02.02.2010 23:04

Súrt og sætt

Erilsamur dagur senn á enda, já það er alltaf þreytandi að æða á milli staða í höfuðborginni. 
Ég brunað sem sagt til Reykjavíkur eldsnemma í morgun því ég hafði fengið boð um að mæta á stjórnarfund hjá Félagi hrossabænda í Bændahöllinni.
Við áttum góðan fund um hin ýmsu málefni og alltaf gaman að hitta hressa hrossabændur.
Samstarfið er ánægjulegt og þá er það að sama skapi líklegt til árangurs.

Með mér í för til höfuðborgarinnar var líka hún Lóa frænka mín sem ákvað að eyða 80 ára afmælisdeginum sínum á morgun í borginni.
Til hamingju með daginn Lóa vonandi verður hann góður og ánægjulegur hjá þér.

Hér heima var riðið út af miklu kappi í blíðunni en án húsfreyjunnar sem verður að bæta fyrir flakkið á morgun.

Ég fór á fund í Laugargerðisskóla í gær þar sem Byggðasamlagi um rekstur skólans var slitið og undirritaður nýr þjónustusamningur milli Eyja og Miklaholtshrepps og Borgarbyggðar.
Samningurinn felur í sér að Eyja og Miklaholtshreppur tekur að sér rekstur skólans en Borgarbyggð kaupir þjónustu fyrir börnin úr gamla Kolbeinsstaðahreppi.
Það voru blendnar tilfinningar sem fylgdu þessum gjörningi.  Annars vegar ánægja með að Eyja og Miklaholtshreppur ætli að halda rekstrinum áfram og bjarga því að skólinn verði lagður niður. Hinsvegar gríðarleg vonbrigði með svikin loforð og flaustursleg vinnubrögð sem verða sennilega frekar til þess að spilla friði en spara peninga í mínum sveitarfélagi.
Ég vona bara að rekstur skólans gangi sem allra best og Möllerinn hreki ekki Eyja og Miklaholtshrepp saman við einhvern þéttbýlisstaðinn í bráðu fljótræði.

En að léttara hjali......................og auðvita um okkur Kolhreppinga.
Ég heyrði það í útvarpinu í dag að klukkan á Íslandi er vitlaus, alltof fljót. Þar kom líka fram að þessi tímamunur hefur slæm áhrif á sálarheill fólks og getur rugglað það ærlega í ríminu.
Þessu var slegið upp eins og þarna væri um eitthvað stórmerkilegt og nýuppfundið fyrirbæri að ræða. En þetta kom okkur Kolhreppingum ekkert á óvart.
Oft hefur verið deilt á okkur Kolhreppinga fyrir að við værum róleg á morgnana og jafnvel fengið viðurnefni eins og ,,hálfellefuhreppurinn,,
Nú hefur heldur betur komið í ljós að þessi unaðslegu rólegheit er eingöngu til komin vegna meðfæddra hæfileika til að vita hvað tímanum líður.

Nú styttist óðum í þorrablót og tilhlökkunin farin að segja til sín.