26.12.2012 21:05

Jólaró og líka jólafjör



Hér eru litlu flottu frænkur mínar að bíða eftir því að borðhaldið hefjist og að sjálfsögðu biðu þær þar sem útsýnið yfir pakkahrúguna var gott.

Já við höfum átt notaleg jól með öllum skemmtilegu hefðunum og ýmsu öðru sem ekki er hefðbundið en gott samt. Eins og venjulega borðuðum við öll saman í gamla bænum og sáum svo fólkið ungt og eldra taka upp gjafirnar. Síðan skelltum við okkur í það ,,neðra,, og tókum upp okkar gjafir. Kvöldið endaði svo með heljarinnar súkkulaði og kökuboði sem renndi stöðum undir það að sennilega er alltaf hægt að borða aðeins meira ef að viljinn er fyrir hendi.



Þessar dömur fengu m.a garn og lopa til að prjóna á hálfa þjóðina en sen betur fer bækur líka til að líta aðeins upp frá prjónaskapnum.



Þessi var ánægður með sínar gjafir en kortið frá nafna og fjölskyldu var samt best.



Daniela og Mummi að ræða eitthvað mjög merkilegt og Snotra reynir að leggja ,,voff,, í belg.



Fjörið getur orðið þreytandi og þá er gott að taka gæðastund með Snotru til að ná þreki fyrir pakkaopnun. Undir borði er bara ágætlega friðsælt.
Þegar litlu frænkurnar eru í heimsókn hér í gamla bænum stingur Snotra okkur af og flytur í gamla bæinn á meðan þær stoppa. Þegar þær fara drattast hún svo heim og gerir sér okkar félagsskap að góðu.



Feðgarnir voru brosleitir að fylgjast með þegar pakkarnir opnuðust einn af öðrum, já það er alltaf gaman að sjá gleðina yfir góðum gjöfum.



Við Salómon tókum eitt gott knús í tilefni jólanna og sættumst á að hann mundi ekki færa mér músasteik í jólamatinn.

Annars hefur margt verið að gerast síðustu vikuna sko annað en jólafjör.
Daginn fyrir Þorláksmessu þegar ég var u.þ.b að bruna af stað inní dali að sækja mér vestfirska eðalskötu fékk ég símtal. Á línunni var Kjartan bóndi á Dunki sem tjáði mér að ég ætti ljóngáfaðar kindur sem hefðu bara stokkið í veg fyrir sæðingamanninn sem átti leið um.
Nei nei þetta eru engin ósannindi, Ásbjörn frændi minn og frjótæknir var sannarlega á ferðinni, kindurnar hlaupandi niður við veg og þurftu á þjónustu að halda. Allt staðreynir sem renna stoðum undir það að kindur eru ekki sauðheimskar.
Þegar ég svo renndi í hlaðið á Dunki voru þeir búnir að smala kindunum heim í fjárhús.
Það var því kát kella sem brunaði heim með fimm kindur og vænan skammt af eðalskötu og hnoðmör. Takk fyrir smölunina Ásbjörn, Kjartan og aðstoðarfólk.
Eftir hádegi í dag annan dag jóla fékk ég svo annað símtal og nú var það Flosi nágranni minn á Emmubergi sem var á línunni. Hann hafði þá verið á ferðinni og séð til kinda, Flosi var ekkert að tvínóna við hlutina og rauk til og smalaði þeim heim að Dunkárbakka. Ekki var hamingjan minni með þessar sex kindur þó svo að engin skata væri sótt í sömu ferð.
Takk fyrir Flosi, eintóm hamingja að fjölga í fjáhúsunum.

Jólafrí er svolítið huglægt í sveitinni það þarf að gera öll útiverkin en þau eru gerð með öðrum hætti þegar maður er í jólafríi. Svo er bara að taka það rólega eins og hægt er og njóta þessa að vera jólakelling nú eða kall.
Mummi flaug til Svíþjóðar í nótt en þar biðu nemendur sem verða á reiðnámskeiði hjá honum fram að áramótum. Ef að allt gengur upp þá lendir hann seinnipartinn á gamlársdag og rétt nær í steikina eins og Astrid sem kemur heim frá Finnlandi sama dag.

Alltaf eitthvað fjör í gangi hér í Hlíðinni.

