13.06.2012 12:52

Sjaldséðin fína



Þetta er hún Sjaldséð mín frá Magnússkógum sem fór í 1 verðlaun á Miðfossum síðast liðinn mánudag. Sjaldséð er undan Baugi frá Víðinesi og Venus frá Magnússkógum.



Það var snillingurinn hann Þórður Þorgeirsson sem sýndi hryssuna fyrir okkur í dómnum.
Mummi hefur tamið og þjálfað Sjaldséð en Þórður prófaði hryssuna einu sinni í fyrra vetur og síðan aftur fyrir stuttu síðan. 
Við erum ljómandi ánægð með hryssuna bæði tamningu, þjálfun og sýningu.



Það er gaman að segja frá því að þegar móðir Sjaldséðar hún Venus fór heim úr tamningu frá okkur falaði ég hjá eigendum hennar að fá að halda Venus einu sinni.  Baugur frá Víðinesi var í Hólslandi svo að þangað var brunað með hryssuna. Við höfum kynnst mörgun hrossum af Magnússkógakyni og líkað vel, þau eru sjálfstæð en elskulegir höfðingjar. Nú er bara að vona að Sjaldséð fari í framtíðinni í tölur í líkingu við móðursystur sína hana Gjöf frá Magnússkógum sem hlaut 8,76 fyrir hæfileika og 8,55 í aðaleinkun.
Maður má nú láta sig dreyma.



Og þarna er brunað..........

Eins og þið hafið séð þá hef ég verið ódugleg við að setja inn efni en nóg er til og vonandi kemur það fljóttlega inná síðuna.
Og mikið er myndasafnið sem bíður birtingar.




01.06.2012 00:44

Smá fréttir



Þessari mætti ég útá vegi í gær og smellti einni mynd af því sem ég sá út um bílgluggann.
Sjaldséð mín bara nokkuð sæt með bleika nebbann sinn og eitthvað var mjög áhugavert sem hún sá útá túni.

Yndislegt veður en of heitt fyrir minn smekk ef maður er eitthvað að puða en golan bjargar málunum. Sól og blíða á daginn, náttfall og blíða á nóttunni.......hvenær á maður að tíma að sofa á þessum árstíma???

Á sunnudaginn var borið á þau tún sem við heyjum á öðrum jörðum og komum til með að byrja að heyja á. Hér heima verður að bíða þess að féð fari allt uppí fjall sem verður fljóttlega.

Rúmlega 30 kindur eru enn eftir að bera og biðin að verða svolítið þreytandi, nú er kominn sá tími að allt fé á að fara út og uppí fjall sem fyrst. Ég var að hugsa það í dag að líklega er ég búin að marka hátt í 2000 eyru á síðustu dögum. En allt tekur þetta enda og það fyrr en varir.

Folaldshryssurnar eru enn afar rólegar og ekkert bólar á öðrum folöldum en það breytist vonandi fljóttlega. Eins gott að þær verði kastaðar áður en þeirra tími kemur hjá stóðhestunum sem við eigum pláss undir.

Fullt af myndum bíður þess að mér auðnist tími til að setja þær hér inn en þær munu koma:)

Hestafréttir með kynbótaívafi koma við fyrsta tækifæri.

27.05.2012 11:33

Mummi útskrifaður reiðkennari



Síðast liðinn föstudag brunuðum við norður að Hólum til að vera við útskrift frá reiðkennaradeild skólans. Tíu flottir reiðkennarar útskrifuðust og á myndinni hér fyrir ofan eru þau að hefja reiðsýninguna sem þau buðu uppá. Veðrið var aðeins að stríða þeim hlýtt en hífandi rok sem mér skylst að sé mjög sjaldgæft á Hólum.
Innilega til hamingju með árangurinn krakkar þið eru glæsileg.



Við vorum afar stolt af Mumma sem þarna er á honum Daníel frá Vatnsleysu en Jessíe og Hörður Óli á Vatnsleysu sáu til þess að við þurftum ekki að keyra hesta norður fyrir sýninguna. Takk fyrir lánið á honum Daníel.
Á næstunni smelli ég inn myndum af Mumma og hestunum sem hann þreytti prófið á þeim Gosa frá Lambastöðum og Krapa frá Steinum.



