03.03.2009 22:23

Bylur og tískuklippingar.


Það er blessuð blíðan og bæjirnir allt í kring, það veit ég þó svo að ég sjái ekki út um gluggana. Með öðrum orðum það er öskubylur og búinn að vera meira og minna í allan dag.
Ég notaði því tímann og ruslaði í pappír fram að hádegi, hnoðaði brauð og lék myndarlega húsmóðir. Eftir hádegi var ég sauðfjárbóndi við Helgi fórum og endur skipulögðum rolluelliheimilið og færðum hrútana í sína venjulegu stíu. Læt mig dreyma um að hann John frá Noregi komi og sónarskoði fyrir okkur eins og venjulega, má ekki til þess hugsa að sleppa því. Bæði er John skemmtilegur svo er þetta ein mesta vinnuhagræðing sem hugsast getur í sauðfjárbúskap þ.e.a.s vita hvað mörg lömb koma úr hverri kind að vori. Þá getum við gert vel við tví, þrí og fjórlemburnar haft einlemburnar sér og farið yfir geldu kindurnar með stóru gleraugunum fyrir páskaslátrun. Þetta gerir það að verkum að allt verður auðveldara þegar kemur að því að deila út lömbum að vori þannig að sem flestar kindur gangi með tvö lömb á fjalli yfir sumarið.
Skúli byrjaði að klippa snoðið af kindunum í dag, byrjaði rétt fyrir miðdegiskaffi og hitaði sig upp fyrir nokkur hundruð klippingar. Afraksturinn var 75 stykki. Býsna góð byrjun. Ef að veðrið verður svona næstu daga verður örugglega klippt af kappi annars verður bara tekinn smá hópur á hverjum degi með tamningunum. Því þó að inni aðstaðan okkar bjargi heil miklu á svona dögum þá rúmar hún ekki fjóra hesta og knapa í líflegum sveiflum alla í einu. Svo við bara skiptumst á.