01.03.2014 22:20

Hann pabbi minn



Ólafur Kjartansson faðir minn hefði orðið 70 ára í dag ef hann hefði lifað.

Hann drukknaði í Oddastðavatni aðeins 22 ára að aldri þann 4 júní 1966 þegar ég var 1 árs gömul
. Hræðilega sorglegt slys sem reyndist mörgum erfitt.
Eins og gefur að skilja kynntist ég honum ekki en hef með góðra vina hjálp reynt að fá mynd af því hvernig hann var. Eða öllu heldur bætt við þá mynd sem ég hef búið til í mínum huga um hann.
Þessa mynd hef ég átt frá því að ég man eftir mér og reglulega skoðað hana og hugsað um það hvernig pabbi liti út í dag ef að hann hefði lifað.

Ég dáðist af myndinni og þessum manni sem var eitthvað svo framandi og fallegur í mínum huga.
Þetta var sko pabbi minn.




Þessa skemmtilegu mynd sendi hún Dunna frænka mín mér um daginn en þarna eru þeir bræður Jóhann og pabbi.  Ekki veit ég hvað þeir eru gamlir þarna en allavega komnir með bindi og mjög alvarlegir fyrir framan myndavélina. Jói til vinnstri og pabbi til hægri.

Ég hef reynt að safna eins mörgum myndum af pabba eins og ég hef getað en þær hafa vafalaust ekki verið margar til.

Sem sagt í dag var dagurinn hans pabba, ég trúi því að hann líti eftir stelpunni og hnippi í hana þegar við á. Já ég hef reyndar alltaf gert ráð fyrir því að við hittumst síðar og þá er nægur tími til að kynnast og hafa gaman.

Til hamingju með daginn þinn pabbi minn.