og vann m.a í Vinnufatagerð Íslands, var í vist á nokkrum heimilum og starfað í fiski. Einnig var hún kaupakona á Seylu í Skagafirði. Rúmlega þrítug flutti hún heim í Hallkelsstaðahlíð og bjó þar til í lok febrúar árið 2020 en þá flutti hún á Brákarhlíð.

Útförin fer fram frá Kolbeinsstaðakirku laugardaginn 15 október og

hefst kl 14.00

 

Hér á eftir koma minningarorð sem ég ritaði um Lóu.

 

Lóa móðursystir mín hefur kvatt í hinsta sinn. Hógvær, hlý og þakklát eins og hún var ævinlega. Hún fékk tíma til að kveðja og var þakklát fyrir það. Stór fjölskyldan var henni allt og góðar fréttir af henni var lífið sjálft.

Ég á henni að þakka umhyggju, hlýju og gleði fyrir fimm ættliði. Amma Hrafnhildur og Lóa áttu traust og gott samband alla tíð.

Mamma og Lóa voru afar nánar sérstaklega síðustu árin þegar þær töluðu saman í síma amk einu sinni á dag. Þegar mamma féll frá þá erfði ég þessar stundir. Símtal frá Lóu fyrir tíufréttirnar var orðinn fastur punktur í lífinu. Fréttir af daglegum störfum hér í Hlíðinni voru bestu fréttirnar fyrir hana.

Þegar Mummi sonur minn kom í heiminn varð hann eins og ég einn af hennar börnum. Ekki minnkaði hlýjan og aðdáunin þegar Atli Lárus sonur Mumma fæddist. Lóa dýrkaði litla manninn og var dásamlegt að sjá þau hittast.

,,Hvað er að frétta af litla polla,, og svo ljómaði hún.

Minningar mínar frá unga aldri eru margar tengdar Lóu og hennar lífi.

Hún kenndi mér að spila grúfu, prjóna og stoppa í ullarsokka.

Ef að maður bað Lóu að gera eitthvað þá var það alltaf sjálfsagt. Hún gerði alltaf allt fyrir alla sem hún gat og það með bros á vör. ,,Lóa hvar er þetta og hvar er hitt,, og Lóa fann alltaf allt.

Þolinmæði var henni ríkulega gefin og sást það best á samskiptum hennar við börnin sem voru á hennar lífsleið. Hún var nánast amma allra þeirra og gaf sér endalausan tíma. Klukkustundirnar sem að hún var að svæfa börn eða lesa fyrir þau eru klárlega óteljandi.

Óteljandi eru líka sokkarnir og vettlingarnir sem að Lóa prjónaði og gaf ættingjum og vinum. Þeir munu ylja um ókomin ár bæði líkama og sál.

Þegar ég var lítil átti ég þann draum heitastan að kunna og fá að marka lömb. Eins og gefur að skilja er það ekki verk fyrir börn en Lóa fann lausn á þessu máli. Tíminn kom innvafinn í pappír á þessum árum. Pappírnum safnaði Lóa saman og klippti síðan út eftirlíkingu af lambseyrum. Þessi lambseyru sem Lóa bjó til skiptu tugum í hverri viku og voru nýtt upp til agna. Lóa var ekki mikill bóndi en nokkur voru þau verk sem að hún tók að sér sem skiptu afar miklu máli í búskapnum. Kíkirinn var aldrei langt undan og mörgum kindum bjargaði hún þegar hún sá eitthvað sem þarnaðist nánari skoðunnar.

Fjárstofnin hennar var ekki stór en saman stóð af Lögg og Fegurð sem voru endurnýjaðar eftir þörfum.

Hún taldi hrossin í hverri girðingu oft á dag og fylgdist vel með að ekkert færi út fyrir. Það voru mikil viðbrigði þegar hún flutti á Brákarhlíð og lagið kíkirinn á hilluna.

