18.08.2011 23:27

Dagur tvö og fjölgun í fjölskyldunni.



Einn enn Guðdómlegur dagur á Löngufjörum 17 stiga hiti, logn, sól og blíða ekki amalegt það. Sjáið þið færið og ekki á það nú eftir að versna þegar vestar dregur.

Við riðum frá Kolbeinsstöðum að Hömluholti í dag, gekk ferðin bara vel ,,stálum,, engum hesti svo vitað sé og bara allir kátir.
Þeir sem að voru ríðandi í dag Mummi, Skúli, Hrannar, Björg, Astrid, Þorgeir, Ásberg, Sigga, Axel, Bjarki og svo ég. Síðan komu Gísli bóndi í Hömluholti og Hafrún á móti okkur í Kolviðarnes.
Á morgun bætist svo heldur í hópinn svo að þetta verður heljar hersing sem að ríður að Tröðum á morgun.



Farið yfir Haffjarðará, sniðugt að vera á minnsta hrossinu í hópnum.

Þegar ég var á fljúgandi ferð á fjörunum í dag fékk ég skemmtilegt símtal það var frá mömmu sem var að tilkynna að Hrafnhildur systir og Fransisko hefðu eignast dóttir.
Að sjálfsögðu tók ég því þannig að þessi litla dama yrði efnileg hestakona þar sem að fréttirnar bárust til okkar á þessum stað. Nei nei engin óskhyggja ef að þið haldið það :)
Þá er bara að setja sig í stellingar og vera fyrirmyndar móðursystir, svaka virðulegur titill.