20.01.2011 22:56

Fjórðungur kominn heim til Anne



Þarna er hann Fjórðungur um það bil að stíga á erlenda grundu, Anne tekur að sjálfsögðu á móti honum.



Já sæll/sæl langt síðan við höfum sést..................mannstu ekki eftir mér ?????



Jú auðvitað þekkjumst við og erum svo ánægð með endurfundinn.



Ví......................hver sagði að það væri ekki víðátta í Þýskalandi ???????


17.01.2011 21:40

Fjórðungur farinn



Þetta er Fjórðungur frá Hallkelsstaðahlíð 5 vetra foli sonur Arðs frá Brautarholti og Sunnu frá Hallkelsstaðahlíð.
Um þessar mundir er Fjórðungur á leið til nýrra heimkinna í Þýskalandi en þar mun hann eiga góðar stundir með henni Anne okkar sem nú hefur eignast hann.
Til hamingju Anne vonandi gengur allt sem allra best hjá ykkur Fjórðungi.
Svona til að upplýsa ykkur aðeins um álit mitt á Fjórðungi þá er skemmst frá því að segja að ég er byrjuð að leggja drög að því að fara með Sunnuna aftur undir Arð næsta vor.
Segir það ekki allt sem segja þarf ?

Fínasta veður í dag og mikið um að vera í hesthúsinu sem veitir hreint ekki af þegar margt er á járnum. Ég get eiginlega ekki gert uppá milli og valið hest dagsins..........................
Í gær var gestkvæmt hjá okkur og heldur betur líflegt í hesthúsinu, takk fyrir komuna það var gaman að fá ykkur í heimsókn.


15.01.2011 22:19

Dalirnir og fleira.................



Ég var boðin í kvöldverðarskemmtun/fund inní Búðardal í gær þar sem að hestamenn hittust, fræddust og skemmtu sér og öðrum gestum. Af því tilefni voru þessar myndir teknar en veislustjórinn stjórnaði ,,útsvars,, spurningakeppni sem var hin mesta skemmtun.
Á myndinni hér fyrir ofan er annað liðið sem var skipað þeim Svanhvíti húsfreyju í Lindarholti, Valberg bónda og kynbótadómara Stóra-Vatnshorni og Guðbirni bónda og landpósti í Magnússkógum.



Þarna er svo hitt keppnisliðið sem var skipað Margréti bónda í Miklagarði, húsfreyjunni í Gufudal sem að ég því miður veit ekki hvað heitir og Sigurði Hrafni bónda og þúsundþjala á Vatni.

Keppnin var æsispennandi en lauk með sigri Sigurðar og kvennanna, sennilega var það snarræðið við að ná bjöllunni sem að gerði gæfumuninn. Siggi alltaf sprækur.
Alltaf gaman að koma í dalina og hitta hresst hestafólk.

Gleði dalamanna hefur svo haldið áfram í kvöld þegar dalamaðurinn í söngvakeppninni komst áfram í forkeppninni. Til hamingju Halli Reynis.

Á fimmtudaginn brunaði ég í bæinn til að funda með stjórn Félags tamningamanna og nokkrum öðrum félögum. Þessum fundi hafði áður verið frestað vegna veðurs sem að reyndist svo litlu skárra þennan dag. Allavega var ég ánægð að vera á þungum og traustum trukki sem að mér finnst stundum svifaseinn en lofaði í þessari ferð.
Fundurinn var góður og margt af spennandi hlutum að gerast.

Loksins kom gott verður og færi til að ríða út eins gott að nýta það því veðurkortin bjóða víst uppá frost og rok innan skamms. En bannað að kvarta...........

Hér á bæ er reynt að fylgjast með handboltanum eins og kostur er en frekar er það nú frumstæður máti sem boðið er uppá núna. Reyndar náðum við leiknum í gær á netinu en ekkert gekk í kvöld.
Til að koma orkunni í lóg sem fara átti í spenning yfir leikjunum er Stöð 2 bölvað svolítið svo að ekki sé nú talað um hugsanlegt eignarhald á gripnum.
Já en einhversstaðar verða vondir að vera.......................