Þegar Lóa flutti á Brákarhlíð voru skrítnir covid tímar en hún tók þessum umskiptum af æðruleysi eins og henni einni var lagið.

Lóa og Svenni áttu góðar stundir saman á Brákarhlíð rétt eins og hér heima. Samkennd, hlýja og virðing einkenndi þeirra daglegu samskipti.Starfsfólki Brákarhlíðar eru hér færðar innilegar þakkir fyrir hlýja og góða umönum.

Við hér í Hlíðinni þökkum Lóu fyrir það sem hún gaf okkur öllum.

Minningin um ljúfa, góða og umhyggjusama konu lifir og yljar.

Sigrún Ólafsdóttir og fjölskylda.

 

24.09.2022 15:49

Réttir í máli og myndum en þó aðallega myndum.

 

Við byrjuðum réttarfjörið í Skarðsrétt við Svignaskaðrð eins og oft áður.

Gott veður og skemmtilegt fólk er staðalbúnaður þar.

 

 

Já það er sannarlega gaman að hitta gott fólk og taka stöðuna.

Þórhildur á Brekku, Guðrún á Ölvaldsstöðum og Sigríður frá Svignaskarði.

 

 

Já við vorum bara kát með daginn.

 

 

Þessi mynd er hinsvegar tekin þegar við vorum að reka inn safnið heima í Hlíðinni.

 

 

Það var þétt skipað í fjárhúsunum ,réttinni og aðhaldsgirðingunni.

Vel yfir tvö þúsund fjár kom af fjalli þessa daga og líta heimtur þokkalega út m.v tíma.

 

 

Alltaf gaman að raga í fé þegar veðrið er gott og allt þurrt og þokkalegt.

 

 

Uppáhaldskindur fá að sjálfsögðu mynd en þarna er hún Sýltkolla mín með gimbrina sína.

 

 

Hér má sjá vaska sveina að leggja af stað í Oddastaðafjall.

Ísólfur, Hrannar, Skúli og Sveinbjörn.

Þeir eru hluti þeirra smala sem sem nutu góða veðursins og smöluðu þennan fallega dag.

 

 

Þessi spræki bóndi lagði upp með nesti og nýja skó eins og lög gera ráð fyrir.

 

 

Og auðvitað skilaði hann sér niður og var klár í ,,kaffitímann,, sem tekin var þegar niður var komið.

 

 

 

Hún Þóranna kemur sífellt á óvart og þarna er hún orðin þessi fína hestakona.

 

 

Já veðurblíðan hún var dásamleg.

 

 

Þessi tvö eðal á góðri stundu.

 

 

Bjór geymist misjafnlega það vitum við enda eins gott.

Ég þekki mann sem hendir ekki bjór en velur að drekka hann ekki alltaf á almannafæri.

Þá getur verið hentug að fara í nokkurhundruð metra hæð til fjalla og smala kindum.

Ég nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn byrjar á ...............................

 

 

Og þessi mæðgin stóðu sig frábærlega og áttu skilið ,,Tule,, en urðu að sætta sig við þennan.

 

 

Þessi voru öflug og stóðu sig eins og landgöngulið af bestu gerð.

 

 

Þessi hér er eðal og stóð sig frábærlega eins og venjulega.

Ég vildi nú fara að spara hana en hún er komin á níræðisaldurinn þó að það sjáist nú ekki.

Það var ekki í boði af hennar hálfu og við nutum svo sannarlega góðs af.

Að steikja mörg hundruð kjötbollur, elda kjötsúpu og baka lék í höndunum á henni.

 

 

Klárir í Hafurstaðafjall....................nú mega óþægu kindurnar vara sig.

Telma, Maron, Ísólfur, Skúli og Hlynur.

 

 

Kindur eru klárar og finna gjarnan leiðir sem ekki er ætlast til að þær velji á sjálfan leitardaginn.

