05.12.2013 22:14

Takk fyrir að smala fyrir mig ;)



Þessa fínu mynd fékk ég að ,,láni,, hjá Svani bónda í Dalsmynni en hún sýnir Svartkollu mína og dætur í viðureign við sparihundana.
Já Svartkolla hefur frétta að sauðfjárræktin í Dalsmynni væri komin á mikið flug og sennilega ætlast til þess að Svanur sleppti frekar út hrút en elti hana með hundum.




Hún var ekki endilega sannfærð um að njóta leiðsagnar þegar smalarnir hittu hana og fór hratt yfir til að reyna að stinga þá af. En allt kom fyrir ekki og þeir kappar með dyggri aðstoð hundanna höfðu betur og bundu enda á dvölina í Hafursfellinu.




Eftir snarpan eltingaleik á láglendi gamla Eyjahrepps játaði þessi sig sigraða enda við ofurefli að etja. Já Svanur og félagar eru ekkert lamb að leika sér við .
Það eru ekki bara menn og hestar sem sækja í heimsókn í Söðulsholt, ónei kindur líka.
Þegar við komum að sækja óþekktarorminn var hún í vellystingum með hálm og hey inní hesthúsi í Söðulsholti. Dæturnar létu sér fátt um finnast en voru ekki nærri því eins líflegar og sú gamla.
Systurnar hlutu nöfnin Söðulsholtsmóra og Söðulsholtssvört, frumlegt finnst ykkur ekki ?
Nú er þrenningin komin heim í fjárhús og líkar það bara vel.