Færslur: 2009 Desember
28.12.2009 23:20
Gaman gaman víííí
Það var ljómandi blíða í Hlíðinni í dag og enn var myndavélin á lofti.
Ég og Fannar fíni vorum aðeins að leika okkur og Mummi og Proffi fengu að fljóta með.
Á þessari mynd dreymir okkur um að komast bráðum á ísinn sem er þarna í baksýn sléttur og fínn. Það styttist óðum ef að frostið heldur svona áfram en það er samt betra að fara varlega vatnið er jú 26 metra djúpt sumstaðar.
Mummi tók þarna skeifnasprettinn á Proffa og það eru bara tvær vikur síðan Fannar fór á járn eftir haustfríið sitt.
Gaman að hafa þetta fína reiðfæri á túninu.
Ummmmm.......... hann er nú alltaf skemmtilegur þessi, það er ekki skrítið þó að ég sé spennt að sjá hvernig bróðir hans Vörður verður. Það eru myndir af honum hér fyrir neðan frá því í gær.
Það er nú venjulega þannig að ég þjálfa þennan og Mummi hinn en ræktandinn verður stundum að fylgjast með gripunum sínum (Fannari)
Og svo að drífa sig heim...........það var nú svolítið kalt í dag.
27.12.2009 22:01
Vörður með væntingum
Þrátt fyrir kulda og nokkura dag ofát rauk ég út með myndavélina í dag þegar Mummi var að ríða út og smelli af nokkrum myndum. Ég tapaði þó af nokkrum góðum tækifærum sem flugu framhjá á meðan ég var að gefa.
Á þessari mynd er hann Vörður minn sem er undan Tign minni og Arði frá Brautarholti, hann er ekki nema rúmlega tveggja mánaða taminn. Kellingin er bara a.....montin af honum.
Þarna koma þeir til baka úr reiðtúrnum en mér og myndavélinni var orðið svolítið kalt eins og sjá má á myndinni.
Þessir voru ,,kaldir á kanntinum,, en ég náði ekki mynd af þeim á ferðinni............ekki núna.
Annars var dagurinn alveg ljómandi góður riðið smávegis út í frostinu, lesið, horft á tónleika, já og auðvitað borðað svolítið. Allir í því efra eins og við köllum það komu í kaffi og svo var bara spjallað og leikið sér.
27.12.2009 00:12
Jólakötturinn.
Eins og þið kannske vitið þá á ég jólaköttinn eina sanna, þarna er hann á ,,tali,, eða mali við einn jólasvein úr fjöllunum. En eins og jólaketti sæmir þá er hann búinn að vera svolítið uppátækjasamur að undanförnu og læt ég fylgja með smá myndasýnishorn og meira kemur síðar.
Kæru vinir! við hér í Hlíðinni þökkum kærlega fyrir okkur við höfum fengið góðar kveðjur og frábærar gjafir. Hér hefur letin verið als ráðandi og við sannarlega notið þess.
Hann var illa forvitinn og var langhrifnastur af pökkum með slaufum og böndum.
.............og hann var sannfærður um að jólakarfan væri bara ætluð honum einum.
Að lokum er ein mynd af flottu frænku minni sem hélt uppi stuðinu í jólaboðinu í gamla bænum. Ég verð svo vonandi aðeins duglegri að setja inn jólamyndirnar næstu dag.
24.12.2009 00:04
Kæru vinir !
Við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegra jóla með einlægri ósk um gæfu, farsæld og frið.
Samskiptin við ykkur hér í vefsíðunni okkar hafa verið góð og einstaklega skemmtileg.
Við vonum að þið hafið líka haft gagn og gaman af því sem hér hefur farið fram.
Okkar bestu jólakveðjur.
Sigrún, Skúli og Mummi.
Þessa mynd tók ég af vatninu í dag það væri nú ekki amalegt ef að ísinn yrði svona í nokkrar vikur.
Sléttur sem spegill.
Og útigangurinn spókaði sig í blíðunni.
En máninn var bara hálfur þó það sé Þorlákur.
20.12.2009 22:54
Jóla jóla
Jóla hvað ? eru allir að verða vitlausir veit fólk ekki að jólin koma alltaf einu sinni á ári?
