Flokkur: Daglegt líf í Hallkelsstaðahlíð

20.08.2009 22:26

Úti er alltaf að snjóa.........nei sem betur fer bara slydda


Þetta er nú ekki grín...............það gránaði í fjöllin áðan og það er 20 ágúst. Reyndar hefur Geirhnjúkur gránað einu sinni áður í sumar en núna náði þessi grái niður um allt. Hellisdalur, Tindadalir, Skálarhyrnan, Snjó og Þverdalur.............grátt og ekki gaman.
Vona að berin frjósi ekki strax og kuldinn nái ekki í kartöflugarðinn.
Það var allavega ógeðslegt veður í kvöld þegar við smelltum hrossunum inn ekki gott fyrir þau greyin að fá slyddu ofan í svitann. Mér fannst þau bara fegin að fá að vera inni í nótt, smá tilbreyting þar sem þau koma alltaf inn á morgnanna og fara út á kvöldin.

Annars er búið að vera ýmislegt stúss í gangi í dag, ég brunaði eina ferð til Reykjavíkur (að sjálfsögðu á löglegum hraða ) að sækja varahlut. Þessar elskur í Vélfangi voru sneggri en við áttum von á og því allt tilbúið í dag. 
Takk fyrir góða þjónustu nú í þessu bilannafári Vélfangsmenn og Skipanesdrengir.

Á morgun þarf að sækja eina hryssu sem vonandi kemur fylfull heim og ýmislegt fleira er á döfinni. Það er því best að fara bara að skoða koddann.

19.08.2009 22:37

Eins og gerst hafi í gær............og smá golf með.



Fyrsta hrossaeignin mín hún Skjóna þarna með eigandann á baki og folaldið er Litbrá.

Eins og gerst hafi í gær.............................eða þannig, þessi mynd var tekin fyrir örfáum árum að mér finnst. En árin eru nú orðin þó nokkuð mörg ég ætla ekki að segja ykkur hvað þau er mörg. Takið eftir þessum flotta bakgrunni á myndinni þessum fínu kusum sem eitt sinn voru til hér í Hlíðinni.
En eitt hefur ekki breyst frá þessum tíma, ég er alltaf jafn veik fyrir skjóttum hrossum það eldist sennilega seint af mér. Núna bíð ég bara spennt eftir því að fá folald undan Andrá minni sem fór undir Þrist frá Feti í sumar. Hulda vinkona mín er sannfærð eins og ég að það verði skjótt hryssa.................og þá kemur nafnið Huldumey sterklega til greina. emoticon 

Veðrið í dag hefur nú verið full haustlegt fyrir minn smekk strekkingur og rigning. Mér finnst alltaf verra að venjast venjulegu haustveðri eftir gott sumar er hreinlega orðin of kröfuhörð.
Hugsa um það daglega hvort að verið verði nú ekki örugglega betra í leitunum en í fyrra.
Er að herða mig uppí að verða sannfærð og fullviss um að það verði ótrúleg blíða samt ekki of heitt fyrir kindur í nýjustu ullartískunni.

Það er alltaf svo spennandi að fá fréttir af hrossum sem við höfum átt. Í gær talaði ég við eina vinkonu mína sem að eignaðist hryssu frá okkur fyrir nokkrum árum. Hryssan var nýbúin að eignast folald og heldur betur lukka með litinn brúnblesótt og ,,bláeygt,, örugglega margir búnir að bíða lengi eftir því að fá svona lit.
Fínn bónus sérstaklega þegar hryssan er bara brún en samt fyrir mestu að fá góðan grip sem vonandi passar í hlutverkið sem honum er ætlað.
Ég er kannske svo skrítin að mér finnst miklu meira gaman að fá svona fréttir og gleðjast með eigandanum en að velta mér uppúr einhverju leiðinda daglegu þrasi sem kannske telst meira fréttnæmt og gáfulegra.

