08.10.2012 22:17

Kindablogg



Sóna, mæla, velja og veðja á......................já í dag var það líflambavalið seinni hluti sem fram fór hér í Hlíðinni.
Þarna er smellt af ofaní lífgimbrakrónna og eins og þið sjáið þá er ,,framsóknar,, merking á því sem á framtíðina fyrir sér. Græni liturinn er góður.



Þetta er sérstök uppstilling fyrir ljósmyndarann og eins og þið sjáið þá eru nokkrir litir í boði.



Þessi er búinn að vera betri en enginn síðustu vikurnar og í dag stóð hann m.a vaktina við rekstrarganginn góða.
Það er ekki af ástæðulausu sem hann er kallaður ,,mannskapurinn,, hér á bæ.



Þau voru eldhress Friðrik og Birta ráðanautar frá Búvest sem hér voru að störfum í dag.



Og leggurinn mældur á einum sparihrútnum..................

Við voru bara nokkuð kát með útkomuna á lambahópnum sem mældur var og veginn hér í dag. Allavega var vandi að velja þegar mælingar lágu fyrir og ansi mörg falleg sem ekki fengu farseðil í ,,rétta,, átt.
Við höfum aldrei gert eins miklar kröfur til þeirra lamba sem nú fá að komast í líflambakrónna góðu.
Bestu gimbrarnar voru með m.a með 34 í bakvöðva og þó nokkuð margar níur. Feður þeirra voru nokkrir en flestar góðar átti hann Fyllirafur okkar Raftson, t.d var engin undan honum með minna en 18 fyrir læri. Dunkur frá Dunki, Vafi Kveiksson og Dimmir Dökkvason áttu líka góð lömb í hópnum auk annara.
 Fylliraftur átti svo góðan son sem stigaðist í 85.5 þrátt fyrir létlega ull.
Grábotnasynir komu vel út og verða sennilega tveir svartbotnóttir synir hans í líflambahópnum. Þar verða líka synir Dunks frá Dunki og Sigurfara frá Smáhömrum, að ógleymdum Gunna syni Dals frá Hjarðarfelli.
Til gamans má geta þess að litirnir sem nú eru til í líflambahópnum eru margir en engin gimbur fékk samt líf útá litinn eingöngu. Nema kannske ein móflekkótt tvílembingsgimbur sem er ekki sérlega stór. En hún á tvo digga aðdáendur hinu megin við fjallið nánar tiltekið á Emmubergi sem örugglega standa með henni ef að ég fer eitthvað að huga að slátrun.
Stuð í sauðfjárræktinni þið sem ekki vissuð.......................

Á morgun fara svo þau lömb sem við eru búin að heimta í sláturhús og eftir það verður smá ,,rolluvinnupása,, Ekki liggja fyrir öruggar heimtu tölur á fjárhópnum en ljóst er að nokkuð vantar enn.