Sauðfjárhornið.........
Í morgun voru hrútarnir teknir frá gemlingunum og fækkað í krónum hjá rollunum. Þannig að nú er bara einn hrútur eftir í hverri kró og allar stíur teknar í burtu. Einskonar tiltekt.
Hrússi úrilli vinur minn er kominn í frí fram að næstu jólum og getur því byrjað að safna kröftum þangað til. Vonandi verða þeir kraftar samt notaðir til góðra verka.
Þegar allar stíur höfðu verið fjarlægðar fengu sumar kindurnar háfgert víðáttubrjálæði og hlupu og hoppuðu út um allar krær.
Hrútarnir sem að urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að verða eftir með um það bil 70 kindum hver æddu fram og til baka í leit að ,,einhverju,, en varð lítið ágengt. Sem betur fer.
Ég veit ekki afhverju mér datt í hug orðið ,,hálfþrjúmaður,, sem að ég heyrði eitt sinn notað í grátbroslegri merkingu.

11.01.2011 20:58

Garrinn á góðum degi



Það er yndislegt að fá sér blund í sólinni sem léttir lund og bætir geð.............
Á myndinni er Kalsi litli sem er undan Kolskör og Aldri frá Brautarholti í draumalandinu.

Norðan garrinn er enn til staðar hér í Hlíðinni og lítið lát á skemmtilegheitunum.
En það sem ekki drepur það herðir hefur stundum verði haft á orði hér á bæ.........og dugað vel.

Nú hefur Hrútaskráin vikið af náttborðinu fyrir stórum bunka af stóðhestablöðum sem skoðuð eru af miklum móð þessa dagana. Alveg undarlegt hvað maður nennir alltaf að skoða þau aftur og aftur. Nokkrir stóðhestar vekja meiri væntingar en aðrir og alltaf er spennandi að fylgjast með hvaða hestar verða hér í nágreninu við okkur í sumar.
Bíð eftir listanum á hrossvest.

Ég var að skoða mótaskrá LH og sá að hún er orðin þétt setin fyrir keppnistímabilið sem verður greinilega spennandi. Eins eru félögin farið að auglýsa spennandi dagskrá fyrir veturinn með margvíslegum viðburðum.
Nú er allt komið í fullan gang við undirbúning á 40 ára afmælishátíð FT sem haldin verður í Víðidalnum 19 febrúar n.k. Takið daginn frá.
Nánar um það síðar hér á síðunni en ég get þó upplýst að fjöldinn allur af okkar færustu reiðkennurum og tamningamönnum munu verða með sýnikennslur og fyrirlestra.

Já ekki má nú gleyma fréttum úr sauðfjárhorninu góða.
Allt var með kyrrum kjörum í dag svo að vonandi eru þessi læti að baki og frekari aðgerða ekki þörf. Hrússi hafði hægt um sig og lét eins og allar elskurnar hans væru óaðfinnanlegar, svona líka ljúfur og góður þessi elska.
En svona til öryggis hef ég vellt orsökunum aðeins fyrir mér í dag og fengið álit hjá til þess bærum aðilum. Nú hef ég helst hallast að því að þessar geðsveiflur stafi af svefntruflunum, óreglulegum matartímum og enn og aftur af aldurstengdum pirringi.
Já það er ekki grín að vera kall á þessum síðustu og verstu tímum.

10.01.2011 20:26

Fjórir kappar farnir á Hóla...........

Nú er hann napur að norðan.................
Ég held að góða veðrið að undaförnu hafi bara gert mann að aumingja því að um leið og eitthvað kólnar er ég farin að væla.
Nú verður föðurlandið, ullarsokkarnir og lambhúshettan staðalbúnaður á næstunni.

Ég nefndi fjörureið í síðasta bloggi og viðbrögðin létu ekki á sér standa, tölvupóstar og læti. Er ekki spurning um að gera eitthvað spennandi......................?????

Í dag fór Mummi norður að Hólum en námið á reiðkennarabrautinni hefst hjá honum á miðvikudaginn. Hann fór með þá félagana Fannar og Gosa sem að hann fer með í námið auk þess tók hann einn uppáhalds prins úr Borgarfirðinum með.
Um næstu helgi er svo stefnt að því að sækja fleiri gripi og fara með norður. Bara spennandi.