Ófeigur og Þorri eru bara sprækir eftir ,,herraklippinguna,, sem þeir fengu hjá honum Rúnari í fyrradag. Raunar svo sprækir að mér var farið að detta í hug að Skúli og Rúnar hefðu bara farið í golf þennan dag og sleppt öllum klippingum.
Feðgarnir á þessum bæ eru ennþá með töluverða golfdellu og hafa öðru hvoru skroppið af bæ í sumar til að lumbra á kúlunum. Mér finnst frábært hjá þeim að líta uppúr puðinu og breyta til.  Ég hef velt þessu sporti fyrir mér en ekki fengið svo mikið sem snefil af löngun til að spreyta mig. Er samt viðbúin ef að kastið kemur að leggjast niður og láta það líða hjá.


18.08.2009 21:48

Góður Aldur og Viðja týnd



Ef að þessi dama sem er á myndinni yrði reið og vildi reyta hár sitt hefði hún af nógu að taka.
Þetta er hún Skúta sem þarna er í andlegri íhugun.......................og er ekki köstuð ennþá.

Í dag var sónað frá honum Aldri frá Brautarholti sem var í girðingu í Fellsöxl, útkoman var góð og velflestar hryssurnar fylfullar.
Já ég var heldur betur kát þegar ég var búin að fá niðurstöðurnar það voru nefninlega þrjár hryssur sem mér var umhugað um og allar fylfullar. Fyrsta er að telja Kolskör mína sem sónaðist með eins og hálfsmánaðar fyl, þá var það hún Þríhella sem var með hátt í tveggja mánaða fyl og svo Perla Gustsdóttir frá Lambastöðum sem var með mánaðar gamalt fyl.
Ég bíð mjög spennt eftir að sjá þessa gripi næsta vor.

Á meðan ég man...............ef að einhver hér á mínum slóðum rekst á þriggja vetra dökkmósótta hryssu í óskilum þá endilega látið mig vita. Hún Viðja mín er týnd reyndar búin að vera það svolítinn tíma en það gerir ekkert til að vera bjartsýn og kanna málið.


17.08.2009 22:14

Blíðan, mikilvægar dagsetningar og vandaðar lýta aðgerðir



Veðrið í dag var skemmtilegt sól, blíða og svo helli rigning sem kom beint niður. Á eftir dembunum var allt svo hreint og fallegt. Eftir kvöldmatinn fór svo Mummi út og tók nokkrar góðar myndir sem að vonandi koma inná síðuna fljótlega.

Ég er ekki viss um að bræðurnir Ófeigur og Þorri eigi eftir að minnast þessa dags með sérstakri ánægju í framtíðinni. Þetta var nefninlega dagurinn sem að þeir bræður fóru í ,,lýta aðgerð,, svona á frekar viðkvæmum stað. Þeir fóru í bíltúr til hans Rúnars dýralæknis í Stykkishólmi og komu hálf þynnkulegir til baka. Þar sem ég taldi þetta frekar slæma lífsreynslu þá fengu þeir félagar lifrapylsu í kvöldmatinn.

Ég fór á fund með sauðfjárbændum og forustumönnum þeirra í Búðardal í dag. Þetta var ágætis fundur en ég verð að játa að ekki varð ég nú bjartsýnni eftir hann.
Sagði ekki einhver spekingur að maður ætti alltaf að búast við því versta en vona það besta.
Ég vona það allra allra besta....................

Svona til upplýsinga fyrir þessar elskur sem hafa komið til okkar undanfarin haust og smalað með okkur og réttað koma hér nokkrar mikilvægar dagsetningar.
Fyrsta smölun og réttir verða hjá okkur 17-20 september.
17 sept byrjað að smala hér í kring Múlinn og fleira.
18 sept aðalsmalamennskan í Hafurstaðafjalli (mig dreymir um að fá sem flesta) lofa betra veðri en í fyrra.
19 sept Vörðufellsrétt.
20 sept safnið rekið inn og réttað hjá okkur.
Er þegar byrjuð að huga að því að elda, baka og b..... sjáumst vonandi sem flest.emoticon
Sé til þess að rykið verði þurkað af gítarnum.