Við eignum okkur nú mikið í þessum köppum enda annar sonurinn og hinn ja við eigum allavega heilmikið í honum Helga. Þarna eru þeir búralegir kallarnir og bara flottir í jökkunum góðu.



Þarna er yfirkennari reiðkennaradeildar Þórarinn Eymundsson að hemja FT fánann í rokinu, já það blés í Hjaltadalnum þennan daginn. Sveiflan líkist svolítið golfsveiflu :)

Ég tók heilmargar myndir og geri þessum viðburði betri skil síðar bæði í máli og myndum.

23.05.2012 11:30

Kolrún frá Hallkelsstaðahlíð



Loksins..............er fyrsta hryssan köstuð og það er hún Kolskör mín sem átti brúna hryssu undan Arði frá Brautarholti. Kolskör kastaði þann 21 maí s.l.
Hryssan hefur hlotið nafnið Kolrún, já ég sagði Kolrún ekki Kolbrún.
Upplagt að nefna í höfuðið á mömmunni og ömmunni.
Fleiri hryssur eru komnar að köstun svo að nýjar folaldafréttir verða vonandi hér á næstunni.
Ég vex aldrei uppúr því að kætast og hressast þegar ég fæ folöld og bíð alltaf jafn spennt eftir því og rík af stað til að skoða.



Megas taldi það allra meina bót að smæla framan í heiminn en litla Kolrún mín ákvað að best væri að ulla framan í heiminn.



Og svo tökum við smá knússssssssssss.

Að öðru........ sauðburðurinn gengur bara nokkuð vel og nú er létt yfir kellu sem markar út af miklum móð og horfir á græna grasið spretta. Rigning á nóttunni og sól á daginn gleður bóndans hjarta svo að maður tali nú ekki um að fá svartbotnótta þríleminga af stæðstu gerð.
Á þessum árstíma er gaman að vaka í góðu veðri en mikið væri nú gott að geta safnað sér svefni í annan tíma.

16.05.2012 11:43

Me me me og margt fleira



Gemlingar í slökun fyrir krefjandi móðurhlutverkið.

Það var úfinn, þreyttur og ljótur sauðfjárbóndi sem glotti framan í mig þegar litið var í spegilinn í morgun. Allavega átti mín snyrtibudda ekki möguleika á því að breyta þessari mynd í ,,virðulega,, húsfreyju. Ekkert minna en flot og spasl hefði dugað svo nær hefði verið að leita á náðir múrarameistara en snyrtifræðings. En auðveldasta og besta ráðið er bara að vera ekkert að þvælast fyrir farman spegilinn enda í nógu öðru að snúast þessa dagana.
Það var t.d dýrðlegt að enda kvöldvaktina á því að sjá sólina koma upp fyrir fjöllin og hlýja jörðinni ekki veitir af.

Já það hefur verið hvasst kalt og hundleiðinlegt veður en nú trúi ég því að það fari að lagast.
Geldu gemlingarnir fóru út í fyrradag og spjara sig vonandi vel á túninu á Hafurstöðum ásamt fullorðnu hrútunum. Sparikindurnar þ.e.a.s veturgömlu hrútarnir halda bara inni maganum og láta lítið fyrir sér fara svo þeir verði ekki setti út.
Fyrstu lambrollurnar fóru út í gær þegar ég markaði út undan 12 einlembum og 5 tvílembum.
Nei reyndar ekki það voru farnar út tvær kindur með lömb en þau voru svo snemmborin að þau teljast varla með. Í dag verður svo fleira sett út enda plássið löngu búið og rúmlega það.
Það eru komnar sauðburðarstíur út um allt í flatgrifjunni, hlöðunni og síðast á innireiðsvæðinu, já það var engu plássi hlíft. Myndir af því síðar.



Þarna sjáið þið hluta af þrílembuhópnum og takið eftir litasamsetningunni...........mislitt :)
Þessi hyrnda svarta er spari svört mín sem er einstök gæða kind hefur skilað 13 lömbum frá því árið 2008. Hún er undan honum Kveik frá Hesti og skipar sérstakan sess í hópnum.