Þarf endilega að klára allt jafnvel það sem aldrei er gert?
Smá grín auðvitað er ég svona rugluð líka en það vill nú samt þannig til að ýmislegt sem þarf að gerast á þessum tíma í sveitinni er bráðnauðsynlegt. Ég er t.d ekki viss um að ég yrði hýr á brá í byrjun maí ef að það færist fyrir að koma hrútunum í kindurnar svona vel fyrir jól.
Hér í Hlíðinni hafðist það af í gær, líka eins gott því að er gamall siður sem haldið er fast í þó svo að yfirleitt sé búið að sæða miklu fyrr.
Við vorum búin að láta sæða um 5o kindur þann 17 des og fyrir þá sem eru útlærðir í hrútaskránni læt ég fylgja með hvaða hrúta við notuðum.
Þeir hyrndu voru Raftur frá Hesti, At frá Hafrafellstungu, Hvellur frá Borgarfelli og Grábotni frá Vogum 2. Þeir kollóttu Kjói frá Sauðadalsá, Bolli frá Miðdalsgröf og Neisti frá Heydalsá.
Karl Phillp forustuhrúturinn flotti frá Sandfellshaga var líka á dagskránni hjá mér en eitthvað klikkaði hjá meistaranum á hrútastöðinni svo að ég fékk ekkert úr honum. Þannig að Pálína mín forustuá verður bara að sætta sig við eitthvað holdugrakyn en forustukyn.
En nú er sem sagt allt með kyrrum kjörum í fjárhúsunum frjálsar ástir og eintóm hamingja.
Reyndar veiktist einn sparihrúturinn heiftarlega rétt áður en við settum þá saman við og er óvíst á hvorn veginn þau veikindi fara. Sá sem veiktist er undan Dökkva frá Hesti og var settur á með fullt af stigum í farteskinu og gerðar miklar væntingar til hans. En svona er þetta stundum ekki á allt kosið.
Í hesthúsinu er líka líflegt þar bættist t.d við ein stórglæsileg moldótt hryssa í dag, spennandi að vera bæði myndarleg og með fallegan lit. Svo er bara að sjá til hvort hún verður ekki líka ljómandi góð.
Hér á bæ var tekinn smá bakara sveifla í dag og bakaðar einar fimm sortir af smákökum og rúllutertur. Fyrir liggur svo að bæta við á morgun og svo er það jólaísinn góði sem ekki má klikka. Síðan eru eftir nokkrar pakkaferðir og kaffiinnlit til vina og kunningja hefðbundið og vonandi illbreytanlegt.
Jólin eru alveg að koma og það er nú bara allt í lagi því þetta hefst allt fyrir rest.
16.12.2009 21:39
Ferningur flytur, fundir og fjör.
Það var aldeilis frábær matur sem við í FT fengum þegar við héldum aðalfund félagsins um daginn. Og það var að sjálfsögðu hann Jonni vert á Kænunni í Hafnarfirði sem galdraði hann fram. Takk fyrir okkur góður matur og frábær andi hjá ykkur á Kænunni.......er svo ekki skötuveislan næst ??? Allir að mæta á Kænuna til Jonna á Þorlák.
Já aðalfundur FT var haldinn föstudaginn 11 des á Kænunni, fundurinn var góður og gagnlegur. Margir góðir gestir komu og umræður og skoðannaskipti voru með líflegasta móti. Ég held að það sé framtíðin að halda fundinn á svona stað, borða saman og gefa félögunum færi á að eyða svolitlum tíma í að rifja upp skemmtilegar minningar og spjalla.
Mætingin var líka með betra móti svona miðað við undanfarin ár.
Pétur Behrens einn af stofnfélögum FT kom og rifjaði upp brot úr sögu félagsins við góðar undirtektir og vöktu gamlar myndir sem að hann sýndi feiknar kátínu fundarmanna.
Helga á Þingeyrum kom og kynnti knapamerkin og fór yfir ýmiss atriði sem þarft er fyrir reiðkennara að hafa í huga við kennsluna. Á næstunni koma fréttir af fundinum inná heimasíðu FT sem er tengill hér á síðunni.