16.08.2009 23:22

Járningar og hagfræði úttekt í kartöflugarðinum heima



Þessir voru kátir og einbeittir þegar ég mætti þeim í léttri sveiflu útá vegi um daginn.
Fannar og Mummi.......................gaman saman.

Um helgina hefur verið járnað og  járnað og járnað meira. Svo að nú segir það sig sjálft að þau mál eru í mun betri farvegi en fyrir helgi.  Margir folar sem ekki hafa verið járnaðir fyrr eru nú komnir á járn og flestir bara verið mjög þægir í járningu.
Það hefur verið líflegt í hesthúsinu og nokkrir hestar hafa skipt um lögheimili og mál annara í skoðun. Í vikunni koma svo líklega einhverjar hryssur heim sem hafa verið hjá stóðhestum.
Alltaf svo spennandi að sjá hverjar hafa haldið og hvernig folöldin líta út eftir nokkra vikna dvöl annars staðar.
Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Þeytingur sem gerði allt eins og til var ætlast í sínu dagsverki.

Í kvöld ákvað ég að nú væri orðið tímabært að kanna uppskeruna í kartöflugarðinum (heima). Ég verð að taka það fram að garðrækt er ekki sérgrein mín þó svo að ég hafi alltaf látið mig hafa það að framkvæma einhver afrek þar. Er skemmst frá því að segja að kella rauk af stað með fötu og fork að vopni. Stakk upp nokkur kál og týndi þessar fínu kartöflur í fötuna. Fljóttlega gerði ég mér þó grein fyrir því að samkvæmt minni hagfræði væri ekki skynsamlegt að taka upp meira en sýnishorn. Það eru nefninlega meiri líkur á að uppskeran vaxi í garðinum en pottinum heima. Ég vona að þessi hagfræði reynist rétt og ég raunar treysti bara á það.............. svona er nú gott að vera bara sinn eiginn hagfræðingur og bera enga ábyrgð frekar en sumir aðrir. Bara bíða og vona að uppskeran verði mikil og stór.



Um helgina var hér fullt af veiðimönnum sem gerðu það bara býsna gott. Ég hef haft fregnir af nokkrum tuga fiska sem komu á land og nokkrum stórum og matarmiklum.
Það er gaman að núna er ennþá líflegt á tjaldstæðinu, stundum hefur allt verið búið eftir verslunnarmannahelgi.



15.08.2009 00:00

Tíminn er fljótur að líða....



Mói og Kátur tuskast................... myndin er tekin 5 júní 2009.

Það er skrítið hvað tíminn líður hratt mér finnst að það hafi verið  vetur í fyrradag vor í gær og nú eigi að vera endalaust sumar. En það er nú öðru nær. Það styttist óðum í haustið krakkarnir fara að yfirgefa okkur og skólarnir að byrja.
Fyrir mörgum árum sagði vinnkona mín þá á níræðisaldri mér að ef að mér finndist helstu stórviðburðir ársins næstum ná saman þá væri ég í góðum málum og nyti lífsins.
Hún tíundaði fyrir mig hvaða atburðir væru hæfir til að teljast stórviðurðir og viðmiðunnarhæfir í þessu sambandi. Það voru jólin, þorrinn, páskarnir, sauðburðurinn, heyskapurinn, berjatýnslan, kartöfluupptakan, réttirnar, sláturtíðin og bændahátíðin.
Þetta nær allt saman hjá mér svo að ég hlýt að vera í góðum málum á reyndar fullt í fangi með að fylgjast með þessu öllu.
Ég er reyndar svo heppin að geta alls ekki gert uppá milli hvaða árstími er skemmtilegastur.

Það er allt gott að frétta úr hesthúsinu mikið riðið út í dag og þó nokkur gestagangur þar.
Nokkur tryppi hafa verið að stíga sín fyrstu skref með knapa á bakinu síðustu daga og alltaf eru hestar að koma og fara.
Fyrirmyndarhestur dagsins í dag var hann Muggison skemmtilegur fjögura vetra foli sem að Mummi á undan Skeifu Oturs og Mugg Faxasyni.

