17.10.2009 22:14

Hver verða örlög Sindra Kveiks???

 Það er orðið langt síðan ég hef gefið mér tíma til að setjast niður og færa ykkur fréttir héðan úr Hlíðinni. Síðasta vika var erilsöm í meira lagi og því lítið um skriftir og vangavelltur.
Á mánudaginn var fundur hjá okkur í stjórn Félags tamningamanna og á þriðjudaginn var síðan fundur í Fagráði í hrossarækt. Þetta voru góðir fundir og ýmislegt í farvatninu á báðum vígstöðum.
Vil ég minna ykkur á að Anton Páll Níelsson reiðkennari verður með sýnikennslu í Reiðhöll  Hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi næsta miðvikudag þann 21 október. Ég hef farið á sýnikennslu hjá honum áður og það var alveg frábært svo að þið verðið að koma og kíkja.

Vitið þið hvað? kella bara búin að gera slátrið fyrir þetta árið. Við mæðgur og harðsvírað aðstoðarfólk tókum okkur til og gerðum ein 23 slátur. Tilfinningin er frábær þegar þetta er búið en breytir ekki því að það er meira kjötstúss eftir á þessu heimili.

Hann Salómon er snillingur á því hefur aldrei leikið nokkur vafi í mínum huga, já og flestra annara líka. Þegar ég kom heim úr smalamennskunni í kvöld hafði hann lagt sitt af mörkum í sláturstússinu. Já hann aðstoðar mig við ýmislegt þessi höfðingi. Verkefna röðunin er svolítið öðruvísi hjá honum en mér ég legg mig fram um að ganga frá öllu kjötinu og borða það síðan en hann borðar helminginn og ætlar að ganga frá restinni síðar.
Þessi munur getur svo sem stafað af því að mínir skrokkar eru svolítið stærri en hans og hann leggur mun meira á sig við að veiða sína skrokka en ég mína.
Það eru jú ekki til nein músasláturhús ennþá.............................

Í gær byrjuðum við að smala aftur og einu sinni enn nú skal fjallið hreinsað. Veðrið var vægt til orða tekið ógeðslegt rok og rigning en það var hlýtt bara svo ég nefni eitthvað jákvætt. Við komum heim með þó nokkuð margt fé þrátt fyrir veðrið. Í dag var svo lagt í seinni herferðina með fullt af góðum aðstoðar smölum. Færið og veðrið var nokkuð gott hér niðri en þegar komið var inná fjall og Djúpadal var færðin slæm. Snjór sem hnoðaðist í hófa og útsýnið mjög lítið. Stemmingin var ljómandi góð og jólalögin glumdu í hausnum á mér alla leið heim. ,,Snjókorn falla,, og mörg fleiri.
En okkur varð nokkuð ágengt og komum heim með góðan hóp sem verður rekinn inn á morgun og dreginn í sundur.
Á morgun verður líka farið í það vandasama verk að velja líflömbin svona gróft forval nokkurs konar prófkjör. Þá verða góðu Tiger gleraugun sett upp og gripirnir skoðaðir og metnir hverjir eru hæfir til að fara í sónarskoðun á mánudaginn.
Þá kemur í ljós hvernig kynbótahrúturinn Sindri Kveiksson spjarar sig kannske fær hann ,,prófkjörsráð,, hjá nafna sínum og sleppur í gegn um forvalið. Ef að hann lendir í basli með forvalið hefur hann góða afsökun......................hann var rekinn úr kálinu í sumar.
Mókollur vinur Sindra er sjarmatröll og sæðingur eins og hann, hver verða örlög hans????
Nánar um það síðar................................