24.12.2012 14:19

Gleðilega hátíð

23.12.2012 11:10

Reiðnámskeið

Reiðnámskeið

Dagana 25-27 janúar 2013 í Söðulsholti



Kennari: Guðmundur M. Skúlason, reiðkennari FT

Aðalmarkmið námskeiðsins er að auka þekkingu, gleði og ánægju í hestamennskunni.

Janúar er frábær tími til að koma sér í gírinn, fá smá fróðleiksmola og aðstoð um það hvernig skynsamlegt sé að haga þjálfuninni hvort sem fólk ætlar að gera hestinn sinn að betri reiðhesti eða stefnir á keppni.

Verð fyrir fullorðna kr 17.000.-

Verð fyrir börn, unglinga og ungmenni kr 12.000.-


Innifalið í verði eru fimm reiðtímar, hesthúspláss, súpa og brauð í hádegi laugardag og sunnudag.

Greiða þarf kr 5000.- staðfestingagjald við skráningu.

Skráning og nánari upplýsingar gefur Guðmundur M Skúlason í síma 7702025 eða á netfangi: [email protected]

Einnig er hægt að kaupa gjafabréf í jólapakkann sem gildir á námskeiðið.

15.12.2012 00:14

Ritstíflan tekin föstum tökum



Sunna litla dóttir Frakks frá Langholti og Léttar frá Hallkelsstaðahlíð að njóta blíðunnar.

Nú er kella risin eftir heldur slæma orustu við barkabólgu og leiðindar ,,kokka,, brettir upp ermar og gerir næstum allllllllttttt:) Og síðast en ekki síst vonar að aftur líði ca 30 ár þangað til næsta pest leggst á húsfreyjuna.  En ekkert væl.......upp með sokkana.

Það er alveg ljóst að ,,eftirlitsiðnaðurinn,, lifir góðu lífi og herjar á marga í þessu þjóðfélgi.
Ég er t.d ein að þeim sem þarf greinilega aukið eftirlit og því gott til þess að vita að góðir menn handan við Breiðafjörðinn hugsa til mín. Það er því eftir ,,tiltal,, frá einum slíkum sem ég gat ekki sofnað róleg í kvöld án þess að smella einhverju inná síðuna.
Bestu kveðjur á Brjánslækinn góða.

Hesthúsið er að fyllast af spennandi unghrossum svo nú eru allir dagar eins og þegar verið er að opna jólapakkana.
Eins gott að jafnréttismálaráðherra sé ekkert að þvælast þar á næstunni því kynja hlutfallið er eins og á feministafundi. Flest kvenkyns og þeim fáu sem eru karlkyns er varla vært fyrir glósum um að þeir ættu nú bara að drífa sig annað.
Stóðhestarnir eru þó undantekning og fá alla þá þjónustu og dekur sem þeim sæmir.
Stutt er síðan við fórum að gefa útigangi en nú er stóðinu gefið í þremur hópum, folaldshryssur, ungdómurinn og almúginn. Allt eftir settum reglum hverju sinni.



Þessi dama var nú heldur betur að standa sig vel í prófunum á Hólum núna í vikunni.
Skilaði þessu vandasama þjálfunarverkefni með glæsibrag og góðum einkunum.
Innilega til hamingju Astrid aldeilis flott hjá þér :)

Mummi átti góða daga í Svíþjóð um daginn þar sem hann var að kenna. Áhugasamir og góðir nemendur sem að hann hittir mjög fljóttlega aftur.

Nóg er atið í sauðfjárræktinni þessa dagana, búið að gefa öllum ormalyf og nú stendur yfir mikið at við að flokka og raða undir hrútana sem hefja störf innan nokkurra daga.
Eftir mikla yfirlegu á hrútaskrá og öðrum rolluvísindum var rokið í það að sæða svolítið.
Fyrri hálfleikur er gengi yfir en sá síðari fyrirhugaður á morgun.
Hrútar sem búið er að nota eru Steri frá Árbæ (ég sá svo flott lömb undan honum hjá Kjartani og Guðrúnu á Dunki). Soffi frá Garði, Gaur frá Bergstöðum, Kjarkur frá Ytri-Skógum og  Kvistur frá Klifmýri. Á morgun verða það svo enn fleiri Steradropar og Knapi frá Hagalandi.
Og ekki má nú gleyma gæluverkefninu henni Pálínu hún var að sjálfsögðu sædd við honum Jóakim frá Bjarnastöðum.
Það eru mörg ár síðan svona fáir fullorðnir hrútar hafa verið hér á bæ en þeim mun fleiri lambhrútar. Nú er bara að vona að allir standi sig eins og til er ætlast þegar á reynir.