Rétt svona í lokin.................það væri nú gaman ef að þið sæuð ykkur fært að skrifa í gestabókina hér á síðunni. Það er svo skrítið að fá fullt af gestum alla daga og hafa ekki hugmynd um hverjir þeir eru.



14.08.2009 00:30

Snotra hugsar og húsfreyjan tuðar



Ekki trufla mig ég er að hugsa........................

Það var gott veðrið í Hlíðinni í dag  já alveg snildar útreiðaveður. Logn, hlýtt og smá úði.
Dagurinn byrjaði með svolitlu fáti þar sem að ég hafði yfir hlaðið fyrstu klukkustundir hans ótæpilega. Það er nefninlega þannig að bókhald og reddingar taka alltaf 5 sinnum lengri tíma en ég held í upphafi. Hlutverkin voru líka full fjölbreytt fyrir hádegi gjaldkeri, símadama, þvottakona, sauðfjárbóndi og kokkur. En allt hafðist þetta af og maturinn var tilbúinn fyrir gestina, þvotturinn þveginn, síminn þagnaði og bréfin í póst. Eftir hádegi varð þetta skaplegra og ég varð bara ,,rólegur,, tamningamaður og ,,virðuleg,, húsfreyja.
Sem sagt góður dagur eins og þeir lang flestir eru.

Enn veiðist ljómandi í Hlíðarvatninu og þónokkuð margir hafa bleytt öngla þar undanfarna daga. Tjaldstæðin hafa verið mikið notuð og margir enn að njóta sumarsins.
Eins hafa margir lagt leið sína uppí Krakavatn og veitt bara nokkuð vel allavega sumir.
Flestir okkar veiðimenn eru fyrirmyndarfólk sem að gengur vel um landið en því miður eru alltaf svartir sauðir innanum. Kunningjar okkar sem fóru uppí Krakavatn í gær höfðu frekar slæma sögu að segja okkur af umgengninni við vatnið. Þar bar fyrir sjónir ýmislegt rusl og dót sem að alveg er bannað að skilja eftir á viðavangi. Gler og dósir, girni og plast svo að eitthvað sé nefnt. Það er alveg ótrúlegt að fólk geti borið með sér ýmislegt dót uppá fjall en þegar að einungis umbúðirnar eru eftir getur það ekki tekið þær með sér heim.
Þið sem eigið eftir að fara þarna upp endilega takið nú ruslið ykkar með heim það er svo leiðinlegt að þurfa að setja sig í tuð gírinn yfir því sem á að vera sjálfsagt.

12.08.2009 22:50

Góðir krakkar



Það var oft þétt setið við eldhúsborðið í sumar, þarna eru þau Jón Ben vísnaskáld, Nikulás girðingameistari, Ansu tamningakona frá Finnlandi, Linda systir hennar og Astrid hestaþjónn frá Danmörku. Hörkulið hress og skemmtileg. Við hin sem að teljumst heimilisfólk litum hreinlega ekki nógu vel út fyrir myndatöku.
Það skal tekið fram að það var matur á pönnunni í upphafi borðhalds.emoticon



Þarna getið þið séð að það er bara nokkuð gaman að vaska upp og ganga frá í eldhúsinu, það er helst að Salómon sé efins.



Þessi mynd heitir ,,Sveitapiltsins draumur,, þarna er Nikulás Rúnar að hamast við að fela enda. Yfirmaður endafelinga................hefur sennilega falið á annað þúsund enda í sumar.



Þarna eru Ansu og Freyja saman á góðri stund og brosa báðar út í annað. Ætli það sé svona gott veður í Finnlandi núna????



Þarna eru tveir félagar í slökun þessi mynd er tekin í brekkunni á Kaldármelum þegar íþróttamótið var haldið þar í vor.
Hvað þeir eru að hugsa er ekki gott að vita, kannske eru það tamningar og girðingavinna.....................?????? Nei sennilega ekki.

11.08.2009 22:29

Sparisjóður með heimilishjálp og fleiri góðir viðburðir.



