16.11.2009 22:20

Glotthildur, Léttlindur og tanaðir hrútar.



Þetta er hún Glotthildur hún er þarna að kljást við vin sinn, frændi hennar Léttlindur er frekar þreyttur kallinn og geispar bara af lífi og sál.
Glotthildur er undan Glotta frá Sveinatungu og Sunnu en Léttlindur er undan Hróði frá Refsstöðum og Létt frá Hallkelsstaðahlíð sem er dóttir hennar Sunnu. Smá ættfræði.

Við hér í Hlíðinni erum búin að vera í djúpum skít í dag, sko í orðsins fyllstu merkingu. Það er nærri því búið að moka út úr litlu fjárhúsunum og vonandi klárast það á morgun.
Þá eru öll haughús á bænum tóm því Mummi mokaði út úr stóru fjárhúsunum áður en hann fór norður. Góð tilfinning í byrjun vetrar.
Yfirmokarinn mætti í morgun og síðan er allt búið að vera á fullu. Skúli hefur svo rokið öðru hvoru í að taka af og miðar því verki vel rúmlega 450 kindur búnar en svolítið margar eftir samt.
Allt hefur gengið vel en ég verð sennilega að bíða með að sýna ykkur myndir af lambhrútunum..................þeir fóru í smá sturtu. Svona ykkur að segja ekki þrifabað heldur meira svona brúnkumeðferð........................eða þannig.

Nú fer að styttast í að folarnir okkar sem eru á Hólum komi heim, prófin hjá nemendunum eru núna í vikunni og svo sýningin á laugardaginn. Ég bíð spennt eftir að sjá hvernig hefur til tekist. Ætla að mæta og sjá ef að Guð lofar.
En spenntust er ég nú að fá Sparisjóðinn minn heim og sjá hvort að hann hefur lært eitthvað sniðugt í Hólavistinni.