12.11.2010 21:42

Veturinn er kominn



Æi það hefur verið svo leiðinlegt veður hér í Hlíðinni að undan förnu að mér fannst vel við hæfi að setja inn vormynd.
Þarna eru mæðgurnar Karún og Auðséð Sporðsdóttir að sóla sig og smakka á græna grasinu.

Um síðustu helgi var tekin sú ákvörðun hér á bæ að taka elstu folöldin undan og setja þau inn.
Yngstu folöldin fá að vera lengur með mæðrum sínum hér heima á túni. Ekki er annað að sjá en að allt gangi vel og eru allir að verða nokkuð kátir þó að mæðurnar séu farnar.
Veturgömlu tryppin voru tekin sér og hafa tún og rúllu útaf fyrir sig.
Nú hafa allir hestar hér í Hlíðinni fengið vetrarormalyfið sitt og ættu því að vera í góðum málum.

Síðustu dagar hafa verið járningardagarnir miklu hjá Mumma og nú er allur hópurinn að verða kominn á skafla, ekki veitir af.

Ég hef aðeins verið að ,,spjalla,, við litla vin minn hann Kát Auðsson síðustu daga til að kynnast honum betur. Kátur er styggari en afkvæmi Karúnar hafa verið en viðmótið svipað. Hann er svolítið efins um að ég sé eitthvað áhugaverð og finnst þessar heimsóknir í stíuna hans frekar þreytandi og tilgangslausar. Sennilega hálfgert kellingatuð.

Ég fékk góðar fréttir af Glotthildi sem að nú sprangar um í Svíaríki og hefur það greinilega mjög gott. Gaman af því.

Í dag kom ein af óheimtu kindunum í leitirnar og með í för var lamb sem hafði komið heim fyrr í haust en stungið svo af á vit ævintýranna.
Þá er hægt að skrifa mínus tveir á blaðið góða.
Rúningur potast áfram en slatti reyndist eftir þegar síðasta talning fór fram í dag.