20.12.2009 22:54

Jóla jóla


Jóla hvað ? eru allir að verða vitlausir veit fólk ekki að jólin koma alltaf einu sinni á ári?
Þarf endilega að klára allt jafnvel það sem aldrei er gert?

Smá grín auðvitað er ég svona rugluð líka en það vill nú samt þannig til að ýmislegt sem þarf að gerast á þessum tíma í sveitinni er bráðnauðsynlegt. Ég er t.d ekki viss um að ég yrði hýr á brá í byrjun maí ef að það færist fyrir að koma hrútunum í kindurnar svona vel fyrir jól.
Hér í Hlíðinni hafðist það af í gær, líka eins gott því að er gamall siður sem haldið er  fast í þó svo að yfirleitt sé búið að sæða miklu fyrr.
Við vorum búin að láta sæða um 5o kindur þann 17 des og fyrir þá sem eru útlærðir í hrútaskránni læt ég fylgja með hvaða hrúta við notuðum.
Þeir hyrndu voru Raftur frá Hesti, At frá Hafrafellstungu, Hvellur frá Borgarfelli og Grábotni frá Vogum 2. Þeir kollóttu Kjói frá Sauðadalsá, Bolli frá Miðdalsgröf og Neisti frá Heydalsá.
Karl Phillp forustuhrúturinn flotti frá Sandfellshaga var líka á dagskránni hjá mér en eitthvað klikkaði hjá meistaranum á hrútastöðinni svo að ég fékk ekkert úr honum. Þannig að Pálína mín forustuá verður bara að sætta sig við eitthvað holdugrakyn en forustukyn.
En nú er sem sagt allt með kyrrum kjörum í fjárhúsunum frjálsar ástir og eintóm hamingja.
Reyndar veiktist einn sparihrúturinn heiftarlega rétt áður en við settum þá saman við og er óvíst á hvorn veginn þau veikindi fara. Sá sem veiktist er undan Dökkva frá Hesti og var settur á með fullt af stigum í farteskinu og gerðar miklar væntingar til hans. En svona er þetta stundum ekki á allt kosið.

Í hesthúsinu er líka líflegt þar bættist t.d við ein stórglæsileg moldótt hryssa í dag, spennandi að vera bæði myndarleg og með fallegan lit. Svo er bara að sjá til hvort hún verður ekki líka ljómandi góð.


Hér á bæ var tekinn smá bakara sveifla í dag og bakaðar einar fimm sortir af smákökum og rúllutertur. Fyrir liggur svo að bæta við á morgun og svo er það jólaísinn góði sem ekki má klikka. Síðan eru eftir nokkrar pakkaferðir og kaffiinnlit til vina og kunningja hefðbundið og vonandi illbreytanlegt.
Jólin eru alveg að koma og það er nú bara allt í lagi því þetta hefst allt fyrir rest.