Þið megið endilega halda að ég hafi verið svona löt að skrifa þar sem að ég hafi öllu stundum verið að atast í jólaundirbúiningi. Núna gæti t.d verið fullt búr af bakkelsi, Ajaxylmur um allt hús, pakkarnir tilbúnir og frúin að strauja jólakjólinn....................
Já já þetta er næstum því svona en þó finnst mér vanta svolítið uppá ........sko ennþá.
En það er nú svolítið í jólin svo rétt er að taka smá sveiflu í fjárhúsunum og njóta lífsins.

24.11.2012 23:03

Lopi í ýmsum myndum



Stellupeysa af bestu gerð og fyrirsætan glæsileg að vanda.

Ég hef alveg gleymt að segja ykkur að hún Stella frænka mín er mikil prjónakona og prjónar allt milli himins og jarðar.
Hún selur hestapeysur, barnapeysur, prjónakjóla og hvað eina, já og auðvitað venjulegar lopapeysur líka.
Þegar ég rakst á þessa fínu mynd af forsetafrúnni okkar datt mér í hug að koma með  hugmynd af jólagjöfum fyrir ykkur. Maður þyggur jú alltaf góðar hugmyndir þegar tíminn er naumur.
Myndin var tekin í opinberri heimsókn forsetahjónanna á Snæfellsnesið og það er svo langt síðan að ég var oddviti Kolbeinsstaðahrepps þá. Verst að ná ekki mynd af Ólafi í sinni peysu.




Og við höldum okkur bara við lopann........nú eru það sauðalitirnir.
Þessa mynd tók hann Kolbeinn skábróðir minn í réttunum en þarna bregðum við Jói sauður á leik. Getur verið gott að hafa féð svona meðfærilegt að stærð þegar hlutverk þess er eingöngu að vera til gamans en ekki gagns. Og þó Jói er að sjálfsögðu til gagns í forustuhlutverkinu.
Jói sauður er ,,langræktaður,, forustusauður af kynstofni Jóhanns föðurbróður míns í föðurætt og sonur forustukindarinnar Pálínu sem á ættir sínar að rekja að Haukatungu eins og við Jói. Nú eruð þið alveg búin að tapa þræðinum svo við förum ekki nánar útí þessa sálma.

Gaman að gramsa í myndum þær segja svo margt.

23.11.2012 23:24

Gosi gleður



Þessa mynd fann ég í myndatiltektinni sem nú er í gangi hjá húsfreyjunni.
Þarna eru Mummi og Gosi að keppa, nokkuð einbeittir kapparnir, en fókusinn hjá ljósmyndaranu ekki alveg í lagi. Spurning um að veita þessu myndasmið tiltal?



Og þarna eru þeir í hörðum slag..........á miklu skriði...................

Ég var einmitt að hugsa um hann Gosa þegar ég settist við tölvuna eftir að hafa verið að vinna með afkvæmum hans að undanförnu.
Og ég hugsa sko aldeilis vel til hans Gosa, hann er öðlingur og ekki eru afkvæmin að svíkja.
Yfirvegun og geðprýði eru fyrstu orðin sem koma uppí hugann eftir samskipti við kornung afkvæmi hans. Bara gaman að höndla með svoleiðis tryppi.



Mummi og Astrid að kanna Hlíðarvatnið.

Það var blíða í dag hér í Hlíðinni og engu líkara en það væri að koma sumar.....svona í smá stund. Reyndar er komin himna yfir vatnið svo ekki væri nú gott að taka svona sprett alveg í augnablikinu. En gaman er að rifja upp góða sumardaga og láta sig dreyma um sól og sumar.

Ég er að mana mig uppí að segja ykkur sögu sem þið megið ekki fara lengar með.......
Hún er neyðarlega fyrir húsfreyjuna svo það tekur tíma að safna kjarki til að koma henni hér á ,,blað,, en það kemur að því :) Þið hafið það hjá ykkur:)

22.11.2012 22:31

Gaman að gömlum myndum


Það er alltaf svo gaman að skoða gamlar myndir maður finnur alltaf eitthvað skemmtilegt.
Þarna er Mummi að spekja Mósart Otursson og ekki að sjá annað en það fari vel á með þeim.



