05.05.2010 23:54

Vorveðrið góða.

Stundum fær maður það sem óskað er, núna er t.d rigningarúðinn, þokan og vorveðrið sem að ég óskaði mér. Já ég vildi fá vætu og sprettutíð svona áður en sauðburðurinn fer á fullt.
Væri nú óskandi að hægt yrði að sleppa lambfénu sem fyrst út á góðan gróður.

Sauðburðurinn fer að hefjast fyrir alvöru nú um helgina enda er allt að verða tilbúið.
Astrid (brjálaði daninn okkar) komin heim úr fríinu og Lalli mættur á svæðið.
Það voru 47 kindur sæddar þær eiga að bera fyrst og nú er bara að krossa fingur og vona að árangurinn verði góður.

Í dag var fundadagur hjá mér fyrst var það fundur í Umhverfis og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar þar höfum við þrír sveitungar setið sem fulltrúar okkar flokka.
Í dag var væntanlega síðasti fundur þessarar nefndar á kjörtímabilinu og því líklegt að okkar tími sé liðinn. En kannske gerist það ólíklega að okkar tími muni aftur koma. Það hefur stundum skeð að einhvers tími hafi komið aftur hvort sem það hefur nú verið til góðs eða ekki. Það virðist endalaust vera hægt að ,,lappa,, uppá stjórnmálamenn þrátt fyrir slæma meðferð almennings og minnkandi traust.
Síðan átti ég smá skrepp inná fund hjá sveitarstjórn Eyja og Miklaholtshrepps, bara gaman að hitta sveitunga mína í þeirri sveit.