07.09.2011 21:38

Ætli haustið sé að koma???



Það er sennilega að koma haust, allavega eru litirnir að verða þess legir þó að veðrið sé gott.

Góðir gestir hafa verið á ferðinni bæði til að sækja hesta úr tamningu og til að skoða söluhross. Alltaf nóg um að vera í hesthúsinu og ekki spillir að hafa gott og milt haustveður.

Létt og Léttstígur litli komu heim í gær eftir góða dvöl hjá honum Frakki frá Langholti. Dvölin hefur borið tilætlaðan árangur því að Létt var með 30 daga gömlu fyli.

Nú eru flestar fjögura vetra hryssurnar okkar komnar í frí, dregið var undan þeim í gær og þeim sleppt uppí fjall. Notalegt haustfrí bíður þeirra í nokkrar vikur á meðan geldingarnir puða heima.

Í gær var enn einn fundur Landsmótsnefndarinnar og var hann haldinn á Hvanneyri.
Léleg mæting var á fundinn en góðar umræður urðu þrátt fyrir það.
Fámennt og góðmennt.

Það varð úr að við heyjuðum á Vörðufelli og var slegið þar á sunnudaginn en rúllað á mánudaginn. Gott útigjafarhey og notaleg tilfinning þegar rúllunum fjölgar í staflanum heima.

Fjallskilaseðillinn fyrir Kolbeinsstaðahreppinn kom í dag alltaf  áhugavert að lesa hann.
Fjártalan sem lagt er á 6366, bæjirnir 13 og dagsverkin 50 talsins.
Ég verð þó að játa að það var meira gaman að sjá fjallskilaseðilinn þegar ég var smástelpa. Þá var það sjálfsögð hefð að fara ríðandi með hann að Heggsstöðum. Hann var bara gerður í tveimur eintökum og þá hét hann líka fjallgangnaboð sem að var miklu virðulegra nafn. Ég var ekki farin að ná niður fyrir blöðkur á hnakknum þegar ég fór ríðandi með í fyrsta sinn. Skemmtilegar ferðir og alltaf kaffi á Heggsstöðum jafnvel löngu áður en að ég byrjaði að drekka kaffi.
Já það var margt skemmtilegt í ,,gamla daga,, sko þegar ég var ......korn...ung.

Það voru mikil umsvif í eldhúsinu hjá húsfreyjunni í dag og ekki laust við að ýmislegt þar minnti frekar á bruggverksmiðju en sveitaeldhús. En afurðin sem að var til í dag er ekki enn orðin áfeng hvað sem verður með tíð og tíma.
Já aðalbláberjasaft með vestfirskuívafi var það heillin og ekki af verri endanum skal ég segja ykkur. Nú skálum við berjablá út að eyrum..................