Það voru margir ungir knapar sem nutu þess að þjálfa Gjóstu gömlu enda var hún vinsæl og notadrjúg. Þessi mynd segir okkur svo sannarlega að hestamennska er skemmtileg.
Þarna er Mummi að keppa á Gjóstu í barnaflokki á afmælisdaginn sinn þegar hann varð 7 ára.
Knapinn kammpakátur í Dúnupeysu og Nokíastígvélum.

Það hefur verið næðingur og þá er kalt en allt stendur þetta til bóta og nú er bara að bíða eftir næstu blíðu. Og þá skulum við njóta.

Mummi er floginn til Svíþjóðar einu sinni enn og er þar í góðu yfirlæti eins og vant er.
Skemmtilegir nemendur sem eru áhugasamir um að bæta sig í hestamennskunni.
,,Gamla,, leikur lausum hala í hesthúsinu á meðan og skemmtir sér bara ljómandi vel.

Rúningur á kindum er frá en lömbin eru reyndar eftir og er það verkefni húsbóndans næstu daga. Enn eru væntingar í gangi með að finna fleira fé og hlýtur sá draumur að verða að veruleika fyrr en varir.

12.11.2012 22:36

Drama, dekur og dásemd



Svona var útsýnið af brúninni fyrir innan Svaðaganginn einn eftirleitardaginn fyrir stuttu.

Það er ekki af fréttaskorti sem ég hef ekki skrifað hér inn að undanförnu heldur hefur það verið skortur á ritdugnaði.
Veturinn hefur sýnt sig öðru hverju og þá mest með vindi og látum, snjórinn hefur meira verið svona í formi sýnishorns.

Kindunum fjölgar dag frá degi sem fengið hafa haustklippinguna og ekki er langt í að flestar þeirra verið komnar inn og á fulla gjöf. Það er alltaf góð tilfinning þegar allt hefur verið klippt sem til stendur að klippa. Við klippum allt fé á þessum tíma fyrir utan smálömb og lambhrúta.
Lambhrútarnir fá sérstaka ,kallaklippingu,, sem tekin var upp hér á bæ fyrir nokkrum árum og hefur reynst vel. Það var nefninlega þannig að við klipptum lambhrútana nokkur ár í röð og uppskárum bara vandræði og vanhöld. Ég var sannfærð um að þetta hefði eitthvað með karlmennsku að gera og til að kulsækið karlkynið yrði ekki niðurlægt að óþörfu var ekki um annað að gera en hanna klippingu. Klippingin er flott, sítt að aftan, hálsinn bera, bumban rökuð og ,,djásnin,, pössuð sérstaklega vel við raksturinn.
Já lambhrútarnir í Hlíðinni eru sko hátískutöffarar með meiru.
Vonandi get ég sett inn myndir af þeim þegar klippingin er afstaðin.

Eins og áður hefur komið fram eignaðist ég hrút frá Ásbirni bónda og frænda mínum í Haukatungu um daginn.
Þegar ég fór og sótti gripinn og fékk ættir og aðrar nauðsynlegar upplýsingar kom í ljós að nafnavalið yrði auðvelt. Gripurinn var undan hrútnum Seiði og kindinni Ást, þar með var nafnið komið Ástarseiður. Þegar ég svo kom heim himinlifandi með gripinn var nokkuð sjálfsagt að deila hamingjunni með fésbókarvinum mínum.
Ekki eyddi ég miklum tíma né mörgum orðum í að upplýsa vinina og varð stadusinn eitthvað á þessa leið:
,,Ástarseiður kominn í hús,,
Viðbrögðin létu ekki á sér standa og margir vildu fylgjast með ..........og hugmyndirnar um hvað væri á seiði voru margar.
Freyðibað, ástardrykkur, nútímadans, ilmvatn, landi og viagra voru á meðal þess sem fólki datt í hug.

Einn af mínum fésvinum var þó ekki í vafa hvað væri á seiði og sendi mér vísu.

Sigrúnar er gatan greið,
gengur hress að púli.
Er að brugga ástarseið,
svo ekki dofnar Skúli.

Já Kristján Björn Snorrason klikkar ekki:)

En til að fyrirbyggja allan misskilning þá er Ástarseiður hinn hressasti og unir sér vel í hrútastíunni. Hann er safna kröftum fyrir komandi annatíma og getur státað af heljarinnar hornahlaupum. Óumflýgjanlegt að birta mynd við fyrsta tækifæri.