.....nei nei þetta er ekki kvennfélag en þarna eru fjórar dömur á FT fundi.
Þórdís sæti ritarinn okkar, ég , Helga á Þingeyrum og starfsmaðurinn okkar Hulda Geirsdóttir.
Á sunnudaginn var svo brunað í Skáney erindið að færa litlu ,,ömmustelpunni,, jólagjöfina sína því að daman verður erlendis um jólin. Jólagjöfin var fjórfætt og meira að segja með fjögur horn, Ferningur hefur sem sé skipt um lögheimili og jafnvel nafn líka en nafnið Hreinn er afar vinsælt hrútanafn um þessar mundir. Og svo er bara að syngja hrúturinn Hreinn
Á mánudaginn fór ég svo í verslunarferð með hefðardömum og endaði svo á jólahlaðborði með skemmtilegu fólki. Takk fyrir frábært kvöld stjórnarfólk í FT.
Fundur í Fagráði í hrossarækt var svo á dagskrá þriðjudagsins góður og skemmtilegur fundur.
Dagurinn í dag var líka ljómandi góður langt komið að sortera kindurnar fyrir fjörið sem hefst eftir nokkra daga og ormalyf komið í rúmlega 400 kindur. Vonandi næst að klára það á morgun en þá stendur líka til að fá gervihrút með ,,kaffibrúsa,, í heimsókn.
Hún Astrid okkar fór líka í dag áleiðis til Danmerkur þar sem hún ætlar að eyða jólunum.
Góða ferð Astrid vonandi dreymir þig ekki eintóma sveitadrauma í danaveldi.
Mummi járnar og ríður út af miklum krafti og er það ekki aldeilis ónýtt fyrir okkur að fá hann í svona langt jólafrí. Ég ætti nú að vera duglegri að taka myndir í hesthúsinu og sýna ykkur hér á síðunni á næstu dögum. Svo styttist í að við bætum inn myndum af nýjum söluhestum.
10.12.2009 23:05
Hestastúss í dag aðalfundur FT á morgun.
Mikið var afrekað hér í Hlíðinni í dag hrossarag, járningar og margt fleira. Já það fjölgar ört á járnum núna og það fjölgaði líka mikið í hesthúsinu í dag. Við tókum inn nokkur mjög spennandi tryppi t.d undan Arði frá Brautarholti, Faxa frá Hóli, Pilti gamla frá Sperðli og fleirum. Svo komu nokkrir sparihestar inn Skriða litla, Proffi minn og Fannar. Það verður nú að hafa eitthvað gaman svona á jólunum.
Einn veturgamli folinn okkar hefur verið týndur í þó nokkurn tíma en fannst í dag eftir mikla leit heill á húfi. Það er ekkert grín þegar þessi grey eru að týnast alein hér í fjöllunum.
Á morgun er svo aðalfundur FT sem haldinn verður á Kænunni í Hafnarfirði kl 17.00
Ég vonast til að þessi fundur verði góður og vel sóttur af félagsmönnum, það er jú alltaf gaman að hittast og spjalla í góðum hópi.
09.12.2009 23:48
Mannlíf á ungfolasýningu.
Ég smelli hér inn nokkrum myndum frá ungfolasýningunni í Söðulsholti, þarna eru heiðurshjón úr Borgarnesi að vellta vöngum yfir kynbótagripum framtíðarinnar.
Þarna er Magnús bóndi á Álftá sem kom sunnan af Mýrum að líta á gripina, þarna með sínu fólki.
Snæfellsnessbændur voru líka mættir í Söðulsholt sumir á leið heim úr skólanum.
Annars er það helst að frétta að Mummi kom galvaskur heim úr skólanum í dag , þá er hann kominn í jólafrí. Þannig að nú styttist í að við rekum saman hrossin setjum ormalyfi í hópinn og veljum úr hvað kemur inn fyrir jól. Bara spennandi og kannske verð ég dugleg að taka myndavélina með hver veit?
07.12.2009 21:07
Hormónar og hvolpavit er það góð blanda???