Stundum gerist eitthvað óvænt og þá verður að rjúka til og jafnvel fara á allt aðrar slóðir en til stóð.

Stutta útgáfan........

Og ég komst fyrir þær .............. uppá Krókhlíðarkasti.

 

 

Það mátti ekki miklu muna og mikið sem myndavélin er góð að ná mynd án hreyfingar.

Já húsfreyjan blésð eins og suðvestan áttin í ham þegar rollu skammirnar voru sigraðar.

 

 

Sandfellið er alltaf fallegt í mínum augum.

 

 

 

Séð yfir Háholtin á Hafurstöðum.

 

 

Blíðan maður blíðan.

 

 

Séð niður að Hafurstöðum.

 

 

Á leiðinni heim er gott að fá taxa.

Þá er val um fyrsta, annað og jafnvel þriðja farrými.

 

 

Sameinaðir stöndum vér sundraðir föllum vér.

Ber er hver að bak nema bróður eigi.

 

 

Og allri komu þeir heim..................smalarnir.

 

 

Gott dagsverk að baki.

 

 

Þrjú í sófa ekki á palli.

 

 

Stína og strákarnir..................

 

 

Auðvitað var sungið og haft enn meira gaman.

Þarna er lítið brot af stuðpinnunum.

 

 

Dúettinn.................

 

 

Þessi mynd getur bara heitið ,,Hrannar fúll og systur kátar"

 

 

Dásalegir dagar með góðu veðri, frábæru fólki og íslensku sauðkindinni.

Hvað má biðja um meira.

Takk kærlega fyrir elsku vinir og vandamenn sem tókuð þátt í þessu réttastússi með okkur.

 

31.08.2022 09:08

Meira af hestaferð 2022

 

 

Það var skemmtilegt að koma í Stangarholt.

Þar beið góð girðing ferðahestanna og kvöldsólin setti hálfgerða töfra yfir allt.

 

 

Þarna er allt að verða klárt til að ríða inná Grenjadal sem bíður uppá magnað landslag.

Já og ekki var Hraundalurinn síðri í blíðunni.

Þessir dalir á vestulandi eru nú meiri dásemdin.

 

 

Hvað er hægt að biðja um meira ? fjallaloft, sól og sumar.

 

 

Alltaf gott að fá góða gesti í áningarstað.

 

 

Þessi mynd fangar símatíma, nestistíma já og góða tíma.

 

 

Hrossin könnuðu landslagið í Lambafelli kannski dreymir þau um að fara í leitir á þessum slóðum.

 

 

Nei þetta er ekki Þórður húsvörður.....................

 

 

Það er nú gott að hafa svona upplýsingar.

 

 

Sólbað undir vegg er snildin ein.

 

 

Þetta eru svona feðgar á ferð eða þannig.

 

 

Þessar voru klárlega skvísur ferðarinna svo dásamlegar.

 

 

Sumir fá auka dekur.

 

 

Strollan var nokkuð löng hjá okkur.

 

 

Og enn meira sólbað.

 

 

Spekingar spjalla.

 

 

Kaffitími.

 

 

Meirihluti fjölskyldunnar var mjög bjartsýnn....................

 

 

Grasafræðitíminn var tekin í sólinni bæði kennarinn og nemandinn einbeittir.

 

 

Þessir voru kátir eins og vera ber undir svona kringumstæðum.

 

 

Þessi sló heldur ekkert af og var hress og kát að vanda.

 

 

Undir brattri hlíð í skjóli ................alveg þangað til haglélið kom.

 

 

Gamli farvegur Hítarár er ekki merkilegur að sjá eða jú hann er náttúrulega stórmerkilegur en frekar lítilfjörlegur að sjá.

Þarna þurfti nú oft að velja vel slóðan til að komast yfir en ekki í dag.

 

 

Það var klárlega ekki í Hítará sem frúin fór á kaf í ferðinni.

En hún komst upp við ekki svo illan leik.