Það stemdi í mikinn drama hér í sauðfjárræktinni um daginn eða öllu heldur sauðfjárræktinni í Garðabænum. En þá sannaðist eins og oft þegar á reynir að það er ekki sama hverjir standa við bakið á manni (kindum) þegar á móti blæs.
Golsa hefur í gengum tíðina safnað að sér mörgum dyggum aðdáendum sem gjarnan heimsækja hana nú eða líta á hana hér á síðunni og rifja upp góðar stundir.
Eitt sinn var Golsa keypt og þá sannaðist nú heldur betur hvers virði hún er því það duggði ekkert minna en nokkurra fermetra málverk fyrir gripinn. Golsa flutti nú samt ekki héðan úr Hlíðinni enda er erilsamt fyrir hefðarkindur að búa í Garaðabænum.
Golsa er snillingur sem sífellt kemur á óvart með ýmsum uppátækjum og skemmtilegheitum.

Á hverju hausti er farið gaumgæfilega yfir allar kindur áður en sett er á veturinn, lambavigt og dómar lesið í þaula. Og það sem mestu máli skiptir júgurskoðun en þar eru gerðar strangar kröfur og allar kindur sem ekki eru í fullkomnu lagi fá ,,farseðilinn,,
Golsa kom galvösk og óhrædd beint í flasið á okkur þegar skoðunin var rétt að byrja.

Obbbobobob nú fór heldur betur um fjárhirðana sem litu hver á annan og hugsuðu sitt.
Til þess að enginn væri nú vafinn á því hvernig ástandið væri var Golsu snúið við og hún skoðuð af mikilli nákvæmni. Kom þá í ljós að hún var með júgurbólgu í öðru júgurinu.
Undir öðrum kringumstæðum hefði hún verið afgreidd með hraði og væri þá sennilega að naga guðdómlegar þúfur í grænu högunum hinumegin. En þar sem ,,baklandið,,  hjá Golsu var gott og Golsa í hópi útvalina ákváðum við að æfa okkur í hjúkrunarstörfum og gefa henni tækifæri. Nokkrar vikur eru liðnar og lítur út fyrir að Golsa verði ,,alheilbrigð,, einspena kind sem vonandi á eftir að skemmta aðdáendum sínum næstu árin.







01.11.2012 22:32

Veturinn kominn ??



Á svona dögum er eins gott að ylja sér við eitthvað skemmtilegt og helst frá einhverjum góðviðrisdeginum.
Þessa mynd tók hún Ansú okkar frá Finnlandi þegar hún kom í heimsókn eftir landsmótið í sumar. Þarna erum við Auðséð að spjalla saman og leggja drög að einhverju sniðugu saman.
Auðséð er tveggja vetra undan Karúnu minni frá Hallkelsstaðahlíð og Sporði frá Bergi.
Hún Auðséð er spök og skemmtileg, tekur alltaf svo vel á móti mér þegar ég kem og skoða hana í haganum. Svona uppáhalds :)



Svona var hinsvegar umhorfs hér í Hlíðinni um miðjan daginn í dag en undir kvöld var komið enn meira rok og snjókoma. Hreinlega öskubylur.
Þær voru heldur kuldalegar folaldshryssurnar sem kíktu uppfyrir börðin og athuguðu hvort að ekki væri nú tímabært að fá rúllur.  Hafa sennilega orðið fyrir sárum vonbrigðum þegar þær sáu að við voru bara að smala kindum.



Kindurnar sem síðastar voru í hús nú undir kvöldið voru ansi vel uppfenntar og eins gott að vel hafi smalast hér á túninu.
Við erum búin að hýsa lömbin í nokkrar vikur og til stóð að hafa fé úti a.m.k. hálfan mánuð í viðbót. En í dag var tekin sú ákvörðun að byrja að taka af og þá voru það veturgömlu ærnar sem fyrstar fengu klippingu og að auki nokkrar spari kindur.


Gamla Grákolla var kát með að vera komin inn enda ekki veður fyrir eldri hefðarkindur.

Það er alveg saman hvenær veturinn kemur maður er aldrei tilbúinn, ýmislegt ógert sem átti svo sannarlega ekki að sitja á hakanum. Hugga mig samt við viskuna sem góður maður sagði við mig um daginn ,, veistu Sigrún ef þú verður einhverntímann búin að öllu þá ertu ekki lengur til,, ...........og ég er til og á helling eftir að gera Guði sé lof.