Á laugardaginn var brunað á ungfolasýningu í Söðulsholt, þar voru saman komnar vonarstjörnur framtíðarinnar í það minnsta eiganda sinna. Héðan úr Hlíðinni fengu tveir fararleyfi þeir Léttlindur Hróðsson og Sparisjóður Gustsson.
Þar sem að myndatöku kunnáttan hér á bæ er frekar takmörkuð þá voru flestar myndirnar sem að teknar voru og áttu að sýna samkomuna í myndum frekar en máli frekar daprar.
Í stuttu máli sagt hreyfðar, svartar og jafnvel það sem mynda átti ekki inná myndinni.
Ég leyfi mér því að benda ykkur á tvær síður sem að báðar eru tenglar á þessari síðu þær eru Dalsmynni (blogg) og Söðulsholt (fréttir) og myndir frá sýningunni.
Þar getið þið m.a séð myndir af Sparisjóði og Léttlind.
Framistaða þeirra félaga var eins og við var að búast þegar ungir garpar fá tækifæri til að sýna sig og sjá aðra á almannafæri. Sérstaklega á þetta við um það þegar hormónar og hvolpavit hafa tekið völdin og útsýnið er annað en fagur fjallasalur.
Léttlindur var frekar einmanna í höllinni og hefur sennilega leitt hugann að því hvort að svona flennistórt hús væri nokkuð sláturhús. En eftir því sem á sýninguna leið óx honum kjarkur og tók hann nokkrar ágætis rispur í lokin.
Myndatökukonan í Söðulsholti náði allavega góðri mynd af honum.
Sparisjóður..............ja þessi mynd lýsir vel hugarástandi hans á sýningunni sem var sirka svona ,,hér er ég um mig frá mér til mín,, og mér er slétt sama hvað þið vilduð sjá, ég er að sína mig og ræð sko alveg einn hvernig.
Kannist þið við þetta hugarástand þegar hormónaungar byrja að fara á djammið????
Já mér datt það í hug.
Ég veit ekki hvort að þetta var snertur af víðáttubrjálæði eftir að hafa verið í Hjaltadalnum og Hnappadalnum en púðrið og krafturinn var alveg nægilegt í nokkra hesta.
Og ekki datt honum í hug að upplýsa að töltið væri laust og hann hreint ekki nískur á það í reið, heldur þeyttist um á harðastökki eða fljúgandi brokki. Hann gaf sér þó tíma til að stoppa og skoða sig í stóra spegilinum.
Sumir bara ráða ekki við sig þegar þeir sleppa að heiman en það eldist nú af flestum.................
Svona er hann nú yfirleitt þessi elska stilltur,góður og meðfærilegur við húsfreyjuna.
Hjúkk...........kúlurnar eru þarna ennþá þó svo ég hafi látið eins og flón en það var samt öruggara að athuga það sjálfur.
En það er svolítið skýrari mynd af honum inná Dalsmynnisblogginu.
Á næstunni koma nokkrar mannlífsmyndir frá sýningunni en þær heppnuðust sumar.
04.12.2009 21:51
Góð kennslusýning hjá Ísólfi Líndal.
Aðstoðarljósmyndarinn minn er heldur betur umsetinn þarna alveg að hverfa í hópinn.
Í gær var brunað suður í reiðhöll Hestamannafélagsins Andvara á kennslusýningu sem haldin var á vegum Félags tamningamanna. Það var reiðkennarinn Ísólfur Líndal sem uppfræddi mannskapinn af mikilli snild. Ísólfur kom víða við og kom fróðleik sínum vel til skila með einföldum útskýringum á ,,mannamáli,, og mynti oft þó nokkuð á frænda sinn 'Isólfsson. Hann kom einnig með athygglisverð hross með sér sem hann notaði til að útskýra og sýna búnað og vinnubrögð. Þessi hross gáfu það til kynna að þau ætluðu svo sannarlega að láta að sér kveða á keppnisvellinum síðar.
Takk fyrir fróðlega og skemmtilega sýningu.
Við í stjórn Félags tamningamanna erum himinlifandi með aðsóknina á þá viðburði sem við höfum boðið uppá að undanförnu, þar sem á annað þúsund manns hafa mætt. Þetta hvetur okkur til að leggja mettnað okkar í að bjóða uppá fleiri og fjölbreyttari viðburði á næstunni.
