10.10.2013 09:26

Fréttabrot



Svona var fallegt veður hjá okkur í gær logn og blíða en snjólínan nokkuð lág en þó ekki svo.
Allavega var meiri snjór í henni Reykjavík þegar ég var þar á þriðjudaginn já og miklu meira vesen. Það er á þannig dögum sem ég þakka fyrir það að búa uppí fjöllum og þurfa ekki nývöknuð að blanda geði við ,,sléttjárnaða,, snillinga.
Mánudagur og þriðjudagur voru fundadagar  hjá okkur í Fagráði í hrossarækt. Dagskráin var löng og gestirnir sem mættu á fund til okkar voru margir og höfðu mikið fram að færa.
Á haustin er fundaverktíð hestamanna og mikið framundan í þeim efnum.

Sauðamessan í Borgarnesi var haldin um síðustu helgi í fallegu en köldu veðri. Ég hjálpaði aðeins til við messuhaldið (þó ekki prestlærð) sem var gaman en mikið asssskoti var nú kalt.
Um kvöldið var svo brunað á ball með Hvanndalsbræðrum sem haldið var í Reiðhöllinni.
Já bara grín, glens og gaman, allt til að hilla blessaða sauðkindina.



Þær voru kátar með okkur í gær þessar þegar þeim var sleppt í haustgirðinguna sína.
Folaldshryssurnar og nokkur sparitryppi en þetta stóð fær til afnota svokölluð Þrep með kafgrasi, skjóli og smá há í desert. Ekki skemmir að í þessari girðingu eru þær alltaf undir góðu eftirliti úr gamla bænum. Já Lóa og Svenni telja stóðið fyrir okkur seint og snemma.



Allt tekur enda og svo var einnig með heyskapinn þetta árið þó svo að húsfreyjan væri farin að efast. Rigning, rok og traktorsbilanir sáu til þess að töðugjöldin voru ekki alveg á tíma þetta árið. En allt hafðist þetta og þrátt fyrir að ekki hafi allt verið slegið sem til stóð er rúllustabbinn stór og inniheldur á annað þúsund rúllur.
Heyin eru þó misgóð allt frá því að vera blaut og úrsér sprottin uppí það að vera þurr úrvals há. En grínlaust þá lítur þetta bara mjög vel út.
Já svo er það stórhátíðaháin sem bara verður gefin á jólum og páskum..............enda dugar hún skammt og ekki mikið til af henni.



Leiðrétting........................
Mér urðu á þau leiðu mistök að nefna þessa flottu sauðfjárbændur frá Borgarnesi.
Þetta eru að sjálfsögðu Ólafur frændi minn Pálsson í Haukatungu, Þorsteinn Viggósson og Helga Ragnarsdóttir sauðfjárbændur á Jarðlangsstöðum.
Auðvita eru kindurnar með mikilvægara heimilisfang en bændurnir, biðst velvirðingar á þessum mistökum hér með :)



Fann þessa flottu mynd af ærslabelgjunum Astrid og Daníelu sem þarna eru í Vörðufellsrétt.

Um helgina verður svo lokatörnin í kindastússi en þá verður smalað, rekið inn og ásetningurinn valinn endanlega.
Eins og alltaf eru allir góðir velkomnir með okkur í atið og stuðið.