Færslur: 2022 Maí

03.05.2022 12:39

 

Sigrún Ólafsdóttir bóndi og tamningamaður skipar 5. sætið á lista Framsóknar í Borgarbyggð.

Sigrún er 57 ára og býr í Hallkelsstaðahlíð þar sem fjölskyldan rekur sauðfjárbú, hrossarækt og víðtæka þjónustu við hestamenn. Auk þess hefur verið byggð upp ferðaþjónusta á síðustu árum sem fer ört stækkandi. Hún er fædd í Reykjavík en bjó allan sinn uppvöxt í Hallkelsstaðahlíð, gift Skúla Lárusi Skúlasyni bónda, trésmíðameistara og tamningamanni. Búið reka þau í samvinnu við son sinn Guðmund Margeir, reiðkennara og tamningamann og Brá Atladóttur, bú og hjúkrunarfræðing. En þau búa einnig í Hallkelsstaðahlíð með tveggja ára syni sínum.

Sigrún bjó 12 ár í Borgarnesi þar sem að hún starfaði fyrst á Hótel Borgarnesi og lengst af í Sparisjóði Mýrasýslu. Sigrún hefur verið virk frá unga aldri í ýmiskonar félagsmálum. Var oddviti sveitastjórnar í Kolbeinsstaðahreppi í átta ár, varaþingmaður Framsóknarflokksins og varamaður í hreppsnefnd Borgarness um árabil. Hefur auk þess setið í fjölmörgum nefndum á vegum sveitarfélaga og ráðuneyta. Nú síðast setið í Umhverfis og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar, Fjallskilanefnd Kolbeinsstaðahrepps og á sæti í stjórn Brákarhlíðar.

Sigrún hefur lagt sitt af mörkum í félagsmálum hestamanna. Formaður Félags tamningamann, formaður hestamannafélagsins Snæfellings, sat um árabil í stjórn Landssambands hestamanna lengst af sem gjaldkeri átti einnig sæti í Fagráði um nokkurt skeið. Hún hefur verið virkur dómari í gæðinga og íþróttakeppni í rúmlega 30 ár. Einnig kannast margir við rödd hennar enda verið þulur á fjölmörgum keppnum og viðburðum í hestamennsku.

„Ég er þakklát fyrir það traust að fá að skipa 5 sæti lista framsóknarmann hér í Borgarbyggð. Þar fer fjölbreyttur og öflugur hópur fólks sem tilbúið er að leggja sitt af mörkum til að bæta okkar góða sveitafélag og sækja fram á öllum sviðum.

Tækifæri til uppbyggingar, framþróunar og vaxtar eru á hverju horni í sveitarfélaginu. Saman þurfum við að nýta þessi tækifæri.

Við þurfum að standa vörð um mikilvæga innviði sveitarfélagsins sérstaklega þegar farið veður í uppbyggingu sem vonandi leiðir til fjölgunar íbúa.

Við þurfum að tryggja að velferðarþjónusta verði sem best um allt sveitarfélagið.

Við þurfum að tryggja að öll skólastig verði í fremstu röð á landsvísu.

Við þurfum að tryggja að samgöngur, fjarskipti og orkumál í sveitafélaginu verði a.m.k. viðunandi.

Við þurfum að tryggja sem best rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki í sveitafélaginu.

Við þurfum að tryggja að landbúnaður verði áfram einn að burðarásum samfélagsins.“

 
 
  • 1