Flokkur: Daglegt líf í Hallkelsstaðahlíð

04.05.2011 08:32

Komin heim frá Noregi



Mummi og uppáhalds vinur hans að leika sér á Hólum.

Ég er komin heim eftir að hafa átt góða daga í Noregi við að dæma flott hross og góða knapa.
Veðrið lék við mig og ég er sannfærð um að hafa komið heim með vorið. Móttökurnar voru frábærar, skemmtilegt að hitta fólkið og sjá hestana sem að ég þekkti hér að heiman.
Myndir og nánar um Noregsferð síðar.

Skúli skellti sér norður að Hólum á laugardaginn til að sjá sýningu þriðja árs nema Hólaskóla.
Sýningin að þessu sinni hét ,, Leiðin á toppinn,,
Ég dauðöfundaði hann en var samt ánægð með mitt hlutskipti en gaman hefði nú verið að sjá flottu Hólakrakkana líka. Mummi var með atriðið ,,Traust og samspil,, þar notaði hann Fannar sinn sem treystir Mumma til ótrúlegustu hluta m.a leikur sér með stóran bolta og stekkur yfir eld. Krapi kom líka fram í atriðinu til að sýna vinnuna á fyrri stigum en þeir vinirnir hafa jú ekki verði jafnlengi saman og Mummi og Fannar ,,gömlu karlarnir,,
Krakkarnir kynntu síðan lokaverkefnin sín sem að voru mjög fjölbreytt og skemmtileg.
Skúli fór líka á sýninguna um kvöldið og lét vel af.

Þann 1 maí fæddust hér lambakóngur og lambadrottning þegar gamla Útigöngu-Grána bar.
Í dag eiga svo kindurnar sem að voru sæddar tal svo að nú fer að færast fjör í leikinn.
Um helgina næstu fer svo stóra skriðan í fjárhúsunum af stað.





28.04.2011 23:20

Allt að gerast.................

Allt að gerast og fréttir í styttra lagi núna................
Þakið er komið á fjárhúsin svo að nú eru þau tilbúin fyrir næsta rok sem að vonandi verður ekki á næstunni.
Góðir og skemmtilegir páskadagar að baki með gestum og skemmtilegheitum.
Sauðburður handan við hornið en nokkur óunnin verkefni verða kláruð fyrst
svo sem skroppið til Noregs að dæma og ýmislegt fleira sem að fyrir liggur.
Meira um allt þetta síðar....................og jafnvel myndir.

20.04.2011 22:18

Járningamaðurinn minn.



Þessi var ekki gamall þegar áhugi vaknaði á járningum og þá var bara byrjað að æfa sig.



Handtökin nokkuð góð og höfðinginn Bliki tók þessu öllu með jafnaðargeði.



Vanda sig .........hælarnir verða að vera jafnir..................svo að skeifan sitji rétt.



Allt að koma...........ætli ég verði að setja hann á botna og sílikon ???



Úff þetta tekur á mann........................svo verð ég kannske á Hólum eftir 20 ár svo það er eins gott að byrja snemma að æfa sig.



............ekki á botna ??? 
Nei það er svo sem óþarfi en ekki trufla mig meira..........



Og skeifan passar svona ljómandi vel á snillinginn Blika.

Þessar myndir eru teknar í hesthúsinu sem að við áttum í Borgarnesi veturinn þegar Mummi var 4 ára. Hesturinn er Bliki frá Hallkelsstaðahlíð ógleymanlegur höfðingi sem að Ragnar frændi minn átti. Bliki var ein besta barnfóstra sem að ég hef kynnst og óendanlega umburðarlindur við lítinn hestamann.
Bliki var frábær reiðhestur með yndislegt geðslag, ég hef oft hugsað til hans í gegnum árin og hugleitt hversu gott það gæti stundum verið að klóna svona gripi.

19.04.2011 21:33

Blíðan í Hlíðinni.



Það var ekkert slor útsýnið sem að blíðan hér í Hlíðinni bauð uppá þennan daginn.



Þó svo að veðrið hafi verið gott í dag þá var það þannig að síðustu nótt var öskubylur.