Sumum er hreinlega gefið meira sjálfstraust en öðrum...........þarna er hann Kostur minn að reyna að aðstoða föður sinn. Honum hefur líklega fundist full mikið annríki hjá Sparisjóði og ákveðið að vera hjálpsamur sonur. Hann er allavega sannfærður um að þetta geti hann vel.
Það hefur fjölgað ört hjá Sparisjóði síðustu daga og í gær fékk hann þrjár eðaldömur til sýn sem að honum er ætlað að þjóna. Ein af þeim er Klara vinkona mín frá Lambastöðum, en hún eignaðist um daginn rauða hryssu undan Dyni frá Hvammi. Við erum stórhrifin af þessu folaldi og hreyfingarnar er stór glæsilegar. Aldeilis spennandi gripur.

Við fórum í gær og kíktum á hann Hlyn og Edda sónaði hjá honum hryssurnar. Útkoman var nokkuð góð og vonandi nokkrir fyrirmyndar reiðhestar á leiðinni. Hlynur leit frábærlega út og var eins og ungur reiðhestur í toppþjálfun...............algjör kroppur.

Helgin hér í Hlíðinni var hreint frábær við fengum góða gesti sem að komu hér með hestana sína og riðu út með okkur. Við fengum gott veður og riðum skemmtilega leið um slóðir sem að margir af gestunum höfðu aldrei farið. Í stuttu máli og á tungu heimamanna......út hjá Heiðarbæ, niður hjá Höfða, Gjánna og niður að Rauðamel. Þar var stoppað og þegið kaffi sem að ein úrvals húsfreyja úr sveitinni kom með til okkar. Að því búnu var riðið ,,upp hraun,, og heim að Hraunholtum síðan var riðið heim í Hlíðina. Þar hitnaði í kolunum í orðsins fyllstu merkingu og undir miðnættið voru allir orðnir saddir og sælir.
Þökk sé íslensku sauðkindinni einu sinni enn...................
Á sunnudaginn var síðan tekinn annar reiðtúr og þá héldu gestirnir heim á leið.
Já það er alltaf gaman að hittast og rifja upp góðar stundir með fyrrverandi samstarfskonum mínum úr Sparisjóði Mýrasýslu. Takk kærlega fyrir komuna það var gaman að fá ykkur öll.

Mummi smellti sér norður á Hvammstanga um helgina og tók þátt í íþróttamóti þar. Fór hann með kappana Fannar og Dregil. Hann var bara nokkuð kátur með árangurinn (sjá úrslitin inná http://thytur.123.is/
Mig er farið að hlakka til að skreppa í stóðréttirnar í haust og hitta ferðafélagana góðu frá því á fjörunum í sumar.

Hann Jón Ben yfirgaf okkur síðasta föstudag eftir góða samveru í sumar vonandi birtist hann sem fyrst aftur. Læt hér fylgja með vísukorn sem að hann skyldi eftir sig.

Hlátursóminn heyra má
frá álfum á Hafurstöðum.
Þar var ekkert borið á
því bila nú tæki í röðum.

Nú er að líða undir lok
bilanna sumar mikið.
Og allir komnir með uppí kok
af heyskap fyrir vikið.

Þetta þarfnast frekari skýringa fyrir þá sem ekki til þekkja..............það kemur síðar.

11.08.2009 00:43

Kella sibbin.............

Var að koma heim eftir mjög langan dag, hef fullt af fréttum að færa ykkur en er svo syfjuð að það er ekki möguleiki á því að skrifa eitthvað af viti. Stend mig vonandi betur á morgun.
Góða nótt og hafið það sem allra best.

PS í dag sá ég eitt það fallegasta folald sem ég hef séð um æfina...............og hef ég nú séð þau nokkur. Meira um það á morgun.

05.08.2009 23:13

Ánægjuleg sónarskoðun........alveg 100%



Þessi hestur heitir Muggur og er hér í tamningu hjá okkur, ég dauðöfunda frúnna sem á hann.