 

 

Það gránaði í fjöll í nokkra klukkutíma og ég verð að játa að oft hefur verið betra veður í Mýrdal en ákkúrat þarna.

 

 

Já það haustaði augnablik en svo kom sumarið aftur.

 

 

Við vorum ljónheppin og þurftum ekki að járna svo mikið í þessari ferð m.v fjöldan sem við vorum með af hrossum.

Spurning hvaða járningamanni það er að þakka ??

Þeir koma nokkrir til greina.

 

 

Staðreyndir tala sínu máli hér er ein.

Sopi við hverja járningu og staðan í pelanum bara fín.

 

 

Ég vitna alltaf í orðin hennar mömmu þegar allir eru komnir heilir heim bæði menn og hestar.

,,Það besta við frábæra ferð er þegar allir koma heilir og kátir heim,,

Mummi og Einstakur telja menn og hesta í gegnum hliðið heima.

 

 

Þessi hér var ekki gömul þegar hún fór með okkur í fyrstu hestaferðina sína.

Kom mjög ung að árum fyrst í hlaðið af stórum hópi þá var Sveinbjörn frændi minn kátur.

,,Er stelpuskottið að vinna hestaferðina" síðan þá er það mikið kappsmál að sigra í hestaferðinni.

Já það verður að hafa gaman af lífinu og hestaferðir hjálpa svo sannarlega til við það.

 

17.08.2022 19:53

Hestaferð 2022 fyrsti hluti.

 

 

Það var alveg kominn tími á hestaferð, já alvöru rekstrarferð með slatta af hrossum og góðum vinum.

Lagt var af stað úr Hlíðinni með flotann og ferðinni heitið beint af augum.  Ferðafélagið heitir jú Ferðafélagið beint af augum.

Fyrsti áfanginn var að Kolbeinsstöðum og gekk ferðin ljómandi vel en hraðinn á rekstrinum svona í meira lagi.

Þar hvíldu hrossin eina nótt og mannskapurinn fór heim í Hlíðina og undirbjó sig fyrir skemmtilega daga.

Næsti áfangi var að Staðarhrauni frábær leið og dásamlegt veður.

 

 

Eftir að skriðan féll í Hítardal hefur áin heldur betur breyst.

Auðvelt er að ganga á yfir gamla árfarveginn jafnvel á gúmískóm (dreifbýlistúttum)

En Tálminn hefur tekið við og var bara nokkuð vatnsmikill þegar við vorum á ferðinni.

 

 

Mummi fór í gott fótabað og sú brúna stóð sig ljómandi vel í sullinu.

 

 

Hópurinn buslar yfir Tálmann.

 

 

................ með alvöru buslugangi.

 

 

Það getur verið gott að vera á stórum hesti þegar svona vatnsföll eru riðin.

 

 

Enda gekk þetta ljómandi vel.

 

 

Ungdómurinn stóð sig líka afar vel.

 

 

Alveg eins og þessi sem brunaði yfir eins og ekkert væri.

 

 

Lokkur var kátur með þvottinn enda ekkert sniðgust við að vera hvítur í moldrykinu.

 

 

Sjáið bara hvað baðið gerir gott.

 

 

Sumir eru ekki svo stórir......................

 

 

Og enn fleiri í baði.

 

 

Æðruleysi er gott veganesti.

 

 

Skjóttadeildin.

 

 

Sjaldséður æfir brokk í Tálmanum með tilheyrandi skvettum.

 

 

Systir hans Vandséð líka.

 

 

Hagur kannar dýftina á öðrum stað.

 

 

Og enn fleiri.

 

 

Öss öss alveg að komast í land.

 

 

Og ró kemst á rennslið í Tálma.

 
 
 

Og allir komust yfir bæði menn og hestar.

 

 

Þá var það nestið og síminn.

 

 

Garðabær átti að sjálfsögðu sína fulltrúa.