Það eru mörg ár síðan eins góð útkoma hefur verið eftir sæðingarnar eins og nú í vor.
Endalegar tölur eru ekki í kollinum á mér þessa stundina en stór hluti af vitinu mínu er geymt í góðri bók sem fer ekki úr fjárhúsunum fyrr en síðasta kind er borin.
Á myndinni eru tveir golsóttir hrútar sem eru undan Grábotna frá frá Vogum 2 en Grábotni kom afar vel út og báru allar þær kindur sem voru sæddar við honum. Eins kom Blakkur frá Álftavatni og fleiri vel út, nánar um það síðar.
En kella er kát með fallega svartbotnótta, grábotnótta og golsótta sæðinga þetta árið.

Þrátt fyrir kulda og mikil þrengsli þá hefur sauðburðurinn bara gengið vel enda hjá okkur harðkjarna lið sem hefur alveg fengið að kynnast því hvað alvöru sauðburður í kulda og trekki er.

Það voru blendnar tilfinningar hjá Sveinbirni frænda mínum sem tekið hefu þátt í sauðburði sennilega hátt í sjötíu ár að þurfa að leggjast inná spítala í byrjun sauðburðar til að skipt um mjaðmalið. En skýrsla í símann allt að því daglega bjargar mikilu hjá honum.
Fyrir allnokkru fór hann í aðgerð og ætlaði að drífa sig fljótt af stað aftur en mörg ár eru liðin síðan. Þá var ungt skáld að byrja sinn kveðskap og gerði þessa vísu.......urrar örugglega þegar hún sést hér á blogginu og segir ,,hún er ekki rétt,, en hún stóð fyrir sínum á þeim tíma.

Haltur skakkur gengur hér
ekki er hægt að bæta.
Fyrr en aftur norður fer
hjúkkur fíra og kæta.

Foldalshryssurnar eru komnar á ,,fæðingadeildina,, sína og eru nú undir smásjá og eftirliti svo að ekkert fari nú úrskeiðis.

Mummi brunaði norður að Hólum og tók sjúkraprófin sín á þeim Gosa frá Lambastöðum og Krapa frá Steinum. Fannar hefur enn ekki náð sér og gat því ekki klára dæmið eins og til var ætlast en Krapi bróðir hans sá um að allt færi vel fram og kom svo sannalega í hans stað.
Formleg útskrift er svo þann 25 maí á Hólum. Nánar um það síðar.
Til hamingju með prófið kappar.

Astrid er líka komin heim eftir að hafa lokið fyrsta árinu á Hólum, til lukku með það Astrid.

Margar fréttir og myndir bíða birtingar en kella hefur ekki mikinn tíma þessa dagana, verður vonandi styttra á milli blogga á næstunni.

06.05.2012 12:01

Snjór, spretta og allt hitt



Um leið og ég skaust heim úr fjárhúsunum til að setja hrygginn í ofninn ákvað ég að taka nokkrar heimildamyndir um sprettu og snjóa.
Svona líta tjaldstæðin út í dag, farin að grænka vel en snjórinn er nokkuð mikill í Tindadölunum.



Nýræktin orðin falleg á litinn og svona eru snjóalögin í Eyjahreppnum.



Frekar væri nú kuldalegt að ganga á Geirhnjúkinn núna en það breytist þegar vorar meira.



Veiðimennirnir eru örugglega ánægðir með snjóinn ekki síst á Djúpadalnum en þar er drjúgur forði fyrir sumarið.



Og Hellisdalurinn á líka eftir góðan forða af snjó eins og sést hér á þessari mynd. Sennilega ekki tímabært að ríða yfir Klifshálsinn strax eða hvað?



Að lokum ein mynd tekinn í átt að gamla húsinu og gripahúsunum.
Þarna sést í hluta af rúllustaflanum sem gott er að eiga sem stærstan á þessum tíma.

Annars er það helst að frétta að rollurnar sem að voru sæddar keppast við að bera og hinar fylgja svo í kjölfarið.
Svefnlítil nótt að baki og sennilega margar framundan en hvenær á að vaka ef ekki á vorin ?
Tek myndavélina með í húsin og nánari fréttir innan skamms.

29.04.2012 22:32

Lóan er komin að kveða.......



Nú er tíminn sem ég fer að hugsa um folöld og velta fyrir mér hvað hver hryssa komi með í vor. Stundum rætast óskirnar og stundum ekki en allt er þetta spennandi og góð afþreying fyrir hestadellufólk.
Myndin hér fyrir ofan er af henni Rák frá Hallkelsstaðahlíð sem er undan Trillu og Stæl frá Miðkoti. Hún á dekkra folaldið sem er Brák Piltsdóttir hitt folaldið er Andri sonur Hlyns frá Lambastöðum og Tryggðar frá Hallkelssstaðahlíð.

