02.10.2014 12:01

Kveðja frá Holuhrauni

 

Laugardaginn 20 september var útsýnið svona af hlaðinu í Hlíðinni þegar við komum heim úr Vörðufellsréttinni. Sennilega hefur Holuhraunið verði að kasta á okkur kveðjum. Já ekki beint gæða loft í dásamlegri blíðu sem þá var hjá okkur í Hnappadalnum. En rokið og rigningin sem komu daginn eftir sáu alveg um að hreinsa loftið fyrir okkur.

Ég ætla ekki að eyða orðum í tíðarfarið síðustu daga því að auðvitað gæti það verið miklu verra. Úrhellisrigningin gæti verið snjór, brjálaða rokið gæti verið 30 m/sek ekki 20 sko og skítakuldinn gæti örugglega verið frost. Við höfum fullt af eldfjöllum hér í kring sem gætu alveg verið að gjósa og ýmislegt fleira sem hæglega gæti verið slæmt.

Við höfum það fínt og ekki sanngjarnt að vera með neitt væl...........punktur.

Eins og þið hafið séð þá hefur lífið snúist um kindur og aftur kindur síðustu daga. Ég hef stytt mér leið hér á síðunni með því að skella inn myndum en ekki stundað mikla skrifinsku. Það þýðir þó ekki að ég ætli ekki að segja ykkur fréttir allavega svona með.

Við höfum sent 416 lömb í slátrun og vorum bara sátt með útkomuna á þeim hópi. Þar sem ég notast helst við samanburð hér á búinu en er ekki í opinberri typpakeppni ætla ég ekki að svo búnu að birta neinar tölur.

Þær koma sennilega í lok sláturstíðar og í kjölfarið verður boðið uppá eitthvað skemmtilegt til að halda uppá nú eða drekkja sorgum.

Það voru mörg lömb falleg þetta haustið og erfitt verk er fyrir höndum að velja ásetninginn. Góður hópur af hrútum bíður þess að opinberir spekingar líti á þá og leiði mig í allan sannleikann um skynsamleg afdrif þeirra. Svo gerum við það sem við teljum gáfulegt fyrir okkur og budduna.

Eins og undanfarin ár var mjög margt af ókunnugu fé þegar við smöluðum til fyrstu réttar eða vel á sjöunda hundraðið Heimtur hjá okkur eru nokkuð góðar m.v sama tíma síðustu árin.

Síðasta vika var gjöful hvað þær varðar og fengum við kindur alla daga vikunnar.

 

Læt fylgja með hvernig Hraunholt litu út frá okkur þann 20 september 2014.