Færslur: 2014 Janúar

31.01.2014 11:14

FT í FákaseliÞað var gaman í gær þegar góður hópur félaga í Félagi tamningamanna heimsótti Fákasel nýja hestamiðstöð á Ingólfshvoli. Guðmar Þór og hans fólk tók vel á móti okkur FT félögum.
Þar sem ég var ekki með myndavélina með smellti ég inn mynd sem tekin var á 40 ára afmælishátíð FT.


Boðið var uppá hestasýningu sem var afar skemmtileg og áhrifarík þar sem risaskjár leikur stórt hlutverk. Á skjánum fær maður íslenska náttúru beint í æð ef svo má að orði komast.
Þegar gengið var í salinn hljómaði notalegt sjávarhljóð rétt eins og maður væri komin á Löngufjörur á góðum degi. Á meðan sýningin fór fram birtust svo fleiri myndir með nýjum upplifunum m.a eldgos, vont veður, sumarblíða og hvað eina sem íslensk náttúra hefur uppá að bjóða.
 Djákninn á Myrká var flottur og ég er ekki frá því að ég hafi séð honum bregða fyrir hér í Hlíðinni stöku sinnum. Já já það er stundum reimt hér í dalnum.
Opnunaratriðið var frábært en þá kemur fallegt stóð sem skokkar um salinn með skemmtilega smala og frábæran hund sem svo sannarlega kann sitt fag.
Sýningin er stutt, fjölbreytt og að lang flestu leiti góð en á örugglega eftir að slípast enn betur.

Eitt er það þó sem mér finnst ekki gott en það er þetta hjálmleysi í flestum atriðunum, algjör óþarfi. Í samstarfi við svo góðan og reyndan búningahönnuð væri leikur einn að útfæra þetta á farsælan og flottan máta.
Þetta er mín skoðun og flokkast kannske undir tuð en þeir sem hafa séð og reynt hvað hjálmurinn er mikilvægur vita sitt. Mér finnst lífið yndislegt og nota hjálm.

Það er gaman að geta bent ferðamönnum á að skoða þessa sýningu sem verður í gangi fimm sinnum í viku allt árið.
Þið sem ekki hafið enn séð sýninguna drífið ykkur það er alveg þess virði.

Það er alltaf gaman að gera eitthvað skemmtilegt með FT og það var svo sannarlega gaman í gær. Takk fyrir góða kvöldstund kæru félagar starfið hjá nýrri stjórn fer vel af stað.

24.01.2014 22:27

Þorrinn, boltinn og allt hittIsss hér var svindlað á bóndadagsveislunni og í staðinn fyrir súrmat, hákarl og herlegheit var bara skellt í pizzu. Mun þægilegra að grípa sér sneið af þessu en slást við þorramat yfir spennandi handboltaleik.
 En allt stendur þetta til bóta og innan skamms verður eitthvað af ,,gömlum,, mat á boðstólnum. Veitir ekki af að æfa sig aðeins fyrir þorrablót, já það er ekki nóg að æfa bara sporin fyrir Geirmundarsveifluna.

Annars var mikil spenna þegar danir voru að keppa við króata í kvöld enda átti Danmörk hér fulltrúa sem fylgdist með sínum mönnum...........Þessi dama var samt bara still og róleg svona miðað við spennuna í leiknum...........Og var að sjálfsögðu heldur betur ánægð þegar danirnir unnu leikinn. Það verður eitthvað fjör á sunnudaginn þegar úrslitaleikurinn fer fram.Svona var hinsvegar ein þegar spennan var í hámarki og danirnir að vinna okkar menn fyrir nokkrum árum.Þetta hefur sennilega verið stemmingin á Hólum í kvöld eða verður allavega á sunnudaginn.
Bara gaman af ,,brjáluðum,, dönum ;)

Flest þjálfunar og tamningahrossin fóru í rekstur í dag enda var veðrið svo margbreytilegt að það var til vandræða. Það var boðið uppá næstum allar tegundir nema sól, eiginlega alveg nóg á einum og sama deginum.

Á morgun verður brunað í bæinn því þá er komið að árlegri  endurmenntun hjá hestaíþróttadómurum. Bara spennandi að hitta skemmtilegt hestafólk.

22.01.2014 22:20

JanúarskotJá ég veit það er ekki sól og sumar en það má samt skoða það á myndum.
Ég veit líka að ekki hef ég verið sérlega dugleg að smella inn fréttum hér síðustu vikurnar.
Hér kemur smá skot.