Dagurinn var góður, frábært vorveður og eftir rigningu gærdagsins er allt að verða grænt.
Já allt er vænt sem vel er grænt...........nema........nei nei ekki vera leiðinleg.
Góðir gestir komu við í hesthúsinu og heilsuðu uppá okkur, bara gaman.

Útigöngukindin góða Lambabamba bara stærðarinnar gimur í gærmorgun. Þrátt fyrir hvað hún leit vel út þegar hún kom af fjalli fyrir stuttu síðan er ljóst að eitthvað hefur klikkað í fengitímafóðrinu því að hún var einlemd.

Fuglakórinn verður betur skipaður með hverjum deginum og sífellt bætast nýjar raddir við.
Lóan, hrossagaukurinn, stelkurinn, tjaldurinn og fleiri og fleiri komnir í Hlíðina.
Er ekki bara komið sumar???

27.04.2012 14:37

Gamalt og gott



Að fara í gegnum gamlar myndir er ódýr og góð skemmtun en það hef ég einmitt verið að gera að undanförnu. Smelli hér inn nokkrum sýnishornum sem ég rakst á við þá yfirferð.

Myndin hér að ofan er af Sveinbirni nokkrum Hallssyni og Jóel bónda á Bíldhóli, þarna eru þeir í brekkunni á Nesoddamóti. Það er að sjá þeir hafi skemmt sér afar vel.


Þessi er aftur á móti tekin á árshátíð Hestamannafélagsins Glaðs í Búðardal. Þarna eru þeir Jón Gíslason frá Mýrdal (Jón Mýri) og Kjartan bóndi á Dunki. Reffilegir að vanda og ekki voru þessar árshátíðir þeirra dalamanna neitt slor enda er þeirra sárt saknað.



Þá er það þorrablót í Lindartungu þau heppnast yfirleitt með glæsibrag og eru afar eftirsótt.
Á þessari mynd má sjá Sigurð bónda í Hraunholtum taka snarpan vinstri snúning, Ásberg í Hraunholtum, Gísli hreppsstjóri og ýmsir fleiri tjútta svo af miklum móði.



Þarna er svo ein af ,,hljómsveitum húsins,, sem spilaði annað hvort á boðsballi eða þorrablóti í Lindartungu.
Sigvaldi Fjeldsted í Ásbrún, Steinunn Pálsdóttir frá Álftártungu, Skúli bóndi og Sigurður Axel sem þá bjó á Hvanneyri.



Göngudagur fjölksyldunnar var árviss viðburður sennilega er þessi mynd tekin á einum slíkum. F.v Sigurbergur Pálsson frá Haukatungu, Guðmundur Halldórsson, Syðri-Rauðamel og Steinar Guðbrandsson frá Tröð. Eins og þið sjáið var það Guðmundur sem sá um leiðsögnina og að allt færi vel fram enda var þarna verið að ganga uppá Rauðukúluna.


Þá eru það myndir úr Kaldárbakkarétt, hér eru þau Sesselja í Hraunholtum og Guðmundur á Rauðamel að spjalla í blíðunni.


Það gerðu líka nágrannarnir Páll Júlíusson í Hítarnesi og Jónas Jóhannesson á Jörfa.



Á þessari mynd eru f.v Páll í Hítarnesi,  Júlíus Jónsson, Jón Júlíusson, Áslaug Sveinsdóttir og Sævar Úlfarsson.

Já það er gaman að skoða í gamla myndakassa.

26.04.2012 21:40

Aprílat



Þessi flotta frænka mín kom í afmæliskaffi til mín um daginn, þarna er hún hugfangin að hlusta á húsbóndann spila á gítar.



Og svo var komið að gríninu og þá var hlegið svo að skein í flottu nýju ,,vinnukonurnar,,
Já Fríða María var hress og kát þegar hún kom í sína fyrstu heimsókn í sveitina, verst að hafa ekki myndað Svandísi Sif þegar hún var á ferðinni fyrir stuttu síðan.
Gaman að nýju hlutverkunum mínum ,,móðursystir,, og ,,föðursystir,,

Nú er blíða hér í Hlíðinni alvöru vorveður, allavega þessa stundina hlýtt, súld og sæla.
Galvaskar sauðburðarkonur mættar á svæðið og allir farnir að telja niður í átt að sauðburði.
Annars fer sauðburðurinn ekki vel af stað fjögur lömb fædd og tvö af þeim dauð.
En er ekki fall fararheill ???