Tjaldstæðin bíða eftir sumrinu og öllum gestunum sínum.



Og ekki hefur nú útsýnið af Klifshálsi verið slæmt í dag.



Já Guðdómlegur Hnappadalur.....................klikkar ekki.

18.04.2011 23:33

Sýningin í Faxaborg

Það var gaman á vesturlandssýningunni í Faxaborg á föstudaginn, troðfullt hús og góð stemming.
Enda tími til kominn að vestlendingar létu að sér kveða í viðburðafárinu sem nú gengur yfir.
Eins og stundum áður ætla ég að rifja upp hvað mér var efst í huga á leiðinni heim af sýningunni.
Sýningin hófst með fánareið fulltrúa félaganna þar á eftir komu fulltrúar Félags tamningamanna á vesturlandi.
Þeir sem að tóku þátt í því atriði voru Gunnar Halldórsson, Jakob Sigurðsson, Heiða Dís Fjeldsted, Haukur Bjarnason, Randi Holaker, Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir.
Eins og við var að búast heppnaðist atriðið vel og þessir heiðursknapar sér og FT til sóma.
Takk fyrir flottu félagsmenn.

Börn og unglingar áttu stór góð atriði og var gaman að sjá hvað efnilegir knapar eru þar á ferðinni.
Svanhvít húsfreyja í Lindarholti og gæðingurinn hennar Númi frá Lindarholti sýndu afar skemmtilegt atriði sem endurspeglaði djúpa vináttu og virðingu. Allar ,,græjur,, óþarfar í því atriði og verður bara spennandi að sjá hvað þau bjóða okkur uppá í framtíðinni.

Þó nokkur fjöldi af stóðhestum kom fram á sýningunni en í mínum huga var Stígandi frá Stóra-Hofi þeirra bestur. Stígandi er undan Aron frá Strandarhöfði og Hnotu frá Stóra-Hofi. Flugrúmur, mjúkur og hreyfingafallegur gæðingur sýndur af Sigurði Sigurðarsyni.

 Atriði með systkynum frá Eystra-Súlunesi var skemmtilegt, já Váli og Vera sem sýnd voru af þeim Jakobi Sigurðssyni og Agnari Þ Magnússyni eru heldur betur eigulegir gripir.

Jódís frá Ferjubakka var frábær að vanda og Eskill frá Leirulæk stóð fyrir sínu eins og venjulega. Þau voru saman í atrið sýnd af þeim Huldu Finns og Gunnari Halldórssyni.

Afkvæi Sólons frá Skáney komu fram en í þeim hópi heillaði Goggur frá Skáney mig mest. Goggur er sonur Glæðu frá Skáney, virkilega flottur hestur sýndur af Jakobi Sigurðssyni.

Í flokki 5 v hryssna hreyf mig mest hryssan Vænting frá Akranesi sem að Ingibergur Jónsson sýndi. Hún er undan Arði frá Brautarholti og Maístjörnu frá Akranesi. Önnur glæsihryssa Dimma frá Gröf vakti líka athyggli með einstaklega skemmtilegum hreyfingum, hún er undan Smára frá Skagaströnd og Hrefnu frá Garðabæ. Björn Haukur sýndi Dimmu.
Villirós frá Neðri-Hrepp sýndi líka skemmtilega takta og á eflaust eftir að gera góða hluti, hún er undan Þey frá Akranesi og Vöku frá Kleifum. Knapi á Villirós var Hlynur Guðmundsson.
Í flokki 6 v hryssna voru glæsihryssur en eftirmynnilegastar eru Sýn frá Ólafsvík og Spóla frá Brimilsvöllum. Sýn er undan Huginn frá Haga og Ísbjörgu frá Ólafsvík gæðingur sem knapinn Lárus Hannesson hafði greinilega mjög gaman af enda urðu sprettirnir betri og betri eftir því sem þeir urðu fleiri. Spóla sýnir snildartilþrif og flaggar væntingum um enn frekari innistæður. Spóla er undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu og Rispu frá Brimilsvöllum.

