06.07.2012 10:30

Fréttir



Dregill frá Magnússkógum, faðir Gustur frá Hóli móðir Kolskör frá Magnússkógum.

Dregill er til sölu og er í þjálfun hjá okkur, frábær hestur sem hentar í keppni og er auk þess yndislegur reiðhestur.
Á myndinni eru Dregill og Mummi að keppa í töltkeppni.

Hjá okkur eru á söluskrá fjöldi hrossa sem mér hefur enn ekki unnist tími til að setja hér inná síðuna.

Frábæru landsmóti er lokið og við komin heim sólbrennd og sæl með hvernig til tókst.
Hestakostur hreint frábær, stemmingin og öll aðstaða fyrir hesta og menn til fyrirmyndar.
Takk fyrir landsmótshaldarar, hestamenn og aðrir sem að þessu móti komu.

Seinna mun ég renna nánar yfir hestakostinn svona með mínum augum og segja ykkur frá en vil þó nefna nokkur hross sem að mér eru eftirmynnilegri en önnur.
Arion frá Eystra-Fróðholti, Hrafn frá Efri-Rauðalæk, Frakkur frá Langholti, Viti frá Kagaðarhóli, Konsert frá Korpu og margir fleiri. Af hryssunum þá eru það Spá frá Eystra-Fróðholti, Kolka frá Hákoti, Mónika frá Miðfelli og margar fleiri.
Nokkur ,,pör,, heilluðu mig mikið en þau sem efst eru í huga núna eru Fláki frá Blesastöðum og Þórður Þorgeirsson, sjarmatröll af bestu gerð báðir tveir, Vesta frá Hellubæ og Olil Amble þvílíkt upplit á þeim drotningunum. Og síðast en ekki síst Kamban frá Húsavík og stjörnuknapinn Glódís Rún Sigurðardóttir.
Já það var gaman á landsmóti.

Fyrir og eftir landsmót höfum við fengið marga góða gesti sem hafa komið hér við í Hlíðinni.
Við fengum hópa frá Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og að sjálfsögðu marga fleiri góða gesti.
Takk fyrir komuna öll það var gaman að fá ykkur.

Stóðhestarnir hér heima eru byrjaðir að taka á mót hryssum, Sparisjóður var byrjaður fyrir landsmót en Gosi fékk aðal hópinn nú í vikunni. Það er alltaf hægt að bæta við inn til þeirra ef að einhver hefur áhuga á því.

Nú eru hryssurnar okkar sem eiga að fara af bæ til stóðhesta farnar eða u.þ.b að fara.
Í gær fóru þrjár, Karún mín fór undir Arion frá Eystra-Fróðholti, Létt fór undir Topp frá Auðsholtshjáleigu og Gefn fór undir Frey frá Hvoli. Í dag fara svo Skúta undir Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum og Snör undir Leiknir frá Vakurstöðum. Í fyrradag fór svo Þríhella undir Ugga frá Bergi og í síðasta mánuði fór Kolskör undir Blæ frá Torfunesi.

Það er líflegt á öllum vígstöðum hér í Hlíðinni, tamningahrossin puða, stóðhestar sinna hryssum, ferðahópar fara í gegn og heyvinnutækin bíða á kanntinum.

Ekki má svo gleyma gestunum á tjaldstæðinu og veiðimönnunum sem nú kætast þegar vel veiðist í Hlíðarvatninu.