28.10.2012 21:17

Heillandi Hjaltadalur



Astrid með tryppin tvö Tuma frá Enni og Gyllingu frá Sveinatungu sem hún hefur tamið á Hólum síðustu vikurnar.

Við brunuðum norður að Hólum í gær til að sjá sýningu annars árs nemenda sem voru að skila af sér tamningatryppunum. Nemendurnir hafa síðust ca 7 vikur frumtamið og þjálfað þrjú hross og nú í vikunni var lokaprófið með þau.
Astrid stóð sig með mikilli prýði og getur svo sannarlega brosað breytt yfir árangrinum.
Það var gaman að koma að Hólum í gær krakkarnir stóðu sig með miklum glæsibrag sýndu tamningatryppin sín vel og andrúmsloftið var gott.
Margir spennandi gripir voru að taka sín fyrstu sýningu og eflaust eru þau mörg sem við eigum eftir að sjá síðar við hátíðleg tækifæri.
Þar er sérstaklega ein brún hryssa sem heillaði mig mikið.



Síðasta knúsið allavega í bili.................



Það er samt ekki öll nótt úti með það að hitta tamningatryppin sín aftur.......
Þarna eru Ötull frá Hólum og Mummi einmitt að rifja upp gömul kynni en Mummi frumtamdi Ötul þegar hann var á öðru ári.



Fann þessa gömlu mynd þegar Ötull og Mummi voru ,,ungir,, yngri.



Eins og þið sjáið var alveg glæra á vellinum en hestar og knapar létu það ekki á sig fá.
Þarna er Astrid með þjálfunarhestinn Hrannar frá Gígjarhóli.



Þarna ræðast þau við Astrid tamningakona og hesteigandinn, ekki annað að sjá en það fari vel á með þeim.



Þau voru brosmild og sæt þessi sem stilltu sér upp með Mumma í hesthúsinu á Hólum.
Einstaklega svipfallegur reiðkennarahópur Steini Björns, Sigvaldi Lárus og Þórdís okkar Anna.
Já það var gaman að koma ,,heim að Hólum,,

19.10.2012 10:13

Örfréttir



Það er nóg um að vera og ekkert lát á því skal ég segja ykkur.

Frábær haustfundur Hestaíþróttadómarafélagsins var haldinn í gær. Hafrún Kristjánsdóttir ,,boltakona,, og sálfræðingur flutti stór gott erindi, síðan var farið yfir ýmiss mál sem tengdust dómsstörfum síðasta árs. Góð stund með skemmtilegu fólki.
Stjórn og fræðslunefnd HÍD'Í á þakkir fyrir gott framtak.

Góðar fréttir af Mummanum í Svíþjóð en í dag hefst mikil helgartörn í kennslu, bara spennandi.

Í dag er það svo Landsþing hestamanna sem nú er haldið í Reykjavík.
Og um helgina er ýmislegt annað á döfinni svo sem hrútasýning, afmælisveisla og margt fleira.

14.10.2012 22:09

Sunnudags



Mummi og Krapi frá Steinum.

Nú er Mummi floginn til Svíþjóðar þar sem biðu hans heilmörg spennandi reiðkennslu verkefni.
Fyrsta námskeiðið var á sama stað og hann fór á síðast en svo hafa bæst við nýjir staðir.
Bara spennandi tímar hjá honum í Svíaríki.

Síðustu dagar hafa einkennst af ,,típískum,, haustverkum, smala, sækja kindur, draga undan smala hestum og öðru svoleiðis stússi. Þess á milli erum við að sinna skemmtilegum frumtamningatryppum sem eru óðum að breytast í reiðhesta.
Hannyrðir mínar voru ekki af verri endanum um helgina þó svo þær hafi nú oft lyktað betur.
En við réðumst í sláturgerð af miklum móð og gerðum hér í sameiningu u.þ.b þrjátíu slátur.
Svo assskoti myndalegar kellurnar........svona stundum.



Þessi sæta dama varð tveggja ára um helgina og hélt uppá það með okkur í sláturgerðinni.
Hún var svo heppin að fá nokkra góða gesti í veisluna sem samanstóð af rjómatertu af gömlu góðu gerðinni og blóðpönnukökum.
Á myndinni er hún hinsvegar að skála við okkur á réttunum en hún gaf sko ekkert eftir hvað glasavalið snerti í því samkvæmi. Skál í mjólk það er málið í sveitinni.