Auðvitað voru mörg frábær hross á sýningunni sem að ég hef ekki nefnt hér en ég hef gefið ykkur smá sýnishorn af því sem að mér fannst athygglivert.
Sýningin heppnaðist mjög vel og var skemmtileg en ef að eitthvað er aðfinnsluvert þá var það hljóðkerfið sem að skilaði alls ekki sínu.
En lítum bara á björtu hliðarnar og þökkum fyrir frábæra sýningarskrá sem var hreint til fyrirmundar.


16.04.2011 20:42

Skeifudagurinn



Skeifudagurinn var haldinn hátíðlegur á Miðfossum og Hvanneyri í dag.
Snædís Anna Þóhallsdóttir hlaut reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna.



Þarna eru nokkrir þátttakendur í setningarathöfninni.



Astrid okkar með sín hross sem voru hvítþvegin, pússuð og greidd í tilefni dagsins.



Þessi sæta vinkona mín passaði vel uppá að pabbi hennar opnaði ekki munninn að óþörfu.
Verður að hafa stjórn á þessum köllum.

Nánar síðar um skeifudaginn og að sjálfsögðu flotta reiðhallarsýningu sem að haldin var í Borgarnesi á föstudagskvöldið.

12.04.2011 22:57

Sparisjóðsdömur hittast



Eldhressar dömur úr gamla góða Sparisjóðssaumaklúbbnum hittast í Hraunholtum.

Já það var skemmtileg kvöldstund sem að við áttum saman síðast liðinn fimmtudag enda bara örstutt síðan síðast..................
Þegar ég flutti aftur í sveitina hætti ég í saumaklúbbnum góða sem við nokkrar samstarfskonur úr Sparisjóði Mýrasýslu stofnuðum árið 1987 .
Þrátt fyrir gott samband hafði ég ekki mætt í alvöru klúbb til þeirra síðan ég hætti en á fimmtudaginn komst ég svo sannarlega að því að ekkert hafði breyst þegar þessi hópur kom saman.
Það var spjallað, hlegið og haft gaman alveg eins og fyrir 20 árum síðan og ekki hafði veitingunum farið aftur.
Eins og þið sjáið höfum við ekkert elst að ráði en kannske eru myndgæðin bara ekkert sérstök............samt skrítið hvað við eigum orðið fullorðin börn ?
En kannske fara börnin bara stundum framúr foreldrunum ?

Takk fyrir frábæra kvöldstund stelpur.

11.04.2011 22:54

Já sæll..............herra Kári

Það gustaði heldur betur um okkur hér í Hlíðinni eins og marga aðra í gær.
Þetta byrjaði nú bara með saklausum strekkingi sem að ekki var tekið meira mark á en svo að hesteigendur bæði komu með hross og sóttu hross til okkar.
En þegar líða tók á daginn bætti heldur í og þegar við vorum á leið heim frá kvöldgegningum var komið óveður.
Stuttu síðar kom alvöru hvellurinn og plötur fóru að fjúka af fjárhúsunum og losna af hlöðunni.
Það er alltaf jafn óhugnarlegt að sjá járnplötur rifna af og fjúka um eins og pappírsblöð.
Þakið á fjárhúsunum skemmdist töluvert og um tíma gat Pálina forustuær og hennar sambýlingar horft til himins í gengum gatið á þakinu. Feðgarnir náðu svo þegar örlítið lægði vind að negla niður timbur og plötur á þakið þannig að ekki skemmdist meira.
Í morgun þegar birti komu svo ýmsar smá skemmdir í ljós hér og þar.
Þrátt fyrir þetta varð endirinn nokkuð góður enginn slasaðist og skemmdirnar óverulegar í samanburði við t.d tjónið hjá Baldri og fjölskyldu í Múlakoti, en þar hreinlega hurfu fjárhúsin og hlaðan.
Nú hefur vindinn lægt og vonandi eigum við ekki von á svona heimsókn frá Kára á næstunni.

07.04.2011 17:09

Neisti litli



Neisti litli Gosa og Dimmuson tekur sprettinn í stóðhestagirðingunni síðast liðið sumar.

