Færslur: 2014 Nóvember
29.11.2014 23:15
Líf og fjör
|
||||||||||||||||||||||||||||||||
Svo að ég sé nú alveg heiðarleg og deili með ykkur alvöru laugardags stemmingu læt ég fylgja með mynd. Þið sem sagt getið fengið að sjá hvað er með húsfreyjunni í sófanum þetta kvöldið. Já já bara grand á því og les nú hrútaskránna eins og vera ber á þessu árstíma. Af sauðfjárbúskapnum hér eru helstu fréttirnar þær að fjárfjöldinn eru kominn yfir 720 vetrarfóðraðar. Rúmlega 160 lífgimbrar og 10 lambhrútar. Ennþá vonast ég samt eftir því að eitthvað fleira skili sér af fjalli. Verkefnalistinn í sauðfjárdeildinni er alltaf langur á haustin en nú fer hann að styttast. Það er búið að ríja, flokka, sprauta og ýmislegt fleira. Við ákváðum að gefa öllu fénu vítamínforðastauta til að stuðla að auknu heilbrigði, ekki eru heyin svo girnileg. Þetta verkefni var í orðsins fyllstu merkingu algjört staut. Fyrst var byrjað að reyna gefa þetta inn eins og ormalyf en það gekk ekki vel. Eftir æfingar á ca 200 kindum fundum við upp góða aðferð sem reyndist líka afar fljóttleg. Stundum er reynslan besti kennarinn. Á næstunni eru það svo vangavelltur um hrútaval og eins gott að það verði frá u.þ.b 10-15 des en þá er ætlunin að fjörið hefjist.
|
03.11.2014 22:38
Haustannir
Dimmaleira heimalingur er virðuleg kind og ánægð með E lömbin sín. |
Það hefur verið lítill tími til að sitja við skriftir síðustu vikurnar eins og þið hafið séð. Stúss með jafnt lífs sem liðið sauðfé, smalamennskur, eftirleitir, slátrun og margt fleira. Það var góð tilfinning að setjast niður í gærkveldi og vita að slátursamstrið þetta haustið væri frá. Lifrapylsa, blóðmör, svið, gúllas, hakk, file, lundir, hangikjöt og allt hitt........klárt þetta árið. Við fengum góða hjálp og var aðstoðafólkið á fjölbreyttum aldri sem sagt 4 ára og uppúr. Að öllum ólöstuðum voru frænkur mínar Daniella og Emilía skemmtilegustu hjálparhellurnar. Daniella var í bleikum ,,prinsessu,, skóm með háum hælum (sérlega henntugir í sláturgerð). Hún saumaði vambir af miklum móð og afrekaði 10 stykki. Emilía hafði enga þolinmæði en svona uppá félagsskapinn kom hún reglulega og klappaði vömbunum rétt til að fá ,,góðu,, lyktina af höndunum. Hún sá aftur á móti um að svara í símann og það var svo sannarlega gert með stæl. Ég heyrði ávæning af einu símtalinu......... ,,amma er í kjallaranum að hræra blóð, það er úr einhverjum dánum..... Sigrún og Daniella eru að sauma bumbur af dauðum kindum...........og ég er rosalega svöng. Dömurnar voru mjög duglegar að smakka ýmislegt sem telst framandi fyrir fólk með nýja kennitölu. Blóðpönnukökur, slátur, steikta lifur, grjónagraut með rófum svo að eitthvað sé nefnt. Svona sveitamatur fyrir fullorðna eins og Daniella kallar það. Það var svo á sunnudaginn sem boðið var uppá ,,fallega,, lita ilmandi berjasúpu. Já það var einmitt þá sem ungfrú Emilíu var ofboðið allavega svona í augnablik. Góður sessunautur jós súpu á disk og gafa dömunni sem hrærði lengi og starði þögul ofaní diskinn. ............... Eftir smá stund tautaði hún við sjálfan sig í hálfum hljóðum ,,amma var að hræra blóð í gær,, Það er ekki grín að kynnast lifnaðaháttum og matarvennjum þeirra fullorðnu.......... Lífgimbrar og hrútar eru löngu komin á gjöf og framundan er að taka hitt féð á hús. Það þýðir að rúningur er á næsta leiti. Veðurspáin segir að morgundagurinn sé upplagður til að taka veturgamlar kindur inn, vonandi græðum við rúningsmann í verkið sem fyrst. Margt hefur verið í gangi annað en sauðfé og slátur þó svo það hafið tekið mikinn tíma. Menningunni hefur líka verið gert hátt undir höfði af okkar hálfu. Hæst ber frumsýning í Þjóðleikhúsinu, eitthundrað og fjögurtíu ára afmæli Bíldhólshjóna og nokkrar aðrar veislur. Alltaf gaman að skemmta sér með góðu fólki. Símon minn undan Arioni frá Eystra-Fróðholti og Karúnu kom heim í dag. Hann hefur verið í sumardvöl á Kistufelli síðan í júní. Kappinn leit vel út og húsfreyjan kát með að fá hann heim í Hlíðina. Mummi fór til Svíþjóðar og Danmerkur fyrir helgina þar sem hann var með reiðnámskeið. Búið að vera líflegir tímar í reiðkennslu hjá honum og mikið framundan í því. |
- 1