09.01.2009 23:27

Keyrum heim að Hólum......



Í gær fóru nokkrir vinir okkar úr hesthúsinu í langt ferðalag, ferðinni var heitið alla leið að Hólum. Þetta voru frá vinstri á myndinni Þríhella, Vinningur, Fannar og Dregill.
Þar sem að veðurspáin var heldur leiðinleg fyrir helgina þá var ákveðið að drífa þau bara norður á meðan engin hálka væri og gott veður. Mummi smellti þeim á kerruna og lagði af stað fyrir hádegi, var svo kominn aftur til baka um kvöldið. Hann hafði með sér fína selskapsdömu hana Snotru mína. Hún ferðast venjulega ekki mikið nema á sínum fjórum fótum um heimalandið svo þetta var heljar bíltúr hjá henni, fékk meira að segja pylsu á Blönduósi.
Fannari er ætlað viðamesta hlutverkið af hópnum sem sagt að vera nemendahestur hjá Mumma. Í því felst að þeir fari saman í gegnum súrt og sætt í náminu í vetur.
Hin hrossin þrjú eru á mismunandi stigum í tamningu og þjálfun, ætlumst við gamla settið til þess að þau hafi gagn af og hann gaman af samstarfinu.
Til gamans má geta þess að hestarnir þrír Fannar, Vinningur og Dregill eru bræður. En svolítið ,,snúnir,, bræður þ.e.a.s Fannar og Dregill eru báðir undan Gusti frá Hóli en Fannar og Vinningur eru báðir undan Tign frá Meðalfelli. Sem sagt Fannar er aðal bróðirinn.emoticon
Svo er það hún Þríhella hún er Hlynsdóttir frá Lambastöðum. Það er alltaf gaman þegar fólk heyrir nafnið hennar í fyrsta sinn, flestir segja ,,ha,, hinir horfa skilnings litlir á mann og hugsa mikið er hún óskýrmælt.
En Þríhella fékk nafnið sitt innan við klukkustundar gömul. Hún er fædd ,,útá hlíð,, sem við köllum þar undir berggangi sem heita Þríhellur. Set inn mynd við tækifæri þar sem þið getið séð Þríhellurnar.
Læt fylgja með hvers vegna Fannar og Vinningur heita sínum nöfnum. Þegar Fannar fæddist 28 maí var alhvít jörð því ekki um annað að ræða. Vinningsnafnið er þannig til komið að ég fór eitt sinn á reiðhallarsýningu í Víðidalinn og vann folatoll undir Gauta frá Reykjavík. Um sumarið fór ég svo með Tignina mína undir hann og þá varð hann Vinningur til.

Hér fyrir neðan er svo Fannar kominn í fínu svítuna sína á Hólum.
Vonandi ekki með heimþrá.