Já það skiptast á skin og skúrir hvort sem manni líkar það vel eða illa.
Eftir að hafa veikst heiftarlega á þriðjudaginn og háð heljar baráttu drapst hann Neisti litli í gær.  Dýralæknirinn var búinn að gera allt sem hægt var en það bara dugði ekki til.
Þó svo að mörg sé búmannsraunin og maður ætti að vera orðinn sjóaður eftir öll þessi ár þá er alltaf jafn hundleiðinlegt að missa góðan grip.
Við erum að temja Kjós alsystir Neista en hún er nú á fjórða vetri og lofar mjög góðu.
Dimma kastar svo folaldi undan Hlyni frá Lambastöðum nú í vor, spurning hvort að ekki verður tekin ,,taka tvö,, og henni smellt undir Gosa aftur?

05.04.2011 23:03

Margir merkis dagar



Rósmundur í rólegheitunum..............................gæti þessi mynd heitið en þetta er Rósmundur sonur Sporðs frá Bergi og Sunnu okkar.
Hann ber höfuð og herðar yfir alla jafnaldra sína hér á bæ og næst í stærðarröðinni er systir hans Auðséð Sporðsdóttir.
Nú er ég farin að hugsa til vorsins og þá er svo gaman að velta vöngum yfir því hvað hver hryssa kemur til með að færa okkur í vor.
Ef að allt fer að óskum mun Rósmundur eignast þrjú hálfsystkyni hér á bæ með vorinu.
Ég ætti kannske að taka mig til og kynna ykkur hvað er væntanlegt af folöldum hér í vor ef að Guð lofar.

Meistari Salómon svarti átti afmæli í gær og fagnaði þar með 12 árum (84 ) kannske ekki í frásögu færandi að köttur eigi afmæli en hann Salómon er nú engum líkur.
Sannkallaður konungur ljónanna hér í fjöllunum.

Neisti litli veturgamall sonur Dimmu og Gosa fárveiktist í dag og urðum við að kalla á hann Rúnar dýralæknir til að koma og meðhöndla hann. Nú eru höfð vaktaskipti til að fylgjast sem best með honum en hann er enn mikið veikur. Vonum það besta.

Ef að illa liggur á mér á næstu dögum mun ég deila einhverju Icesavebulli með ykkur hér á síðunni. Annars fer ég bara og kýs gáfulega á laugardaginn.


01.04.2011 22:46

1 apríl.......................



Já það er svo sannarleg skítalykt af mörgu sem að fram fer í þjóðfélaginu þessa dagana.
En mér dettur ekki í huga að ergja mig á því vegna þess að vorið er komið, bara páskahret og sauðburðarhret eftir. Vona bara að hretin nái ekki saman.

Annars hefur á köflum verið stríðsástand hér á bæ, ekki hafa það þó verið bændur og búaliði sem skapað hafa þetta ástand heldur hundarnir á heimilinu.
Aðal ósættið er á milli Snotru og Deilu sem lent hafa ítrekað í blóðugum slag en bræðurnir Ófeigur og Þorri standa hjá og hvetja dömurnar til dáða. Vinkonurnar hafa alla jafna verið friðsamar og elskulegar án allra vandræða. Hvað gerir það að verkum að uppúr sýður er ekki gott að segja en málið er heitt.
Í dag náði ástandið hámarki þegar að allir fjórir hundarnir ruku saman og slógust þar til húsfreyjan rauk út með hringtaumspískinn að vopni.  Sennilega hafa hundarnir einhverntímann heyrt að reiðar konur séu ekkert grín og hættu um leið og fyrsti kafli af skammarræðunni var rétt að hefjast.
Útkoman = ein tík tölt á tveimur löppum, önnur með blóðugt bólgið nef, einn hundurinn hárreittur og annar úttaugaður af æsingi því fjörið var stoppað alltof fljótt.
Keli köttur sýndi ótrúlegt hugrekki fylgdist með úr lítilli fjarlægð og gerði sig á köflum líklegan til að taka þátt. Leyfi mér að efast um að hann hefði farið vel út úr þátttöku í þessu fjöri þó brattur sé.
Ég verð að fara að kaupa spegil handa honum hann er sannfærður um að hann sé hundur og meira að segja yfirhundur.