Í gær fengum við góða gesti sem komu og enduðu jólin með okkur kaffispjall og notalegheit. Nú er sem sagt jólaskrautið alveg að komast á sinn stað þó með smá undantekningum.
Hver sagði að það þyrfti að fara strax????

Úr sauðfjáhorninu er það helst í fréttum að farið er að síga á seinni hlutann á fengitímanum.
Flest hefur gengið með ágætum og þó.....................
Ég verð að nefna eitt sem valdið hefur mér hugarangri að undanförnu en það er andlegt ástand nokkura ,,karlkindanna,, þeir hafa haft í frammi afar grófa ofbeldistakta með slæmum afleiðingum. Já það er ekki nóg fyrir þá að skeyta skapi sínu á milligjörðum og steinveggjum með barsmíðum og látum heldur verða virðulegustu kindur að þola ýmislegt. Hvort að þetta stafar af útvarpshlustun, efnahagsástandinu eða einhverjum aldurstengdum pirringi veit ég ekki en slæmt er það.





08.01.2011 21:28

Dreymin............



Þegar það er kalt og hvasst er gott að skoða gamlar myndir af ,,góðu,, veðri og skemmtilegum hestaferðum. Þessa mynd rakst ég einmitt á í einni svoleiðis skoðunarferð.
Þarna eru ég og Proffi minn á góðri stundu, ég fylltist mikilli löngun til að annarsvegar ríða á förurnar og hinsvegar að taka Proffan minn inn.
Best að bíða með Proffan í nokkrar vikur í viðbót og ferðalagið til vorsins en að sjálfsögðu má láta sig dreyma.
Annars á ég miklum skyldum að gegna næsta sumar hvað varðar fjöruferðir þar sem að ég hef lofað góðri vinkonu minn og starfsmanni FT að ríða með henni á Löngufjörur.
Kellan sú er nú heldur betur vel ríðandi svo það er sennilega best að fara bara að þjálfa strax til að hafa við henni.
Já það verður sko Ferðin með stórum staf og skyldi einhver vilja koma með okkur????

Enn er það valkvíðinn sem þvælist fyrir mér því að nú fækkar dögunum þangað til Mumminn fer norður. Ég ákveð reglulega hvaða hross ég á að senda með honum en skipti svo jafnharðan um skoðun.
Spennandi að sjá hvar ég verð stödd í ferlinu þegar kappinn leggur íann.
Kemur í ljós á morgun..........................

05.01.2011 22:31

Kvatt í kulda



Tveir draumaprinsar þeir Þorri og Ófeigur Deilu og Kátssynir.

Það var orðið svo langt síðan ég hef sett inn mynd af þeim hér á síðuna að mér fannst það orðið alveg tímabært. Þeir eins og aðrir hundar hér í gamla Kolbeinsstaðahreppi fengu heimsókn frá Rúnari dýralækni í gær. Rúnar sér alltaf um hundahreinsunina og er uppáhalds vinur hundanna allavega hér á bæ því að hundahreinsitöflunum fylgir alltaf hnetusmjör eða lifrarkæfa.

Það var heldur betur kalt hér í dag frost og strekkingur, þrátt fyrir það voru sýnd hér mörg hross. Já það voru margir eigendur á ferðinni í dag og líka í gær.

Þessa dagana eru hestar að koma og aðrir að fara, eins gott að veðurspáin og veðrið verði gott á næstunni. Mér finnst alltaf jafn leiðinlegt að ferðast með hestakerru í vondu veðri.

Í dag kvöddum við líka nokkra höfðingja sem að héldu til nýrra ,,heimkynna,, þetta voru þau Spóla, Skeifa, Taktur, Frosti og Sólmundur.
Takk fyrir samfylgdina, svona er lífið...............

04.01.2011 00:11

Jólin og vangavelltur



Það finnst flestum gaman á jólunum en biðin eftir pökkunum getur verið allt að því óbærilega fyrir suma. Hér er ein uppáhalds frænka mín sem hlustaði með athyggli á reynslusögur Mumma af ,,pakkabið,,



Einhverju hafði hún við að bæta sem vert var að deila.....................



...............hún er ekki alveg viss um að sagan hjá Mumma sé alveg sönn ?????