Í gær var brunað í Dalina Lambastaðastóð skoðað, ormahreinsað og fótsnyrt. Síðan fórum við að Kringlu en þar áttum við vonandi gæðingsefni undan Baldursdótturinni Dimmu frá Kringlu og Sporði frá Bergi. Það er bleikálóttur hestur sem enn hefur ekki hlotið nafn en málið er í vinnslu. Já það er alltaf gaman að koma í dalina en kvöldið dugði okkur ekki til að koma við á öllum þeim stöðum sem við ætluðum. Verðum að gera aðra tilraun fljóttlega.



20.04.2012 20:17

Skeifukeppnin 2012



Árleg skeifukeppni fór fram á Miðfossum í gær og lauk með miklu kaffisamsæti á Hvanneyri.
Þessi mynd er tekin við það tækifæri en þarna eru reiðkennarar Landbúnaðarháskólans þau Randi Holaker og Haukur Bjarnason á Skáney að taka við þakklætisvotti frá nemendum skólans. Það var hann Einar fulltrúi nemenda sem að afhennti þeim blóminn.
Það var ekki létt verk fyrir þau að taka við kennslunni af meistaranum Reyni Aðalsteinssyni sem lést fyrr á þessu ári. Ég hef tekið þátt í dómstörfum á skeifukeppni um árabil og saknaði þess samstarfs sem ég hef átt við Reynir á þeim vettvangi svo og samstarfi við hann varðandi Félag tamningamanna. Eflaust hefur Reynir fylgst með öllu sem fram fór á Miðfossum þennan dag og mikið má hann vera ánægðum með sitt fólk sem kom að því að gera þennan dag svona ánægjulegan. Gunnar sonur hans stjórnaði dagskránni, Jónína eiginkona hans sá um að kaffisamsætið var glæsilegt og aðrir fjölskyldumeðlimir hjálpuðu til við að gera daginn eftirmynnilegan og í anda Reynis.
Minning Reynis lifir og er okkur öllum kvattning í hestamennskunni.
Nemendurnir báru þeim Hauki og Randi góðan vitnisburð og var gaman að sjá hversu mikill metnaður var lagður í þau atriði sem fram komu.
Góðir reiðkennarar sem leggja alúð og mettnað í að leiðbeina nemendum sínum.



Þessar dömur áttu góðan dag og hirtu verðlaunin góðu.



Svala Guðmundsdóttir (Guðmundar Sveinssonar Guðmundssonar) frá Sauðárkróki sópaði til sín verðlaunum. Góður reiðmaður sem á framtíðina fyrir sér og mikið hlýtur nú afi að vera stoltur af stelpunni.
Á þessari mynd er hún með kærastanum Guðmundi Ólafssyni. Guðmundur átti skemmtilega sýningu í keppninni um Reynisbikarinn en þar keppni hann á gæðingsefninu Gusti frá Lundum. Gustur er undan gæðingnum Auði frá Lundum og Lipurtá frá Lundum.



Félag tamningamanna veitir verðlaun þeim sem þykir skara fram úr fyrir ásetu og reiðmennsku í skeifukeppninni. Hart var barist þetta árið og voru einungis brot sem að skildu að þau tvö sem efst stóðu en Svala sigraði og var sannarlega vel að því komin.



Þeir fjölmörgu sem stundað hafa nám í reiðmanninum voru verðlaunaðir við sama tækifæri.
Þarna eru þrír Borgfirðingar að taka á móti sínum verðlaunum, Guðmundur á Sámstöðum, Sigurður Oddur á Oddsstöðum og Bergur í Eskiholti.
Það var kennarinn Heimir Gunnarsson sem veitti þeim viðurkenningarnar.

Skemmtilegur dagur, góðir hestar og flottir knapar, svona eiga dagar að vera.

15.04.2012 22:05

Smá sýnishorn



Það var sumar í Hlíðinni þennan daginn sem að bæði mönnum og skepnum líkaði vel.
Stóðið flatmagaði en varði þó drjúgum tíma í að kanna hvort grænu stráunum færi ekki ört fjölgandi.
Rúllurnar verða óspennandi í þeirra huga um leið og grænar nálar fara að gæjast upp úr jörðinni.