Góður dagur að kveldi kominn og þá er rétt hjá húsfreyjunni að setjast niður og rifja upp ,,sumt,, af því sem gerðist hér í Hlíðinni í dag.
Það var sónarskoðað hjá honum Sparisjóði í dag og kom þá í ljós að fylprósentan er 100% ennþá.emoticon 
Það var ljómandi gott að geta aðeins fækkað hjá honum því að síðast í gær var að bætast við í dömuhópinn hjá honum. Fullt að gera hjá kappanum.
Á mánudaginn verður svo sónarskoðað hjá honum Hlyni inná Lambastöðum og verður spennandi að sjá hvernig það kemur út.

Annars var heil mikið riðið út hér í dag og svo komu hér nokkrir að skoða hross. Stóðið sá ástæðu til að ösla langt útí vatn og koma heim á tún með tilheyrandi látum. Fáir höfðu húmor fyrir þessum leik og fóru vaskir sveinar með rafmagnsgirðinguna eins langt útí vatn og tæknin leyfði. Var tækifærið notað og nokkrir folar teknir höndum og settir í megrun.

Verð að segja ykkur eitt svona í trúnaði.............. ég ætla ekki að skrifa um landbúnaðartæki og viðhald þeirra eða pólitík hér í kvöld. Ástæðan er einföld ég verð svo geðvond af því.
Það verður því að bíða betri tíma.

Í dag var algjört met í heimsóknum á heimasíðuna okkar 290 heimsóknir sem er frábært. Takk fyrir innlitið alltaf ánægjulegt að fá heimsóknir hvort heldur það er í hlaðið eða á síðuna.

05.08.2009 11:15

Söluhross

Nú hafa ný söluhross bæst við á síðuna undir hnappnum ,,söluhross,,
Endilega hafið samband ef að við getum eitthvað aðstoðað ykkur.




03.08.2009 22:05

Það gerist margt í sveitinni...........



Rakst á Mumma og Riddara í reiðtúr og smellti af þeim mynd.

Jæja þá er þessi ferðahelgi búin og flestir þeir sem að lögðu land undir fót komnir heim eða á leiðinni heim. Afrek mín í ferðalögum og útihátíðum voru nú ekki mikil eða stór þetta árið. En helgin var samt alveg ljómandi góð. Smá bíltúr inní Stykkishólm þar sem að ferðafélagar mínir héðan úr Hlíðinni spiluðu golf með góðum vinum. Grillveisla í Hraunbrúninni og góðir gestir heima fyrir. Hestarnir voru í fríi frá föstudegi þar til í dag og voru örugglega bara sáttir með það.


Hinsvegar tóku túnrollurnar sem að eru sérstakir aðdáendur fóðurkálsins sem á að bítast í haust sér ekkert helgarfrí. Ég verð nú að játa að þær eru farnar að rífa í þolinmæði húsfreyjunnar sem jafnvel hefur hugsað þeim þegjandi þörfina og hugleitt rótækar aðgerðir til að losa sig við fénaðinn. Það versta er að upprennandi kynbótahrútur búsins Sindri nokkur er meðal þessara vandræða gripa svo að aðgerðunum verður sennilega stillt mjög í hóf.  Eins og áður hefur komið fram þá er kynbótahrúturinn Sindri Kveiksson í miklu uppáhaldi hjá mér eða var það allavega í vor. Spurning um framhaldið ef að kálið verður allt búið þegar að sláturlömbin koma úr fjallinu og eiga að fara að gæða sér á því.
Það er ekki nóg með að allt sé að skrælna heldur ofsækja forhertar túnrollur þessa vesælu uppskeru.

