03.01.2010 22:43

Gleðilegt ár !



Kæru vinir !

Við hér í Hlíðinni sendum ykkur bestu óskir um gleðilegt ár farsæld og frið á nýju ári, með kærum þökkum fyrir það liðna. Sjáumst vonandi sem flest á nýja árinu 2010.
Áramótin hér voru indæl og góð þrátt fyrir að hvorki hafið verið skotið upp flugeldum eða fögur áramótaheiti strengd af minni hálfu. Hér kom saman góður hópur sem meðal annars  gleymdi sér við að spila Kollgátuna vel fram eftir nóttu.
Á nýársdag var svo brunað í árlegt nýárskaffi að Bíldhóli þar sem terturnar þekja nokkra fermetra, takk fyrir skemmtilegan dag.
 Á leiðinni heim blasti kófdrukkinn máninn við okkur utan frá Múlenda og lýsti svona ljómandi vel upp Þríhellurnar. Það getur stundum verið nauðsynlegt að hafa myndavélina við höndina.

Síðustu dagar hafa verið vel nýttir til tamninga bæði hefur veðrið verið gott og svo jólafríið hjá Mumma að klárast svo það var um að gera að leika sér svolítið.
Annars er það að frétta að nú er Mummi farinn til Jakobs og Tórunnar í Steinsholt þar sem að hann verður í verknámi frá Hólaskóla í vetur. Ekki amalegt hlutskipti það fyrir drenginn.
Hér heima er allt að komast í venjulegan gír eftir jólahaldið og daginn farið að lengja sérstaklega finnur maður muninn þegar smá snjóföl er til að lengja birtutímann.
Um eitt hænufet á dag eins og amma sagði alltaf.

Ég hef verið að hugsa um hvernig árið 2009 hefur verið og er bara komin að þeirri niðurstöðu að það hafi verið nokkuð gott þó með nokkrum undantekningum.
En árið 2010 það verður alveg stórfínnt..........eigum við ekki öll að vera sammála um það?

Hér koma að lokum tvær myndir sérstaklega fyrir litla vinkonu mína í Garðabænum sem er sérstakur uppáhalds aðdáandi Salómons og Snotru.



Þarna er Salli jólaköttur að ,,laga,, jólaskreytinguna hann var ekki alveg ánægður með útlitið.



Fer þetta ekki mikið betur svona ?