11.05.2017 14:51

Og enn rokka rollurnar.

 

Það er komið sumar hér í Hlíðinni.

Þó svo að svolítið blási þessa stundin þá er klárlega komið vor.

Gróður er kominn vel af stað og nú er bara að sína smá biðlund.

Þetta er tíminn þar sem mig langar helst að sleppa því að sofa bara gera, vera og njóta.

En sennilega yrði nú húsfreyjan frekar geðvond ef að svefninn yrði sparaður líka og hana lagnar til.

Sauðburður fór af stað með látum og ekkert gefið eftir í þeim efnum.

Við sæddum heilan helling í vetur og þetta verður sennilega met árið með það hvernig ærnar hafa haldið.

Þökk sé hrútunum , sæðingamanninum og jafnvel heyjunum.

Það skal þó tekið fram að ég notaði ekki aðferðina sem að sæðingamaðurinn sagði mér frá í vetur.

En hún var sú að til að ekkert færi nú á milli mála með hvaða ær vildu fá þjónustu sæðingamannsins var hrútur bundinn við staur í krónni. Hann átti að sjálfsögðu ekkert að gera bara vera.

Sennilega tók hrúturinn ekkert mark á þessum fyrirmælum enda gat hann illa varist þegar ærnar gerðust nærgöngular og hann vesalingurinn bundinn.

Ónei þetta var bara gott ár í sæðingamálum, allavega þegar horft er til síðustu ára.

Ég á eftir að mynda nokkra uppáhaldsgripi sem út úr þessu bröllti komu.

Þar má nefna Hnallþóru Hnalls, Jónas Jónasson, Geisla- Baug Baugs og Sorgbitinn Ebitason.

 

Kvöldverður á góðri stundu.

 

 

Sex kindur báru í mars og var þeim sleppt út þann 5 maí.

Emilía Matthildur frænka mín nefndi nokkuð af þessum snemmfæddu lömbum og það voru sko engin smá nöfn.

Þar voru m.a Tómas, Emil, Jóhann, Ríkharður, Patrekur, Daníel og Kandísmoli. Já ekkert slor.

Fríða móðursystir mín á einmitt afmæli þennan dag 5 maí og varð telpan 86 ára.

Hún eins og ég var alveg sannfærð um að lambfé hefði ekki farið svona snemma út síðan í gamla daga þegar allt fé bar úti.

Í dag blæs hindvegar ískaldri norðaustan átt og afar gott að allar aðrar kindur eru inni ennþá.

 

 

Rólegt á næturvaktinni þessa nóttina.

 

 

Við erum svo ljónheppin að fá fullt af snillingum til að aðstoða okkur við sauðburðinn.

Þarna er einn mættur  og að sjálfsögðu var dressið við hæfi, nema hvað ?

Mannskapurinn kemur úr öllum áttum og allir jafn mikilvægir.

Til að gefa ykkur innsýn í fjölbreytileikann þá voru þyrluflugmaður og spregjukafari hér einn daginn.

Síðan hafa komið við kennari, smiður, skrifstofudama, hjúkrunnarfræðingur og tamningamaður.

Væntanlegir eru rafvirki, þroskaþjálfi, nemi og margir fleiri.

Já sauðburðurinn er tíminn.