Jólamyndirnar munu rata inná síðuna við tækifæri en netsambandið og þolinmæði húsfreyjunnar eru ekki alveg samstíga þessa dagana svo sýnið biðlund.

Það var gaman í hesthúsinu í dag mörg hross hreyfð og sum virkilega skemmtileg, vorum líka fjögur að ríða út svo það var gangur í málinu.
En nú eru miklar vangavelltur í gangi því nú styttist í að Mummi fari í skólann norður að Hólum. Vangavellturnar snúast um það hvaða hesta hann eigi að taka með sér fleiri en þá tvo sem að hann notar í námið. Það er að segja Fannar og Gosa.
Hverjir verða fyrir valinu er enn ekki ákveðið en líklega tapar húsfreyjan skemmtilega leikfanginu sínu :)................sjálfviljug.

Á morgun kemur hún Anne okkar mikið veður nú gaman að hitta hana.

02.01.2011 21:14

Góður er andinn á Hafurstöðum

Eins og við var að búast byrjaði árið með stæl.
Eftir friðsamt og gott gamlárskvöld með spilamennsku, sjónvarpsglápi og vinakveðjum var nýársdagurinn tekinn rólega. Árlegt sprengji nýjársboð á Bíldhóli var skemmtilegt að venju og ekki sveik perutertan hjá Halldísi.
Endalaus veisluhöld og ofát hafa einkennt síðustu vikuna svo það er eins gott að hafa nóg að gera úti við á næstunni.
Ég held að mér líði núna eins og smalaklárum sem teknir eru beint af góðum grösum og sendir í leitir. Já það er eins gott að jólin eru bara einu sinni á ári.

Það var vorveður í Hlíðinni í dag hiti, logn og þoka, já svo sannarlega þoka sem reyndist sumum erfið viðureignar. Uppúr hádegi kom tilkynning um að manns væri saknað sem að lagt hafði í göngu frá Hítardal. Voru björgunarsveitir kallaðar út til leitar uppí Hítardal.
Mér varð á orði þegar ég fór í hesthúsið eftir hádegið að sennilega væri best að bruna innað Hafurstöðum sem er eyðibýli hér fyrir innan og finna manninn. Þetta kom uppí hugann en gleymdist fljótt þar sem að gesti bara að garði og frekar var um óskhyggju að ræða en trú að að maðurinn fyndist þar. Hugsaði samt um það hversu auðvelt það væri að beygja aðeins af leið í svona þoku jafnvel þó að maður þekkti vel til.
Það var svo eftir miðjan dag að björgunarsveitir komu hingað til að leita mannsins, stutt var í myrkur og brunaði Mummi með þeim suður að Hafurstöðum.
Og viti menn þar var maðurinn kominn og beið við rústirnar af gamla Hafurstaðabænum.
Já andarnir á Hafurstöðum eru góðir heim að sækja og passa vel uppá góða gesti.
Það var því glatt á hjalla við eldhúsborðið hjá okkur þegar heim var komið, gaman að fá svona marga góða gesti og fyrir mestu að allt fór vel.

Ég er búin að lesa nokkrar bækur og langar að nefna tvær sem að ég hafði mjög gaman af en það eru bækurnar um Möggu í Dalsmynni og Sæmund Sigmundsson.
Magga er eins og ég hef lengi vitað eða frá því að við vorum saman í ,,rófubandalagi,, stórskemmtileg og hefur sýn á lífið sem ég held að mögum væri hollt nú til dags.
Ég held að það væri heillaráð hjá þeim sem eru í leit að andlegum sjálfshjálparbókum að lesa bókina hennar Möggu það leynist ansi margt í henni sem gott er fyrir hugann.
Svo skemmir nú ekki fyrir að hún hefur enn ekki fundið neitt skárra til að kjósa en Framsóknarflokkinn.
Bókin hans Sæmundar er líka skemmtileg og fróðleg lesning sem vert er að gefa sér tíma til að lesa. Góðar frásagnir og ekki skemma myndirnar fyrir sem að lífga uppá bókina.
Já Sæmundur er alltaf flottur.

