13.07.2014 22:35

Afrekin á knattspyrnuvellinum............

Mynd: Aðalsteinn Maron.

Þessi litli sjarmur var alveg til í að láta smella af sér mynd í góða veðrinu.

Kapteinn litli er að verða nokkuð taminn eftir tíðar heimsóknir okkar til Skútu mömmu hans. En eins og áður hefur margoft komið fram hér á síðunni þarf Skúta mikið eftirlit og er því aldrei höfð langt undan.

Sparisjóður hefur nú náð sér að mestu eftir hremmingarnar í vor og bíður þess nú með óþreyju að dömurnar (hryssurnar) hans mæti. Einkaritarinn hans settist við símann í dag og bauð hryssueigendunum að gjöra svo vel. Nú má sem sagt fjörið hefjast hjá kappanum, girðingin klár og allt til reiðu fyrir svallið.

Mummi og Astrid smelltu sér á Löngufjörurnar með hressum krökkum sem létu gamminn geisa í blíðunni. Ég tók aðeins bíltúr með hrossin þeirra og fékk að sjálfsögðu endalausa löngun til að verða bara eftir á Stakkhamri. Það er hreinlega alveg ómissandi að fara nokkra fjörutúra á ári. Veðrið var líka þannig að ekkert hefði verið betra en góður fjörusprettur.

En allt stendur þetta nú til bóta og ekkert að óttast því dagurinn í gær varð bara einstaklega vel heppnaður þó svo að ég færi ekki á fjörurnar.

Dalatúr með fulla kerru af hestum, sveitamarkaður og líflegt heimilishald með ansi mörgum þátttakendum er bara töff. Heyskapurinn fór líka á fullan skrið en bara í gær og dag, það er niðurskurður og ekki hægt að fá nema rúman sólarhring af þerri.

Annars er þurrkur sennilega ofmetinn því það rigndi í gær en heyið þornaði samt. Kannske með góðu og illu.....hefst það.

Gönguhópar og veiðimenn voru tíðir gestir hér um helgina og á næstunni koma fleiri hestahópar hingað til okkar. Já já það er ekki bara umferð í 101 sko það er líka hér í Hlíðinni skal ég segja ykkur.

Þrátt fyrir líflega helgi náði ég einu stórafreki á minn mælikvarða nú undir kvöld. Haldið ekki að húsfreyjan hafi bara horft á heilan (næstum því) fótboltaleik í sjónvarpinu. Það sögðu mér fróðir menn og reyndar þulurinn líka að þetta væri úrslitaleikurinn á HM og auðvita trúi ég því. Mér fannst nú ferkar lítið gerast framan af leiknum fyrir utan smá fæting sem varla er orð á gerandi. Þetta var farið að minna mig á það þegar maður lendir í þeirri stöðu í smalamennsku að standa fyrir og bíða. Alltaf eitthvað alveg að fara að gerast en gerist ekki...... fyrr en enginn á von á því. Og þá kannske tapar maður bara af því eins og kom fyrir mig við seinni slagsmálin.

Ég hafði heyrt talað um að Messi væri besti knattspyrnumaður í heimi og treysti því alveg á að hann mundi skora og vinna. Því hélt ég að sjálfsögðu með honum. Var reyndar ekki viss um í hvoru liðinu hann væri en sá að ég gæti komist að því þegar hann mundi skora. Svo kom markið sem ég að sjálfsögðu fagnaði þangað til ég komst að því að sá sem skoraði var als ekki Messi. Ónei þar var á ferðinni ósköp sætt krútt frá Þýskalandi sem var ekki einu sinni í liði með Messanum.

Það sem eftir lifði leiks og undir framlengingunni líka einbeitti ég mér að því að ná áttum og þá sér í lagi að jafna mig á því að sennilega kæmist ég ekki að því hvernig Messi liti út. Sko mitt vit á fótbolta nær eingöngu til þess hvort að kapparnir líta vel út eða ekki. Ég legg ekki meira á mig.

Þar sem að engir fleiri leikmenn skoruðu varð ég engu nær um nöfn og nánari upplýsingar. Það var ekki fyrr en Angela Melker knúsaði krúttið sem skoraði meira en hina að ég var viss um að þjóðverjar hefðu sennilega unnið.

Þegar ég verð stór verð ég kannske fótboltabulla.

PS.  Hvað er leyfilegt að sýna marga grátandi kalla í sjónvarpinu án þess að setja á rauða merkið ???