05.04.2009 20:08

Salli minn orðinn sjötugur???




Þessi elska varð 10 ára á laugardaginn, til lukku með það flotti draumaprins.

Ýmislegt hefur á dagana drifið síðan ég bloggaði síðast. Á fimmtudaginn var mér boðið norður á Sauðárkrók til að halda fyrirlestur á málþingi um mikilvægi Háskólans á Hólum.
Í leiðinni var skroppið að Hólum, þar hitti ég Mumma ,,litla,, og  læddist svo inní verklegan tíma hjá verðandi reiðkennurum. Þórarinn Eymundsson var að kenna þeim og var gaman að fylgjast með og sjá hvað nemendurnir voru að gera. Skemmtilegt að koma í heimsókn á Hóla.

Á föstudagskvöldið eftir góðan útreiðadag var hópferð á leiksýningu í Logalandi þar var sýnt leikritið Töðugjaldaballið. Alveg bráðskemmtilegt leikrit söngur og dans og ekki er nú verra að kannast við flesta leikarana. Daði smalinn minn góði fór með eitt af aðalhlutverkunum og var hreint frábær. Söng, dansaði og sannaði það svo sannarlega að hann er ekki bara góður smali.Það gerði einnig Þórður bróðir hans sem spilaði í hljómsveitinni af miklum móð og kemur sterkur inn í næstu ,,réttarhljómsveit,,
Skemmtilega kvöldstund sem endaði svo með kaffi og köku hjá Þóru og Magnúsi.

Laugardagurinn var frábær gott veður og mikið riðið út og eins og stundum kvöldmaturinn á ókristilegum tíma. Um helgina urðu svolítil umskipti í hesthúsinu og núna eru stóðhestarnir orðnir fjórir. Góðir gestir litu við í hesthúsinu og skoðuðu sína gripi.
Ég komst að einu þegar ég var að telja upp hrossin sem eru á járnum að þau eru undan a.m.k 24 stóðhestum. Þeir eru Gustur frá Hóli, Hlynur frá Lambastöðum, Hljómur frá Brún, Klettur frá Hvammi, Hrymur frá Hofi, Arður frá Brautarholti, Orion frá Litla-Bergi, Stæll frá Miðkoti, Svartur frá Sörlatungu, Víkingur frá Voðmúlastöðum, Oddur frá Selfossi, Hrókur frá Glúmstöðum, Piltur frá Sperðli, Frægur frá Flekkudal, Þorri frá Þúfu, Illingur frá Tóftum, Þór frá Þúfu, Deilir frá Hrappsstöðum, Randver frá Nýja-Bæ, Skorri frá Gunnarsholti, Hamur frá Þóroddsstöðum, Huginn frá Haga, Dynur frá Hvammi, Vetur frá Hallkelsstaðahlíð og ég  er örugglega að gleyma einhverjum. Vitið þið hvað ? Ég hef skráð upplýsingar um öll tamningahrossin sem verið hafa hjá okkur síðan 1992 þau eru komin vel á annað þúsundið. Gaman að fletta, rifja upp og skoða en gaman hefði verið að eiga myndir af þeim öllum.

Hann Axel vinur okkar í Hraunholtum fermdist í dag og fórum við í þessa fínu veislu sem haldin var í Lindartungu. Við fengum nú fleiri boð um fermingaveislur í dag en því miður gátum við ekki verið í þeim öllum. En innilega til hamingju krakkar.

Þrátt fyrir veisluhöld var þó nokkuð riðið út og var fyrirmyndarhestur dagsins engin önnur en hún Ósk sem er farin að splæsa þessu fína tölti.