29.03.2011 21:01

Já já bara kominn 29 mars



Á vaktinni........................Snotra, Deila, Ófeigur og Þorri láta ekkert fram hjá sér fara.

Nú hefur tíðarfarið heldur betur breytt um stíl og boðið er uppá blíðu alla daga.
Kærkomin breyting og blíðan nýtt frá morgni til kvölds við tamningar og þjálfun.
Fyrirmyndarhestur dagsins var Kjós litla Gosa og Dimmudóttir bara svo yndisleg.

Í gær boðaði landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar til opins fundar um landbúnaðarmál. Á milli 40 og 50 manns mættu á fundinn sem haldinn var í Borgarnesi. Fundurinn var nokkuð góður og fóru fram líflegar umræður um þau mál sem að efst eru á baugi í þessum málaflokki.
Ekki fannst mér fulltrúar í sveitastjórn sýna þessum málum mikinn áhuga en einungis tveir sveitastjórnarmenn mættu á fundinn, þau Ingibjörg Daníelsdóttir formaður nefndarinnar og Finnbogi Leifsson.
Spurning hvort að langvarandi áhugaleysi flestra sveitastjórnarmanna á landbúnaðarmálum hefur nokkuð með það að gera að úrvinnsla á landbúnaðarvörum er nærri útdauð í Borgarnesi? Vonandi ekki.................
Ég var ákaflega ánægð með fundarsókn sveitunga minna héðan úr gamla Kolbeinsstaðahreppi sem að frestuðu aðalfundi búnaðarfélagsins til að mæta á fundinn.

Forðagæslumaðurinn hún Guðrún Fjeldsed mætti í árlega vorskoðun hingað í dag, hún er orðin eins og fuglarnir kærkominn vorboði.