Óvæntur liðsauki mætti til okkar í vikunni, sauðfjárbóndi að vestan sem kann heldur betur til verka og urðu afrekin eftir því. Takk kærlega fyrir alla hjálpina Marinó og Freyja.

Á morgun er það svo gestamóttaka en Jón Gnarr borgarstjóri ætlar að hefja veiðitímabilið í Hlíðarvatni kl 14.00
Verður spennandi að sjá hvort að veiðin standi undir væntingum.


29.03.2011 21:01

Já já bara kominn 29 mars



Á vaktinni........................Snotra, Deila, Ófeigur og Þorri láta ekkert fram hjá sér fara.

Nú hefur tíðarfarið heldur betur breytt um stíl og boðið er uppá blíðu alla daga.
Kærkomin breyting og blíðan nýtt frá morgni til kvölds við tamningar og þjálfun.
Fyrirmyndarhestur dagsins var Kjós litla Gosa og Dimmudóttir bara svo yndisleg.

Í gær boðaði landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar til opins fundar um landbúnaðarmál. Á milli 40 og 50 manns mættu á fundinn sem haldinn var í Borgarnesi. Fundurinn var nokkuð góður og fóru fram líflegar umræður um þau mál sem að efst eru á baugi í þessum málaflokki.
Ekki fannst mér fulltrúar í sveitastjórn sýna þessum málum mikinn áhuga en einungis tveir sveitastjórnarmenn mættu á fundinn, þau Ingibjörg Daníelsdóttir formaður nefndarinnar og Finnbogi Leifsson.
Spurning hvort að langvarandi áhugaleysi flestra sveitastjórnarmanna á landbúnaðarmálum hefur nokkuð með það að gera að úrvinnsla á landbúnaðarvörum er nærri útdauð í Borgarnesi? Vonandi ekki.................
Ég var ákaflega ánægð með fundarsókn sveitunga minna héðan úr gamla Kolbeinsstaðahreppi sem að frestuðu aðalfundi búnaðarfélagsins til að mæta á fundinn.

Forðagæslumaðurinn hún Guðrún Fjeldsed mætti í árlega vorskoðun hingað í dag, hún er orðin eins og fuglarnir kærkominn vorboði.




26.03.2011 22:58

Allt í hund og kött................



Keli það á að fara taka mynd vertu stilltur einu sinni.....................



..................vú er ekki smart að láta eina löpp hanga ???



Ha ha ..........Snotra þú ert nú svolítið hallærisleg.............................



Hættu Keli þú ert sjálfur........................ömulegur, sjáðu fínu tönnina mína hún er hættuleg.




Veistu ef að þú hættir ekki að stríða mér þá kalla ég bara á Ófeig vin minn................
.

Sko ég vissi að þú væri skíthræddur við Ófeig.................ég vann.

21.03.2011 21:45

Fréttir

Eins og þið hafið séð hefur bloggið orðið illilega útundan hjá mér síðustu vikuna en nú skal úr því bætt. Ekki var það fréttaskortur sem að orsakaði þessa ritleti heldur nægt framboð af hinum ýmsu verkefnum.
Skúli hefur verið að hlaupa í rúning þegar ekki hefur viðrað til útreiða og ég því á köflum verið ansi einráð í hesthúsinu. Góð lausn hjá honum því að annars værum við bara að jagast um hver tæki meiri tíma í inniaðstöðunni. Því eins og það er nú gaman að ríða út í góðu veðri og skemmtilegu vetrarfæri þá er jafn leiðinlegt að basla í vondu veðri oft með ung trippi.
Svona er maður nú orðinn kröfuharður eftir góða veðrið síðast liðna vetur.
Astrid hefur svo komið reglulega og aðstoðað okkur helling bæði í fjárhúsunum og hesthúsinu.
Núna er Guðbjörn mættur svo að ,,skítamálin,, verða brátt draumamálin ein:)