Endilega smellið á FT hér undir ,,tenglar,, á forsíðunni og kynnið ykkur hvað er framundan, margir nýir viðburðir væntanlegir og ný heimasíða opnar innan skamms.
Á morgun er kominn nýr dagur og þá er meiningin að skella sér á ungfolasýningu í Söðulsholt.
02.12.2009 21:23
Ferðaveðrið góða...........
Þetta er hún Rjóð litla Sunnu og Feykisdóttir að gæða sér á grænum stráum.
Þó svo að það sé víst afar hallærislegt að tala um veðrið þá ætla ég samt að gera það enda var rokið og bylurinn aðalmálið í Hlíðinni og víðar í dag. Það vildi svo til að húsfreyjan þurfti að mæta á fund hjá Umhverfis og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar í dag og veðrið ekki eins og best verður á kosið öskubylur. Húsfreyjan er orðin svo heilaþvegin af einhverju bulli um að alltaf sé versta veðrið í Hlíðinni eða að minsta kosti í gamla Kolbeinsstaðahreppi að hún rauk af stað sannfærð um að blíðan tæki á móti henni fyrir sunnan Hítará.
Ferðin byrjaði nokkuð vel með auðum vegi og engu útsýni en þegar lengra var komið varð á veginum myndarlegur skafl. Þar sem að húsfreyjan er innfædd fjallakelling lét hún bara vaða í skaflinn og gekk ferðin bara vel alveg þangað til hún fór að efast um að komast í gegn. Hik og efi eru ekki góðir ferðafélagar í ófærð síst þegar snjórinn er blautur og þungur.
Það endaði því með að húsfreyjan og sparibíllinn sátu föst á afleggjaranum og þurftu að kalla út heimavarnarliðið til að draga sig upp. Var svo haldið áfram í von um sól og blíðu á suðrænum slóðum. Enginn var skaflinn á leiðinni í Borgarnes en rokið brjálað, útsýnið afar lítið og vegurinn......ja ég sá hann voða sjaldan. Ég og eðalvagninn erum svo oft búin að fara þessa leið að við bara rötuðum og meira að segja komumst hjálparlaust heim. En ferðin sóttist seinnt tveir tímar í Borgarnes og einn og hálfur heim.
Og eitt mikilvægt það er ekki alltaf versta veðrið hér í fjöllunum.
Fundurinn ?????? Jú jú hann var ágætur allavega betri en veðrið.
Inngangurinn var ekki gestvænn í gær eins gott að þið vitið að það er hægt að fara bakdyramegin (hundsmegin).
01.12.2009 22:27
Úpps.....fyrsti des hvað?
Þau voru ánægð með rúlluna sína í dag þessi enda kalt og ónotalegt hér í Hlíðinni.
Það er alltaf þannig að þegar fyrsta alvöru frostið kemur þá fer maður að kvarta og skilur ekkert í því að þetta komi á óvart. Þó svo að gráðurnar hafi bara verið 6 þá var tilfinningin öruggleg nálægt 20 gráðum í dag.
Það var líka annað sem kom mér á óvart og það var dagatalið, fyrsti desember...............er það nú ekki einum of snemmt?
Jú það finnst mér, ég ætlaði að gera svo margt fyrir jól. Aðeins að skanna nánasta umhverfi (taka til) leika myndarlega húsmóðir (baka) slaka á, lesa hrútaskrána, Dalalíf og skoða stóðhesta í Worldfeng. Taka inn hross og byrja að ríða út 12 desember þá verður sko allt hreint og klárt í hesthúsinu og auðvitað búið að sortera allar kindurnar í fjárhúsunum fyrir fengitímann. Í dauða tímanum ætlaði ég svo að þvælast í kaupstað og heimsækja vini og vandamenn. Svo eru nokkrir fundir þarna í reiðuleysi..........sem ég smelli mér á.
Eitt smáatriði gleymdist ég ætla að njóta aðventunnar og taka það rólega svo ég eigi gleðileg jól hvað um ykkur?
- 1