Á fimmtudaginn síðasta fór ég á kennslusýningu hjá Sigurbirni Bárðarsyni sem haldin var í Gusti. Þar fór kappinn á kostum og fræddi ekki bara viðstadda heldur skemmti þeim að lífi og sál. Fyrst ræddi hann um beislabúnað en síðan kom hann með gæðinginn Líf frá Möðrufelli og sýndu þau í sameiningu ýmsar þjálfunaraðferðir sem hann notar í byrjun vetrar.
Skemmtilegt kvöld og bara byrjunin á því sem að Félag tamningamanna ætlar að bjóða uppá víða um landið í vetur.

31.12.2010 18:41

Gleðilegt nýtt ár



Kæru lesendur og vinir.
Við hér í Hlíðinni sendum ykkur óskir um gleðilegt nýtt ár með farsæld og friði.
Kærar þakkir fyrir það liðna ,,sjáumst,, heil á nýju ári.

29.12.2010 23:30

Sauðfé og fréttir



Þarna er Kjartan bóndi á Dunki með kynbótahrútinn Dunk frá Dunki.

Ég átti alveg eftir að segja ykkur frá öllum hrútakaupunum sem að ég fór í núna í haust.
Þessi flotti kappi er eðalblanda úr ræktun þeirra Kjartans og Guðrúnar, hann stigaðist mjög vel í haust og er núna önnum kafinn við að bæta kollóttastofninn hér í Hlíðinni.
Ein góð kvöldstund fór líka í kynbótapælingar á jötubandinu á Bíldhóli. Afraksturinn varð tveir kollóttir hrútar og ein svartgolsótt gimbur. Hrútarnir eru mjög ólíkir og verður gaman að sjá hvor á eftir að standa sig betur í kynbótunum. Þeir hlutu nöfnin Bíldhóll og Músi. Síðan er það sú golsótta sem fékk frábæran dóm og í beinu framhaldi nefnd Ofurgolsa.
Mikilvægt skref var stigið í sauðfjárræktinni hér í gær (sko að mínu mati) þegar að forustukindin á bænum brá sér suður á Mýrar á stefnumót. Fora heitir kindin og er mikil gæðagripur af forustukind að vera spök og skemmtileg en afar létt á fæti þegar það á við.
Af gefnu tilefni þá fer hún ekki útaf landareigninni nema á bíl svo að það getur enginn nema smalar á mínum vegum kvartað yfir henni og það mundi þeim aldrei detta í hug.
Gripurinn sem að hún fór að hitta er af eðal forustukyni og því væntingarnar miklar og að sjálfsögðu er draumurinn að fá gimbrar.
Já sauðfjárræktin er skemmtileg og alveg hægt að drepa tímann með henni eins og hrossaræktinni.

Í dag var drauma vetrarveður hestamannsins, snjóföl, logn og blíða með frábæru færi.
Enda var dagurinn vel nýttur og varð þar af leiðandi ansi langur en svona er það þegar mikið er gaman.
Fyrirmyndarhestar dagsins urðu bara nokkuð margir og því erfitt að gera uppá milli.
Á morgun þarf svo að smella nokkrum örmerkjum í gripi og halda áfram að klippa kviði (bumbur) og raka undan faxi.

Á morgun er líka sýnikennsla á vegum Félags tamningamanna með Sigurbirni Báraðrsyni knapa ársins.
Sýnikennslan fer fram í Gustshöllinni Kópavogi og hefst kl 20.00 allir velkomnir.
Aðgangseyri er stillt í hóf og er kr 1000,- en skuldlausir FT félagar fá frían aðgang.

26.12.2010 23:07

Góð jól


Gleðilega hátíð kæru vinir, vonandi hafið þið haft það eins gott og við hér í Hlíðinni um jólin.
Já þau hafa verið hreint yndisleg með afslöppun og notalegheitum sem voru orðin kærkomin eftir mikið at og stúss síðustu vikurnar.
Takk fyrir allar skemmtilegu jólakveðjurnar svo að maður tali nú ekki um gjafirnar.
Talandi um gjafir já þær voru af ýmsum toga og allar góðar er samt einkar ánægð með hrútadagatalið. Feðgarnir fengu jólagjafir sem eru heldur betur sniðugar en ég þori ekki að segja frá þeim hér á síðunni, svona af einskærri tillitsemi við ykkur.
Jólamyndirnar koma von bráðar inná síðuna flestar eru þær nú af flottri frænku sem að hélt uppi stuðinu fram eftir kvöldi.