Á morgun er það svo fundur í Fagráði í hrossarækt, verður bara gaman að hittast og spjalla.

akvjadfjkhgö95786hvh3497

Eftir ,,heimildarmynd,, kvöldsins sem sýnd var á RUV sjónvarpi allra landsmanna hef ég ákveðið af tillitsemi við ykkur að steinþegja. Allavega um sinn.
Ég ákvað í kvöld að kjósa næstkomandi laugardag í þjóðaratkvæðagreiðslunni......skrítið.

Lifið heil.







08.10.2012 22:17

Kindablogg



Sóna, mæla, velja og veðja á......................já í dag var það líflambavalið seinni hluti sem fram fór hér í Hlíðinni.
Þarna er smellt af ofaní lífgimbrakrónna og eins og þið sjáið þá er ,,framsóknar,, merking á því sem á framtíðina fyrir sér. Græni liturinn er góður.



Þetta er sérstök uppstilling fyrir ljósmyndarann og eins og þið sjáið þá eru nokkrir litir í boði.



Þessi er búinn að vera betri en enginn síðustu vikurnar og í dag stóð hann m.a vaktina við rekstrarganginn góða.
Það er ekki af ástæðulausu sem hann er kallaður ,,mannskapurinn,, hér á bæ.



Þau voru eldhress Friðrik og Birta ráðanautar frá Búvest sem hér voru að störfum í dag.



Og leggurinn mældur á einum sparihrútnum..................

Við voru bara nokkuð kát með útkomuna á lambahópnum sem mældur var og veginn hér í dag. Allavega var vandi að velja þegar mælingar lágu fyrir og ansi mörg falleg sem ekki fengu farseðil í ,,rétta,, átt.
Við höfum aldrei gert eins miklar kröfur til þeirra lamba sem nú fá að komast í líflambakrónna góðu.
Bestu gimbrarnar voru með m.a með 34 í bakvöðva og þó nokkuð margar níur. Feður þeirra voru nokkrir en flestar góðar átti hann Fyllirafur okkar Raftson, t.d var engin undan honum með minna en 18 fyrir læri. Dunkur frá Dunki, Vafi Kveiksson og Dimmir Dökkvason áttu líka góð lömb í hópnum auk annara.
 Fylliraftur átti svo góðan son sem stigaðist í 85.5 þrátt fyrir létlega ull.
Grábotnasynir komu vel út og verða sennilega tveir svartbotnóttir synir hans í líflambahópnum. Þar verða líka synir Dunks frá Dunki og Sigurfara frá Smáhömrum, að ógleymdum Gunna syni Dals frá Hjarðarfelli.
Til gamans má geta þess að litirnir sem nú eru til í líflambahópnum eru margir en engin gimbur fékk samt líf útá litinn eingöngu. Nema kannske ein móflekkótt tvílembingsgimbur sem er ekki sérlega stór. En hún á tvo digga aðdáendur hinu megin við fjallið nánar tiltekið á Emmubergi sem örugglega standa með henni ef að ég fer eitthvað að huga að slátrun.
Stuð í sauðfjárræktinni þið sem ekki vissuð.......................

Á morgun fara svo þau lömb sem við eru búin að heimta í sláturhús og eftir það verður smá ,,rolluvinnupása,, Ekki liggja fyrir öruggar heimtu tölur á fjárhópnum en ljóst er að nokkuð vantar enn.


