17.02.2009 01:08

Hugleiðingar um dómaramál.


Var að koma heim af endurmenntunnarnámskeiði íþróttadómara. Hefði viljað fá meiri fróðleik og fyrirlestra eins og í fyrra, en það er ,,kreppa,, svo að það hefur ef til vill verið ill framkvæmanleg. Ekki margir sem fá að dæma það mikið að þeir vilji leggja í mikinn kostnað til að halda réttindunum. Það er mjög slæmt og tel ég það ákveðið áhyggjuefni hvernig þessum málum er háttað. Alvarlegast er þó hvað það er erfitt að koma á einhverju skipulagi varðandi úthlutun dómara á löglegmót sem haldin eru eftir reglum LH. Eðlilegast og það sem talað hefur verið fyrir af stórum hópi dómara og knapa er að úthlutun á öll löglegmót fari fram í gegnum LH eða dómarafélögin. Með því að gera það að skildu að dómurum sé úthlutað í gengum LH eða dómarsfélögin aukum við trúverðuleika og auðveldara verður að gæta hlutleysis þegar sami háttur er hafður á við öll mót. Úthlutað yrði á hvert mót með góðum fyrirvara og þess gætt að ekki dæmdu alltaf sömu dómarar hjá hverju félagi. Við úthlutun væri nauðsynlegt að sem flestir dómarar fengju að spreyta sig og þannig gert keift að fá reynslu. Góð menntun, mikil reynsla, samviskusemi og heiðarleiki eru þeir kostir sem prýða þurfa góðan dómara. Þessa eiginleika þurfum við að leggja rækt við og efla til þess að þeir sem leggja margra mánaða og ára vinnu í hendur dómara fái réttlátan dóm. Dómarar þurfa æfingu hana fá þeir ekki nema að vera virkir og nái að dæma nokkur mót á hverju ári.
Hestamennskan er harður heimur leggjum okkar af mörkum til að gera dómgæsluna faglega,heiðarlega og þannig að við öll getum verið stolt af.