 

 

Eins og Borgarnes..............

 

 

Þessi er hugsi enda í ábyrðarstöðu hjá okkur nú sem fyrr.

 

 

Sumir týndu skeifum og þá þarf að járna í einum grænum til að halda áfram ferðinni.

 

 

Þá reynir á járningamennina................... sem taka til hendinni eins og þarf.

 

 

Slá til skeifur og gera klárt.

Já það er dásamlegt að vera í hestaferð.

Nánar í næsta hluta.

 

 

03.05.2022 12:39

 

Sigrún Ólafsdóttir bóndi og tamningamaður skipar 5. sætið á lista Framsóknar í Borgarbyggð.

Sigrún er 57 ára og býr í Hallkelsstaðahlíð þar sem fjölskyldan rekur sauðfjárbú, hrossarækt og víðtæka þjónustu við hestamenn. Auk þess hefur verið byggð upp ferðaþjónusta á síðustu árum sem fer ört stækkandi. Hún er fædd í Reykjavík en bjó allan sinn uppvöxt í Hallkelsstaðahlíð, gift Skúla Lárusi Skúlasyni bónda, trésmíðameistara og tamningamanni. Búið reka þau í samvinnu við son sinn Guðmund Margeir, reiðkennara og tamningamann og Brá Atladóttur, bú og hjúkrunarfræðing. En þau búa einnig í Hallkelsstaðahlíð með tveggja ára syni sínum.

Sigrún bjó 12 ár í Borgarnesi þar sem að hún starfaði fyrst á Hótel Borgarnesi og lengst af í Sparisjóði Mýrasýslu. Sigrún hefur verið virk frá unga aldri í ýmiskonar félagsmálum. Var oddviti sveitastjórnar í Kolbeinsstaðahreppi í átta ár, varaþingmaður Framsóknarflokksins og varamaður í hreppsnefnd Borgarness um árabil. Hefur auk þess setið í fjölmörgum nefndum á vegum sveitarfélaga og ráðuneyta. Nú síðast setið í Umhverfis og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar, Fjallskilanefnd Kolbeinsstaðahrepps og á sæti í stjórn Brákarhlíðar.

Sigrún hefur lagt sitt af mörkum í félagsmálum hestamanna. Formaður Félags tamningamann, formaður hestamannafélagsins Snæfellings, sat um árabil í stjórn Landssambands hestamanna lengst af sem gjaldkeri átti einnig sæti í Fagráði um nokkurt skeið. Hún hefur verið virkur dómari í gæðinga og íþróttakeppni í rúmlega 30 ár. Einnig kannast margir við rödd hennar enda verið þulur á fjölmörgum keppnum og viðburðum í hestamennsku.

„Ég er þakklát fyrir það traust að fá að skipa 5 sæti lista framsóknarmann hér í Borgarbyggð. Þar fer fjölbreyttur og öflugur hópur fólks sem tilbúið er að leggja sitt af mörkum til að bæta okkar góða sveitafélag og sækja fram á öllum sviðum.

Tækifæri til uppbyggingar, framþróunar og vaxtar eru á hverju horni í sveitarfélaginu. Saman þurfum við að nýta þessi tækifæri.

Við þurfum að standa vörð um mikilvæga innviði sveitarfélagsins sérstaklega þegar farið veður í uppbyggingu sem vonandi leiðir til fjölgunar íbúa.

Við þurfum að tryggja að velferðarþjónusta verði sem best um allt sveitarfélagið.

Við þurfum að tryggja að öll skólastig verði í fremstu röð á landsvísu.

Við þurfum að tryggja að samgöngur, fjarskipti og orkumál í sveitafélaginu verði a.m.k. viðunandi.

Við þurfum að tryggja sem best rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki í sveitafélaginu.

Við þurfum að tryggja að landbúnaður verði áfram einn að burðarásum samfélagsins.“

 
 
  • 1