Sparisjóður varð fyrir nýrri lífsreynslu um helgina. Hann hefur lifað frekar áhyggjulausu lífi í girðingunni sinni í allt sumar og fyrrasumar líka. En á sunnudagsmorgun lifnaði nú heldur betur yfir hversdagsleikanum hjá honum og hans spússum sem halda honum félagsskap í girðingunni. Hún Sjaldséð mín þriggja vetra gelgja ákvað nefninlega að nú væri komin tími til að breggða sér heim í tún. Til þess að komast þangað þurfti hún að svamla langt útí Hlíðarvatn og koma sér fram fyrir girðinguna sem er girt langt út í vatn. Þegar hún var komin heim í tún lét hún ekki þar við sitja heldur ákvað að smella sér í heimsókn yfir næstu girðingu og inn til Sparisjóðs. Hann hefur verið í þessari rafmagnsgirðingu og ekki látið sér detta í hug að stökkva út þó svo að stórir hestahópar stundum 100 hross hafi farið hér hjá.
En Sjaldséð ákvað að láta vaða og stökk á girðinguna og inn komst hún. Nú eru örugglega allir sem að þetta lesa vissir um að hún hafi gert þetta til að fá þjónustu hjá höfðingjanum en svo var nú aldeilis ekki. Þegar að hann sá nýja dömu hugsaði hann sér gott til glóðarinnar og byrjaði að smala hópnum saman og var sannfærður um að sú nýja yrði yfir sig hrifin og samvinnuþýð. Það var nú öðru nær og skemmst frá því að segja að fjölmennt lið kom höfðingjanum til hjálpar og losaði hann við þetta ofbeldisfulla ,,glæpakvendi,,
Sjaldséð hefur sennilega ekki tímasett þessa heimsókn nægilega vel eða haldið að þetta innbrot tæki lengri tíma. Allavega voru ástaratlot henni afar fjarlæg ..........................
Vettvangur þessa innbrots var við hliðina á tjaldstæðunum okkar og voru því margir áhorfendur sem að fylgdust spenntir með framgangi mála.

30.07.2009 23:16

Léttur Glymur og Ansu áfram á Íslandi.........



Stundum er hreinlega svo mikið að gera að maður verður að flýta sér á milli staða.......á brokki..........................

Það var mikið riðið út hér í dag þrátt fyrir mikinn blástur. Enginn ferðahópur var hér í dag en það var afar fjölmennt og margir hestar sem fóru hér um hlaðið í gær. Einn hópur að fara yfir Klifsháls, annar fór Fossaleiðina og sá þriðji var að ríða kringum Hlíðarvatn.
Það hefur verið hefð til margra ára hjá góðum grönnum að koma ríðandi svokallaða Hringdalsferð. Í þessa ferð hafa farið jafnt ungir sem aldnir og ævinlega skemmt sér vel.
Takk fyrir komuna alltaf gaman að halda í góðar hefðir.
Einnig var afar gestkvæmt í gær bæði komu gestir að skoða hross og einnig til að líta á bændur og búalið. Sumir komu alla leið frá Spáni.

Í dag fór Létt undir hann Glym frá Skeljabrekku og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Svo er bara að bíða eftir henni Skútu sem að er enn óköstuð, faðirinn þar er Gaumur frá Auðsholtshjáleigu.

Á morgun fer hún Ansu okkar sem hefur verið hjá okkur í sumar hún ætlar að fara heim til sín til Finnlands. Hún hefur staðið sig með mikilli prýði eins og allir þessir góðu krakkar sem hér hafa verið. Við söknum hennar öll og vonum innilega að hún komi bara aftur til Íslands.
Takk fyrir skemmtileg kynni Ansu vonandi kemur þú sem fyrst aftur til okkar.

Nú nálgast ferðahelgin mikla óðfluga og allt orðið klárt hjá okkur að taka á móti fólki á tjaldstæðin. Svo er bara að krossa fingur og vona að veiðin verði ennþá góð um helgina.




29.07.2009 22:59

,,Amma,,


Nú er kella kát orðin þessi fína ,,amma,, og brosir hringinn af því tilefni.

Í dag eignuðust Randi okkar og Haukur litla sæta prinsessu, innilega til hamingju elskurnar.
Ég get ekki beðið eftir því að fara og skoða litlu prinsessuna sem loksins er komin í heiminn.
Verð að fara að standa mig í prjónaskapnum eins og góðri ömmu sæmir.

Sendum okkar bestu hamingjuóskir í Skáney og til Noregs frá okkur hér í Hlíðinni.