Eins og vera ber á þessum tíma er líflegt í hesthúsinu og vinnudagarnir langir í þeim geira.
Erfitt er að gera uppá milli og velja fyrirmyndarhesta þessa dagana en í dag var það örugglega hann Krapi sem hafið vinninginn.

Það styttist ,,óhugnarlega,, í sauðburð og listinn sem heldur utan um verkefnin sem eiga að vera búin fyrir hann er eins og ofvaxinn bandormur. En þar sem ég bæði vona og trúi að vorið verði frábært þá er þetta allt í fínu lagi.

03.04.2012 21:31

Stórfréttir eða þannig......



Þessi mynd er tekin á aðalfundi Hestamannafélagsins Snæfellings sem haldinn var fyrir stuttu.
Á fundinum voru heiðraðir nokkrir félagsmenn fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
F.v Gunnar Sturluson formaður Snæfellings, sem veitti viðurkenningarnar, Leifur Kr Jóhannesson, Tryggvi Gunnarsson, Högni Bæringsson, Hildibrandur Bjarnason, Sesselja Þorsteinsdóttir, Ragnar Hallsson, Gunnar Kristjánsson, á myndina vantar Bjarna Alexandersson.
Innilega til hamingju heiðursfólk.



Þessir kappar voru ánægðir með kvöldið og hafa vafalaust getað rifjað upp eitthvað skemmtilegt frá gömlum Kaldármelaárum.

Eins og þið hafið tekið eftir þá hef ég verið löt við skriftir síðustu vikurnar og kemur þar margt til en aðallega leti. Nú er að taka sig á og segja ykkur margar nýjar fréttir því ekki hefur verið tíðindalaust hér í Hlíðinni.
Letin gekk svo langt að ég meira að segja laug engu hér á síðunni þann 1 apríl. Ég hefði samt getað sett inn frétt þann daginn sem að fáir hefðu trúað. Það var nefninlega þann daginn sem að ég fékk það staðfest að ég væri búin að vera ,,fótbrotin,, í eitt og hálft ár. En eins og læknirinn sagði mér þá get ég ekkert gert ekki einu sinni búist við vorkun því þetta gerðist fyrir svo löngu síðan.  Og þar sem ég er nú enginn léttavarningur þá hefur þetta verið ágætis prófraun á styrkinn í leggnum og sársaukamörkin.
Ekkert væl og  nú er bara að smella sér í gifsi ef að minnsti vafi leikur á heilbrigði.

Sauðburður hófst hér þann 31 mars en þá bara tvílemba og tveimur dögum seinna einlemba.
Alltaf gaman að fá páskalömb og vorboða í fjárhúsin.



Síðustu daga hef ég heyrt svona með öðru eyranu auglýsingu í útvarpinu sem segir ,,Taktu þátt í páskaævintýri Freyju,, og sú varð raunin eitt kvöldið. En það ævintýri var ekki í boði sælgætisgerðarinnar Freyju, ónei heldur var það í boði okkar einu sönnu smala Freyju.
Ég sat fyrir framan tölvuna og las stóðhestaauglýsingar af miklum móð þegar friðurinn var skyndilega rofinn með gellti í hundunum og háværum öskrum í húsbóndanum.
Ég leit upp og hugsaði hver ands....  gengur á ??? Ætlaði svo að halda skoðunarferðinni í Stóðhestalandi áfram en þá byrja lætin fyrir alvöru. Ég heyri fjórhjólið fara í gang og tætast af stað með meiri látum en nokkur sinni fyrr. Það kvein í hjólinu, kallinn öskraði og hundarnir gjörsamlega brjáluðust.
Á næsta augnabliki............HVAR ER SAL'OMON????????
Ég rauk út og var í huganum búin að útrýma a.m.k hundastofninum áður en ég komst fyrir húshornið til að kanna hvað gengi á.
Það næsta sem ég sá var að Freyja og Skúli stigu villtan stríðsdans upp með læk og voru greinilega búin að stilla saman strengi og spiluðu kappleik í sama liði.
Mér létti heilmikið því ég var sannfærð um að ef kappleikurinn væri um Salómon þá væru þau ekki samherjar. Eftir stutta stund komu þau til baka og mátti ekki á milli sjá hvort þeirra var stoltara Freyja eða Skúli.....................Freyja reyndar með tannaför á nefinu en ekki Skúli.
Ófeigur og Þorri höfðu reyndar barist við óvininn alveg þangað til Skúli og fjórhjólið komu á vettvang. (Þá hættu þeir þar sem hávaðinn var kominn yfir hættumörk). En þegar þau komu heim fögnuðu þeir ákaft og voru sannfærðir um að þeirra þáttur hefði að minnsta kosti gert það að verkum að minkurinn varð ekki eldri.
Freyja hefur aftur á móti lengt vinnuheitið sitt sem núna er smalafjárminnkaveiðihundur.



