20.02.2010 21:26

Frjálsar ástir í Kolbeinsstaðahreppi og sitthvað fleira.



Þeir væru sennilega nokkrir herrarnir sem vildu hafa svona prúðan hnakka á efri árum eins og hann Ríkur minn, ekkert tungl þar.

Já það er margt sem er fréttnæmt þessa dagana en eitt er það sem núna ber hæðst hér á bæ.
Ég var svo sem ekkert sérlega hrifin en hef ákveðið að taka þessu með bros á vör eins og sannri konu sæmir. Svo er auðvitað gott að fá stundum aðra vexti en dráttarvexti og þetta eru sannarlega innlánsvextir af einstakri gerð.
Þannig er að eftir að hún Viðja kom í leitirnar hefur nú ýmislegt á daga hennar drifið meðal annars hefur hún leikið í heimildarmynd þar sem enginn annar en Gísli Einarsson leikstýrði og verið tamin í rúman mánuð með góðum árangri. Jafnvel svo góðum að ég sá ástæðu til að bjóða Mumma á bak um daginn til deila ánægju minni með árangurinn.
Hann tók þennan fína prufutúr og var eins og ég nokkuð viss um skemmtilegt og árangursríkt framhald. Góðar hreyfingar, vilji, þjálni.............og mikill kraftur.
En að undanförnu hefur samræmiseinkunin sem komið hefur uppí hugann alltaf verið að lækka og lækka og lækka. Varða að lokum svo lág að ég hringdi í Rúnar dýralæknir og óskaði liðsinnis. Þið haldið vafalaust að ég eigi við lýtaaðgerð eins og voru svo sjálfsagðar í góðærinu að nær sjálfsagt var að fara freka í tvær en eina jafnvel þó engin væri þörfin.
Nei þetta var meira svona mæðraskoðun.............og er skemmst frá því að segja að Rúnar prísaði sig sælan að ekki væri sparkað í hann við rannsóknina.
Það hefur því komið í ljós að Viðja var ekki í tilgangslausu ferðalagi þegar hún týndist heldur í hinni eilífu leit að draumaprinsinum sanna. Hvort að hann hefur fundist skal ósagt látið en allavega hefur hún séð ástæðu til að kanna hæfni einhvers folans og úr því hefur allavega eitthvað orðið. Hver hann er kemur sennilega seinnt í ljós en til að hafa allt sem ábyggilegast verður væntanlegur gripur skráður eitthvað á þessa leið í Worldfeng: Halldór Gestur frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Bestur frá Kolbeinsstaðhreppi móðir Viðja víðförla frá Hallkelsstaðahlíð. Gripurinn verður allavega mánaðartaminn þegar hann kemur í heiminn.
Það verður svo einhverntímann undir vor sem dregur til tíðinda og verða þeim þá gerð skil hér á síðunni.

Hópurinn góði sem fór saman í hestaferð og Laufskálarétt  átti góða kvöldstund saman í Borgarnesi í gær. Alltaf svo gaman að hittast og rifja upp góðar minningar hvort sem þær eru úr ferðunum eða bara frá gömlu góðu árunum í Sparisjóði Mýrasýslu. Takk fyrir frábæran hitting ættum nú að gera þetta miklu oftar.

Í dag var svo riðið út í kuldanum, vorum svo heppin að vera boðin í kaffi í því efra þar sem á borðum var Guðdómlegt Stellubakkelsi. En þær mæðgur Stella, Hildur og Daniella komu í gær að skila Lóu úr afmælisleiðangrinum.