Á laugardaginn fór ég norður í Skagafjörð á endurmenntunnarnámskeið íþróttadómara sem haldið var á Sauðarkróki. Veðrið var frekar leiðinlegt og því alveg ljómandi gott að fá far með góðu fólki. Takk fyrir mig Erla og Jonni.
Já vel á mynnst þegar ég var að bruna í Borgarnes í veg fyrir samferðarfólkið klukkan rúmlega sex um morguninn, sá ég sjaldgjæfa sjón allavega hér í Hnappadalnum á þessum árstíma. Jeppa var lagt við útskot sem ætlað er Gullborgarhellagestum og öðrum ferðamönnum, við hliðina á bílnum var tjald sem að ferðalangarnir höfðu sett upp.
Ég var kappklædd með miðstöðina í botni en fékk samt ónotalegan kuldahroll við að sjá þetta. 
Svona í túnaði sagt þá er alveg nóg fyrir mig að sofa í tjaldi annað hvert ár á heitasta tíma ársins...... nánar tiltekið á landsmóti.

Í gær kom svo hann Jonni okkar norski,sónarskoðaði kindurnar og taldi í þeim fóstrin.
Spurning hvort að ég á ekki bara að setja punktinn hér?
Nei læt það flakka þó svo að ásetningur minn sé oftast sá að deila hér jákvæðni í hærra hlutfalli en neikvæðni. En útkoman er þannig að við erum langt í frá ánægð og ljóst er að við fáum sennilega um hundrað færri lömb en við bjuggumst við. Tveir yngstu árgangarnir koma illa út hvor á sinn máta um helmingur gemlinganna eru geldir og 30% af tvævetlunum eru með eitt lamb.
Eldri árgangar koma nokkuð vel út og sumir afbragðs vel, ef að frá eru dregnir gemlingarnir þá er ekki fleira gelt en venjulega.
Nú standa yfir vísindarannsóknir um frjósemi og ýmislegt fleira og kemur vonandi eitthvað gáfulegt út úr því.
Að lokum nokkrar staðreyndir..............og að sjálfsögðu fyrst þær jákvæðu.

Jákvætt:
Nóg pláss um sauðburðinn þar sem að geldfé verður komið út í vorblíðuna.
Þarf ekki að nota merkin yfir 1100 þau verða því geymd til betri tíma.
Pálína forustusnillingur og Fera gamla eru báðar með tvo lömb í bumbunni.........vonandi gimbrar.
Mamma Sindra Kveiks klikkaði ekki frekar en venjulega og er með þremur.


Neikvætt:
Von á mun færri lömbum en venjulega.
Hef fjárfest í of mörgum lambamerkjum og þarf að liggja með þau í geymslunni.
Stórir og myndarlegir gemlingar lamblausir.
Innleggið í haust aumingjalegra en til stóð.

Vafaatriði:
Átrúnaðargoðið Golsa geld, notar árið í að stækka........ svo getur hún bara fóstrað Kela kött þar sem að þau eru alveg í stíl hvað ,,litasetteringu,, varðar.
Sýltkolla mín með einu lambi sem ekki hefur gerst áður.........æi greyið verður nú að fara vel með sig.
Er útkoman ESB, Icesave eða ríkisstjórninni að kenna?
Maður bara spyr sig????????

14.03.2011 22:43

Kári kallinn

Kári kallinn var frekar æstur hér í Hlíðinni síðasta sólarhringinn og gerði nokkur skammarstrik af sér. Hurðin á hlöðunni varð að láta undan og járnið á bragganum var komið í ferðahug þegar vaskir menn náðu að kyrrsetja það. Allt endaði þetta samt vel og með hjálp góðra manna varð hurðin betri en ný og járnið verður að vera til friðs aðeins lengur.
Nú er bara að vona að veðurspáin rætist ekki eða rokið komi ekki úr suðvestri.

Á laugardaginn brunaði ég í bæinn til að taka þátt í  endurmenntun gæðingadómara.
Gott námskeið og aldeilis frábær fyrirlestur hjá Jóhanni Inga sálfræðingi sem að deildi gullkornum til okkar hestamanna.
Um kvöldið áttum við svo skemmtilegar stundir með góðum nágrönnum, takk fyrir okkur Sigga og Ásberg.
Annars hefði ég nú kosið að sjá hana Erlu Guðnýju vinkonu mína sigra aðrar svellkaldar konur á ísnum en ég er alltaf að læra að alsstaðar get ég ekki verið.