Þann 4 apríl verður svo þessi höfðingi 13 ára sem sagt 13x7=91 árs geri aðrir betur.
Svo ungur og sætur ennþá þessi elska og svaf vært í sófanum þegar bardaginn mikli fór fram.
Enda eins gott.

25.03.2012 22:15

Það var lagið

Sýning vestlenskra hestamanna sem haldin var í Borgarnesi heppnaðist vel og var skemmtileg. Fjöldi gæðinga kom fram og ef mér skjátlast ekki þá sýndu rúmlega 80 knapar hesta sína. Eins og stundum áður ætla ég að deila með ykkur hvað mér fannst af áhorfendabekknum.
Fyrst vil ég nefna tvær hryssur sem að heilluðu mig mikið það voru þær Kná frá Nýja-Bæ og Elja frá Einhamri. Kná er 6 vetra gömul undan Alvari frá Nýja-Bæ og Þóru frá sama bæ, hún var sýnd af Sigurði Óla Kristinssyni,Fákshóla tamningamanni. Fas og glæsileiki einkenndi þessa hryssu og maður fékk á tilfinninguna að höllin væri ekki nógu stór til að hún gæti sýnt okkur allt sem hún vildi. Elja frá Einhamri er gæðingur sem heillar með fegurð og fágun, hún var sýnd af Jelenu Ohm. Hryssan Skriða frá Bergi er líka ein af mínum uppáhaldsgripum þegar kemur að svona sýningum. Kattmjúkur og viljugur gæðingur undan Aroni frá Strandarhöfði og gæðingamóðurinni Hríslu frá Naustum. Skriða dansaði með eigandann Jón Bjarna um höllin og sýndi enn einu sinni hvað eðlismýkt gerir mikið fyrir gæðinga.
Sporður frá Bergi sonur Hríslu og Álfasteins frá Selfossi var góður og ég var virkilega ánægð með að hér í Hlíðinni eru til fimm afkvæmi hans.
Jakob Sigurðsson kom með Árborgu frá Miðey og sýndu þau saman glæsilega gæðingafimi.
Frábært par sem að alltaf heillar með hrífandi samspili og faglegri reiðmennsku.
Jakob kom líka fram með stóðhestana Abel frá Eskiholti og Asa frá Lundum glæsihestar og eftirtektarvert hvað hrossin hjá þeim Jakobi og Torunni í Steinsholti eru vel undirbúin og fallega sýnd.
Linda Rún og Sigvaldi Lárus komu með fallegt atrið i frá Tamningastöðinni Staðarhúsum.
Börn, unglingar og ungmenni áttu stóran þátt í að gera sýninguna svona skemmtilega og gerðu það með glæsibrag.
Þau slógu líka á létta strengi og gerðu grín að nokkrum þekktum knöpum úr heimabyggð.
Já þetta var bara gaman...................takk fyrir góða skemmtun allir þeir sem eitthvað lögðu af mörkum við að gera þetta svona flott.

Sá að hún Iðunn í Söðulsholti hafði verið dugleg með myndavélina svo að vonandi kom myndir inná þá síðu fljóttlega.

21.03.2012 21:30

Mæðraskoðun



Þá er það örstutt sauðfjárblogg með ,,feitum,, fréttum frá sónarskoðun.