Nú er allt á fullu og hesthúsið þétt skipað, loksins komið gott veður allavega í bili.
Við höfum fengið góða hjálp í hesthúsið en það er hún Marie frá Danmörku svo eigum við von á henni Natashju okkar aftur fljóttlega.


Það er eflaust misjafnt eftir því hver er spurður hver er hestur vikunnar í hesthúsinu en mér finnst það vera hún Bára litla Arðasóttir.
Astrid fór noður eftir jólafríið með þrjú hross með sér Fannar, Framtíðarsýn og Trillu. Nóg að gera hjá henni í skólanum og bara spannandi tímar framundan.

Folöldin ganga ennþá undir hryssunum ef að frá eru talin þau Snörp Leiknisdóttir og Gosi Gosason en þau komu inn þegar mæðurnar fóru í ,,grænu hagana hinu meginn,,
Já þær voru búnar að skila sínum með glæsibrag Tign frá Meðalfelli og Snör frá Hallkelsstaðahlíð.
Svona er lífið og mikið hugsa ég fallega til þeirra þegar þessar tvær koma uppí hugann.
Hin folöldin koma svo inn á næstunni, kannske bíða þau bara eftir folaldasýningunni sem vonandi verðu fljóttlega í Söðulsholti.Lífið í fjárhúsunum gengur sinn vana gang en ég verð að viðurkenna að nú er stressið fyrir fósturtalningu að ná sér á strik. Ég hef þó enga ástæðu til svartsýni eða það tel ég mér allavegana trú um. Heilsufarið hjá fénu er bara gott og ekkert sem gefur tilefni til annars en bjartsýni.
Við meira að segja heimtum kind með lambi í síðustu viku en þá kom hún Kúðhyrna og bankaði uppá hjá nágrana mínum hinumegin við fjallið. Alltaf gaman að fá fé af fjalli.Hann Ástarbrandur er að ljúka störfum en hann kom hér fyrir jólin til að leggja sitt af mörkum til að viðhalda og kynbæta ferhyrndastofninn. Nú er bara að bíða og sjá hvort ég verði ekki aflögufær næsta haust af ferhyrndum gimbrum. Ég fékk nokkrar beiðnir í fyrra sem að ég gat ekki uppfyllt því það fæddust aðeins tvær ferhyrndar gimbrar í fyrra.


Dekur í Danmörku er ekki daglegt brauð á þessum bæ en þess var notið í ríkulegu mæli um síðustu helgi. Kaupmannahöfn heilsaði með roki og sliddu en móttökurnar að öðru leiti voru hreint út sagt frábærar. Skoðunarferðir, heimsókn í dýragarðinn, þrammað á Strikinu, kaffihús við Nýhöfn að ógleymdri heimsókn í Carlsbergverksmiðjuna.
 Gaman hefði verið að hafa meiri tíma og líta við hjá enn fleiri vinum og kunningjum.
Það verður næst ;)
Veisluhöld og fínerí, já kærar þakkir fyrir frábærar móttökur Sanni og Sören þetta var ógleymanlegt.
04.01.2014 21:06

Rokr.......... þið vitiðÞegar veðrið er eins og það er verð ég bara að ylja mér við sumarmyndir og brosa.

Á myndinni er hún Auðséð mín undan Karúnu og Sporði frá Bergi.
Auðséð er á fjórða vetri og er komin inn fyrir nokkru enda tímabært að byrja tamningu á gripnum.Æfinguna fram og niður er nauðsynlegt að æfa og spurning hvort það er ekki auðveldara svo liggjandi ? Alveg þess virði að prófa sko.Svo kemur alltaf að því að maður verður að rífa sig upp og fara að gera eitthvað af viti.

Já eitthvað af viti, verður allavega að vera eitthvað innandyra því hér hafa verðið ansi margir metrar á sek. síðustu daga.
Hávaðarok og fljúgandi hálka er nú ekkert í uppáhaldi hjá mér en þar sem ég var búin að ná sáttum við vinkonu mína Pollýönnu þá er það bara fínt.
Inúítagöngulagið og 95 ára reglan klikka ekki og hafi maður þetta tvennt að leiðarljósi eru manni allir vegir færir jafnvel í hálku.

Allt í standi og þorrablót á næsta leiti getur maður nokkuð beðið um meira ??


  • 1