06.10.2012 22:00

Sagan af söðlinum



Salómon yfirheimilisköttur velur sér gjarnan uppáhaldsstaði til að leggja sig og njóta hvíldar eftir erfiðar nætur. Staðurinn sem nýtur mestra vinsælda um þessar mundir er söðullinn minn. Mig grunar að þetta séu dulin skilaboð um að ég noti söðulinn ekki nóg og með þessu móti sé Salómon að leggja sitt af mörkum til þess að húsfreyjan fari að nota sparigripinn sinn meira.
Svona til gamans þá er þessi söðull síðasti söðullinn sem Markús Jónsson, söðlasmiður á Borgareyrum smíðaði.  Markús var kominn yfir áttrætt þegar ég hafði fyrst samband við hann og bað hann að smíða fyrir mig söðul. Hann svaraði því þá til að hann væri hættur að smíða söðla hefði smíðað sinn síðasta söðul fyrir Guðrúnu Sveinsdóttur á Varmalæk. En það var einmitt í gegnum hana sem ég hafði uppá Markúsi. Það var svo í lok apríl árið 1986 sem að ég fæ símtal frá Markúsi. ,,Sæl frú Sigrún ! ætlar þú ekki að fara að láta sjá þig og sækja söðulinn þinn?,,
Mér svelgdist á og fékk háfgert tungubasl þar sem ég var búin að sætta mig við að eiganst engan söðul. Allavega ekki smíðaðan af Markúsi á Borgareyrum.
En Markúsi var full alvara og daginn eftir var brunað austur og söðullinn sóttur. Þessi heimsókn að Borgareyrum var hreint ævintýri og móttökurnar frábærar.
 Viðmótið, veitingarnar og vísurnar.
Ég bamb ólétt og ekki líkleg til að smella mér í söðul á næstunni en útaf því man alltaf hvað söðullinn er gamall. Já Mummi minn og söðullinn þeir eru jafngamlir.
Eftir þetta vorum við Markús miklir mátar og spjölluðum oft saman í síma.
Markús lést rétt um tveimur árum eftir að ég fékk söðulinn.
Ég hugsa alltaf með hlýju til Markúsar og minnist okkar skemmtilegu samskipta.


Enn var smalað í dag og nú vorum við farin að nefna þetta bröllt eftirleitir.
Eftirleitir hljóma svolítið eins og sjáist fyrir endann á einhverju sem að getur gert gæfumuninn þegar á reynir. Veðrið var ekki eins gott og í gær þar sem nokkrar dembur skullu á mannskapnum í dag. En myrkrið var jafn svart og í gærkveldi................

Á morgun er það svo innrekstur og sundurdráttur, Vörðufells og Mýrdalsréttir.
Alltaf fjör í Hlíðinni.

05.10.2012 22:23

Ástarseiður kominn í hús



Smala, smala , smala............ já Hnappadalurinn var Guðdómlegur í dag eins og reyndar alltaf.

Sól, logn og algjör blíða var það sem boðið var uppá í smalamennskunni í dag mér til mikillar ánægju. Þarna er ,,mannskapurinn,, að skanna svæðið og búast til atlögu við kindurnar.
Þetta er þriðji dagurinn í röð sem við erum að smala en morgundagurinn veður sennilega sá síðasti í bili að minnsta kosti.
Á svona dögum er dýrðarinnar dásemd að vera uppí fjalli og algjörlega ólýsanlegt að upplifa kyrrðina og friðinn sem þar er. Ekki skrítið þó að kindurnar vilji vera þar sem lengst.
Mannbætandi meðferð í boði íslensku sauðkindarinnar.



Hún Bekký okkar fór heim til sín í dag en kemur vonandi aftur til okkar í ferbrúar.
Þarna eru hún og Salómon að kveðjast en þau hafa verið mestu mátar og vinir.
Takk fyrir samveruna Bekký.......sjáumst:)

Það var líflegur dagurinn í gær með smalamennsku, örmerkingum á öðrum bæjum og hrútaskoðun.
Já já ég sagði hrútaskoðun og jafnvel meira.............
Kella brá sér af bæ og verslaði sér eitt stykki kynbótahrút og sennilega munaði bara hársbreydd að þeir yrðu tveir.
Já hann Ástarseiður er kominn í hús........nei nei það er ekki víagra eða freyðibað það er hrútur kæru vinir.
Ég sem sagt brunaði til hans Ásbjörns frænda míns í Haukatungu og verslaði af honum hrút.
Glæsigripur með fallegar tölur, hold og ættir, myndir koma síðar.

Það var síðan í gærkveldi sem ég komst í aðra hrútaskoðun en það var hjá þeim hjónum á Dunki. Þar sá ég marga flotta hrúta af spennandi kyni sem gaman væri að sjá  hvernig kæmu út í okkar fé.
Ég á einn góðan hrút frá þeim svo að ég var komin á mjög ,,hættulegt,, stig þegar ég rauk hrútlaust heim skömmu eftir miðnætti. Með engan hrút af þeim bæ..........

Og vitið þið hvað ???? dagurinn endaði með örstuttu heklunámskeiði í sófanum heima.