Já það er ýmislegt sem maður finnur í myndasafninu frá því herrans ári 2010.
Við fórum alveg heilan dag í frí og tókum okkur bíltúr um Borgarfjarðardali á leiðinni heim komum við að Húsafelli  og reyndum styrk okkar á hellunum góðu.



Það er skemmst frá því að segja að einn fjölskyldumeðlimur náið gripnum á loft en til að hinir njóti vafans þá er ekki birt mynd af því hér.



Þið getið svo bara í eyðurnar........................

Nú er tími hugmynda er varða áramótaheiti, mér persónulega líkar vel að ,,gleyma,, öllu svoleiðis en er samt að hugsa um að strengja eins og eitt um þessi áramót.
Hef bara ekki enn fundið spennandi verkefni sem er þess vert að gera eitthvað með það.
Flestir sem að ég þekki velja eitthvað heilsutengt eins og megrun endalausa hollustu eða eitthvað sem er nærri því víst frá fyrsta degi að þeir geti alls ekki haldið.
Ég lofa því að það er ekkert slíkt í mínum huga. Hef ennþá nokkra daga til að hugsa mig um.

24.12.2010 17:31

Gleðileg jól



Kæru vinir !

Við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærum þökkum fyrir það líðna.

Á myndinni er jólakötturinn Salómon svarti að bíða eftir að pakkarnir verið opnaðir.

21.12.2010 23:01

Jólin eru að koma.....



Ég var að rifja upp árið í myndasafninu mínu og fann þessar glaðlegu og hressu dömur þar.
Astrid og Króna, Anne og Freyja, Sandra og Folda.

Nú er Astrid farinn til Danmerkur í jólafrí og Anne væntanleg á milli jóla og nýárs, spurning hvenær Sandra kemur aftur ? :)

Bakstri, þrifum og öðrum skemmtileg heitum er skipt bróðurlega á milli ábúenda svo að innan skamms tökum við undir í jólalaginu.........og syngjum ,,nú mega jólin koma fyrir mér,,
Hefðin er sterk og flestar uppskriftir þær sömu og síðast en þó með smá útúr dúrum.
Þrif og gardínuþvottur á sínum stað því hin hefðbundni vorhreingerningartíminn hentar mér afar illa. Á þeim tíma eru hestamót, dómstörf, sauðburður já og bara vorið og þá hemst ekki húsfreyjan inni við.

Á morgun er það svo jólasveinastarfið sem bíður pakkadreifingar með nettu hangikjötsívafi.

18.12.2010 12:26

Sauðfjárrækt og fundir

Það hefur margt á dagana drifið síðan ég bloggaði síðast og eins og þið hafið séð ekki verið mikill tími til ritsmíða.
Sauðfjárræktin hefur tekið drjúgan tíma,fundir og að sjálfsögðu jólaundirbúningur sem þó er kominn styttra en æskilegt getur talist.  En er maður ekki alltaf á síðustu stundu hvort eð er?

Hér voru kindur sæddar dagana 15 og 16 desember samtals 55 stykki.
Hrútarnir sem að notaðir voru þetta árið eru: Kveikur frá Hesti, Hukki frá Kjarláksvöllum, Hriflon frá Hriflu, Frosti frá Bjarnastöðum, Borði frá Hesti, Laufi frá Bergsstöðum, Kostur frá Ytri-Skógum, Ás frá Ásgarði, Bogi frá Heydalsá, Bokki frá Dunki og Sómi frá Heydalsá.
Nú stendur yfir mikill vísinda verknaður það er að segja velja samna gripi fyrir heimahrútana sem hafa góðfúslega afþakkað frekari ,,heimilisaðstoð,,
Nánar um það síðar.

Á fimmtudagskvöldið komum við í stjórn Félags tamningamanna saman og skelltum okkur á jólahlaðborð í höfuðborgina.
Skemmtilegt kvöld og mikið spjallað með góðu fólki, aldeilis næg verkefni framundan.
Takk fyrir kvöldið kæru vinir.

Á föstudaginn var svo fundur hjá Fagráði í hrossarækt, langur en góður fundur og mörg málefni rædd. Alltaf nóg um að vera hjá hestamönnum.