Númer eitt... kella er bara nokkuð kát en þó hefðu vetur gömlu kindurnar mátt standa sig betur.  Gemlingarnir stóðu sig afar vel og verða í spes dekri fram á vor svo og allar þrílemburnar. Mun færri voru geldar en í fyrra og munar þar mest um gemlingana.
Þennan morguninn fóru tuttugu og tveir hausar í hinstu ferð með honum Óla á Völlum norður í land. Geldar kindur, sauðir og lömb sem hafa komið eftir venjulegan förgunartíma.
Já vel á minnst sauðir....aðalforustusauður búsins til margra ár hann Páll postuli mun nú stjórna fjárrekstrum í grænu högunum hinu meginn.
Við ,,starfi,, hans er tekinn móflekkóttur eðal forustusauður sem hlotið hefur nafnið Jóhann.
Honum til aðstoðar er Litla-Pálína sem er aðal forustukindin enda stórættuð og getur rakið sínar ættir lengst norður í land.
Ég hef ekki haft tíma til að fara endanlega í vísindarannsóknir varðandi tölulega frjósemi eða einstaka hrúta. En læt hér fylgja með fréttir af þeim gripum sem eiga flesta ,,kunningja,, eftir samvinnu í réttum eða sauðburði.

Garðabæjar Golsa ber væntanlega tveimur eðalgripum í vor, það gerir líka Ofur Golsa frá Bíldhóli. Fjárhúsdrottningin Svört (Sindramamma) er að sjálfsögðu með þrjú lömb eins og venjulega. Ása Aronsvinkona er með tveimur og nýkomna Lambabamba er með einu lambi.
Málglaða Grána er með tveimur og gamla Pálína líka en henni hefði nú verið fyrirgefið þó svo hún hefði bara komið með eitt.

Ef að eitthvað gáfulegt kemur út úr rannsóknarvinnu minni mun ég láta ykkur frétta af því.
En sem sagt það munu að líkindum fæðast á annað þúsund lömb ef að Guð og lukkan leyfa þetta vorið.

Nýjar hestamyndir eru svo væntanlega mjög fljóttlega.

17.03.2012 22:17

Marsinn hennar Lömbubömbu



Friður og ró í fjallinu...........Stekkjaborg í andlegri íhugun og vissi ekki að ,,pressan,, var að smella mynd af henni.

Talandi um frið og ró............. það hefur væntanlega verið friður og ró hjá fjárhópnum sem að fannst útigenginn fyrir nokkrum dögum. Hópurinn fannst í landi Miklaholtssels og leit alveg ótrúlega vel út miðað við það hvað veðrið hefur verið leiðinlegt í vetur.
Það er spurning hvort að hópurinn hefur eitthvað notið góðs af skógræktinni hans Guttorms bónda í Seli ? Vonandi ekki gert neinn ursla eða skandal þar.
En friðurinn var úti hjá kindunum þegar Svanur í Dalsmynni mætti til þeirra með fjárhundana sína og náði að handsama þær, enda við ofurefli að etja á því sviði.
Ég var himinlifandi að heimta kindina Lömbubömbu og son hennar sem að sjálfsögðu hefur hlotið nafnið Svanur Gutti. Hinar kindurnar voru frá Ystu-Görðum og Mýrdal, nú verður tíminn að leiða það í ljós hvort að einhverjar kynbætur hafa átt sér stað í úti vistinni góðu.



Eins og sjá má þá líta þau mæðginin Lambabamba og Svanur Gutti vel út svona miðað við að vera fyrst núna að koma inn. Mars er greinilega uppáhalds mánuður hjá Lömbubömbu því hún er fædd í mars og heimtist svo með stæl í mars.



Dekrið og uppáhaldið byrjaði snemma og á þessum aldri var hún nefnd þessu ágæta nafni.
Nafnið kom eftir mikið krakkaknús og tæpitungutal enda festist það rækilega á gripinn.
Þarna er Astrid að leggja henni lífsreglurnar en hefur trúlega gleymt að segja henni að strjúka ekki í aðrar sveitir eða taka sér bólfestu í annara manna skógrækt.



Þarna er hún sakleysið uppmálað á leiðinni út í lífið með mömmu sinni og bróðir.
Flökkukindur eru ekki alltaf vinsælar og stundum eru þær teknar úr umferð fyrr en aðrar kindur. En þar sem Lambabamba hefur frá upphafi átt dyggan og góðan aðdáendahóp er næsta víst að hún verður ekki tekin strax úr umferð. Enda algjör óþarfi þar sem hún hefur ,,örugglega,, lært að hlýða bæði Svani og hundunum...................fullkomlega.
Takk fyrir smölunina Svanur, nú er kella kát.